Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Apple Macbook (2015)

Apple Macbook (2015)

eftir Jón Ólafsson

Hélt að ég mundi aldrei skrifa þetta en við hér á Lappari.com höfum verið með Apple Macbook vél frá Macland í prófunum síðustu vikurnar og því komin tími á að setja eitthvað á blað um vélina. Macbook kemur með OSX Yosemite en hægt er að uppfæra hana í nýjasta OSX stýrikerfið sem heitir því skemmtilega nafni El Capitan.

Ég hef alla tíð haft aðgengi að Apple og Windows vélum bæði í vinnu og heima og er því nokkuð vanur þeim báðum. Það vita það samt flestir sem þekkja mig að það sé samt með sanni hægt að segja að ég sé samt Windows meginn í lífinu og verður því áhugavert að verja einhverjum tíma með Apple vél sem aðalvél.

 

Eins og venja er þá byrjum við vitanlega á afpökkunarmyndbandi sem birtist fyrir tveimur vikum.

 

 

Hönnun og vélbúnaður.

Útlitslega má með sanni segja að Macbook er án efa fallegasta fartölva sem ég hef handleikið… punktur.

Vélin er sterkbyggð, massíf og frágangur á öllum samskeytum, val á efni o.s.frv. er mjög vandað að öllu leiti. Botn og toplok á vélinni er úr einu heilu álstykki og eins og fyrr segir er frágangur á öllu til fyrirmyndar.

Vélin er með 12″ Retina (IPS LED) skjá sem styður 2304 x 1440 (16:10 aspect radio) punkta upplausn við 226 ppi (picel per inch). Vélin er með innbyggðu Intel HD 5300 skjákorti og ræður við að keyra skjáinn á fartölvunni í fullri upplausn ásamt því að vera með auka skjá í 3840 x 2160 upplausn

Helstu stærðir í CM:

  • Breidd: 28.05
  • Dýpt: 19.65
  • Þykkt: 1.31
  • Þyngt: 0.92kg

Vélin flokkast auðveldlega sem Ultra portable enda er hún bara 12″ stór og mjög létt eða tæpt kíló eins og sést hér að ofan. Apple hefur lagt gríðarlega mikið í hönnun á vélinni en ég bar hana töluvert saman við Macbook Air vél sem ég hafði til samanburðar og finnst mér Macbook vera eins og MBA vél sem ákvað að taka næsta skref og verða fullorðnast aðeins. Músin er mun betri, allar línur virðast vera úthugsaðar, öll samskeyti gríðarlega vönduð, efnið í vélinni vandað, vélin gríðarlega létt og öll hin glæsilegasta.

 

macbook2015_1

 

Þessi endurhönnun er ekki gallalaus því vélin er í dýrari kanntinum og þurfti Apple að gera töluverðar málamiðlanir þegar kemur að vélbúnaði til þess að halda vélinni svona þunnri og léttri.

 

Vélin er stórglæsileg en langt frá því að vera gallalaus.

Vélin sem ég prófaði er með 512GB PCIe-flash SSD harðdisk og kom hann mjög vel út í mínum prófunum. Vélin er með 8GB DDR3 vinnsluminni og tvíkjarna Intel Core M örgjörva sem keyrir á 1.2GHz (2.6GHZ með Turbo Boost) en hann er með 4MB Cache.

Það verður seint sagt að þessi örgjörvi sé eitthvað sérstaklega hraður, Core M línan frá Intel sem finna má í fjölmörgum UltraBook vélum er hönnuð með rafhlöðuendingu að leiðarljósi frekar en afköst. Sem dæmi þá var ég u.þ.b. helmingi lengur að ræsa þessa vél allaleið á desktop samanborið við 18 mánaða Lenovo X1 Carbon (i7 með 8GB og SSD) og er það fyrst og fremst Core M örgjörvinn sem veldur því en kosturinn er að vélin er viftulaus vegna þessa og því alveg hljóðlaus.

 

macbook2015_2

 

Þegar vélin var búin að ræsa stýrikerfið þá var hún létt og skemmtileg í vinnslu. Flest forrit sem ég prófaði virkuðu nær hnökralaust og var almenn upplifun á stýrikerfinu og notkun mjög jákvæð og góð.

Macbook er með ágætis myndavél fyrir ofan skjáinn sem dugar ágætlega í myndsamtöl með Facetime eða Skype. Myndavélin er reyndar bara 480p en sinnir sínu hlutverki ágætlega og veitir ágætis mynd í myndsamtölum við góð birtuskilyrði, ef lítil birta er þá er hún reyndar svo til ónothæf.

 

Tengimöguleikar

Macbook er með 2 tengjum, annað er 3.5 mm tengi fyrir heyrnartól og hitt er USB-C tengi sem er notað til að hlaða vélina eða til að tengja við USB-C tæki (í framtíðinni). Það er hægt að kaupa aukalega breytistykki til að nota þetta USB-C tengi með venjulegum jaðarbúnaði en hann kostar töluvert.

 

macbook2015_5

 

Sem dæmi má nefna:

  • USB-C í GB netkort: 4.990
  • USB-C í USB tengi: 4.990
  • USB-C í HDMI tengi: 7.990
  • USB-C í multiport með HDMI: 16.900
  • USB-C í multiport með VGA: 17.900

**Verð af Macland.is 23.11.2015

 

Þó svo að Multiport tengin séu nú frekar dýr þá mundi ég líklega splæsa í það ef ég ætti svona vél. Með því gæti ég tengt við USB minnislykil eða flakkara o.s.frv, VGA (eða HDMI) skjá eða myndvarpa ásamt því að það er USB-C hleðslutengi líka.

Það er sem sagt hægt að tengja vélina við hefðbundin jaðartæki eins og USB prentara, LAN tengi, minnislykla, auka skjá, auka lyklaborð eða mús en það kostar töluvert og er takmarkað af þeim breyti (adapter) sem keyptur er.

 

macbook2015_6

 

Kannski er ég að gera of mikið úr þessum skorti á hefðbundnum tengjum en málið er samt sem áður þetta, ég nota vitanlega ekki alltaf þessi jaðartæki sem ég tel upp hér að ofan en þegar ég geri það þá er óþolandi að þurfa að leita að adapter til að geta það. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gleymt GB netkortinu heima en það er gott dæmi um adapter sem ég þarf stundum að nota í vinnu með Lenovo X1 Carbon vélinni minni sem er UltraBook og ekki með innbyggt netkort (bara WiFi og BT).

Þar sem Macbook treystir á þráðlausar tengingar og skýjalausnir þá er gott að vita að vélin er með Bluetooth 4.0 og mjög góðu þráðlausu netkorti sem styður heilt stafróf af stöðlum eða  a, b, g og n.

 

Rafhlaða, lyklaborð og mús

Macbook er með frábærri rafhlöðuendingu en samkvæmt Apple þá má reikna með um 9 klst endingu miðað við eðlilega notkun sem er gott á flesta mælikvarða. Ég hef verið að nota vélina töluvert í vinnu og því náð að prófa rafhlöðuendingu ágætlega. Með temmilegri notkun hef ég alltaf náð að láta rafhlöðuna duga út daginn en lengst um 10 tíma með talsverðum sparnaðaraðgerðum. Sem ultra portable þá skipta þessar tölur miklu máli enda verður að teljast líklegt að notendur séu að nota þetta eina USB-C port í eitthvað annað en hleðslu allann daginn.

Macbook er með baklýstu lyklaborði sem mér líkar ágætlega við en það er samt eitthvað sem pirrar mig. Flestar umfjallanir sem ég hef lesið hafa lofað lyklaborðið en benda á að það þurfi að venjast því. Það pirraði mig hversu grunnir takkarnir á lyklaborðinu eru og á þessum 10 dögum vandist ég því ekki, var lengi að skrifa og endalaust að gera innsláttarvillur. Vitanlega er þetta persónubundið en málið er að takkarnir á vélinni hreifast svo lítið við innslátt að það minnti mig oft á snertilyklaborð sem eins og fyrr segir minnkaði framleiðni mína mikið.

 

macbook2015_3

 

Músin á þessari vél er í algerum sérflokki en þessi nýja Force Touch mús er að gera gott mót. Snertimúsin er mjög nákvæm og vandist ég mjög fljótt öllum aðgerðum (gestures) sem músin bíður uppá. Ég leyfi mér að segja að þessi mús sé sú besta….  allavega með bestu músum sem ég hef prófað á fartölvu…

 

Hljóð og mynd

Skjárinn er eins og fyrr segir með 12″ IPS LED VibrantView skjár sem styður 2304 x 1440 punkta upplausn. Allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði mjög vel. Hann er með vítt áhorfshorn þannig að notendur þurfa ekki að sitja beint fyrir framan hann til þess að gæði myndarinnar haldi sér.
Skjárinn er skarpur og skemmtilegur en eftir að hafa vanist snertivirkni í Windows þá sakna ég þess lítillega í OSX. Þetta er vitanlega persónubundið en mér finnst það auka framleiðni og notagildi vélarinnar til muna.

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir undir vélinni og gefa þeir mjög ágætan hljóm hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Almennt finnst mér hátalarar í fartölvum lélegir vegna stærðar þeirra en þessir hátalarar ollu mér ekki vonbrigðum og eru með þeim betri sem ég hef heyrt í fartölvu.

 

Margmiðlun

Eins og fyrr segir þá nota ég Apple vélar ekki að staðaldri sem vinnuvél eða fyrir margmiðlunarafspilun (mediaspec) og var því margt sem ég þurfti að venja mig á en á heildina litið virkaði flest allt sem ég reyndi. Helst var ég í vandræðum með að finna mér hugbúnað til að gera hitt og þetta en það er mun minna til af hugbúnaði fyrir Apple en Windows. Þeir sem eru vanir MacOS lenda því ekki í vandræðum enda ræður vélin við flesta alla margmiðlunar afspilun sem þeir leggja fyrir hana.

Helsta „vandamálið“ er að vélin er ekki með venjulegu USB porti og því geta þeir lent í vandræðum sem eru með sitt efni á USB lyklum eða flökkurum. Einnig fannst mér App Store fyrir Mac mjög takmörkuð, fullt af forritum sem virkuðu illa eða hreinlega vöntuðu en helst saknaði ég Netflix appi sem ég hefur vanist að nota síðustu árin, virkaði svo sem fínt í vafranum en undarlegt að það sé ekki til samt.

Þarf svo sem ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í öðrum Apple vélum.

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Vélin kom upphaflega með Apple Yosemite en hægt er að uppfæra hana í El Capitan og var það búið á vélinni sem ég fékk til prófunar en það er nýjasta útgáfan af OSX. Ég prófaði að “strauja vélina” og endurheimta stýrikerfið yfir internetið en þetta hefur mér hingað til þótt mikill kostur við OSX. Þessi endurheimting gekk vel en stór galli er að ég fékk Yosemite sjálfkrafa og gat ekki valið um að endurheimta beint í El Capitan.

Þegar Yosemite var komið upp aftur (tók um 3 klst yfir 50/50MB samband) þá opnaði ég Apple Store og þegar ég hafði skráð mig inn með Apple ID notanda þá gat ég uppfært í El Capitan sem tók um 3 klst í viðbót. Ekkert stór mál en kjánalegt að geta ekki valið um að endurheimta vélina beint í nýjustu útgáfuna.

 

macbook2015_4

 

Ég prófaði hugbúnaðin sem Apple skaffar með vélinni nokkuð ýtarlega fyrstu dagana eins og t.d. Mail fyrir tölvupóstinn og Office svítu Apple sem heitir iWork en hann er gríðarlega takmarkaður. Grunnvirkni er sannarlega til staðar og dugar til lágmarks ritvinnslu en þegar maður er vanur Office 2016 í Windows þá er þessi upplifun mjög takmörkuð og pirrandi.

Ég setti því upp Office 2016 á vélinni og birti strax yfir hjá Windows manninum. Nú hafði ég beint aðgengi  að skjölunum mínum sem hýst eru á OneDrive ásamt því að skjalavinnsla varð aftur möguleg. Outlook sem fylgir með Office er mjög svipaður félaga sínum úr Windows og að mínu mati mun betri en Mail forritið í OSX.

Ég setti einnig upp Chrome fyrir netvafr, TweetDesk fyrir Twitter og Skype til að spjalla við vini og vinnufélaga. Í stuttu máli þá virkaði allt en vélin laggaði töluvert þegar ég var með mikið í gangi. Þetta var þegar ég var búið var að opna Outlook, nokkur Office skjöl, nokkra Youtube flipa í Chrome og Tweetdesk. Vélin er sem sagt flott fyrir létta vinnu en Power Userar finna fljótt að afköstin í Intel Core M eru ekkert svakaleg.

Svipað og Windows meginn þá pirrar mig alltaf allur þessi hugbúnaður sem fylgir tölvum í dag. Hann þvælist einfaldlega fyrir mér, hugbúnaður sem ég bað ekki um, vill ekki og mun aldrei nota. Vitanlega er þetta persónulegt mat og margt er hægt að fjarlægja af tölvunni en ég mundi vilja hlaða honum niður aukalega ef ég óska þess.

 

Niðurstaða

Ég held að Macbook vélin sé mögulega sýnishorn inn í framtíðina, þegar þráðlausir staðlar verða orðnir það hraðir og stöðugir að við þurfum ekkert annað. Þegar vélbúnaður verður það öflugur og orkuspar að það er hægt að fá alvöru afköst í svona litla vél. Þegar allir prentarar, lyklaborð, mýs, skjáir, sjónvörp, myndvarpar o.s.frv. verða þráðlausir. Því miður er sá tími ekki kominn og litaðist upplifun mín örlítið af því

Ef ég sleppi því að kvarta yfir verðinu þá er bara tvennt sem pirraði mig við vélina og það er lyklaborðið (smekksatriði) og skortur á hefðbundnum tengjum. Vitanlega má færa rök fyrir því að ultra portable vélar eiga bara að nota skýið og adapter en þar sem flest fyrirtæki sem og heimili eiga og nota hefðbundin USB tæki þá er ekki nóg að hafa bara eitt USB-C tengi á vélinni.

Fyrir mig þá er Macbook (2015) besta og fallegast Apple vélin sem ég hef prófað, ég einfaldlega kolféll fyrir henni. Vélin er sterkbyggð, nægilega öflug fyrir létta vinnu og því vænlegur kostur fyrir mörg heimili sem eru Apple megin í lífinu eða vilja prófa það. Fyrir Windows kallinn í mér þá má segja að Microsoft hafi reddað mér ágætlega með Office 2016, trúi því varla að ég sé að skrifa þetta en Apple tölvur eru í dag orðnir valkostur fyrir mig.

Vélin gerði kannski ekki nóg til að snúa þessum Windows manni sem hér skrifar yfir í Apple notenda en hún skilur samt eftir jákvæða upplifun og vissa eftirsjá yfir því að þurfa að skilað vélinni. #kannskinæst

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira