Heim UmfjöllunUmfjöllun Snjallsímar Samsung Galaxy S4 mini

Samsung Galaxy S4 mini

eftir Jón Ólafsson

Ég hef verið að prófa Samsung Galaxy S4 mini frá vinum mínum í Vodafone síðustu vikurnar og því kominn tími á að setjast niður og setja eitthvað á blað um þetta tæki. Síðasti Samsung síminn sem ég notaði eitthvað af viti var Ativ S og síðan Galaxy S2 og því hlakkaði ég mikið til að prófa nýlegt tæki frá þeim..

Samsung er í svipaðri stöðu og Nokia er Windows Phone megin, fyrirtækið er ráðandi aðili á markaði sem framleiðir og selur meirihlutann af Android símum, stærsti munurinn er að Android markaðurinn er margfaldur WP markaðurinn að stærð. Android markaðurinn er vinsælasta snjallsímakerfið í dag en samkvæmt tölum þá er kerfið með um 80% af snjallsímamarkaðnum.

Samsung hefur notað Galaxy nafnið síðan árið 2009 og ef ég tel rétt þá eru í dag komnir út 73 snjallsímar og 13 spjaldtölvur sem bera þetta nafn í dag. Það er ekki nema von að maður ruglist stundum þegar verið er að kynna ný Galaxy símtæki.

Galaxy S4 mini hluti af þessari gríðarlega vinsælu vörulínu frá Samsung og fær mikið lánað frá öðru Galaxy símum. Hann er hlaðinn af hugbúnaði og nýjungum úr stóra bróðir sínum Galaxy S4 en þessi sími kostar minna eða 79.900 (05.12.2013) og hefur notið athygli, spekkar virðast lofa góðu en hvernig líkar okkur við hann?

 

Hér má sjá Samsung Galaxy S4 mini afpökkun.

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Samsung Galaxy S4 mini er er mjög líkur S4, bara minni. Hann er með mun mýkri línur en t.d. Sony Zperia Z1 sem ég prófaði síðast og er mun þæginlegra að halda á þessu tæki. Þetta er svo sem ekki fallegasta símtæki sem ég hef haldið á en engu að síður er eitthvað við hann sem mér líkar mjög vel við. Hönnunin virkar nútímaleg og greinilegt að það hefur töluverð hugsun/þróun farið í þetta tæki þó svo að það sé fjarri því að vera frumlegt.

Eins og með flesta Galaxy síma þá er plastið í aðalhlutverki, þunnt plast á bakhlið, állitað plast í hliðum og síðan plast umhverfis skjáinn að framan. Þetta breytir því ekki að mér þykir síminn vera frekar sterklegur og var ég alltaf öruggur með hann í buxna- eða jakkavasanum.

S4 mini reynir ekki að vera frumlegur enda er það líklega ekki markmiðið með honum, það er í raun og veru ekkert annað gert en að minnka stóra bróðir (S4).

Ál litaði ramminn sem þekur hliðar símans gefi símanum „premium“ útlit en eins og fyrr segir þá reynir hann ekkert að fela plastið. Ég er samt ánægður með útlitið á honum og flestir sem fengu að prófa hann fannst hann vera “nútímalegur”, ferskur og smart.

 

s4mini_2

 

Framhlið er öll heilsteypt og blasir við þessi gullfallegi 4.3″ skjá,  allur frágangur á framhlið er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka. Neðst er einn físískur “home” takki sem opnar einnig taskmanager ef honum er haldið inni, en þannig er hægt að skipta hratt á milli forrita eða loka forritum sem eru í gangi. Við hliðina á home takka eru tveir snertitakkar, vinstra megin er valmöguleikatakki sem opnar valmöguleika í því forriti sem er opið og hægra megin er bakk takki.

Efst er Samsung logo, myndavél og tveir ljósnemar og síðan er S4 mini með powertakka á hægri hlið og hækka/lækkatakka á vinstri hlið. Staðsetning takka er mjög góð og einfalt að ná til þeirra með annari hendi.

Það er ekki sértakki fyrir myndavél sem er vonbrigði því þetta veldur því að ég þarf að hafa myndavéla icon á heimaskjá til þess að hafa flýtileið í myndavélina. Myndavélar á snjallsímum eru fyrst og fremst til þess að taka tækifærismyndir og því mikilvægt að hafa hraðan og góðan aðgang að myndavél.

Síminn sem ég er að prófa er með hvíta bakhlið, hvíta umgjörð um skjáinn að framan og síðan állitað plast á köntum. Síminn er allur frekar rúnaður og liggur vel og örugglega í hendi en bakhlið á símanum er þakin einu heilu kúptu plaststykki með úttaki fyrir myndavél sem stendur lítillega út, flash og síðan grill fyrir hátalara. Ef lokið er tekið af sést rafhlaða, hólf fyrir SIM kort og síðan raufin fyrir microSD korti.

 

s4mini_3

 

Stærðir

Hæð 124.6 mm
Þykkt 8.9 mm
Breidd 61.3 mm
Þyngd 107 gr

 

Samanburður milli S4 mini og S4

Galaxy S4 mini Galaxy S4
Örgjörvi 1,7 GHz 1.9 GHz
Tvíkjarna Fjórkjarna
Vinnsluminni 1.5GB 2GB
8GB 16GB
Skjár 4.3″ 4.99″
Upplausn 960×540 qHD 1920×1080 HD
Myndavél 8MP 13MP
Rafhlaða 1900mAh 2600mAh

 

Samsung Galaxy S4 mini er nokkuð vel búinn en á Android mælikvarða flokkast vélbúnaðurinn sem mid-range eða mid – high mögulega. Hann er með tvíkjarna Snapdragon 400 örgjörva sem keyrir á 1.7 GHz ásamt því að vera með 1.5GB í vinnsluminni sem er reyndar í nálægð við öflugustu símtæki á markaðnum í dag. Þessi örgjörvi og vinnsluminni skilar sér ágætlega í vinnslu þegar búið var að opna forrit en ég rakst þó töluvert mikið á hökt (lag) hér og þar í símanum, bæði í stýrikerfinu sjálfu og þegar ég var að opna forrit og leiki (meira hér að neðan).

Galaxy S4 mini er ekki markaðssettur sérstaklega sem myndavélasími en er þó með ágætri 8MP aðalmyndavél sem og 1.9MP auka myndavél fyrir t.d. Skype símtöl eða sjálfsmyndir á Snapchat.

Eins og áður kemur fram þá er símtækið með 8GB geymslupláss sem er samnýtt fyrir stýrikerfi, forrit og margmiðlunarefni. Núna eftir 2 vikna notkun þá er ég bara með 1,94GB laust en er reyndar búinn að taka ljósmyndir og video sem taka 1.38GB. Galaxy S4 mini er með rauf fyrir microSD kort og því einfalt og ódýrt að bæta við allt að 64GB af geymslurými undir ljósmyndir og margmiðlunarefni. Einnig er hægt að sækja og setja upp lausnir eins og SkyDrive, GDrive eða Dropbox til að vista ljósmyndir og gögn.

 

 

Tengimöguleikar

Samsung Galaxy S4 mini er með 3.5″ tengi fyrir heyrnartól efst á síma ásamt hefðbundnu microUSB neðst á tæki. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf.

 

s4mini_1

 

Ég tengdi símtækið við tölvuna (Windows 8.1) til að sækja ljósmyndir sem ég hafði tekið og var það nokkuð einfalt. Síminn kom fram sem „S4 mini“ í My Computer og myndirnar þar inni í möppu sem heitir „S4 mini\Phone\DCIM\Camera“.

Galaxy S4 mini er með Bluetooth 4.0, DLNA og með þráðlausu neti eins og við er að búast en það styður 802.11 a/b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli.

Samsung Galaxy S4 mini (GT-I9195) er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja. Ég nota NFC eingöngu með NFC merkjum og þá helst til að ræsa leiðsöguforrit þegar ég set tækið í vöggu í bílnum.

LTE (4G) væðingin er komin af stað hjá Íslenskum símfyrirtækjum og verður notast við 800/1800 böndin á Íslandi. Samsung Galaxy S4 mini styður 4G að fullu en týpan sem ég prófaði heitir GT-I9195 og styður hann eftirfarandi 4G bönd: 800 / 850 / 900 / 1800 / 2100 / 2600MHz. Vitanlega virkar hann mjög vel á 3G líka þar sem ekki er komið 4G.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan í S4 mini er 1900mAh og samkvæmt Samsung má reikna með eftirfarandi endingu.

Tal yfir 2/3G: 12 tímar
Biðtími: 300 tímar eða rúmlega 12 dagar

Rafhlöðuending er mjög góð og á pari við það sem notendur mega vænta á flestum vandaðri snjallsímum. Við erum alltaf að klára daginn með töluverða hleðslu (10-40%) eftir í lok dags, jafnvel þó svo að við notum símann og myndavél töluvert í prófunum okkar.

Venjulegur dagur hjá mér er að taka nokkuð af ljósmyndum ásamt því að vera ávallt tengdur við WiFi eða 3G/4G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga. Má hafa í huga að léleg ending á fyrstu 1-2 dögum er oft eðlileg meðan símtækið er að index´a gögn notenda.

Lyklaborðið í Samsung Galaxy S4 mini er mjög gott, leysir ágætlega minna pláss sem óneytanlega er staðreynd á 4.3″ skjá (vs flaggskip). Lyklaborðið er á íslensku og lærir það jafnóðum þegar notenda skrifar inn, einnig er það með strokuinnslætti (swipe) en þá er hægt að draga fingri eftir lyklaborðinu í stað þess að smella á takkana. Eftir þennan stutta tíma er innsláttur orðinn góður og hraðinn alveg að koma hjá mér.

Stýrikerfið er einnig á íslensku sem er kærkominn viðbót og ætti að einfalda og létta mögum lífið, íslensk þýðing á kerfinu er sæmileg. Þó svo að margir valmöguleikar séu illa þýddir og ruglingslegir þá er tiltölulega einfalt að rata um kerfið.

Hér má sjá nokkur ráð sem ég tók saman fyrir Windows síma en þau eiga við önnur símtæki ef þú vilt lengja rafhlöðuendinguna .

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Samsung Galaxy S4 mini eins og fyrr segir 4.3″ og er þetta Super AMOLED Capactive skjár með Corning Gorilla Glass 2 sem leysir verkefni sitt ágætlega. Mér þykir skjárinn virka stærri en hann er í raun en það er líklega vegna þess að upplausn á þessum annars fallega skjá er bara 960 x 540 sem er vissulega vonbrigði á svona dýrum síma. Vonbrigði lýsa þessu best því stökkið er mikið frá stóra bróðir, ég hefst viljað sjá 720p skjá (að lágmarki) en ekki qHD.

Þó svo að ég tuði hér yfir upplausn og að mögulega mætti punktaþéttleikinn vera meiri en 256ppi (pixel per inch) þá er skjárinn á S4 mini mjög líflegur og skemmtilegur. Ólíkt Sony Xperia Z1 sem er vel búinn á blaði en með litlausan og daufan skjá þá er ég mjög ánægður með skjáinn á S4 sem á móti lítur ekkert of vel út á blaði.

Myndir sem ég tók á Galaxy S4 mini (default stillingar) voru 1 – 2.5MB að stærð þegar ég var búinn að hækka upplausn í 3840×2160. Samsung eru alls ekki nýliðar þegar kemur að framleiðslu myndavéla og hafa þeir lagt mikið á sig til þess að geta keppt við myndavéla síma eins og Lumia 1020 með t.d. Samsung Galaxy Zoom símanum sínum.

 

Myndavélin í Samsung Galaxy S4 mini er 8MP og tekur stærst 3264 x 2448 myndir eins og fyrr segir. Ég hef ekkert stórvægilegt útá myndavélina að setja, hún tók líflegar og góðar myndir í dagsbirtu en stóð sig oft ekki jafnvel þegar tekið var að rökva. Ég var með Nokia Lumia 1020 til samanburðar og sást greinilegur munur þegar myndir voru stækkaðar en almennt var ég mjög ánægður með myndavélina, forritið var einfalt en ekki mikið hægt að handstilla. Samsung Galaxy S4 mini er einnig með 1.9 MP myndavél á framhlið sem virkaði mjög vel í myndsímtöl í Skype og Hangout eða uppstilltar sjálfsmyndir fyrir Snapchat.

S4 mini er með LED flash sem virkaði vel fyrir myndir af styttri vegalengd en það er smá kúnst að nota það. Of stutt þá eru myndir töluvert upplýstar og of langt þá eru myndir of dimmar, þetta er algengt með LED flash og alls ekki bundið við þetta símtæki.

Ég er viss um að gæði myndavélar er næg fyrir flesta enda kjörinn í tækifærismyndir og leysir flestar Point to Shoot vélar vel af hólmi en fyrir dellukalla og áhugaljósmyndara þá mundi ég leita eitthvað annað.

 

s4mini_4

 

Linsan á Galaxy S4 mini er ekki “fljótandi” (Optical image stabilization eða OIS hér eftir) sem þýðir með mikilli einföldun að notendur þurfa að huga betur að því að halda símtækinu kyrru meðan mynd er tekin. OIS er hlutur sem ég er farinn að reikna með í svona dýrum símtækjum enda skilar OIS sér í mun bjartari og skarpari myndum þar sem ljósopið getur verið opið lengur en sést það oft best við verri birtuskilyrði.

Samsung Galaxy S4 mini tekur engu að síður ágætar ljósmyndir en það er í videóupptöku sem ég fyrst sakna OIS en þó svo að síminn taki upp mjög góð (1080p) myndbönd þá þurfti ég að vanda mig við að ná lítið hreyfðum myndum, sérstaklega ef birtan var ekki góð.

Myndavélaappið býður uppá sjálfvirka upphleðslu á ljósmyndum yfir WiFi en varðandi deilingu á aðra miðla eru valkostir margir og að mínu mati alltof margir fyrir venjulega notendur. Ég prófaði að deila mynd og taldi ég 14 mismunandi aðferðir við að deila myndinni með öðrum sem er á aðra hendina mjög gott en á hina mjög ruglingslegt eins og ég hef áður talað um.

Með smá fikti er hægt að láta myndavélaappið hlaða afritum af ljósmyndum á hefðbundnar skýlausnir eins og SkyDrive, Dropbox eða Google Drive og mæli ég sterklega með því að notendur geri það strax. Það er hægt að nota Google Photos í staðinn fyrir Album (Samsung app) og opna Photos > Settings > Auto Backup og smella þar á ON efst og þá er myndum hlaðið inn á Google+ síðu notenda.

Hátalarinn í Samsung Galaxy S4 mini er staddur neðst á bakhlið síma og skilaði hann góðum hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun. Vitanlega mæli ég alltaf með heyrnartólum frekar en að nota þessa tóngrönnu hátalara við tónlistarafspilun en hátalarinn í Galaxy S4 mini er þó góður og frekar hávær miðað við annað sem ég hef heyrt.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Galaxy S4 mini er mjög góð og ræður hann við að spila og gera “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var leikur sem ég sótti af Google Play, bíómynd af innra-minni eða af microSD korti, Youtube video eða aðra vefstrauma. Eina sem ég get gagnrýnt er að það er töluvert hik í vinnslu (lag) símanns sem finnst vel þegar verið er að hoppa á milli forrita eða ræsa upp leiki eða önnur forrit.

Galaxy S4 mini er eins og aðrir Android símar með góðum tónlistarspilara og til viðbótar við þjónustur eins og Spotify áskrift eða Google Music þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Galaxy S4 mini að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í annað en að taka ljósmyndir.

 

s4mini_5

 

Það er kostur að hafa rauf fyrir auka minniskort þar sem einfalt er að samnýta það fyrir ljósmyndir og annað margmiðlunarefni á stóru SD korti.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Samsung Galaxy S4 mini með kemur með Android Jellybean útgáfu 4.2.2 sem kom út í nóvember 2012 og er símtækið því ekki að keyra nýjustu útgáfuna af Android. Það eru um 12.5% af Android símum að nota þessa útgáfu og aðeins og 2.3% sem eru búnir að fá uppfærslu í 4.3 útgáfuna samkvæmt tölum frá Google, Simanum og Vodafone þó svo að þetta sé að þróast í rétta átt.

Samkvæmt upplýsingum á ýmsum spjallborðum þá er hægt að sækja Android 4.3 fyrir S4 mini en það skilaði sér ekki í símtækið meðan ég var að prófa það, ég fann ekkert um hvenær eða hvort S4 mini muni fá Android KitKat útgáfu 4.4 sem kom út í oktober 2013.

Galaxy S4 mini kemur hlaðinn hugbúnaði frá Samsung, sumt af honum var skemmtilegt að prófa en annað vandist ég ekki á. Meðan Sony einbeitir sér að stílhreinu Android umhverfi með Xperia Z1 þá virðist viðhorfið Samsung vera “meira er betra”. Án þess að fara nákvæma upptalningu þá áætla ég að rúmlega helmingur af þeim forritum sem fylgja með eru gagnlaus fyrir mig og taka því bara skjápláss og geymslupláss en þetta er bara mín notkun og gagnast þau líklega öðrum.

Þar sem þetta er Android sími þá fylgir Google svítan með ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv. Það eru kostir og gallar við hugbúnaðinn sem fylgir með, kostir fyrir vana (power-users) að hafa úr miklu að velja og galli er að margir eru þá með mikið af forritum sem þeir nota aldrei og taka þannig pláss og þvælast fyrir. Það er einnig truflandi að vera með á nýju tæki tvö eða fleiri forrit sem gera sama hlutinn, of mikið val er ekki endilega besta lausnin fyrir mig en hún hentar vitanlega mörgum.

Það er ýmis furðuleg virkni sem Android notendur “lenda í” þegar ýmis forrit eru notuð í fyrsta skipti. Einfalt dæmi þá kom upp gluggi sem þegar ég var búinn að taka fyrstu ljósmyndina sem spurði mig hvernig ég “vildi klára þessa aðgerð”. Þá gat ég valið hvort ég vildi skoða myndir í Gallery eða Google Photo en bæði þessi forrit eru þarna þó svo að ég noti bara annað þeirra. Það má taka fram að þó svo að ég sé nokkuð vanur snjallsímum þá kemst ég ekki yfir að þurfa að velja á milli aðferða, hvernig get ég eða “venjulegir” notendur vitað hvor er betri?

 

Varúð: Mitt persónulegt mat

Samsung eru enn með símtæki og stýrikerfið hlaðið af nýjungum og það er einfaldlega alltof mikið í gangi fyrir mig enda vil ég hafa Android eins og það kemur af spenanum (stock). Þó svo að stýrikerfið sé heilt yfir viðbragðsgott þá vel ég alltaf frekar stapíla og hraðvirka síma frekar enn gimmik sem virka misilla.

 

Sem vinnutæki þá er samstilling á vinnuskjölum milli símtækis og vinnutölvu ekki mikil án frekari viðbóta og lítið hægt að vinna með þau á síma. Ég hafði ekki mikinn aðgang að vinnuskjölum á SharePoint en það eru forrit í Google Play sem bjóða uppá frekari samþættingu. Það er hægt að sækja og setja upp Google Drive, SkyDrive eða Dropbox á borðtölvu og síma og samstilla þannig vinnu- eða skólaskjöl.

Þessi takmarkaða skjalavinnsla dugar líklega langflestum en sem vinnutæki sem ég nota mjög mikið þá er þetta frekar hamlandi fyrir mig en þetta á ekkert frekar við Galaxy S4 mini frekar en önnur Android tæki.

 

s4mini_6

 

Ég er ekki mikill app maður svo sem en ég sótti mér Facebook, Twitter, Vine, Instagram, SkyDrive, Snapchat, Dominos app og Snjallsjónvarp Símans til viðbótar við innbyggð forrit.

Leiðsöguhugbúnaður sem fylgir ókeypis með Android símum er frá Google og byggir á kortum úr Google Maps. Mín reynsla af Google Navigation er sú að þetta virkar mjög vel í borgum (sérstaklega erlendis) en er takmarkað í minni löndum eins og Íslandi og þá sérstaklega utan Reykjavíkur og annara stórborga (Akureyri ekki stórborg?). Ég er t.d. óendanlega fúll yfir því að gatan mín sé ekki enn kominn í Google Maps þó svo að hún sé aðeins 5 KM fyrir utan Akureyri og er orðin rúmlega 10 ára.

Google Navigation er með ekki með “offline” virkni þó ég hafi einhverntíma fundið viðbót sem leyfði mér að hala niður nokkra ferkílómetra svæði til að eiga á minniskorti. Þetta gerir það að verkum að kort og leiðsöguupplýsingar eru sóttar yfir 3G/4G og kosta þannig penning innanlands og er nær ónóthæft erlendis vegna kostnaðar.

Þegar ég ferðast erlendis þá er ég oft með erlent SIM kort og gat því notað Google Navigation og er það mjög gott með gagnatengingu.

 

 

Niðurstaða

Galaxy S4 mini er minnkuð útgáfa af stóra bróðir sínum Galaxy S4 og er skemmtileg viðbót við ört vaxandi Galaxy línu hjá Samsung. Stærð og hönnun er vel heppnuð og voru flestir sem prófuðu hann hjá mér ánægðir með hann og heyrði ég reglulega lýsingarorð eins og: smart, krúttlegur, fallegur, massívur og “akkúrat ég”.

Þó að ég setji út á nokkur atriði í umfjöllun þessari þá eru þau flest persónulegt mat og alls ekki lýsandi fyrir alla notendur. Það eru samt vonbrigði, miðað við verð að símtækið sé ekki betur búið vélbúnaðarlega séð en qHD skjár ásamt tvíkjarna örgjörva er minna en ég reiknaði með á nýju Android tæki í dag.

Ef þú ert að leita þér að nettum og nýjungargjörnum Android síma sem getur allt, þá er Samsung Galaxy S4 mini sannarlega tæki sem vert er að skoða betur. Myndavélin í Galaxy S4 mini er góð tækifærisvél og mögulega betri en margar heimilismyndavélar sem fólk notar í dag.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira