Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur HP ZBook vinnustöð

HP ZBook vinnustöð

eftir Jón Ólafsson

Þá er loksins komið að því… fyrsta HP fartölvan sem Lappari.com tekur í almennilegt test.

Við hér á Lappari.com þekkjum svo sem HP fartölvur og borðtölvur nokkuð vel enda erfitt að hafa unnið við að þjónusta tölvumál hjá fyrirtækjum og stofnunum, án þess að hafa sinnt HP vélum líka. Við höfum því prófað þó nokkrar týpur en aldrei farið alla leið og klárað umfjöllun. Það var því undirrituðum sönn ánægja að fá XBook vinnustöð (Workstation) að láni frá Netkerfum í þessar prófanir.

Vélin sem ég fékk heitir HP ZBook 14u G5 en hún lýtur æði vel út á pappírum og er vel búin vélbúnaði. Við nánari skoðun sést líka að einfalt er að komast að vélbúnaði til þess að bæta við t.d. vinnsluminni og hörðum diskum en það er ekki algengt núna á tímum Ultrabook véla. Núna hefur undirritaður verið með vélina í daglegri notkun í rétt um 6 mánuði og því kominn tími á að setja eitthvað gáfulegt á blað.

Hönnun

Fyrsta upplifun mín, hafandi verið ThinkPad notandi í mörg ár, var blendin. Mér fannst vélin gríðarlega falleg og vel hönnuð, vélin er sannarlega hörkudugleg en var hún nægilega sterkbyggð fyrir böðul eins og mig?


Ég tek alltaf fartölvuna með mér þegar ég fer í útköll til fyrirtækja og einstaklinga og er því vinnuaðstaða og umhverfi sem fartölvan er í, æði misjöfn. Ég var hreinlega smeykur við að þessi fallega silfurgráa vél myndi annað hvort ekki þola það eða verða leiðinlega rispuð strax en svo var nú heldur betur ekki.

HP ZBook 14u G5 er sannarlega hefðbundin fartölva í alla staði en hún leynir á sér. Þetta er sterkbyggð vél sem hentar vel í allskonar notkun. Hún svignar ekkert þó ég lyfti henni á einu horni þó það sé aldrei ráðlagt og er allur frágangur á helstu samskeytum, lömum, val á efni o.s.frv. mjög vandað.

Vélbúnaður

Vélin sem ég fékk er með 14″ IPS FHD skjá sem styður 1920 x 1080 punkta upplausn en vélin er með Intel UHD 620 skjákorti ásamt AMD Radeon Pro WX 3100 skjákorti sem ræður vel við alla venjulega vinnuvinnslu og er einnig merkilega duglegt í létt leikjaspilerí.

Helstu stærðir:
Breidd: 32,2 CM
Dýpt: 23,4 CM
Þykkt: 1,8 CM
Þyngt: 1.48kg

HP ZBook 14u G5 vélin sem ég fékk er með Toshiba XG5 512GB SSD M.2 NVMe gagnadisk og kom hann mjög vel út í mínum prófunum. Vélin sem ég fékk er með 1 x 16GB DDR4 vinnsluminni og það sem meira er, það var ein laus rauf og því ekki mikið mál að stækka vinnsluminnið í 32GB ef þess þarf.

Vélin er með Intel Core i5-8350U örgjörva (4 kjarnar / 8þræðir) sem keyrir á 1,7GHz (3,6GHZ með Turbo Boost) ásamt því að vera með 6MB Cache. Það verður seint sagt að þessi örgjörvi sé einhver letingi og í daglegri notkun spólar vélin sig í gegnum öll verkefni sem ég lagði fyrir hana.

Með þessum örgjörva, hraðvirkum disk og 16GB af vinnsluminni þá er vélin aðeins örfáar sekúndur að ræsa sig upp á skjáborð og er hún létt og skemmtileg í vinnslu. Öll forrit sem ég prófaði virkuðu hnökralaust og var almenn upplifun á stýrikerfinu og notkun mjög jákvæð og góð.

HP ZBook er með ágætis myndavél fyrir ofan skjáinn sem dugar vel í myndsamtöl. Myndavélin er 720p og sinnir sínu hlutverki ágætlega, veitir ágætis mynd í myndsamtölum við góð birtuskilyrði en strögglar við lélega birtu eins og oft með þessar vélar.

Myndavélin er með friðhelgisloku (privacy shutter) sem mér þykir frábær viðbót og ætti að vera á öllum fartölvum og spjaldtölvum í dag.

Með þessari loku er hægt að loka fyrir myndavélina með einföldu móti og þannig koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar geti notað myndavélina.

Tengimöguleikar

HP ZBook er hönnuð sem vinnuvél (markaðssett sem Mobile Workstation) og er sem slík vel búin tengjum:

  • 3-1 Kortalesari (SD, SDHC og SDXC)
  • 1 x USB Type-C 3.1 (Gen 2)
  • 2 x USB3 (annað með power-hleðslu)
  • HDMI (full stærð)
  • 3.5mm hljóðtengi
  • GB netkort og RJ45 tengi fyrir netsnúrur
  • microSIM fyrir 4G tengingu sé það keypt með
  • Tengi fyrir dokku á botni
  • Vélin er með Bluetooth 4.2 ásamt þráðlausu netkorti (Intel Dual-Band AC-8260 2×2) sem styður alla helstu staðla.

Rafhlaða, lyklaborð og mús

HP ZBook 14u G5 er með 3-cellu rafhlöðu og gefin upp með allt að 10 klst rafhlöðuendingu. Mest hef ég pínt hana í 8 klst eða fullan vinnudag, mögulega kæmi ég henni í 10 klst með meiri sparnaði.

Það er hægt að fá HP ZBook er með baklýstu lyklaborði sem ég saknaði aðeins í þessari vél.
Ég er almennt mjög gagnrýninn þegar kemur að lyklaborðum, ég er alltaf að leita að einhverri tilfinningu/upplifun sem ég kann svo sem ekki að koma orðum að. Það gladdi mig því mikið að lyklaborð HP ZBook er mjög gott. Það er kannski ekki ThinkPad frábært en eftir nokkra daga hafði ég vanist því og elska það í dag.

Takkarnir eru með hæfilegri hreyfigetu, ekki of grunnir og ekki of djúpir, heldur passlegir. Eins og ThinkPad þá eru HP ZBook með músahnapp (sníp) á miðju lyklaborði, eitthvað sem hefur einkennt ThinkPad vélar frá upphafi og fyrir ThinkPad notendur get ég staðfest að svarti snípurinn svíkur engan.

Þó svo að snertimúsin sé nokkuð nákvæm og góð þá mætti flöturinn vera aðeins stærri en þó má taka fram að eftir nokkra daga hafði hún vanist ágætlega. Fyrir utan venjulega snertitakka þá eru hefðbundnir músatakkar fyrir ofan músaflötinn.

Hljóð og mynd

Skjárinn er eins og fyrr segir með 14″ IPS FHD skjá sem styður 1920 x 1080 punkta upplausn. Allur texti og myndir komu vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði mjög vel. Hann er með ágætlega vítt áhorfshorn þannig að notendur þurfa ekki endilega að sitja beint fyrir framan hann til þess að gæði myndarinnar haldi sér. Þrátt fyrir að skjárinn sé mattur (anti-glare) þá er hann er nægilega skarpur til að henta vel í vinnu.

Það má samt taka fram að skjárinn er frekar líflaus þegar kemur að margmiðlunar afspilun og hvað er málið með þessar þykku hliðar meðfram skjánum (bazel) árið 2020?

Hátalarar eru tveir og gefa þeir merkilega góðan hljóm hvort sem hlustað er á tónlist, bíómyndir og tal á t.d. fjarfundum. Almennt finnst mér hátalarar í fartölvum lélegir vegna stærðar þeirra og duga helst í tilkynningar en þessir eru merkilega ágætir. Það er líklega vegna þess að það er Bang & Olufsen “kerfi” í vélinni en já, merkilega góðir.

Margmiðlun

Þar sem HP Zbook G5 er sannarlega öflug vinnustöð þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með mjög öflugan örgjörva, feikinóg af vinnsluminni og hraðvirkan M.2 disk, hún er því vel fær um að lesa og spila allt margmiðlunarefni með stæl.

Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum ásamt því að hún réð mjög vel við þá einföldu myndvinnslu sem ég sinni.

Hugbúnaður og samvirkni.

Vélin kemur með Windows 10 Pro og með sáralítið af forritum umfram það uppsett, sem er alltaf gott. Með Office 365 áskrift þá er vélin klár í flest öll verkefni hvort sem það er í vinnunni, heima fyrir eða í skólanum.

Ég setti þetta venjulega upp eins og Office 365 pakkann, Chrome, Adobe, Tweeten, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust, þetta er spræk og skemmtileg vél í alla staði. Eins og venjulega þá skrái ég mig inn með Microsoft notandanum mínum og við það breytast allar stillingar á þann veg sem ég vil hafa þær, enda notandinn hýstur í skýinu hjá Microsoft og samstillir hann sig við aðrar Windows tölvur sem ég nota.

Það fylgir almennt lítið af auka hugbúnaði með vinnustöðvalínunni af HP vélum enda miðaðar að fyrirtækjum.

Niðurstaða

Niðurstaðan er nokkuð einföld, þó svo að ég hafi verið með ThinkPad P1 vélina mína til samanburðar. Þessi HP ZBook vél er frábær fartölva, hún er vel hönnuð, sterkbyggð og mjög vel búin vélbúnaðarlega.

Hún hefur sannað sig vel þessa 6 mánuði sem ég hef notað hana og merki um það er að ég hef í raun og veru bara smávægilega hluti út á músina að setja, annað bara elska ég.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira