Við hér á Lappari.com erum með nýja fartölvu frá Dell í prófunum en þetta er 2015 útgáfan af XPS 13 sem fyrirtækið kynnti á CES í byrjun árs en þessi vél er komin í sölu hjá Advania. Það sem vakti athygli okkar fyrir utan hefðbundin vélbúnað (speccana) var skjárinn. Dell kallar þetta “Infinity Display” en það stendur fyrir að skjárinn nær svo til alveg út til hliðana, en það eru aðeins 5mm frá skjá og út að brún.
Það eru nokkrar gerðir af þessari vél til en vitanlega þurftum við að prófa þessa sverustu sem til var og með besta skjánum… það er bara þannig sem við rúllum.
Við höfum aðeins verið með þessa vél í örfáa daga en langar samt að koma á blað fyrstu upplifun. Hvernig lýst okkur á þessa vél?
Það fyrsta sem okkur datt í hug þegar vélin var tekinn úr kassanum er að þessi vél smellapassar í Ultrabook flokk sem samanstendur að litlum, léttum en oftast frekar öflugum vélbúnaði. Kassinn (ytra byrgði) er úr áli og mjög vandaður viðkomu og skjárinn vakti mikla athygli, hreint ótrúlegt hvað hann virðist vera stór þegar hann nær svona út að brún.
Ef við skoðum vélbúnaðinn (speccar) aðeins á þessari vél
- Stýrikerfi: Windows 8.1. Pro
- Skjár: 13,3″ UltraSharp™ QHD+ snertiskjár með 3200 x 1800 upplausn (276 ppi)
- Skjákort: Intel HD 5500
- Örgjörvi: Intel Core i7-5500U (4M Cache og keyrir á allt að 3GHz)
- Vinnsluminni: 8GB af DDR3 minni (1600MHz)
- Geymslurými: 500GB SSD diskur
- Rafhlaða: 4 cellu 52Wh Li-Polymer
- Rafhlöðuending: 11 klst
- Myndavél: 720p vefmyndavél
- Annað: Bluetooth 4.0 – WiFi 802.11 a/b/n/ac – 3.5mm tengi fyrir heyrnartól og hljóðnema (dual jack) – 2 x USB 3.0 – mini-DisplayPort – SD kortalesari
Stærðir í mm eru: Dýpt: 200 – Breidd: 304 – Þykkt: 9-15
Þyngd er aðeins 1,26KG (1.18Kg ef án snertiskjá)
Það fyrsta sem við sögðum þegar við ræstum hana upp var bara eitt stórt VÁ… og enn og aftur útaf þessum skjá. Áður en við prófuðum hana þá héldum við að þessir skjárspeccar og Infinity Display væri bara en eitt markaðsorðið sem hafði ekkert að segja í notkun…. en þessi skjár er í einu orði sagt stórkostlegur.
Eins og áður segir þá er ytrabyrgði vélarinnar úr áli en sumt af innviðum hennar er úr Carbon Fiber, eins og t.d. í kringum músina sem eykur enn á tilfinninguna um hversu vönduð og sterk þessi vél er. Lyklaborðið á XPS 13 er ágætt og kostur að hafa takkana baklýsta en gallar helstir að vegna þess hversu lítil vélin er þá er erfitt að skrifa lengi á það. Músin er mjög góð, mögulega ein sú besta sem ég hef prófað á Windows tölvu.
Vélin öll er hin sterklegasta og virðist vera mjög vel smíðuð og vönduð í alla staða en það er ekki komin mikil reynsla á hana. Vélin er mjög öflug og ég er ekki frá því að þessir 11 tíma rafhlöðuending sem Dell lofar geti hreinlega staðist en ég minni á að frekari umfjöllun og ýtarlegri prófanir eru nú í gangi hjá okkur.