Með því að eiga og nota snjallsíma þá átta flestir sig á því að síminn notar töluvert af gögnum þegar unnið er á honum. Það er svo sem ekki flókið að útskýra þetta en allt vafr í netvafra, deilingar á Instagram eða Facebook o.s.frv. kostar eitthvað gagnamagn.
Windows Phone 8 er með innbyggt forrit sem heitir Data Sense sem getur sagt notenda hversu mikið af gögnum hann hefur notað. Mögulega er mælingin ekki 100% sú sama og símafyrirtækið þitt segir en ég er búinn að prófa þetta á síma sem er með SIM frá Símanum og þetta er ansi nálægt því að vera 100% rétt (án ábyrgðar samt).
Data Sense fylgist bæði með gögnum sem fara yfir 3G/4G sem og yfir þráðlaust net (Wi-Fi) en það er hægt að smella á tannhjólið neðst til að komast í frekari stillingar. Þar er hægt að setja hámarks gagnamagn yfir viss tímabil t.d. frá fyrsta hvers mánaðar og ef farið er yfir hámark þá er hægt að láta forritið loka á 3G/4G þegar hámarkinu er náð til að spara kostnað.
Besta leiðin til að spara sér mögulegan kostnað vegna þessa er að tengja símann alltaf við þráðlaust staðarnet þar sem það er mögulegt því þá notar síminn ADSL/Ljósleiðarann til að hlaða niður en það er mun ódýrari leið ásamt því að innifalið gagnamagn á þeirri leið er líklega mun meira en fylgir með farsímaáskriftinni.
Margir eru með fyrirfram ákveðið gagnamagn sem fylgir með farsímaáskrift en oft er það 300Mb – 3000Mb og ef þú veist ekki hvað fylgir með þinni áskrift þá skora ég á þig að kynna þér málið sem fyrst því mögulega ertu að borga of mikið. Starfsmenn símafyrirtækja eru bestir í að finna áskrift sem hentar þinni notkun en þeir eiga létt með að ráðleggja þér áskriftarleið útfrá notkun þinni.