HTC One (M8)

eftir Jón Ólafsson

Félagar okkar hjá emobi höfðu samband og buðu okkur að prófa nýja HTC One (M8) sem er nýkominn í sölu hérlendis. Þetta er nýjasta flaggskipið frá HTC þannig að svarið var einfalt…. Já takk
Emobi hafa verið æði vaxandi í farsímasölu og eru með nokkuð fjölbreytt úrval af símtækjum sem vert er að skoða.

Síðasti Android síminn sem ég átti og notaði að staðaldri var HTC One X en ég prófaði HTC One (M7) í dágóðan tíma og því spennandi að sjá hvernig nýjasta flagskip HTC stendur sig. Það hefur margt breyst hjá HTC síðustu árin og hafa þeir þurft að berjast um athygli viðskiptavina sinna á erfiðum markaði sem Samsung virðist eiga. Þetta þykir mér miður þar sem HTC hafa að mínu mati oft smíðað gullfalleg símtæki en fyrirtækið er greinilega ekki með jafn öfluga markaðsvél og Samsung hefur. HTC hafa staðið á krossgötum nokkuð lengi, framleiða oft á tíðum mun fallegri tæki en samkeppnisaðilar en ná ekki að selja þá í sama magni sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir þá.

 

Hér má sjá auglýsingu frá HTC þar sem þeir kynna símann.

 

Síminn er nettur en kannski ekki lítill en eftir að hafa verið með Nokia Lumia 1520 sem er 6″ Phablet í nokkra mánuði verð ég að segja að HTC One fer mun betur í vasa en hann.

 

Hönnun og vélbúnaður

Þó að síminn sé mjög vel búinn vélbúnaði þá er það hönnunin á símtækinu sjálfu sem heillar mig mest, greinilegt að hér er um að ræða vel smíðað tæki og útpæld hönnun. Línur sem skerast mætast á þann hátt að nær ómögulegt ætti að vera fyrir ryk, hár og annað eins að komast innundir skjáinn. Álbakið á símanum veitir manni öryggis- og premium tilfinningu í þá áttina að þó maður reki sig aðeins utan í þá kemur síminn ekki brotinn uppúr vasanum, vandaður og fallegur sími. Breyting milli HTC One M8 og M7 er að núna er heilt álstykki á baki sem nær út yfir hliðarnar meðan á M7 var plast í hliðum.

Hönnun HTC One

 

Undanfarið hef ég eins og fyrr segir notað Lumia 1520 sem minn aðalsíma og fannst mér svolítið furðulegt að fara af Windows Phone aftur yfir á Android. Þess þá heldur Android síma sem er þetta vandaður og hraðvirkur en þetta er fyrsti Android síminn sem ég prófa síðan 2009 sem laggar ekki og virkar án auka hiks í venjulegri vinnslu. HTC One er með 2GB vinnsluminni og örgjörvinn ekki af verri endanum en síminn er með fjórkjarna 2.3GHz Snapdragon 801 örgjörva sem er sá besti á markaðnum í dag.

 

htcone_1

 

Stærðir

  • Hæð 146.4 mm
  • Þykkt 9.4 mm
  • Breidd 70.6 mm
  • Þyngd 160 gr

Þetta er fallegasti sími sem ég man eftir að hafa notað lengi en en eins og fyrr segir þá er það aðallega vegna álskrokksins sem umleikur símann sem gefur honum vandað og sterklegt yfirbragð og útlit.

htcone_5

 

Gúmíhlíf fylgir með með sem ég reikna með að flestir komi til með að nota en hlífin skemmir óneitanlega fyrir útlitinu á símanum. Án þess er hann fallegur en rispast líklega hratt en með því er þetta eins og hver annar sími og ekkert sérstakt að sjá nema fallegan skjáinn.

 

 

Tengimöguleikar

Síminn er eins að önnur flagskip vissulega hlaðinn ýmiskonar aukabúnaði og leiðum til þess að tengjast öðrum hlutum. Þar má nefna bluetooth 4.0, NFC , hröðunarmælir (e.accelerometer), snúðvísir (e.gyroscope) og GPS svo að eitthvað sé nefnt. HTC One kemur tilbúinn með 4G tíðni sem virkar á Íslandi ásamt þráðlaust neti sem styður 802.11 a/b/g/n/ac, WiFi direct, DLNA og WiFi Hotspot.

htcone_4

Síminn er með hefðbundnu microUSB 2 neðst á símanum og 3.5mm tengi fyrir heyrnartól sem er einnig neðst og finnst mér það galli, ég vill hafa tengi fyrir heyrntól efst á símtækjum. Símanum fylgir 20GB geymslupláss á Google Drive í 2 ár sem er mjög fínt fyrir myndaóða einstaklinga eins og mig því síminn hleður öllum myndum af símanum beint í Google Drive í hvert skipti sem ég tengist þráðlaus neti og þannig á ég alltaf afrit af myndunum mínum.

 

Rafhlaða og lyklaborð

HTC hefur endurhannað rafhlöðu og rafhlöðustýringu og kom endingin mér nokkuð á óvart samanborið við aðra Android síma. HTC nota 2600mAh rafhlöðu og nota nýtt öfga rafhlöðusparnað (Extreme Power Saving Mode) og lofa því að síðustu 20% af rafhlöðunni mundi endast allt að 60 tíma (í bið). Þetta eru flottar tölur en mjög líklega á kostnað virkni þar sem slökknar á allri samvirkni við netþjónustur ásamt því að hraðinn á Snapdragon 801 verður sjálfkrafa lækkaður.

Eins og venjulega þegar ég prófa síma þá var ég ekki að huga að neinum sérstökum rafhlöðusparnaði þegar kemur að notkun. Ég setti upp öll venjulegu forrit sem mér datt í hug eins og Facebook, Twitter, Skype, Instagram, Snapchat, ýmsa leiki, þrjá EAS tölvupóst reikninga en við frekar mikla notkun í þessum prófunum endist rafhlaðan út daginn og var yfirleitt á milli 50 % eftir 14 tíma notkun.

Android símar sem ég hef átt hingað til hafa ekki búið yfir annarri eins rafhlöðuendingu, að minnsta kosti ekki meðan ég hafði þá í minni umsjá.

 

htcone_7

 

Hér gefur að líta uppgefinn endingartíma rafhlöðunnar hvort sem er á 2G eða 3G (Athugið að ekki eru inni í þessu WiFi tölur né 4G).

  • Tal yfir 2G: Allt að 14 tímar
  • Tal yfir 3G: Allt að 20 tímar
  • Biðtími á 2G allt að 271 tímar
  • Biðtími á 3G allt að 496 tímar

 

Eins og sést á næstu mynd þá hefur rafhlöðuendingin á HTC One (M8) stórlagast frá HTC One (M7)

 

htconem

 

Hún er samt nokkuð langt frá því sem ég er vanur á Nokia Lumia 1520 sem er vonbrigði á tæki með miklu minni skjá en annars sambærilegan vélbúnað.

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn í þessum síma er náttúrlega ekkert annað en magnaður en hann er bjartur, skýr og snertiflöturinn er ótrúlega góður. Skjárinn er 5″ Super LCD3 með Gorilla Glass 3 rispuvörn og styður 1920 x 1080 upplausn við 441 pixla á tommu (441 ppi). Skjárinn er með Tap-To-Wake tækni eins og við höfum vanist í Windows Phone símtækjum en þá er hægt að tví smella á skjáinn til að vekja hann.

Síminn er með fídus sem kallast HTC Boomsound og hefur nokkuð góða stereo hátalara sem gefa frá sér hreina og góða tóna. Þessir hátalarar og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim gerir það að verkum að síminn er í algjörum sérflokki hvað hljómgæði og „hávaða“ varðar. Fólk sem hefur handleikið símann hjá mér nefnir yfirleitt alltaf fallegt útlit, hljóminn og skjáinn þegar það prófar símann.

 

htcone_9

htcone_10

 

Myndavélin í símanum er nokkuð góð að mínu mati, hvort heldur sem er ljósmyndatakan eða myndbandsupptakan. Helst ber að nefna hversu snögg og þæginleg myndavélin er í vinnslu, mjög fljótlegt að kveikja á vélinni og byrja að mynda. HTC eru ekki að elta MP stríðið eins og margir aðrir en HTC One er með tveimur 4MP myndavélum en með tveimur myndavélum á að vera hægt að fá víddir í myndir og velja focus fyrir og eftir myndatöku. Þetta hljómar allt mjög vel en er alls ekki auðvelt í notkun í hið minnsta þá þurfa birtuskilyrði að vera góð ásamt því að notendur þurfa töluverða æfingu til að ná þokkalegum myndum með þessu.

Fram myndavélin (fyrir Selfie) er nú 5MP og mjög góð í öll myndsímtöl og sjálfmyndir, á tíðum fannst mér hún á pari við aðalvélarnar við viss birtuskilyrði.

Mér þótti vélin samt stundum lenda í vandræðum með að focusa þegar aðdráttur er notaður og í myndbandsupptökum. Helst var það í lengri upptökum þar sem mikið var um að vera en þá færði síminn focus af viðfangsefninu yfir á eitthvað annað sem var í jaðrinum sem endaði oftar enn ekki í hálfónýtri upptöku. Litir voru annars afbragðsgóðir og við góð birtuskilyrði var mjög gaman að skoða dýptina á litunum sem myndavélin náði að beisla.

htcone_8

Myndavélin er með tvöföldu LED flashi og býður uppá ýmsar mismunandi stillingar eins og t.d. Selfie, Camera, Dual Capture, Video, Panorama og Zoe Camera. Einfalt er að fara inn í frekari stillingar og leika sér með ISO stillingar (200, 400, 800, 1600), næturstillingar ,HDR stillingu sem gefur myndum strax meiri dýpt og reyndar oft á tíðum eilítið ýktan blæ, sem er hugsanlega það sem menn eltast við með HDR myndatökum svo eitthvað sé nefnt.

Myndbandsupptakan í vélinni er nokkuð góð og býður uppá ýmsa möguleika. Þar má nefna „Venjulega upptöku“, „Slow Motion“, „Fast Full HD (60 fps)“ og „ Video HDR“. Að auki má nefna að HTC hafa hannað eitthvað sem kallast Zoe en það er í raun sambland ljósmyndar og myndbands. Þannig tekur síminn ljósmynd og myndband á sama tíma, í 3 sekúndur.

 

Margmiðlun og leikir

Tónlistarspilarinn sem kemur með símanum er mjög auðveldur í notkun og þægilegt að skruna í gegnum hann. Það er hægt að stilla, breyta og bæta hljóðið sem gæti hentað fyrir þá sem vilja. Myndbandsafspilun í símanum er mjög þægileg og spilar síminn flest þau form af myndböndum sem finnast á stafrænu formi í dag. Auk þess er hægt að fá gegn vægu gjaldi lítinn pung frá HTC sem tengist beint í HDMI tengi á sjónvarpi og gerir notandanum kleift að spila myndbönd, tónlist og ljósmyndir í sjónvarpinu á meðan hann sinnir einhverju öðru í símanum sjálfum eins og tölvupósti.

htcone_12

HTC er 16GB innra geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni og síðan er hann með rauf fyrir Micro-SD sem styður allt að 128GB minniskort sem er ekkert slor… Það er líklega nauðsynlegt að kaupa minniskort strax ef nota á símann við myndatökur þar sem aðeins er laust um 9GB fyrir notenda þegar síminn er nýr og eftir uppsetningu á helstu forritum.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Að venju hafa HTC sett sitt eigið viðmót yfir stock Android 4.4.2 stýrikerfið og heitir það HTC Sense og nú útgáfa 6. Það eru mjög misjafnar skoðanir á HTC Sense og látum við notendum eftir að meta það en að okkar mati gerir það kerfið fallegra og notendavænna. Það er fallegt en það er á stundum á kostnað framleiðni þar sem flottir og krúttlegir fídusar eru oft á tíðum að þvælast fyrir venjulegu vafri um símann

 

htcone_15

 

HTC hafa horft í smáatriðin við hönnun á HTC Sense en er það einhvern veginn betur samvindað Android en það hefur verið hingað til. Það er samt smávegis overlap á milli HTC og Google forrita en mjög lítið miðað við t.d. á Samsung símum sem eru oft með tvö forrit fyrir alla helstu virkni. Þó svo að HTC hafi þróað Sense mikið síðan ég átti HTC One X þá get ég samt ekki að því gert, ég var kominn með leið á útlitinu eftir 2-3 daga. Mér finnst útlitið í helstu atriðum lítið hafa breyst á þessum rúmum 2-3 árum. Getur verið rangt hjá mér en þetta er allavega tilfinningin sem ég fékk eftir þennan tíma.

Android er með öllum helstu möguleikum sem snjallsíma notendur geta vænst og hefur þroskast ansi vel síðustu árin, kerfið er orðið stöðugra og hraðvirkara en það var. Ef notendur vantar einhver forrit til viðbótar við grunnvirkni sem er innbyggð þá eru allar líkur á að það finnist í Google Play Store sem er forrita verslun Google sem er pökkuð af forritum og þjónustum sem er hægt að kaupa.

HTC gera mikið úr forriti sem heitir BlinkFeed og tekur yfir einn af heimaskjánum. Það er eins núna og með gamla HTC One, þetta er í besta falli ágætis stæling á mjög vinsælu appi sem heitir FlipBoard.

Hér gefur að sjá lítið kynningarmyndband um BlinkFeed.

 

Í þann stutta tíma sem ég hef haft HTC One til afnota hef ég samstillt símann við þrjú EAS netföng, Gmail auk þess sem ég setti upp Simnet póstinn minn á hann. Öll vinna í póstumhverfi er mjög einföld og þægileg en alls ekki jafnskilvirk og góð og ég er vanur á Windows Phone.

 

 

Niðurstaða

HTC One (M8) er frábær Android sími með endingargóða rafhlöðu, gullfallegur og fer vel í hendi og er sterkbyggður. Hann býr yfir öllum þeim kostum sem maður getur reiknað með í Android snjallsíma og mundi ég skoða þennan síma alvarlega enda mjög öflugur sími hér á ferð.

Ég átti von á að myndavélin yrði betri og get ekki neitað því að hún olli mér vonbrigðum, vélin er alls ekki slæm en ég átti einhvern vegin von á betri vél á svona dýrum og vönduðum síma. Ég hefði óskað þess að HTC hefði farið þann veg að nota færri stæla (fancy markaðsgimic) og einbeitt sér betur að grunnþáttum myndavélarinnar.

Android hefur þroskast mikið síðustu árin og er í dag mun betra kerfi en það var bara fyrir tveimur árum síðan. Ég set samt enn spurningamerki við uppfærslur á Android flaggskipum þar sem þekkt er að framleiðendur virðast yfirgefa þau ansi fljótt. Þau virðast stundum framleiða ný símtæki sem styðja nýjar Android útgáfur í stað þess að uppfæra eldri tæki.

Þetta er fallegasti Android sími sem ég hef prófað og jafnvel…. já jafnvel er þetta besti Android sími sem ég hef prófað hingað til..

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira