Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 37 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Viðmælandi okkar að þessu sinni er vel þekktur maður, ég hef oft heyrt hann kallaðan Galdramaðurinn í OZ en þetta er Guðjón Már Guðjónsson framkvæmdastjóri OZ. Flestir sem fylgjast með fréttum og hafa gert það síðustu árin áttu að þekkja til Guðjóns en hann er einn af þeim Íslendingum sem er það þekktur að hann er með eigin WikiPedia síðu, meira en Lapparinn getur sagt.
Ég er búinn að vera í töluverðu sambandi við Guðjón síðustu vikur og mánuði og augljóst að það er mikill drifkraftur í honum. Það er margt í gangi hjá Guðjóni eins og venjulega og ætla ég svo sem ekki að telja það allt upp hér. Ég benti samt á að OZ appið fyrir Windows 8 kom út fyrir skemmstu og bendi ég ykkur vitanlega á að prófa það.
En þá ætla ég að hætta þessu rausi og hleypa Guðjóni að…
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Guðjón Már Guðjónsson af malbikinu í Reykajvík.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er stofnandi OZ fyrirtækja. Fyrra stofnaði ég þegar ég var 17 ára árið 1989 en lauk þar störfum 2002. Síðara og núverandi OZ, sem er þó allt annað fyrirtæki stofnaði ég 2009.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Í raun nokkuð fjölbreytilegur og erfitt að telja upp rútínu. Ég reyni að festast ekki í kassa og vona því að ég eigi ekki til eitthvað sem heitir venjulegur dagur.
Lífsmottó?
Stöðugt að læra. Sýna lærdómi metnaði. Nýti það sem ákveðið lífsmottó og tek svo lærdómstarnir sem geta snúist um fáránlega hluti yfir í meira faglega. En þó aðalega um tilgang lífsins. 😉
Duran Duran eða Wham?
Ég var Duran maður, en árið ’84 þegar Arena kom út þá hafði ég fengið nóg og gerðist Depeche Mode fanatík. Mætti með Arena plötuna sem ég fékk í jólagjöf í skólann og setti allt á annan endann í bekknum þar sem ég ákvað að gefa háværasta skólafélaganum plötuna. Þetta var aðalega statement um að nú væri Duran Duran búnir að vera.
Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?
Mac OS X og oftast með Unix Terminal skel opna þar sem oftast er einhverskonar bras í gangi hjá mér.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er mestmegnis að nota iPhone, en gruna að Android eða Windows verði brátt fyrir valinu. Ég er of hræddur við að einangrast of mikið innan iOS múranna, en skrefið hefur ekki ennþá verið tekið.
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Að geta tekið á móti símtölum! Ég er þó ekki of hugfanginn af kostum símans þar sem ég hef eitt of miklum tíma í að hugsa út hluti sem eiga eftir að koma í símana!
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Hægagangur í framþróun á batteríum. Miðað við það hvernig ég vil geta nýtt símann, þá þarf ég í raun að hlaða hann oftar en einu sinni á dag. Annað sem maður er farinn að hræðast er auðvitað hversu ávanabindandi tækið getur verið, eða öllu heldur það sem keyrir á honum!
Í hvað notar þú símann mest?
Fer mikið eftir því hvar ég er. Ef ég er á ferðalögum þá eru það Maps, Foursquare, vafrinn og Audible. En almennt eru það þessi almennu tól eins og Email, Facebook og Twitter. Ég nota OZ reglulega frá símanum mínum til að hlúa að safninu mínu, þ.e. að finna efni til að setja á upptöku. Spotify er svo annað tól sem ég nota í ræktinni eða í heimsóknum hjá vinum þar sem vantar góða tónlist 😉
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Einhver mjög gömul kynslóð af Ericsson síma, sem ég henti fljótt fyrir Nokia. Ég sótist eftir stærri skjá sem Nokia höfðu, sem var þó ekki nema auka lína af texta.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Ætli það væri ekki ný retro útgáfa af Nokia 6110. Það á eftir að verða næsta trend að fólk fer út í einfalda síma, aðalega til að sýna ákveðið statement um bætt lífsgæði! 😉
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Ég nýti Twitter aðalega í að draga það saman fyrir mig, uppá að geta kafað dýpra á ólík áhugasvið. Þannig hámarkast einnig fjölbreytileikinn.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Ég vil hvetja alla til að prófa OZ og taka þátt í því að byggja þetta kerfi upp með því að senda á okkur tölvupóst í gegnum [email protected].
Það er ákveðinn draumur sem við höfum að ná að byggja upp OZ í góðu samstarfi við öflugt samfélag notenda frá Íslandi. Við erum á bæði Android og iOS í dag með Windows 8 að koma út á næstu dögum.