Heim Föstudagsviðtalið Árni Grétar

Árni Grétar

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 141 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver er þessi Árni Grétar og hvaðan er maðurinn eiginlega?

Árni Grétar er ég – og er skírður í höfuðið á ömmu minni Grétu Árnadóttir og langafa mínum Árna sem ég hitti aldrei (var leigubílstjóri – sem er bara fallegt). Ég ólst upp á Tálknafirði, en á ættir að rekja til Patreksfjarðar og þar á ég mitt land með fjölskyldu móður minnar. Mamma mín og pabbi létust fyrir löngu og ég á systkini sem eru hetjur. Allt saman fallegt og gott fólk. Sonur minn heitir Jóhannes og elska ég hann meira en lífið sjálft. Er tónlistarmaður.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem raftónlistarmaður og hef gert það í mörg ár. Það er helsta vinnan mín. Hef gefið út fjöldan allan af tónlist og tekið þátt í mörgum verkefnum. Spilað á mörgum stöðum, út um heim allan, og fengið að kynnast góðu fólki. Flestir þekkja mig sem Futuregrapher. Ég starfa einnig á leikskóla – það er aukavinnan mín. Vinn á leikskólanum Brákarborg. Þar er gott að vera. Raftónlist og leikurinn við börnin – það ku vera besta blandan.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég er að vinna að því að koma út safndisk frá plötuútgáfufyrirtækinu mínu Möller Records – en við erum að fagna útgáfu nr. 50 hjá okkur á næstu dögum. Þetta verður tvöfaldur geisladiskur sem mun innihalda bestu/skemmtilegustu lögin frá Möller. Með mér í þessu verkefni eru Frosti Jónsson, Stefán Ólafsson og listamenn á vegum veitunnar. Meira á Mollerrecords

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég byrja yfirleitt á því að vakna kl. 4 eða 5 og stend þá upp og hugleiði aðeins. Fæ mér oftast lummu. Hugleiði drauma næturinnar og spái í spilin. Svo legst ég aftur uppí og sef til svona 8 eða hálf 9 (gott að sofa). Þá vakna ég alveg og fæ mér kaffi – helst instant – og scrolla netið. Hlusta á tónlist (sveimtónlist eða hart techno) og kem mér í gírinn. Svo kíki ég í Lucky Records í kaffi og fer svo á leikskólann um 11, þar sem ég starfa til rúmlega 16.

Oftast þegar ég kem heim, þá legg ég mig aðeins. Eða byrja á því að hella uppá og þá sem ég tónlist. Ef að Listagyðjan vil leika, þá er ég að semja til svona 20 eða 21. Svo bara video og chill eða hitta fallegt fólk. Stundum er ég að semja tónlist allt kvöldið. Ég fór þó oftast í kvöldsund. Ef það er pabbavika, þá er ég með Jóa mínum allan daginn í ævintýrum og leikjum. Svo lesum við saman – og förum í kvöldsund. Þegar hann sofnar, þá sem ég tónlist.

 

Hvert er draumastarfið?

Raftónlistarmaður sem er með aukavinnu á leikskóla er draumastarfið mitt.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Þegar barnsmóðir mín kom með Jóhannes litla í heiminn. Falleg stund sem breytti lífi mínu.

 

Lífsmottó?

Að vera afgerandi afslappandi mannvera sem hefur jákvæð viðhorf.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Þó svo að ég geri tónlist sem dansar ekki við útvarpið eða almenning í landinu (almennt) – þá er ég samt rosalega mikill KISS aðdáandi sjálfur. Hef lesið ævisögurnar þeirra og á allar plöturnar. Kann lögin. Elska Paul Stanley. Elska Ace Frehley. Elska Peter Criss. Þykir vænt um Gene Simmons. Svo allir hinir í KISS fjölskyldunni. Yndislegt.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Borga skuldir hjá fjölskyldu, vinum og ættingjum og gefa Jóa hús sem hann getur búið í þegar hann verður stór. Kaupi TR-808, TR-909 og tvo TB-303 handa mér.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Sem kenna sig við Tálknafjörð? og Patreksfjörð? Veit það ekki.

Fyrir utan vini mína sem semja oft raftónlist. Þeir eru góðir. Má kannski nefna hljómsveitina Ylja. Svo hef ég nú verið búsettur í Reykjavík síðan 2006, þannig að þar get ég bara nefnt t.d. Sindri7000, Daveeth, Gunnar Jónsson Collider og Xylic.

 

Býr tæknipúki í þér?

Já – ég elska nýjustu tækni og vísindi. Er mikið að notast við græjur þegar ég smíða tónlist – og nota líka mikið af hugbúnaði í tónlistarsköpuninni.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X El Capitan 10.11.6

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég tek mikið af myndum og nota oft símann við að taka upp hljóð. Veit ekki um neina galla. Finnst þetta bara kósí eins og þetta er.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Camera
  2. Voice Memos
  3. Twitter
  4. Gmail
  5. Facebook

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3310 árið 1999.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Framtíðin er núna.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Helst bara eitthvað tengt tónlist. Ég les blöð mikið – tímarit eins og Computer Music og Future Music. Finnst gaman að nördast og lesa um græjur. Annars flest bara tónlistartengt. Margar síður sem koma og fara. Hef oft kíkt á ykkar síðu – enda vel plögguð með þessum föstudagsviðtölum (sem eru góð).

Síður:
Propellerheads
Mollerrecords
Peff

Svo er ég mikið inn á facebook grúppum sem eru að selja græjur og hljóðfæri. Ég fylgist mikið með nýrri tækni sem er notuð við tónsmíðar.

Macland – bæði á twitter og facebook – segja mér svo alltaf hvað er að frétta úr OS heiminum. Ást á pabba Macland.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Engar áhyggjur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira