Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Unifi Protect myndavélakerfi

Unifi Protect myndavélakerfi

eftir Jón Ólafsson

Ég misnotaði aðstöðu mína lítillega og fékk lánaðar UniFi myndavélar frá Netkerfum fyrir skemmstu í smá prófanir.

Það vita flestir sem fylgjast með hér á Lappara að ég hef miklar mætur á UniFi netbúnaði eins og sjá má hér og hér. Ég er með UniFi heima hjá mér og hef margoft sett upp lausnir frá þeim hjá mínum viðskiptavinum undanfarin ár. Það lá því beint við að prófa myndavélarnar næst enda hefur mikið verið fjallað um innbrot og jafnvel skemmdarverk á eignum einstaklinga og fyrirtækja í fréttum síðustu mánuði.

Ég hef verið Nest megin í lífinu heima hjá mér ef svo má segja, er með Nest öryggiskerfi, reykskynjara, dyrabjöllu, læsingar og myndavélar. Þetta hefur allt saman virkað vel en það hefur samt aðeins pirrað mig að það þarf að borga Nest árgjald fyrir Nest Aware ef maður vill fá videosögu aftur í tímann. Mér finnst nauðsynlegt að hafa þessa videosögu ef eitthvað kemur uppá, maður vill þá getað flakkað aftur, skoða myndbandið og vista.

Þegar þetta er skrifað þá kostar þetta að hafa Nest Aware.

Nest Aware verð (27.10.2019)

Kannski nóg komið af Nest í þessari UniFi færslu en fyrir tvær myndavélar þarf ég að borga $450 á ári fyrir 30 daga upptöku…. sem er slatti

Ég hafði því ákveðið að leggja Nest myndavélunum vegna þessa og fékk lánaðan eftirfarandi búnað:

  • UniFi Cloud Key Gen 2 Plus með 2TB geymsluplássi
  • UniFi G3 Bullet myndavél – 1080p, 3.6mm f/1.8 linsu, 30 FPS og veðurvarin
  • UniFi G3 Flex myndavél – 1080, 4mm f/2.0 linsu, 25 FPS og veðurvarin

Í mínu tilfelli var ekki mikið mál að setja upp nýjan Cloud Key þar sem ég var með eldri fyrir, ég tók nýtt afrit, slökkti síðan á gamla og setti afritið á nýja Cloud Key. Þessi nýi Cloud Key kom því í stað þess gamla og sem áður gat ég í gegnum vefviðmót eða með appi stýrt netinu mínu og högun eins og ég vildi.
Þegar nýi Cloud Key var kominn í gang var mjög einfalt að bæta myndavélunum við en ég sótti mér UniFi Protect appið og gerði það í gegnum síma.

Ég get eins og áður notað UniFi notandann minn og nálgast UniFi stillingar og myndavélar hvar sem ég er í heiminum án aukakostnaðar. Þetta gildir hvort sem ég nota vafra, UniFi appið eða Protect (myndavéla) appið.

Ef ég opna Cloud Key í vafra á heimanetinu með því að stimpla inn IP tölu á Cloud Key, þá kemur þessi mynd upp.

Ef smellt er á “UniFi Network” þá opnast upp sama viðmót og ég þekki svo vel og þið getið séð í UniFi samantektinni minni hér. Ef smellt er á “Manage Cloud Key” þá er hægt að sjá stöðuna á Cloud Key, geymsluplássi, minni örgjörva o.s.frv.

Helsta viðbótin með uppfærslu á Cloud Key er þó “UniFi Protect” sem er einmitt myndavéla umsjónarkerfið. Það kerfi skiptist í 5 hluta eða yfirlit yfir myndavélar, lifandi streymi myndavéla, viðburði (hreyfingar sem myndavélar nema), Timelapse (hikmyndir) og síðan notendur.

Hér má sjá yfirlit yfir þær myndavélar sem ég er að nota.

Hér má sjá lifandi streymi frá báðum myndavélunum en hægt er að sníða þetta allt frá einni vél í einu og uppí 26 myndavélar í einu.

Hér má sjá þá viðburði (Event) sem myndavélarnar hafa látið vita af síðan 07:29 í morgun þegar ég fór af stað. Þessa viðburði er hægt að fá sem tilkynningu í Protect appinu sem er mjög handhægt þar sem síminn er aldrei langt frá.

Síðast en ekki síst er Timelapse en þar er hægt að vinna með upptökur úr vélunum, klippa til, búa til hikmyndir og vista niður á tölvu eða síma.

Ef ég leyfi mér að líkja saman Nest og UniFi Protect þá er kannski ekki mikill munur á myndgæðum, virkni tilkynninga eða viðmóti forrita. Fyrir venjulega leikmenn er líklega kostur að Nest vélar eru þráðlausar (þurfa bara straum) meðan UniFi Protect eru tengdar með netsnúru (PoE – straumur yfir netsnúru). Mig grunar sterklega að UniFi Cloud Key og Protect myndavélar séu örlítið dýrari í innkaupum, en ef horft er eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár fram í tímann þá fer þessi munur líklega minnkandi. Það er kannski galið af mér að bera Protect saman við Nest þar sem Nest er ekki selt á Íslandi en svona er lífið bara.

Uppsetning á UniFi Protect var nokkuð einföld og létt að finna viðbótarstillingar sem ég vildi breyta. Kerfið er mjög skalanlegt og því létt að bæta við myndavélum.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira