Einn vinsælasti tölvuleikur seinni tíma, Fortnite, hefur nú verið gerður aðgengilegur fyrir snjalltæki…
Upp á síðkastið hafa staðið yfir prófanir á Fortnite fyrir Android-stýrikerfið og hefur verið hægt að nálgast uppsetningaskrár beint frá framleiðanda Fornite sem er tölvuleikjafyrirtækið Epic Games.
Varla þarf að fjölyrða mikið um Fortnite en undanfarna mánuði hefur þessi tölvuleikur farið sem stormsveipur um heiminn og eru vinsældir leiksins orðnar slíkar að foreldrar víða um heim, m.a. hérlendis, eru farin að telja leikjaspilun ungmenna jaðra við fíkninotkun, slíkar eru vinsældirnar og áhrif Fortnite.
Útgáfan sem hefur verið í prófunum fyrir Android-stýrikerfið er með ýmsum nýjungum og er t.a.m. hægt að vera með gæludýr í leiknum með sér sem og nálgast ákveðin tónlistarþemu sem er hægt að nýta á meðan leikurinn er spilaður.
Fyrir áhugasama þá er hægt að nálgast beta-útgáfuna af Fortnite fyrir Android með því að smella hér.
Hægt er síðan að nálgast Fortnite fyrir iOS-tæki inn í AppStore.
Við hér á Lappari.com viljum einnig vekja athygli á að aldurstakmörkin fyrir Fortnite í snjalltækjum eru þau sömu og fyrir aðrar útgáfur af Fortnite en Epic Games hefur gefið út það viðmið að leikurinn sé ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Heimild: Epic Games