Microsoft Surface 2

eftir Jón Ólafsson

Lapparinn er búinn að vera með Surface 2 í nokkra daga við leik og vinnu og kominn tími á að setja eitthvað niður á blað um vélina. Þó svo að það sé um ár síðan Windows RT kom á markað þá hefur það ekki náð sér almennilega á flug. Það eru ekki margir sem framleiða Windows RT vélar og neikvæð umfjöllun hefur ekki hjálpað til.

Microsoft hafa gefið út að þeir ætli ekkert að gefast upp á þessu stýrikerfi og einhent sér á bakvið stuðning við kerfið með úrbótum og uppfærslum og ber þar helst að nefna ókeypis uppfærslu í Windows 8.1 RT. Þessi uppfærsla eins og á venjulegum tölvum lagar það sem pirraði viðskiptavini mest og gerir upplifun notenda mun betri.

Samhliða útgáfu á Windows RT í fyrra þá setti Microsoft á markað tvær spjaldtölvur. Þó svo að margir viti það kannski  ekki þá hefur Microsoft langa hefð fyrir vélbúnaðarþróun en eru þó mun þekktari fyrir hugbúnaðarþróun og sölu.

Þessar spjaldtölvur skiptast í tvær tegundir

  • Surface – spjaldtölva sem notar ARM örgjörva og Windows RT stýrikerfi
  • Surface Pro – spjaldtölva sem notar hefðbundin x86 örgjöva og keyrir á venjulegu Windows 8.x stýrikerfi.

 

surface2_7

Til að einfalda skilgreiningu þá er Surface 2 vél sannarlega spjaldtölva meðan Surface Pro 2, sem keyrir á Windows 8 PRO, er svokölluð hybrid vél sem brúar bilið á milli spjaldtölvu og fartölvu. Surface Pro 2 er í svipuðum spjaldtölvu skrokki en með vélbúnaði sem er á við það besta í venjulegum fartölvum.

Surface 2 vélin sem ég er með í prófunum er uppfærsla á fyrstu spjaldtölvunni sem Microsoft framleiddi og heitir Surface RT. Ég fjallaði um þá vél í byrjun árs og var vel sáttur við hana þó svo að það væru nokkrir gallar sem ég setti útá. Surface RT og Surface 2 keyra á Windows 8 RT sem er spjaldtölvu útgáfa af Windows 8 stýrikerfinu sem í stuttu máli virkar mjög svipað og venjulegt Windows 8 (nánar síðar).

Windows 8 kemur út í þessum útgáfum

  • Windows Phone 8  :  Windows snjallsímar
  • Windows 8.1  :  Virkar á öllum PC tölvum
  • Windows 8.1 RT  :  Fyrir spjaldtölvur sem nota ARM örgjörvum

 

Þó svo að ég hafi átt mínar vafa stundir gagnvart Windows RT þá beið ég eftir Surface 2 með töluverðri eftirvæntingu enda bentu erlendar umfjallanir til þess að þessi vél væri mun betri en Surface RT.

Ég gerði sömu mistök með Surface 2 og þegar ég prófaði Surface RT vélina,  gleymdi því að þetta „er bara spjaldtölva“ og fór að bera hana saman við fullvaxta fartölvur sem er nú varla sanngjarnt. Þessi vél er fyrst og fremst að keppa við iPad og Android vélar þó svo að aðgangur í hefðbundið Windows skjáborð geti verið ruglingslegt (meira um það seinna).

Þetta er langur inngangur en skellum okkur í prófanir og sjáum hvernig Surface 2 stendur sig og hvort þessi uppfærsla sé eins góð og af er látið.

 

Hönnun og vélbúnaður.

Hönnunin á Surface 2 heillar mig en hún er svipuð og fyrri vélin fyrir utan lit og nú er hún þynnri, léttari og hraðvirkari.

Ný og endurbætt Surface

 

Vélin er sem fyrr í magnesíumskel (VaporMg) sem gerir vélina sterkbyggða en tilfinningin sem ég fékk var að vélin sé massív og sterk. Vélin er ekki ekki með mjúkum hornum, er mjög létt eða aðeins 676 grömm og er aðlaðandi og stílhrein í alla staði.

Surface 2 er nú grá (ál- geimgrá) í staðin fyrir að vera svört og vélin verður einhvernvegin nútímalegri við það. Það er þæginlegt að halda á Surface 2 en brún meðfram skjá gerir notendum kleift að grípa vélina upp og labba með hana án þess að hafa of miklar áhyggur af skjánum. Vélin er einnig almennt stöðugri og þæginlegri í notkun en fyrri vél, sérstaklega finnst munur þegar ekki er verið er að nota vélina á borði.

 

Myndband frá hönnuðum Surface 2

 

 

 

Surface 2 er eins og fyrri vél með útsmellanlegum fæti (Kickstand) sem hafði ekki sést áður á spjaldtölvum en núna er hægt að velja um tvær stillingar sem eru 24 og 40 gráðu halli. Þetta hljómar ekki sem mikil breyting en núna er önnur stillingin eins og áður sem hentar vel ef vélin er á borði og svo hin stillingin þar sem vélin hallar meira og hentar því betur ef setið er með vélina í fanginu.

 

surface2_11

 

Sem áður er þetta frábær viðbót og gerir innslátt með lyklaborði mjög þægilegan og gott að Microsoft hlustaði á kvartanir mínar í Surface RT umfjöllun (allt mér að þakka?).

Surface 2 er með 2GB af vinnsluminni og fjórkjarna Tegra 4 örgjörva (T40, 1.7 GHz) sem er mun öflugri en Tegra 3 sem var í fyrri vél. Hann keyrir stýrikerfið og öll forrit hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel og mikill munur á vinnslunni í þessum tveimur vélum en sú fyrri “laggaði” töluvert.

Það eru tvær myndavélar á Surface 2, ein 3.5 MP að framan fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl og síðan önnur 5 MP aftaná skjánum fyrir myndatökur. Báðar sinna sínu hlutverki ágætlega en ég myndi aldrei ráðleggja notendum að nota spjaldtölvu hvort sem það er Surface eða einhver önnur við myndatökur enda það varla tilgangur þeirra.

Vélin sem ég fékk til reynslu var 32GB en einnig er hægt að fá Surface 2 í 64GB útgáfu. Eftir að ég var búinn að uppfæra vélina og afrita gögnin mín af vinnutölvunni þá var ég með um 16GB laust á vélinni, afgangur var á SkyDrive.

Einfalt er að auka laust geymslupláss með því að setja í vélina minniskort en Surface 2 er með microSD rauf fyrir það og styður allt að 64GB.

 

Tengimöguleikar

Surface 2 er,eins og fyrr segir, með microSD rauf ásamt því að vera með hefðbundið USB3 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem, minnislykil eða hvaða annað USB tæki sem þú þarft að nota. Á Surface 2 er einnig HDMI mini tengi þannig að einfalt er að tengja vélina við auka skjá, sjónvarp eða skjávarpa og senda þannig mynd og hljóð á stærri skjá með stafrænum gæðum.

Fyrir utan þetta þá styður Surface 2 Miracast sem er þráðlaus staðall sem varpar 1080p mynd og 5.1 hljóð frá tæki og í sjónvörp, skjávarpa eða skjái sem styðja staðalinn.

 

 

Besta við þessa lausn er þó að þetta er opinn og viðurkenndur staðall og því einfalt að reikna með því að þetta verði “normið” í framtíðinni. Microsoft fór rétta leið með því að gera þetta í stað þess að finna aftur upp hjólið með sér stöðlum eins og Apple gerir t.d. með AirPlay + AppleTV.

 

surface2_4

 

Vélin er með Bluetooth 4 ásamt hefðbundnu þráðlausu netkort sem styður 802.11a (a/b/g/n) og þannig allt að 300Mbps. Vélin er einnig með 3.5mm tengi fyrir heyrnartól.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan í Surface 2 hefur verið uppfærð og samkvæmt Microsoft þá má reikna með 20% lengri rafhlöðuendingu, eða allt að 10 klst útúr henni, við eðlilega notkun. Einnig má reikna með  7-15 daga bið (standby idle life) en ég náði svo sem ekki að prófa það. Hugtakið eðlileg notkun er líka alltaf sveigjanlegt en þrátt fyrir töluvert mikla notkun þá lifði Surface 2 yfirleitt í 2-3 daga milli hleðslna í þessum prófunum með töluverði notkun við Netflix áhorf, vafri á netinu og við lestur bóka. Með því að spila bíómynd (endurtaka aftur og aftur) yfir þráðlausa netið þá lifði vélin í um fjórtán klukkutíma (birta í ca 50%) sem verðir að teljast mjög ásættanlegt á alla mælikvarða.

 

surface2_9

 

Eins og kemur fram í myndbandi að ofan þá endurhannaði Microsoft líka báðar tegundir af lyklaborðum og eru nú með ljósum í tökkunum en þau heita Type Cover 2 og Touch Cover 2. Lyklaborðin smella við spjaldtölvuna með segli en það er einfalt og fljótlegt að smella því við. Annað lyklaborðið er snertilyklaborð (Touch Cover) en hit er “venjulegt” lyklaborð (Type Cover) en bæði lyklaborðin smellast á vélina með þessum segli og virka einnig sem skjáhlíf þegar ekki er verið að nota vélina. Touch Cover er mun þynnri og léttara en það var ásamt því að snertinemar fjölga mikið, Type Cover er er einnig léttara og þynnra og fer ansi nálægt því að breyta Surface 2 í venjulega fartölvu þegar það er notað.

Með því að stilla á Íslensku sem meginmál þá urðu séríslenskir stafir virkir eins og um hefðbundna PC tölvu væri að ræða. Vitanlega er Surface 2 með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina. Ef skjályklaborð er notað þá eru íslenskir stafir aðgengilegir eins og um venjulegt lyklaborð sé að ræða. Ég reikna ekki með íslensku lyklaborði (áprentaðir íslenskir sérstafir) fyrir þessa vél en íslenskir stafir eru þó virkir og á sínum stað. Vitanlega er hægt að nota lyklaborðslímmiða en þeir myndu þá skyggja á baklýsingu í lyklaborðinu.

 

Hljóð og mynd

Upplausnin á Surface RT var frekar lítil en Microsoft surface2_6

hefur bætt úr því í Surface 2 vélinni og er skjárinn nú með meiri upplausn, gullfallegur og skilaði sínu með sóma. Kannski má segja að skjárinn sé það sem hefur fengið mesta uppfærslu milli tækja og það er vel. Skjárinn er 5-snertipunkta, 10.6″ ClearType HD snertiskjár með ljósnema sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri.

Skjárinn styður nú 1920 x 1080 upplausn eða Full HD (208 ppi – Pixel Per Inch) og er frábær í öllu sem ég prófaði hann í, hvort sem það var að lesa texta, horfa á bíómynd eða bara vafra á netinu. Eftir nokkra daga með vélinni þá er ég feginn að Microsoft fóru ekki hærra með upplausnina þar sem texti sumstaðar í stýrikerfinu er nú þegar í minnsta lagi. Það er reyndar einfalt að stækka eða minnka letur í Windows 8.1 og ættu allir að finna stillingu sem hentar.

Almennt má segja að skjárinn hafi komið mjög vel út í mínum prófunum og eftirtektarvert hve svartur er djúpur og fallegur ásamt því að aðrir litir eru líflegir og raunverulegir. Alveg sama hversu mikið ég dró að texta þá gat ég ekki séð þá “pixlast” sem er aðalmálið þó að skjárinn sé “bara ” 208 ppi.

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir efst á báðum hliðum Surface 2 sem gefur henni góðan stereo hljóm hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir nota tækni sem kallast Dolby Enchanced Sound og eru hátalarar hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda. Eins og venjulega mæli ég frekar með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir á svona litlu tæki en þeir leysa þó verkið ótrúlega vel og gera Surface 2 að nothæfu tæki í að spila tónlist, bíómyndir eða annað media efni.

 

Surface 2 er einnig með tveimur hljóðnemum sem virkuðu vel í mínum prófunum, þeir eru hannaðir þannig að umhverfishljóð eyðast (Noice Cancellation).

 

Margmiðlun

Á heimaskjá er flýtivísun í venjulegt skjáborð (desktop) sem Windows notendur þekkja vel en þaðan er hægt að nálgast „My Computer“ og þau drif sem eru aðgengileg þaðan og umhverfið eins og á venjulegri fartölvu að sjá.

Ég er búinn að fara í hringi með hvað mér finnst um að hafa aðgengi að desktop í Windows RT, fannst þetta frábært yfir í að þola það ekki en núna með öflugri vélbúnaði er ég aftur farinn að fagna því. Þetta hljómar kannski ruglingslega en það er mjög þægilegt að geta t.d. nálgast innra minnið (heitir C:\ drif), flakkara, USB lykilinn eða auka minniskortið eins og að ég sé á venjulegri PC tölvu.

 

Það má segja að ég nota vélina á tvenna vegu eða sem vinnuvél og þá er aðgengi að desktop nauðsynlegt (meira að néðan) eða sem venjulega spjaldtölvu og þá er ég nær eingöngu í nýja Windows 8 umhverfinu (modern).

 

Surface 2 auglýsingingin frá Microsoft sem tekur saman helstu breytingar….

 

 

Ég gat með einföldu móti tengst nettengjanlegum flakkara sem og netþjónum (File Server) yfir þráðlausa netið eins og ég væri staddur á venjulegri PC tölvu. Þaðan gat ég einnig límt netdrif í skráarstjórann (map network drive) til þess að hafa einfaldara aðgengi að þeim. Það sem kom mér mest á óvart var að þegar ég tengdist þessum netdrifum var að þá gat ég spilað flestar bíómyndir án auka hugbúnaðar. Ég prófaði margar bíómyndir yfir WiFi og hófst afspilun mjög fljótt og virkaði algerlega fum- og hiklaust. Þetta er upplifun sem notendur eru ekki vanir að sjá í spjaldtölvu og án þess að fara of djúpt í það þá er þessi reynsla fjarri því að vera jafn ánægjuleg á iPad eða Android spjaldtölvum. Varðandi .mkv skrár þá eru til forrit í Windows Store sem eiga að spila þær en ég prófaði það ekki enda með mest allt á .avi sem virkaði fumlaust.

Það þarf svo sem ekki að opna skjáborðið (desktop) til að spila media efni af flakkara. Um leið og tækið er tengd þá kemur upp valmöguleiki sem spyr mig hvað ég vilji gera, opna til að skoða (og spila) eða nota hann fyrir afritun. Skjáhlutföllin á Surface eru 16:9 sem á mannamáli þýðir að skjáinn er Widescreen (breiður og ekki hár). Það er enn örlítið klaufalegt að snúa henni lóðrétt og greinilegt að hún er helst hönnuð til að liggja lárétt. Ég verð samt að segja að bókalestur og netvafur er frábært á Surface 2 í lóðréttri stöðu þar sem hún sýnir meira efni á skjánum en annars.

 

surface2_5

 

Forrita markaður Microsoft hefur vaxið mikið síðan ég prófaði Windows RT fyrst og get ég með sanni sagt að ég sakna ekki nokkurs nema Kjarnans, Sjónvarpi Símanns og OZ appsins. Frábær vafri og batnandi markaður gera upplifun mína af Surface 2 mun betri en hún var með Surface RT. Núna eru t.d. kominn falleg öpp frá stórum nöfnum eins og Flipboard, Facebook, Twitter og Netflix sem gera upplifun notenda mun skemmtilegri en hún var.

Surface vélarnar eru fyrstu 16:9 vélin sem ég prófa og henta þær minni notkun betur en 4:3 (t.d. í iPad) það sem ég nota vélina mest í margmiðlunarafspilun.

Ég nota snappið “(snap view) mikið en með því get ég haft tvö forrit opin á sama tíma (þæginlegt að multitaska). Með þessu þá er notandi með litið forrit eins og Twitter straum í litlum parti af skjánum (um 20%) meðan stærstur partur er laus í netvarfi eða til vinnu en það er þó hægt að draga til stiku sem aðskilur forrit til þess að stilla þetta af. Þetta er besta og í raun eina alvöru multitask lausnin sem ég hef séð á spjaltölvum og var ég yfirleitt alltaf með eitthvað forrit snappað meðan ég gerði eitthvað annað.

 

Hér er mjög skemmtilegt myndband sem stoltur Surface 2 eigandi gerði sem sýnir hversu magnað notagildi er í þessari vél.

 

 

 

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Stærsti munurinn á Windows 8.1 og Windows 8.1 RT er sá að Windows RT getur ekki notað hefðbundin Windows forrit (eins og t.d. Photoshop eða Chrome). Þess í stað styðst hún við forrit sem fylgja með ásamt því að hafa aðgang að tugum þúsunda forrita í gegnum Windows Store sem er forrita, tónlistar og leikja markaður Microsoft. Þar er bæði hægt að kaupa eða sækja ókeypis forrit en stærsti kostur við svona lokað kerfi er að stýrikerfið er mjög öruggt og algerlega ónæmt fyrir vírusum og öðrum óværum.

Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en það litla sem mig vantaði í leik og vinnu er aðgengilegt í gegnum Windows Store. Þar fann ég flest þau forrit sem mig vantaði og saknaði ég einskis nema kannski frá Íslenskum fyrirtækjum sem hafa verið afspyrnu léleg við að hanna forrit fyrir Windows 8.

Office 2013 RT fylgir með Surface 2 og það þýðir að Word, Excel, PowerPoint, OneNote og núna Outlook fylgir með vélinni. Þetta er sannarlega góður pakki og fann ég lítin mun á þessum forritum samanborið við þá Office upplifun sem ég hef í Office 2013 á fartölvunni minni.

Innbyggt í kerfið eru tveir vafrara, annar hannaður til að nota á snertiskjá og síðan hefðbundinn Internet Explorer 11 sem er bestur með mús og lyklaborði. Þegar ég var búinn að opna Outlook, 2-3 Word skjöl, Facebook, Twitter og nokkra „tabs“ í Internet Explorer þá fann ég að vélin var farin að ströggla töluvert sem verður að teljast eðlilegt, því þetta er jú „bara spjaldtölva“

 

surface2_8

 

Ég skrái mig alltaf inn á allar Windows 8 vélar (og síma) með sama Microsoft notenda (Live ID) og þetta gerir það að verkum að vélarnar samstilla sig allar. Þannig samstillti Surface 2 sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á SkyDrive).

Þetta þýðir í mjög stuttu máli:

  • Þegar ég breyti um skjámynd á Windows 8 fartölvunni þá breytist skjámyndin á Surface 2.
  • Þegar ég bý til Office skjal á fartölvu þá verður það strax aðgengilegt á Surface 2 (vice versa)
  • Ég er alltaf með sömu upplýsingar á Surface 2 og á fartölvunni og þarf því ekki lengur að senda skjöl sem ég útbý á spjaldtölvunni yfir á fartölvu með tölvupósti eða færa með minnislykli.

Sumt af þessu er hægt í iPad og Android en ekki án auka hugbúnaðar (t.d. með Dropbox eða Google Drive) og er æði takmarkað.

 

Flash efni virkar ekki á iPad og í Android stýrikerfinu en það er fullur Flash stuðningur á Windows 8 og RT. Þetta þýðir að þú getur spilað allt flash efni af heimasíðum sem er mikill kostur þar sem mikið af efni er enn í Flash og því nauðsynlegt að styðja það. Tilraunarinnar vegna prófaði ég að horfa á nokkra fótboltaleiki yfir internetið með Surface 2 og virkaði það fumlaust.

 

Surface 2 á vinnustað

Eins og kemur fram hér að ofan þá prófaði ég að skipta alveg yfir í Surface 2 sem vinnutölvu og í mínu tilviki var það hægt að mestu leiti. Ég mundi segja að 80-90% af minni vinnu fari fram í vafra, cmd, Powershell, yfir RDP og síðan með skjalavinnslu í Office. Með tengingu við SharePoint og SKyDrive gat ég unnið beint í skjölum án þess að fara í PC vélina, allt innbyggt í Surface 2.

Office upplifun á Surface 2 er eins og fyrr segir frábær og á pari við það sem ég þekki af fartölvunni minni, þurfti stundum að minna mig á að ég var að vinna á spjaldtölvu en ekki fartölvu þar sem útlit og virkni er mjög sambærileg.

Ég byrjaði með Surface 2, tengdi við hana USB3 hub og síðan fór ég að tengja við hana. Fyrst var það mús (þarf ekki lyklaborð), síðan hátalarar, síðan var það aukaskjár og þar næst netdrif og nettengdir prentarar á skrifstofu.  Mér finnst enn ótrúlegt að horfa á þessa mynd því þetta er spjaldtölva en þarna er ég með Facebook appið á Surface og Outlook á aukaskjánum.

 

surface

 

Eins og fyrr segir þá finnur vélin alveg fyrir því þegar búið er að opna mörg forrit en það var misjafnt hvað það var. Ég prófaði t.d. Outlook, IE með nokkra flipa (tabs) opna, Twitter og Facebook app og þá fann ég að vinnsla á vélinni fór að þyngjast.

Þar sem vélin keyrir á Windows RT þá er ekki hægt að skrá vélina á domain en þar sem ég tengdi hana við Exchange póstþjón þá gat ég stýrt henni með MDM (Mobile Device Management). Það er hægt að vera með marga notendur á vélinni og mappa netdrif með scriptum eins og venjulega og ef vélin týnist eða er stolið þá er einfalt að gera remote wipe í OWA eða á þjóni. Öryggi er frábært og stjórnun á RT vélum er einfalt að sinna með SCCM, InTune og EAS policy en m.a. er hægt að

  • Dulkóða öll gögn á vélinni
  • Setja hámark af vitlausum leyniorð reyndum áður en vélin wipe´ast
  • Læsingu eftir ákveðinn tíma
  • Lágmark lengd leyniorða
  • Kröfu um flókin leyniorð
  • Kröfu um endursetningu eftir x margar vikur/mánuði
  • Leyniorðasögu

Það er líka hægt að senda fyrirspurnir á vélina og fá til baka

  • Stöðu á dulkóðun
  • Stöðu á uppfærslum
  • Stöðu á vírusvörn
  • Stöðu á Spywarevörn

 

Það er einnig robust VPN stuðningur í Windows RT sem styður L2TP, PPTP, SSTP og Ipsec (IKEv2). Ég prófaði að tengast fjórum stöðum með VPN á Surface 2 og gekk það fumlaust allstaðar nema þar sem ég var með Cisco router með Group Password á hinum endanum. Mér skilst að Cisco og Microsoft séu að vinna að sér appi fyrir Windows RT sem gera það virkt en þangað til er bara að stilla routerinn rétt.

 

Hér er hægt að lesa ágæta samantekt frá Dell í skjali sem heitir “Six myths of Windows RT revealed” og svona í lokinn smá grín en þetta er auglýsing frá Microsoft sem á að sýna fram á mun meira notagildi.

 

 

 

Niðurstaða

Þó svo að útlitslega sé Surface 2 svipuð og Surface RT fyrir utan þyngd, þykkt, lit og kickstand vitanlega þá hefur hún tekið stór stökk frá fyrri vél. Surface 2 er vel hönnuð, falleg, öflug, stílhrein og góð spjaldtölva sem gæti höfðað til margra.

Fyrir mig sem Windows notenda þá skil ég ekki afhverju ég ætti að velja mér iPad eða Android vél umfram Surface 2. Ég er með Windows 8 á far- og borðtölvum hjá mér og því enginn breyting að fara á Surface 2, allt samstillir sig með SkyDrive og virkar eins og við er að búast. Ég get leikið mér eða notað Surface 2 í létta vinnu og tengt flest jaðartæki eins og heimilisprentara við vélina og það bara virkar.

Upplifunin á Surface 2 er allt önnur og skemmtilegri nú á mun öflugri vél með betri rafhlöðuendingu og mun betri snertiskjá.

 

 

Helsti kostur Surface 2 er að hún er sterkbyggð, stílhrein og einföld í notkun, ég sé fyrir mér að „venjulegir“ notendur sem og fyrirtæki geti notið hennar strax án vandræða. Vill ekki ganga svo langt að Surface 2 leysi af fartölvuna en hún fer samt ansi langt með það og hefur valdið því að ég er hættur að taka með mér fartölvuna á fundi (eða fyrirlestra, kynningar) þar sem góð Office upplifun gerir mér kleift að vinna á henni. Ég er reyndar farinn að skilja fartölvuna eftir í vinnunni þar sem Surface 2 er mitt vinnu- og leiktæki þegar heim er komið.

Það er ekki til ein spjaldtölva sem hentar öllum en Surface 2 gerir tilraun til þess og stendur sig ágætlega við það og mun betur en forveri sinn.

Stærsti kostur Surface 2 er líklega líka stærsti gallinn við hana. Hún er það sveigjanlega og hefur það mikið notagildi að segja má að hún geri mjög margt, nokkuð vel en kannski fátt frábærlega sem er andstætt við mína reynslu á t.d. iPad.

Surface 2 er vél sem ég mundi alltaf vilja hafa í bakpokanum mínum til að grípa í eða skipta alveg yfir í þegar það á við. Þetta er mjög vænlegur kostir fyrir fyrirtæki vegna EAS samþættingu, Admin stýringar með Mobile Device Management (MDM), Office pakka, VPN og öryggis.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira