Það hefur verið ansi neikvæð umræða í kringum Windows Phone stýrikerfið undanfarnar vikur sem hefur verið áhugavert (og leiðinlegt) að fylgjast með, en hún hefur til dæmis komið nokkuð glögglega fram á Facebook síðu Windows Phone notenda. Það er svo sem ekkert nýtt að lesa eða heyra hrokafullar athugasemdir á vissum bloggurum sem eru fastir eins og rispuð plata en það vakti athygli mína þegar tveir öflugir erlendir Windows menn skrifuðu líka um þetta. Þetta voru þeir Tom Warren sem skrifar um Microsoft á TheVerge og síðan Ed Bott sem hefur fjallað um Microsoft í fjölmörg ár eða áratugi (risaeðla).
Ég ætlaði svo sem ekkert sérstaklega að skrifa um þá félaga þar sem það eru fjölmargir miðlar sem hafa skrifað um þessa tvo Microsoft-turna sem voru að hætta að nota Windows Phone. Það er reyndar skiljanlegt að þetta þyki fréttnæmt enda áberandi menn í þessu fagi. Það hefur samt ekki allt skilað sér úr pistlum þeirra því Ed Bott er ekki að hætta vegna Windows Phone sem slíku heldur vegna lítils stuðnings hjá Verizon meðan Tom Warren hættir aðallega vegna pirrings með forritaleysi. #applauslífstíll
Hér má lesa pistil Ed Bott á ZDNet
Why have I given up on Windows Phone? Blame Verizon
Summary: Microsoft’s Windows Phone platform continues to struggle to gain meaningful market share, especially in the United States. With partners like Verizon, it’s no surprise.
Ed Bott kennir símafyrirtækjum um hversu lítilli hluteild Windows Phone hefur náð í Bandaríkjunum en þar er allt annað markaðsumhverfi en hér á landi. Símafyrirtæki stjórna markaðnum mun meira og þurfa flestir framleiðendur að gera bindandi samning við eitt (stundum fleiri) símafyrirtæki sem skuldbinda sig til að selja símtækið og styðja. Ef stuðningur viðkomandi símafyrirtækis er ekki góður þá bitnar það á viðskiptavinum og vitanlega einnig á sölu viðkomandi vöru. Síðan gera viðskiptavinir eins til tveggja ára samning við símafyrirtækið sem erfitt/dýrt er að losna úr. Verizon eru þekktir fyrir lélegan stuðning við Windows Phone, þeir eru með lítið úrval og mjög lengi að koma uppfærslum til viðskiptavina sinna.
Reyndar má segja að Windows Phone sé í svipuðum vandræðum hér á Íslandi en þó svo að uppfærslur skili sér hratt til íslenskra notenda þá fá notendur nákvæmlega engann stuðning hjá símafyrirtækjunum. Þau eru flest öll með forrit og góðan stuðning við Android og iOS en ekkert fyrir Windows Phone en þetta á reyndar ekki bara við um símafyrirtækin heldur íslensk fyrirtæki almennt eins og bent er á í þessum pistli.
Punktarnir sem Tom Warren skrifaði í grein sinni á TheVerge eru af allt öðrum toga og taka meira á eiginlegum vandamálum sem honum finnst Windows Phone eiga í. Grein Tom Warren heitir einfaldlega: I´ve given up on Windows Phone og er mjög áhugaverður lestur sem ég mæli eindregið með að þið skoðið. Fyrsta sem ég hugsaði reyndar þegar ég las greinina er að það er ekkert stórvægilega áhugavert við að tæknipennar flakki á milli símtækja (stýrikerfa) enda fylgir það með starfinu. Það er engu að síður vandræðalegt fyrir tæknirisan Microsoft að aðal Microsoftpenninn á stórum miðli eins TheVerge skuli vera svo ósáttur að hann færi sig yfir á iPhone. Hversu ósáttur þarf maðurinn að vera til að færa sig yfir á iPhone #5aur
Samkvæmt Tom Warren þá virðist hann alltaf vera að bíða eftir einhverri stórri byltingu í Windows Phone kerfinu sjálfu, þetta hef ég ekki upplifað sjálfur og hljómar að vissu leiti eins og við höfum heyrt t.d. iPhone notendur tala um síðustu árin en það er önnur saga. Hitt er að hann bendir réttilega á forritavandræði Windows Phone en stýrikerfi þjáist mikið fyrir lítinn markaðshluta. Þessi litli markaðshluti gerir að verkum að fyrirtæki og stofnanir einbeita sér lítið sem ekkert að forritagerð fyrir Windows Phone, en með því að gera bara forrit fyrir Android og iOS er hægt að ná til 80-90% af markaðnum. Síðan er þetta er alltaf spurning um góða þjónustu vs krónur og aura hjá fyrirtækjum en samt mjög eðlilegt og skiljanlegt að mínu mati.
Ég skipti frá Android yfir á Windows Phone fyrir um tveimur árum síðan og hef verið sáttur síðan en ég skil svo sem vel hvað er að pirra Tom Warren og mörga aðra. Stór forrit eins og Instagram eru til dæmis enn í Beta fasa og ekki hægt að hlaða upp myndböndum með því (offical) forriti, notendur nota frekar 6tag sem er reyndar mun betra Instagram forrit og með flestum kostum Android og iOS forritana. Eina Google forritið sem ég man eftir á Windows Phone er Vine en aðrar þjónustur eru annað hvort ekki til staðar eða frá þriðja aðila. Google forrit skipta mig reyndar engu máli, ég setti áframsendingu á Gmail mitt fyrir tveimur árum yfir á Outlook.com og hef ekkert saknað þess. Allt sem ég notaði hjá Google er til ókeypis (og stundum betra) hjá Microsoft og skiptir mig engu máli hvort fyrirtækið sem þjónustar mig ókeypis heitir Google eða Microsoft.
Snapchat er forrit sem hefur verið mikið talað um en Windows Phone notendur hafa notað 6snap sem er forrit frá þriðja aðila þar sem Snapchat hafa ekki enn gefið út forrit fyrir Windows Phone. 6snap er frábært Snapchat forrit og að mörgu leiti betra en forritin sem Snapchat hefur gefið út fyrir Android og iOS en það er ekki hægt að nota það lengur. Eftir vandræðalega öryggisbresti hjá Snapchat þá ákváðu þeir að loka á forrit frá þriðja aðila, sem sagt alla sem eru ekki að nota Android eða iOS. Ég hef heyrt í mörgum sem hafa lent í því að Snapchat einfaldlega lokar á notenda þeirra. Vitanlega er einfalt að búa til nýjan notenda og nota hann þangað til að hann lokast aftur en hver nennir því?
Núna rétt fyrir jól þá hætti síðan 6snap að virka og stuttu seinna hvarf það úr Windows Store ásamt öllum öðrum Snapchat forritum. Núna eru því engin Snapchat forrit í Windows Store og ekkert heyrist frá Microsoft eða Snapchat um mögulegt forrit fyrir Windows Phone. Ég er svo sem ekki stórtækur Snapchat notandi enda notaðist ég við tölvupóst, SMS, OneDrive, Facebook, o.s.frv. til að senda myndir áður en Snapchat kom til sögunnar. Ég skil engu að síður vel hversu mikið það skemmir fyrir Windows Phone að hafa ekki Snapchat forrit…. það er í raun og veru fáranlegt að það skuli ekki vera komið en á sama tíma eðlilegt vegna lítillra markaðshluteildar.
Þessu tengt þá fór ég á stórgóða tónleika hjá Kaleo í jólafríinu. Ég sat í miðjum salnum og mér fannst allir vera með snjallsímann á lofti (líka ég) að taka myndir eða video og deila á samfélagsmiðla. Þeir sem voru með Windows Phone (já það voru nokkrir) deildu á Facebook eða Instagram meðan aðrir notuðu nær eingöngu Snapchat en þetta átti sérstaklega við um yngra fólkið. Ég vill meina að Windows Phone muni eiga erfitt með að njóta vinsælda hjá táningum eða öðrum sambærilegum markhópum (undir 40 ára) meðan staðan er þessi.
Það er alltaf sagt að það sé mjög erfitt að vera þriðja stæðsta stýrikerfið vegna þess að fyrirtæki, stofnanir og forritarar sjá minna gildi í að leggja vinnu í viðkomandi platform. Þetta er 100% skiljanlegt þó að pirrandi sé, það er ekki fyrirtækjana að leysa þetta vandamál. Það er Microsoft sem annað hvort þarf að leggja mun meira púður í forritagerð eða einfaldlega borga fyrirtækjum eins og Snapchat fyrir að gera forrit…. eða sætta sig við áframhaldandi stöðnun og hægt rísandi markaðshluteild.
Það hafa verið sögusagnir um að með Windows 10 þá muni vera hægt að samnýta forritagerð mun meira milli snjallsíma, spjaldtölvu og far- og borðtölvu og hafa þá þeir sem gera forrit Windows möguleika á því að komast í alla Windows síma, spjaldtölvur og tölvur. Þar er eftir stórum markaði að sækast og verður áhugavert hvernig það þróast.
Ég hef lesið um að hægt verði (mögulega) að nota Android forrit á Windows Phone síma fljótlega og þá eru vitanlega forritavandamál Windows Phone leyst með einni aðgerð. Ég er samt í vafa um að þetta sé rétta leiðin og sú leið sem Microsoft muni fara en hver veit…. Hvað sem gerist þá þarf eitthvað stórvægilegt að gerast í þessum málum fljótlega og má reikna með tíðindum í síðasta lagi þann 21. janúar þegar Microsoft verður með Windows 10 kynningu.
Ég er búinn að hugsa mikið um þetta síðustu daga og vikur og hefur skoðun mín á Windows Phone ekki mikið breyst því þetta stýrikerfi hentar mér og minni notkun langbest af öðrum sem ég hef prófað og er ég ekkert að fara að skipta um skoðun á næstunni. Þegar ég færði mig yfir á Windows Phone þá gerði ég mér lista yfir forrit sem ég notaði og þurfti nauðsynlega og þau veru öll til á Windows Phone. Snjallsími er samt sannarlega ekkert án forrita en það hlýtur að vera misjafnt milli notenda hversu mörg forritin þurfa að vera eða nákvæmlega hvaða forrit viðkomandi þarf.
Upplifun notenda hefur breyst töluvert síðan ég byrjaði að nota Windows Phone fyrir rétt um tveimur árum síðan. Núna eru margfalt fleiri forrit til í forritamarkaði Microsoft eða rúmlega 500 þúsund. Fyrir mig er síminn fyrst og fremst vinnutæki sem ég reyndar nota líka í leiki og annað sem skiptir mig máli. Þó að útlitslega hafi Windows Phone ekki breyst mikið þá er fullt af aukavirkni og kostum sem Microsoft hefur bætt við stýrikerfið en þessir kostir hafa gert upplifun notenda mun betri.