Ég hef verið að snjallvæða heimilið mitt hægt og rólega síðustu mánuði og ár. Partur af því var að frá mér allskonar ZigBee nema og tæki en ZigBee er samskiptastaðall, helst notaður af snjalltækjum.
Ég er með Home Assistant sem miðjuna í snjallkerfinu mínu og til að græja ZigBee í Home Assistant þá fékk ég mér ConBee II gaur sem ég stakk í vélina sem hýsir Home Assistant. Síðan paraði ég ZigBee tækin mín við Home Assistant og allt bara virkaði…. svona að mestu leiti
Ég var stundum að missa samband við mismunandi ZigBee tæki og einstaka sinnum var svartími ekkert alltof góður…. en ég var ánægður að mestu leiti því þetta var nokkuð sjaldgæft.
Það þekkja flestir sem hafa kynnt sér eða sett upp WiFi kerfi að það er skörun á WiFi rásum á 2.4GHz bandinu, þess vegna er best að skanna umhverfið og velja síðan rásir 1,6 eða 11 eftir því sem best á við á hverjum stað.
Þegar ég fór að skoða “vandræðin” með ZigBee tækin hjá mér, þá fyrst áttaði ég mig á því að ZigBee notar líka 2,4GHz bandið…. gæti mögulega verið einhver truflun þarna á milli?
Ég datt niður á nokkuð góða saman tekt á Metageek þar sem þessu er gerð góð skil en í stuttu máli þá eru þrjár rásir á 2,4GHz bandinu þar sem WiFi rásir skarast ekki eða á rásum 1, 6 og 11 eins og fyrr segir.
ZigBee staðallinn notar síðan rásir 11 til 26 fyrir sín samskipti og reglan er að ef það er truflun á milli þá WiFi og ZigBee, þá er það alltaf ZigBee sem bíður í lægri hlut.
Partur af snjallvæðingunni hjá mér var að tryggja að það væri sterkt og gott WiFi merki útum allt hús, en það var mögulega á kostnað ZigBee tækja.
UniFi punktarnir sem ég nota völdu sér nefnilega sjálfkrafa rás (þó bara 1, 6 eða 11) en þegar þeir eru endurræstir þá skanna þeir umhverfið og velja sér rás eftir því sem reyndar útskýrir kannski afhverju ég var stundum með ZigBee vandræði og stundum ekki.
Þetta varð þó nokkuð augljóst þegar ég skannaði 2.4GHz bandið hjá mér, ZigBee var greinilega að nota rás 11, eins og tveir þráðlausir punktar voru að gera.
Ég ætla svo sem ekki að kafa dýpra í þessi fræði hér, bendi bara á greinina hjá Metageek fyrir áhugasama. Eftir þessar hugrenningar mínar þá gerði ég þrjár breytingar hjá mér sem hafa gjörbreytt virkni á ZigBee tækjunum mínum.
1: Ég sótti mér deCONZ tólið fyrir ConBee II sem gerði mér kleyft að festa ZigBee netið á rásum 22 til 25
2: Ég festi þráðlausu punktana á rásum 1 og 6 sem minnkaði strax skörun á milli WiFi og ZigBee
3: Ég fékk mér 2M USB framlengingu og gat því fært ConBee II punginn frá tölvunni sem veldur truflun
Ég hefði líklega gert þetta í upphafi ef ég hefði lesið uppsetningar leiðbeiningar (RTFM)
Ótrúlegt að hafa notað ZigBee tæki í ár áður en ég fór að spá í þessu, mögulega var vandamálið of lítilvægt eða það sjaldgæft að ég fattaði þetta ekki. Mögulega er í lagi að fara að nota aftur rás 11 á WiFi punktunum þar sem ZigBee tækin eru komin lengra í burtu, prófa það líklega við tækifæri.