Dell XPS 13 (2016)

eftir Jón Ólafsson

Við hér á Lappari.com höfum verið með nýja fartölvu frá Dell í prófunum síðustu vikurnar en þetta er 2016 útgáfan af XPS 13 sem kynnt var fyrir skemmstu og er til sölu hjá Advania.

 

 

Við fjölluðum um 2015 útgáfuna á sínum tíma og þessi vél byggir á þeim frábæra grunni, nema með uppfærðum vélbúnaði og núna með nýjum lit eða Rose Gold.

Það sem vakti athygli okkar á 2015 vélinni og er eftirminnilegast var skjárinn, hann var einstakur að mörgu leiti. Dell kallar þessa skjái „Infinity Display“. Það þýðir að skjárinn nær svo til alveg út til hliðanna, en það eru aðeins 5mm frá skjá og út að brún.

 

Hér má sjá afpökkun á þessari vél.

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Fyrsta upplifun þegar ég tók hana úr kassanum var einfaldlega VÁ…. þetta er ein sú fallegasta Ultrabook vél sem ég hef handleikið og hef ég þó prófað nokkuð margar. Ég heillaðist strax mjög af  hönnuninni á þessari XPS vél og var þakklátur fyrir að Dell breyttu henni ekki mikið frá fyrri vélum. Þetta er greinilega premium vél og nokkuð augljóst að mikil vinna hefur farið í hönnunina á henni.

Vélin er frekar létt og þunn en á sama tíma virkar hún sterkleg og vel smíðuð. Þó svo að hún sé Rose Gold og vekji því eftirtekt þá er hönnunin látlaus og stílhrein með fullt af litlum krúsidúllum sem ég hef fallið fyrir í þessum prófunum mínum.

 

 

Vélin vakti ávallt athygli þar sem ég var með hana, fólk spáði mikið í litinn á henni og greinilegt að Rose Gold er málið ef notendur vilja athygli. Liturinn er aðeins út í kopar og því ekki eins áberandi og áður… og er það vel.

 

Helstu stærðir:

  • Breidd: 30.4 cm
  • Dýpt: 20 cm
  • Þykkt: 0.9-1.5 cm
  • Þyngd: frá 1.2 kg

 

Eins og sést þá eru XPS vélarnar uppgefnar frá 1.2 kg að þyngd sem er nú ekki mikið á flesta mælikvarða en mér fannst hún frekar þung þegar ég handlék hana fyrst. Kannski er það vegna þess að vélin sem ég nota að staðaldri er léttari, en samt stærri. Einhvern veginn finnst mér að svona lítil vél ætti að vera léttari. Þetta er kannski fyrst og fremst tilfinningin að þar sem vélin er lítil, þá reiknaði ég með henni léttari.

Það er hægt að velja á milli skjás með Full HD 1080p upplausn (án snertiskjás) ásamt því að Dell er með Quad HD+ snertiskjá, en við erum einmitt með þannig skjá á prufueintakinu okkar. Ef þú ert í vafa hvort þú átt að fá þér, þá mælum við með Quad HD+ skjánum, gríðarlega fallegur og einn sá besti sem þú færð á fartölvu í dag.

Dell XPS 13 (9360) vélin sem ég fékk er vel búin vélbúnaðarlega og töluvert öflugri en XPS 13 vélin síðan í fyrra. Hún er með Intel i7-7500U örgjörva (Kaby Lake) sem keyrir á allt að 3.1GHZ klukkuhraða en þessir örgjörvar eru mun öflugri en til dæmis Intel Core M örgjörvinn sem er boðið uppá í mörgum Ultrabókum (PC og Apple). Þær virka æði máttlausar við hliðina á þessari. Einnig er hægt að fá XPS13 með i3 og i5 örgjörvum.

Prufueintakið okkar er með 8 GB af vinnsluminni. Fyrir þennan pening hefði ég viljað hafa vélina með 16GB en þetta ætti að vera nóg fyrir langflesta. Hægt er að panta hana með 4, 8 eða 16GB. Vélin er með hraðvirkan 256GB M.2 SSD disk og því mjög spræk og skemmtileg í notkun.

Dell XPS 13 er með Intel HD 620 skjákorti sem dugði mjög vel í allt sem ég prófaði, vélin er með ágætis 720p vefmyndavél og skilar hún sínu verkefni ágætlega. Myndavélin hentar vel í allt þetta venjulega sem við notum þessar vélar í eins og Skype símtölin, en staðsetningin á henni er mjög furðuleg. Myndavélin er undir skjánum vinstra megin, rétt fyrir ofan lamirnar.

 

 

Ég veit að þessi staðsetning er líklega nauðsynleg til að halda köntum (bezel) eins þunnum og mögulegt er….  en ég get illa vanist þessari staðsetningu.

Hönnun á 2015 vélinni heillaði okkur mjög mikið og það eina sem ég get sett út á 2016 útgáfuna er kannski helst hvað lítið hefur breyst. Það er samt ekki endilega slæmt.

 

Tengimöguleikar

Dell XPS 13 með 3-1 kortalesara sem styður flestar gerðir minniskorta (SD, SDXC, SDHC) sem er þægilegt að hafa til að tæma af heimilismyndavélinni. Vélin er einnig með 2x USB 3 og eitt Thunderbolt 3 Type C tengi. XPS 13 er til viðbótar með 3.5mm tengi fyrir heyrnartól.

 

 

Dell XPS 13 er með sambyggðu Bluetooth 4.1 og góðu þráðlausu netkorti (Killer 1535 802.11ac) sem styður 2G og 5G bönd og flestar tíðnir á þeim.Mér fannst eftirtektarverk hversu gott loftnet virðist vera í vélinni en hún náði betri WiFi styrk en flestar vélar sem í kringum mig eru.

Vélin er ekki með 4G rauf fyrir SIM kort og því varla fyrir þá sem eru á miklu flakki.

 

 

Það er samt magnað að hafa öll þessi tengi á 13″ vél, sérstaklega ef þau eru borin saman við Macbook vélina sem hefur bara með eitt USB-C tengi og er töluvert heft vegna þess.

Dell býður uppá USB 3 tengikví sem er gott ef nota á XPS13 sem vinnuvél, einfalt aðgengi að öllum tengjum og hægt að tengja auka skjái o.s.frv. við hana.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Dell XPS 13 er eins og fyrr segir, þunn og meðfærileg og mætti leiða líkum af því að það sé á kostnað rafhlöðu, sérstaklega ef horft er á þennan bjarta og fallega QHD+ skjár. Þetta er samt ekki raunin þar sem Dell hafa náð að stækka rafhlöðuna frá því í fyrra en hún er núna 60 Wh rafhlöðu  og er gefin upp fyrir 11 tíma endingu.

Ég náði 7-9 klst léttilega við stanslausa notkun í vinnu með birtuskilyrði í 70%. Þarna var Spotify í gangi allan tímann, ég notaði vélina við venjulega vinnu og var ekkert að hlífa henni.

Þegar vélin er fullhlaðin, max power saving er á og birta neðarlega þá segir Windows 10 að rafhlaðan muni endast í 13-15 klst…  ég sé það alveg raunhæft með temmilegum sparnaðaraðgerðum.

 

Lyklaborðið hefur fengið misjöfn viðbrögð í þeim umfjöllunum sem ég hef skoðað. Lyklaborðið er vissulega í minna lagi enda vélin bara 13″ og mætti hreyfing á tökkum vera meiri ef þú spyrð mig, en hreyfing þeirra er aðeins um 1.3mm. Þetta er vitanlega bara mín skoðum og verður hver og einn að prófa til að mynda sér skoðun. Ég vil að takkar hreyfist meira þegar ég ýti á þá. #oldschool

Fjarri því að vera besta lyklaborðið sem ég hef prófað á fartölvu en samt ekki svo slæmt að ég gæti ekki vanist því.

 

 

Dell XPS 13 er með blöndu af Carbon Fiber og gúmmí sem umlykur lyklaborðið en það gerði notkun enn þægilegri, gott og mjúkt undirlag undir úlnlið (palmrest) er kostur ef skrifa á mikið.

Músaflöturinn (Mousepad) á þessari vél er mjög góður og finnst mér hann með þeim betri sem ég hef prófað á PC vél, þegar ég hafði vanist honum.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á þessari Dell XPS 13 vél er, eins og fyrr segir, frábær og líklega einn sá besti sem ég hef notað á fartölvu. Upplausnin á þessum 13.3″ QHD InfinityEdge snertiskjá er 3200 x 1800 og skjárinn styður 10 punkta snertivirkni eins og fyrr segir. Litir eru mjög skarpir, litadýpt með eindæmum góð og ekkert mál að nota vélina þótt hún snúi ekki beint að notanda. Sem sagt frábær skjár og með þeim betri sem ég hef notað þó ég hafi einu sinni séð svartan lit leka yfir í grátt þegar myndin var mjög dökk. Smáatriði og náði ég ekki að framkalla þetta aftur.

Það er samt sannarlega ekki allt frábært við að hafa svona mikla upplausn á svona litlum skjá því sum forrit (sérstaklega eldri) eru ekki gerð fyrir svona mikla upplausn, stafir og tákn verða mjög smá. Með því að fikta í skjástillingum (DPI) þá náði ég að gera flest forrit góð eða í það minnsta nothæf. Þetta er svokallað lúxusvandamál enda myndi ég ávallt velja meiri upplausn vs minni og stilla síðan bara DPI.

Skjálokið (lamir) er stíft og því skjár mjög stöðugur ef vélin er á hreyfingu. Þetta er mjög gott en kemur á sama tíma í veg fyrir að hægt sé að opna vélina með annari hendi.

Dell XPS er þrátt fyrir allt bara venjuleg PC tölva og því gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með öflugan örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að leysa flest margmiðlunarverkefni með stæl.

Dell XPS 13 er með Waves MaxxAudio Pro hljóðstýringu og þokkalegum hátölurum. Vélin er, eins og oft hefur komið fram, bara 13″ að stærð og því allir íhlutir minni fyrir vikið og hátalarar eru eitt af því sem hefur minnkað mikið… kannski of mikið því mér fannst þeir hljómlitlir og máttlausir. Duga vitanlega í eðlilegar tilkynningar frá forritum, Skype símtöl o.s.frv. en í tónlist voru þeir ekki að standa sig.

Flestir eru líklega með heyrnartól eða auka hátalara á skrifborðinu og þetta skiptir því litlu máli þar sem hljóðkortið í vélinni er gott og skilaði mér þeim hljómgæðum sem ég vænti frá vandaðri vél.

 

Margmiðlun

Þar sem Dell XPS 13 er mjög vel búin vélbúnaðarlega og með frábærum skjá þá ætti þetta að vera draumavél flestra þegar kemur að margmiðlun. Allavega fyrir þá sem vilja meðfærilega vél með frábærum skjá. Vélin er þó ekki með HDMI tengi en með Miracast stuðning er líklega vel hægt að lifa án þess eða fá sér breytistykki..

Dell XPS 13 með þeim helstu tengjum sem heimili, nemendur eða starfsmenn getur vantað til að tengja við hana jaðartæki. Það er hægt að tengja breytistykki (dongle) í Thunderbolt tengið og fá þannig USB 3.1, VGA, HDMI, hefðbundið nettengi og USB-A með því að kaupa breyti frá Dell.

 

 

Mjög einfalt, vélin gerði allt sem ég lagði fyrir hana og gerði hún það mjög vel.

Viftan í vélinni er mjög hljóðlát og heyrði ég svo til ekki í henni í venjulegri notkun. Bara rétt þegar ég var klippa eða vinna myndbönd sem allt fór á flug en að öllu jöfnu er vélin svo til alveg hljóðlaus.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Dell XPS 13 vélin sem við prófuðum kemur með Windows 10 PRO og því hægt að setja upp öll venjuleg Windows forrit ásamt snertivænum forritum sem eru aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Með innbyggðum forritum og Office 365 áskrift þá er þessi klár í flest öll verkefni hvort sem það er í vinnu, heima fyrir eða í skólanum.

Ég rakst á nokkra galla (bögga) hér og þar sem ég skrifa á skjákortsrekla (drivers) en vélin fraus eða hékk stundum óeðlilega mikið. Endurræsing lagaði þetta og reikna ég með að Dell muni laga þetta fljótt og vel með rekla- eða BIOS uppfærslu.

 

 

Þar sem vélin er með Pro útgáfu af Windows þá skráði ég hana á Domain og eins og venjulega prófaði ég vélina með Office 365, Chrome, Adobe Reader, Tweeten, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust enda vélin spræk og skemmtileg vél í alla staði.

Ég var ánægður með hversu lítið af auka hugbúnaði frá framleiðanda er á vélinni þegar hún kemur ný. Vitanlega var eitthvað en nokkuð létt var að fjarlægja það sem ég vildi ekki hafa.

Það er alltaf gaman að setja upp nýja Windows 10 vél því ég skrái mig bara inn með Microsoft notandanum mínum og eftir nokkrar mínúndur þá er tölvan eins og ég vil hafa hana. Tölvan sækir notandann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) og þannig fæ ég allar sérstillingar sem ég nota á öðrum vélum, bakgrunnsmynd o.s.frv.

 

Niðurstaða

Dell XPS 13 (9360)  er mjög falleg vél, skjárinn er í algerum sérflokki og allur frágangur á íhlutum og skel til fyrirmyndar. Vélin er gríðarlega öflug með nýjasta Intel örgjörvann, nóg af vinnsluminni og útskiptanlegum hraðvirkum SSD disk.

Það er mikill samkeppni á markaðnum í dag en Dell XPS 13 nær að haka í flest öll box sem ég hafði á mínu blaði…  ein besta PC vélin á markaðnum í dag ef þú ert að leita þér að vél með flottum vélbúnaði, frábærum skjá og mjög góðri rafhlöðuendingu.

Eins og með allar vélar þá er hún alls ekki gallalaus. Lyklaborðið hentaði mér ekki vel, bæði er það of lítið og takkar hreyfast of lítið til þess að ég geti skrifað lengi á það. Mér finnst líka vanta Windows Hello sem gerir notanda kleyft að skrá sig inn með fingrafaralesara eða myndavél. Þessir kostir eru hjá samkeppnisaðilum í vélum eins og Lenovo Yoga 910 og HP Spectre x360.

Ég nota ekki 13″ vél að staðaldri, finnst 14″ henta mér betur en þetta er engu að síður langbesta 13″ vélin sem ég hef prófað hingað til.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira