Heim Föstudagsviðtalið Kjartan Jóhannes Hauksson

Kjartan Jóhannes Hauksson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 184 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Samkvæmt Snemma er alltaf gott að byrja viðtöl á Taylor Swift. 🙂

Hver er þessi Snemmi og hvaðan er karlinn?

Samkvæmt þjóðskrá heiti ég Kjartan Jóhannes Hauksson. 32 ára Húsvíkingur sem hef búið meirihluta ævi minnar þar. Hafði svo smá viðveru í Reykjavík áður en ég flutti til Akureyrar þar sem ég hef haft lögheimili síðustu fjögur ár.

Af hverju ertu kallaður Snemmi?

Þegar ég var ungur og að uppgötva djammlífið átti ég það til að verða þreyttur mjög fljótlega eftir miðnætti og oftast fór ég bara heim að sofa í staðinn fyrir að pína mig að hanga niðr’í bæ. Þá fóru vinir mínir að kalla mig Snemma og það bara festist við mig. Síðar komst ég að því að Snemmi var alltaf laust ef mig vantaði email eða notandanafn á samfélagsmiðlum.

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn á Olís á Akureyri og hjá Póstinum í hjáverkum. Áður en ég byrjaði hjá Olís vann ég á N1. Búinn að vera í bensínstöðvarbransanum í að verða 10 ár.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ef það er vinnudagur vakna ég um klukkan 10 og vinn svo frá 11-23 og geri lítið annað þann daginn. Frídagar fara mest megnis í að horfa á þætti á Netflix, hlusta á Spotify og spila tölvuleiki.

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Er þessa dagana að vinna í geðheilsunni minni og er að reyna að koma mér úr gömlu rútínunni sem lét mér aldrei líða neitt sérstaklega vel. Er nýbúinn að skrá mig í stjórnmálaflokk og er að fara á málefnaþing um helgina. Er svo að fara á Dale Carnegie námskeið í Apríl og svo verður hápunktur ársins í júní þegar ég fer bæði á tónleika með Írafár í Hörpu og á Taylor Swift á Wembley.

Hvert er draumastarfið?

Hef frá því að ég man eftir mér verið heillaður af Alþingi. Kitlar smá að reyna að komast á þing. Held samt að ég myndi ekki vilja gera það af ævistarfi bara 1-2 kjörtímabil max og reyna að láta eitthvað gott af mér leiða.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Veit svo sem ekki hvað er það merkilegasta sem hefur gerst en það mikilvægasta var byrja að fara til sálfræðings á síðasta ári. Það hjálpaði mér mikið og ég hef aldrei verið á betri stað í lífinu.

Lífsmottó?

“Þetta reddast” gerir það nefnilega merkilega oft.

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Kann strikamerkið á kókómjólk utan af.

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Kjörið tækifæri til að þykjast vera góð manneskja og segja að þetta færi allt í góðgerðarmál. En ætli ég myndi ekki kaupa mér hús og bíl og fara svo í heimsreisu og vera orðinn gjaldþrota eftir 2-3 ár.

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Birgitta Haukdal, Innvortis, Skálmöld, Ljótu Hálfvitanir og Greifarnir.

Býr tæknipúki í þér?

Já hann leynist í mér. Flest allt tæknidót heillar mig. Ef ég ætti pening væri ég búinn að snjallvæða heimilið mitt og væri með allt raddstýrt. Það bíður betri tíma.

Apple eða Windows?

Windows

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Nota enga tölvu í vinnunni en heima nota ég Hp fartölvu.

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung Galaxy s8

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti kosturinn er að rafhlaðan endist allan daginn (enn sem komið er). Stærsti gallinn er að ég get ekki spilað Football manager í honum. Sem skrifast reyndar ekkert á símann og er örugglega meiri kostur en galli.

Í hvað notar þú símann mest?

Nota símann lang mest í að vera á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum. Annars nota ég hann líka mikið til að googla muninn á lárétt og lóðrétt. Get aldrei munað hvort er hvað.

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var handónýtur Sagem sími. Stærsti kosturinn við hann var að það var minigolf leikur í honum.

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Get ekki svarað því. Fyrir nokkrum árum hélt ég að ég myndi alltaf eiga Nokia síma en þetta er fljótt að breytast.

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Fylgist ekki með neinum tæknisíðum þannig lagað en notast við youtube myndbönd þegar ég er að skoða hvernig áhugaverð tæki virka og skoða heimasíðu hjá fyrirtækjunum sem gefa þau út.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Bara takk fyrir kaffið og takk fyrir að lesa þetta.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira