Í byrjun september þá fékk ég 4G ferðanetbeini lánaða frá Vodafone til að prófa 4G netið þeirra sem þá var komið í gagnið. Ég hef svo sem ekki fylgt þessu eftir hér en ég prófaði kerfið samt nokkuð ýtarlega þennan reynslumánuð sem ég fékk hjá þeim.
Samkvæmt Vodafone þá er þetta dreifingarsvæðið
Þó ég hafi vitanlega ekki náð að prófa ferðanetbeininn á öllu þessu svæði þá get ég staðfest að þetta kort er nokkuð rétt en ég keyrði alveg inn í botn Eyjafjarðar, að Svalbarðseyri og að Dalvík og var 4G á þessum öllum stöðum og hélt sér ágætlega þegar keyrt var milli staða.
4G netið er samansett af 800 og 1800 mhz sendum en með einföldun má segja að 1800 mhz sendar dragi styttra og séu hraðvirkari meðan 800 mhz sendar séu langdrægir og því hægvirkari. Innan Akureyri, við Hrafnagil og Dalvík má reikna með tengingu við 1800 mhz sendi meðan aðrir tengist við 800 mhz senda.
Eina sem ég gat kvartað yfir á prufutíma var að upphalshraði var undir væntingum meðan ég náði alltaf yfir 20 mbps niðurhali, nauðsynlegt er að taka fram að ég bý aðeins utan við Akureyri. Vodafone virðist hafa verið að fínstilla kerfið því ég hef heyrt marga tala um að þetta hafi lagast mikið síðan þá en þeir segja að upphalshraðinn sé kominn yfir 20 mbps núna.
Ég vill meina að hraðinn á 4G netinu hjá Vodafone sé orðinn það góður og dreifing það góð að 4G tenging sé nú orðinn vænlegur kostur fyrir heimili og/eða sumarbústaðaeigendur. Þá þarf ekki að leggja neinar tengingar, bara skella netbeini í gluggann og öll tæki heimilins tengjast við tækið sem virkar eins og þráðlaus router.