Heim Föstudagsviðtalið Pétur Jónsson

Pétur Jónsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 97 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Pétur Jónsson (stundum kallaður Don Pedro), tónlistarframleiðandi frá Borg Óttans™

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég rek Medialux, fyrirtæki sem framleiðir tónlist fyrir auglýsingar og kvikmyndað efni, sjónvarp, trailera og bíó. Ég hljóðhanna líka auglýsingar, og les meira að segja stundum inn á þær líka með íðilfagurri trailerarödd minni. Semsagt, mjög fjölbreytt og skemmtilegt starf sem ég sinni umkringdur aragrúa af glansandi tækjum og upplýstum tökkum. Þar áður vann ég við kvikmyndagerð, sem er annar draumaheimur fyrir tækjaóða fjanda eins og mig.

 

Hvert er draumastarfið?

Það væri mjög nett að vera yfirlemúragæzlumaður í heitu landi á ofurlaunum. Mér er vel við lemúra. Og heit lönd. Og ofurlaun. Annars vinn ég við það sem ég elska, sem eru risastór forréttindi, þannig að ég kvarta ekki, þótt ég væri eflaust ríkari af peningum ef ég gerði eitthvað leiðinlegra.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Mæti í stúdíóið mitt klukkan 08:45, hreinsa kaffivélina, drekk einn stálheiðarlegan macchiato, og glími síðan við mislit verkefni dagsins fram á kvöld með pásum til að pissa, kjafta við vini mína og drekka meira kaffi. Ég vinn aldrei um helgar, þær á fjölskyldan mín, þannig að vikurnar verða oft ansi þéttar og vinnudagarnir stundum langir. Reyni samt að ná 3 kvöldum af 5 í vinnuvikunni til að lesa góðar bækur fyrir börnin mín og pakka þeim niður. Stundum fer ég aftur þegar þau eru sofnuð. Um helgar reyni ég að elda eitthvað gott, gjarnan með mikilli fyrirhöfn og einhverri tækninördun, og umgangast fólk sem mér þykir vænt um. Ég er svo heppinn að eiga nóg af því í kringum mig.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Núna er ég að klára að semja tónlist í sjónvarpsseríuna Rétt III sem Baldvin Z. leikstýrir fyrir Sagafilm, og verður sýnd á Stöð 2 í október. Það er hörkustöff, og myrkasta íslenska sjónvarpsefni sem ég hef séð, þannig að ég er aðallega að búa til ónot og óþægindi, svona tónlistarlega séð. Svo sinni ég líka föstum auglýsingaviðskiptavinum mínum með allt það sem þeim dettur í hug, sem er nú yfirleitt á léttari nótum.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Ég geri allt í tölvum. Tölvan er altarið þar sem ég sem tónlist, hlusta á tónlist, horfi á vel gerð verk til að læra af þeim, finn hljóð, bý til hljóð, hef samskipti við alla í kringum mig, vinnutengt og persónulega. Tölvulaus stari ég í gaupnir mér tómum augum.

 

Lífsmottó?

Sá sem deyr frá flestum tökkum, vinnur.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Ég ber millinafnið Sigurþór. Ég er eins handlaginn og særð grameðla. Ég hef unnið mér inn bikar fyrir stórleik í Boccia á héraðsmóti í fjallahéruðum Rómarborgar.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Pass.

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Þeir eru margir, en í miklu persónulegu uppáhaldi er Magnús Eiríksson, ekki bara af því að hann semur frábær lög og texta, heldur var hann líka áhrifavaldur í að ég potaðist út í tónlistina þegar ég og Stefán sonur hans vorum að stíga okkar fyrstu skref 10 ára gamlir. Hann hvatti okkur og lánaði okkur hljóðfærin sín og hafði þannig ómeðvitað bein áhrif á hvar ég er í dag.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OSX El Capitan á lappanum og OSX Yosemite á vinnutölvunni. iOS9 beta á síma og iPad.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti gallinn er að ég hefði átt að fá mér 6+. Guggnaði. Annar helsti gallinn er að fólk hringir svolítið í hann. Tónlistarmenn í stúdíóvinnu eru ekkert sérstaklega hrifnir af símtölum þegar þeir eru að vinna.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Twitter, Facebook, Instagram, 9gag og Asphalt 8 Airborne. Svo hringi ég af og til.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ericsson GH 337 sem mér fannst fallegasta tæki í heimi. Þræddi síðan nokkra Ericsson síma þangað til að fyrsti iPhoneinn kom og hef ekki litið við síðan.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar

iPhone 7+. Ég er forfallin Apple maður og hef alltaf verið (meira að segja í gegnum erfiða tíma þar sem stýrikerfin voru rusl og vélbúnaðurinn langt á eftir öllum hinum) – allt mitt líf syncar saman í Apple hagkerfinu.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég rek Facebookgrúppu sem heitir Hljóðnördar án landamæra™, og eyði miklum tíma þar, en auk þess kíki ég afar reglulega á Gearslutz.com og Gizmodo.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Nei. Ég óska lesendum bara góðrar tónlistar, hvar sem þau kunna að vera. Og veriði góð hvort við annað.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira