Heim ÝmislegtAndroid Er þetta hið langþráða flaggskip frá Nokia?

Er þetta hið langþráða flaggskip frá Nokia?

eftir Magnús Viðar Skúlason

Eins og glöggir lesendur Lappari.com muna þá hefur verið fjallað um það á síðum þessa ágæta fréttamiðils að Nokia-vörumerkið er komið aftur á snjallsímamarkaðinn.

HMD, sem hefur fengið einkarétt á notkun vörumerkisins Nokia fyrir símaframleiðslu, kynnti formlega þrjá Nokia-snjallsíma á Mobile World Congress 2017; Nokia 3, Nokia 5 og Nokia 6 ásamt því að kynna hinn goðsagnakennda Nokia 3310 á nýjan leik í nýju formi og útliti.

Þó svo að margir hafi tekið tilkynningum um nýja Nokia-síma með miklum fögnuði (þar á meðal undirritaður) þá var samt eins og að það vantaði eitthvað bit í þessi símtæki enda áttu margir von á því að öflugt snjallsímamyndavélaskrímsli yrði kynnt við þetta tækifæri.

Nú í morgunsárið lak út myndskeið þar sem sést í fjögur snjalltæki merkt Nokia. Þó svo að ekkert sé staðfest í myndskeiðinu um hverskonar símtæki sé að ræða að þá vekur athygli að þetta eru fjögur snjalltæki og eitt þeirra er með dual-linsu á bakinu sem hefur ekki sést áður í Nokia-tæki.

 

Telja margir að hér sé á ferðinni hinn margumtalaði Nokia 8-snjallsími sem talið er að muni verða hið eiginlega nýja flaggskip Nokia og að það verði jafnvel kynnt formlega á næstu dögum og komi í sölu strax í næsta mánuði. Nafngiftin fer ágætlega saman við samkeppnina því nýverið kynnti Samsung nýjustu viðbótina við Galaxy-línuna sem nefnist Samsung Galaxy 8 og einnig er talið líklegt að Apple muni með haustinu kynna iPhone 8 og þar með hoppa yfir venjur sína sem hafa falist í því að kynna nýja númeraviðbót við iPhone-línuna og kynna árið eftir S-uppfærsluna á því númeri en eins og kunnugt er þá var Apple iPhone 7, án heyrnatólatengis, kynntur í fyrra.

Talið er líklegt að Nokia 8 muni verða með 5,7 tommu QHD-skjá (1440 x 2560 díla upplausn), keyra á nýja Snapdragon 660-örgjörvanum, bjóða upp á 64GB geymsluminni sem er stækkanlegt með microSD-minniskorti og vera með 24 megapixla Carl Zeiss-myndavél. Síminn mun síðan keyra á Android-stýrikerfinu, útgáfu 7 og vera með 4000 mAh-rafhlöðu.

Hér fyrir neðan er hið títtnefnda myndskeið og dæmi nú hver fyrir sig…

Nokia Reveal Film from George Chevalier Lewis on Vimeo.

Heimild: Evleaks og Gadget NDTV

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira