Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Amazfit T-Rex snjallúr

Amazfit T-Rex snjallúr

eftir Jón Ólafsson

Við hér á Lappari.com höfum áður fjallað um snjallúr og önnur klæðanleg snjalltæki. Það hefur einhvern vegin atvikast svo að undirritaður taki þessa umfjöllun yfirleitt að sér. Líklega er það vegna þess að mín verður að öllum líkindum minnst sem kyrrsetumanns og því allt gott sem fær mig til að hreyfa mig.

Ég er kannski með frekar mikla tækjadellu og hef gaman af því að kaupa mér allskonar græjur til að prófa. Með tímanum hef ég safnað að mér fullri skúffu af allskonar snjalltækjum sem ég flakka á milli, allt frábær tæki á sinn hátt en því miður notuð misjafnlega lítið.

Ég notaði því tækifærið þegar það gafst og fékk lánað Amazfit T-Rex snjallúr frá Tölvutek, ég játa það fúslega að fyrirfram hafði ég ekki miklar væntingar. Kannski aðallega því ég þekkti ekki merkið og nafnið fannst mér ekki vera að gefa vörunni trúverðugleika.

Á pappírum lítur Amazfit T-Rex þó mjög vel út og því áhugavert að sjá hvernig það er í notkun og hvernig mér líkar við það.. Kem ég til með að nota það eða endar það í skúffunni góðu?

Þetta kemur í pakkanum
Amazfit T-Rex snjallúr.
USB hleðslusökkull sem festist með segli við úrið.
Leiðarvísir.

Uppsetning
Á kassanum og í leiðarvísi er vísað í snjallsíma app frá Amazfit Það var nýlega endurútgefið undir nafninu Zepp en hét áður einfaldlega Amazfit. Það kemur þó rétt app þegar leitað er að Amazfit í app store og ættu því notendur ekki að ruglast við þetta.

Uppsetning á Amazfit T-Rex er mjög einföld en notandi einfaldlega skannar kóða sem kemur á úrinu með snjallsíma. Þá sækir úrið nýjustu hugbúnaðaruppfærslu sem í boði er fyrir úrið og á meðan skráir notandi inn helstu stærðir svo sem hæð, aldur, þyngd og fyrri störf….. eftir þetta var úrið tilbúið til notkunar.

Helstu upplýsingar
Þyngd 58g (með ól)
20 daga rafhlaða // rúmlega 60 dagar ef bara í klukkuham.
Vatnshelt
Svefnmælir
Mælir vegalengd
Skrefamælir
Áætlar brenndar Kaloríur
Hjartsláttarmælir (Optical)
Hröðunarmælir
Snjall tilkynningar og t.d. hægt að hafna símtölum beint í úri
Activity tracker
SMS skilaboð

Dagleg notkun og hleðsla
Ég notaði Amazfit T-Rex í rúmlega tvær vikur og er mjög ánægður með tækið. Bestu meðmælin eru að ég þurfti ekki að hlaða tækið þessar tvær vikur. Vitanlega hlóð ég það þegar ég fékk það í hendurnar en ekkert eftir það þrátt fyrir mikla notkun og mikið fikt.

Eins og fyrr segir þá er ég ekki frá því að úrið hvetji mig til að hreyfa mig meira en ég gerði áður. Ég setti mér markmið um skrefafjölda á dag og hætti ég ekki fyrr en ég var verðlaunaður fyrir að markmiðinu hafi verið náð. Það er hægt að leika sér með þessi markmið fram og til baka hvort sem það er skrefafjöldi eða kaloríu fjöldi sem ég vil brenna og ættu allir að geta sett sér raunhæf markmið.

Amazfit T-Rex er mjög létt á hendi, það létt að ég hreinlega gleymdi sem dögum skipti að ég væri með snjallúr á mér, en þannig vil ég að lífstílstæki virki.

Samstilling
Amazfit T-Rex er alltaf tengt við snjallsímann og samstillir því gögn jafnóðum við appið í símanum. Þetta er eðlilega nauðsynlegt til að fá tilkynningar og annað í úrið.

Appið er til fyrir Android og iOS og virkar svipað á báðum.

Svefnviðmót
Þetta er virkni sem ég hef ávallt mikinn áhuga á. Ég er tölvukall sem er á vaktinni 24/7 og get því liðið fyrir óreglulegan svefn.

Amazfit fylgist með hvenær ég fer að sofa og hvenær ég vakna og hver gæði svefnsins eru. Þar sem ég var með púlsmælingu ávallt virka þá var tölfræðin nokkuð ítarleg og góð.

Ég prófaði að gera tilraunir með kaffidrykkju á kvöldin en ég hef alltaf haldið því fram að ég sofi hvort sem að ég drekki kaffi rétt fyrir svefninni eða ekki. Ég sofna ávallt strax en sem áður sannar Amazfit T-Rex fyrir mér að gæði svefnsins eru ekki jafnmikil ef drukkið er kaffi eftir kvöldmat…. því miður.

Niðurstaða
Amazfit T-Rex verður ekkert þjálla nafn með meiri notkun, það er kannski stærsti gallinn sem ég hef að kvarta yfir. Fyrir utan það þá kann ég vel við þessa græju og get mælt með henni.

Miðað við snjallúr með sambærilegum kostum er það nokkuð ódýrt. Úrið er einfalt, sterkbyggt, með góðri rafhlöðuendingu og fullt af skynjurum sem fylgjast með notenda í rauntíma. Amazfit T-Rex samstillist við gott snjallsíma app þar sem notandinn getur stillt úrið eftir sínu höfði. Þar er einnig góður og einfaldur aðgangur að upplýsingum um t.d. gæði svefns, hreyfingar o.s.frv.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira