Nú er komið að sjöunda viðtalinu hér á Lappari.com sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Sá sem við ræðum við í dag er enginn annar enn Hjalti “köttari” Harðarson sem stendur í stórræðum þessa dagana. Hann og félagar hans eru að ýta úr vör nýjum og þrælspennandi fréttamiðli sem heitir Kjarninn og við hvetjum þig eindregið til að skoða þennan miðil og fylgjast vel með þeim á næstunni.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég heiti Hjalti Harðarson og er köttari sem bý í Laugardalnum.
Við hvað starfar þú?
Framkvæmdastjóri Kjarnans, framtíðarfjölmiðli Íslands.
Hvernig síma ertu með í dag?
Samsung Galaxy Note 2 fylgir mér í dag, nota svo auðvitað iPad 4 mjög mikið þessa dagana.
Hver er helsti kostur við símann þinn?
Hann er stór og sterkur. Líkt og ofurhetja getur hann allt.
Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?
Að ég sé enn að bíða eftir 4.2 uppfærslu, skilst að hún sé fyrst væntanleg í haust. Svo leiðist mér hversu háður ég er orðinn þessu tæki 🙂 – er örugglega kominn með einkenni nomophobia.
Nýtist síminn við vinnu? Mögulega ómissandi?
Síminn er gjörsamlega ómissandi tæki, hvort sem það er í leik eða starfi. Í gegnum símann hef ég aðgang að öllum þeim gögnum og upplýsingum sem ég þarf að nota í vinnunni. Öpp á borð við Gmail, Google Drive, Evernote og Dropbox eru þar í lykilhlutverki, og í raun lífsnauðsynleg í fyrir lítið start-up fyrirtæki. Leggja.is appið hefur líka komið sér vel eftir að ég fór að vinna á Laugarveginum.
Á Laugarveginum er líka gott að grípa í Appy Hour appið og þá er gott að vera með Strætó appið við höndina – má ég segja Strætó?
Þar fyrir utan nota ég mest Spotify, Pocket Cast, Instagram, Twitter, Facebook og Íslandsbanka appið. Síðsumars mun ég svo lesa Kjarnann “spaldanna á milli” í snjallsímanum.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Siemens C25, keypti hann haustið 1999 þegar ég flutti til Kaupmannahafnar. Ömurleg græja en mamma var ánægð með kaupin.
Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?
Samsung Galaxy Note 3 – helst með stock Android – er ekki beint að missa svefn yfir TouchWiz en get þó allveg lifað með því. HTC One væri næstur á lista, hef í raun aldrei skilið hve fáir kaupa HTC.
Hvaða tæknisíðum fylgist þú reglulega með?
Þegar ég var í farsímamálunum hjá Símanum var listinn mjög langur en nú les ég aðallega The Verge. Til að bæta upp fyrir lítinn lestur þá hlusta ég mikið á podcast. Ég reyni að hlusta á allt frá The Verge ásamt nokkrum þáttunum frá TWiT og 5by5.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Að lokum vill ég skora á lesendur lappari.com að kynna sér Kjarnann – framtíðarfjölmiðil Íslands sem er væntanlegur síðsumars í snjalltæki nærri þér.
Síðan er það skjáskotið hans Hjalta