Heim LappariTV The Last Jedi – örumfjöllun

The Last Jedi – örumfjöllun

eftir Magnús Viðar Skúlason

Það er víst orðinn órjúfanlegur partur af jólahefðinni að fylgjast með umfjöllun Lappari.com um nýjustu Star Wars-myndirnar sem hafa verið að koma út nokkuð reglulega undanfarin ár á þessum árstíma. Áður en lengra er haldið þá skal minnt á að það má vera að undirritaður missi sig aðeins í umfjölluninni og segi frá einhverju leyndói sem gerist í myndinni þannig að ef þú vilt fara ‘spoiler-free’ á myndina þá skaltu endilega láta lestri staðar numið, hér og nú!

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að í síðustu viku var Star Wars, Episode 8: The Last Jedi frumsýnd. Ljóst er á allri umfjöllun um myndina að hún hefur slegið rækilega í gegn og því var eftirvæntingin hjá undirrituðum umtalsverð við að komast sem fyrst í bíó til þess að sjá herlegheitin.

Gæsahúðin sem umlykur mann bara við það eitt að sjá Star Wars-lógóið básúnað í 7.1 hljómgæðum á mann er hægt og bítandi að síga af manni. Eins og við var að búast þá eru línurnar lagðar strax í upphafi þegar gulur textinn kemur skríðandi upp skjáinn og hasarinn hefst um leið.

Án þess að leggjast í of miklar bollaleggingar um hvað nákvæmlega gerist í þessari mynd þá má þó nefna að The Last Jedi hefst svo gott sem nokkrum augnablikum eftir að The Force Awakens endar. Það sem meira er, The Last Jedi gerist einungis á rétt rúmum sólarhring þannig að ekki gefst mikill tími í að kafa djúpt ofan í baksögur þeirra sem kynntir voru til leiks í The Force Awakens né gefur The Last Jedi mikið færi á að gefa nýjum persónum mikið vægi né fáum við að vita mikið um hver þeirra bakgrunnur er. Vegna þessa þá gefur Rian Johnson, leikstjóri og handritshöfundur The Last Jedi, sér ákveðið leyfi með að spila með ákveðnar persónur innan þessa forms og niðurstaðan er mögnuð.

The Last Jedi er svo sannarlega Star Wars-mynd með stóru S-i og stóru W-i, hér er ekkert gefið eftir þegar það kemur að geimstríði, geimskutlum, geislasverðum og gamalkunnum persónum sem allir þekkja. Það er sérstaklega gaman að sjá Mark Hamill snúa aftur almennilega í hlutverki Loga Geimgengils og einnig er það ljúfsárt að sjá Carrie Fisher í hlutverki Lilju prinsessu en eins og kunnugt er þá lést Fisher nokkrum dögum eftir tökum að á The Last Jedi lauk í fyrra.

Hamill á sannkallaðan leiksigur og gaman að sjá hinn unga sveitastrák hafa þróast yfir í hið grafalvarlega gamalmenni sem hann er en þó alltaf með þennan undirliggjandi þráð vonarinnar sem hefur knúið hann áfram síðan hann áttaði sig á því hversu öflugur hann var með Mættinum.

Daisy Ridley (Rey), Adam Driver (Kylo Ren / Ben Solo) og John Boydega (Finn / FN-2187) snúa öll aftur og segja má að samspil Rey og Kylo milli hinna dökku og ljósu hliða Máttarins komi einstaklega sterkt fram í myndinni og þetta samspil verður til þess að eitt flottasta geislasverðsatriði sögunnar á sér stað.

Líkt og með flest mannanna verk þá er The Last Jedi ekki gallalaus. Áður en myndin var frumsýnd var búið að tilkynna að þetta væri lengsta Star Wars-myndin til þessa, rétt rúmir tveir og hálfur tími að lengd. Margir höfðu vonast til þess að þessi lengd myndi tryggja meiri hasar og annað í þeim dúr en niðurstaðan er að þessi aukahálftími er í raun bara lengri atriði í raun og veru. Að auki hefði mátt klippa út úr myndinni ákveðna þætti í framvindu sögunnar sem gerðu hana aðeins of ótrúverðuga en það má því hinsvegar velta því fyrir sér hvað er ótrúverðugt þegar umfjöllunarefnið eru geimgaldramenn með geislasverð og fljúgandi geimskip með ýmsum kynjaverum. Sagan segir að á DVD / BluRay-útgáfunni af The Last Jedi muni verða yfir 20 mínútur af atriðum sem voru klippt út úr myndinni þannig að hæglega gæti maður velt því fyrir sér hvort sumt af því sem rataði í The Last Jedi hefði ekki bara betur verið geymt í Special Featues / Deleted Scenes-hlutanum á valmyndinni fyrir diskaútgáfuna.

Þessir þættir blikna þó í samanburði við þetta þrekvirki sem The Last Jedi er í þessum Star Wars-bálki. Lucasfilm hefur undirstrikað það nokkuð ötullega að eftir að The Force Awakens kom út að þessar trílógíur, sem verða orðnar þrjár á endanum, snúast um og fjalla um Skywalker-fjölskylduna. Það má því leiða líkur að því að til einhvers stórkostlegs uppgjörs muni koma í Episode 9, sem mun rata í kvikmyndahús árið 2019. The Last Jedi leggur grunninn að þessu uppgjöri og í ljósi þess þá verður ekki horft framhjá þeim grundvallarbreytingum sem eiga sér stað í söguframvindunni í þessari mynd þegar horft er á heildarpakkann. Ef til vill er það síðan ákveðin gæðastimpill sem Rian Johnson fær fyrir vinnu sína í kringum þessa mynd að Lucasfilm hefur nú þegar tilkynnt að Johnson muni fá það verkefna að leiða þá vinnu sem verður í kringum nýja trílógíu sem fer í gang þegar Episode 9 verður komin í sýningu. Lítið hefur verið gefið um efni þeirrar trílógíu en ljóst er að frægðarsól Johnson innan Star Wars-heimsins er rétt að byrja.

The Last Jedi er ein af þessum „ef þú ferð bara einu sinni á ári í bíó þá þarftu að sjá þessa í bíó“-mynd. Tæknibrellurnar, hljóðsetningin, tónlistin, kvikmyndatakan, þetta smellur allt saman í stórkostlega upplifun sem nýtur sín besta á hvíta tjaldinu.

Það er einstaklega ljúft af undirrituðum að gefa þessari mynd sex af sjö í einkunn og er það einlæg hvatning okkar hér að allir sem tök hafa á því skuli skella sér í bió við fyrsta hentugleika og sjá The Last Jedi. Star Wars-aðdáendur verða ekki sviknir og þeir sem fara tilneyddir að sjá þetta einungis af því að maki þeirra er forfallinn aðdáandi ættu að finna sér sitthvað skemmtilegt í myndinni því nóg er af bröndurum og einskeytlum til þess að kitla hláturtaugarnar.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira