Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Lenovo ThinkPad P50 vinnustöð

Lenovo ThinkPad P50 vinnustöð

eftir Jón Ólafsson

Í lok síðasta árs kvartaði ég yfir því að langt væri liðið síðan við hér á Lappari.com höfum fjallað um ThinkPad vél. Núna er komið að þriðju Thinkpad vélinni á stuttum tíma svo það er greinilegt að einhver var að hlusta. Síðast var það Thinkpad X1 Carbon, þar áður Thinkpad 13 en núna er komið að Thinkpad P50 sem er allt önnur vel en hinar..

Disclaimer
Ég er meðlimur í Lenovo Insider sem er tæplega 200 manna hópur einstaklinga víðsvegar af úr heiminum, allt frá tölvuköllum til Youtube áhrifavalda. Vegna þessa fæ ég reglulega glaðning beint frá Lenovo í Singapore til að leika mér að..

Allt sem ég skrifa um þessar sendingar eru mínar skoðanir, byggðar á prófunum mínum og áralangri reynslu, það eru engar kvaðir frá Lenovo, aðrar en þær að ég þarf alltaf að taka það fram þegar ég fjalla um vélar sem koma beint frá þeim.

Þessi nýjasta sending sem ég fékk frá Lenovo gladdi mig mikið en þetta er Lenovo ThinkPad P50 sem á hinum endanum á skalanum samanborið við Ultrabook vél eins og Lenovo ThinkPad X1C eða ThinkPad 13. Það er minna verið að hugsa um þyngd eða hversu létt er að ferðast með hana, hér er bara hugsað um afköst og framleiðni. Lenovo P50 vélin er alls ekki ný en við kynntum þessa vinnuhesta hér á Lappari.com fyrir tæplega þremur árum síðan. Stór vinur okkar hann Atli Jarl fjallaði síðan ýtarlega um þessar vélar í þessari færslu.

Ef ég á að vera 100% heiðarlegur þá mér skrýtið að fá vél sem var orðin “þetta gömul” og í raun hætt í sölu eftir að arftakar hennar komu á markaðinn en það er erfitt að vera fúll yfir því að fá svona öfluga vél til að leika sér að. Seinna heyrði ég að Lenovo vildu kynna mér fyrir þessum vinnustöðvum, þar sem ég hef nær eingöngu notað Ultrabook vélar síðustu árin, má segja að þeir hafi viljað sjá hvort hægt væri að snúa gamla.

Lenovo ThinkPad P50 vélin lýtur ótrúlega vel út á pappírum en hún er gríðarlega vel búin vélbúnaði og á sama tíma virðist einfalt að bæta við vinnsluminni og hörðum diskum en það er ekki algengt núna á tímum Ultrabook véla. Eins og fyrr segir hef ég aldrei valið mér svona vinnuvél enda ferðast ég mikið í vinnunni minni og sá einfaldlega ekki fyrir mér að flakka með svona sleggju en sjáum hvert þetta leiðir okkur.

Hönnun

Lenovo ThinkPad P50 er hefðbundin ThinkPad vél, hún er svört, stílhrein og það er ekkert stórvægilegt sem stingur augun. Hún er massív að handleika, þung samanborið við ThinkPad X1C vélina mína en ber það með sér að vera vinnuhestur. Eftir að hafa verið með ThinkPad X1C sem aðalvélar í nokkur ár og að hafa vanist léttri og smekklegri vél þá verður að segjast að P50 vélinn er hálfgerður skridreki en hún ætti að bæta það upp með afköstum.

ThinkPad P50 er eins og aðrar ThinkPad vélar, mjög sterkbyggð að finna enda hönnuð til að standast svokallaðar Mil-SPEC kröfur. Hún er nokkuð massíf, svignar ekkert þó ég lyfti henni á einu horni og er allur frágangur á helstu samskeytum, val á efni o.s.frv. mjög vandað. Vélin er reyndar það þung að mér leið ekki vel með að taka hana upp á einu horni, gerðist ekkert svo sem en þetta er skrítið að gera.

Vélbúnaður

Vélin sem ég fékk er með 15.6″″ IPS FHD skjá sem styður 1920 x 1080 punkta upplausn en vélin er með Nvidia Quadro M2000M skjákorti sem ræður vel við alla vinnuvinnslu og er merkilega duglegt í létt leikjaspilerí.

Helstu stærðir:

  • Breidd: 37,7 CM
  • Dýpt: 25,2 CM
  • Þykkt: um 2,6 CM
  • Þyngt: 2.67kg

Lyklaborðið á Lenovo ThinkPad P50 er frábært en þetta er hefðbundið ThinkPad lyklaborð í fullri stærð ásamt því að það er talnaborð lengst til hægri. Takkarnir eru með hæfilegri hreyfigetu, ekki of grunnir og ekki of djúpir eða bara eins og ég hef lært að venjast í flestum ThinkPad vélum.  Rauði músahnappurinn sem hefur einkennt ThinkPad vélar frá upphafi er vitanlega á sínum stað og fyrir ThinkPad notendur get ég staðfest að rauði snípurinn svíkur engan ?

Músin er aðeins minni en á ThinkPad X1C vélinni minni en það vandist vel, það eru síðan hefðbundnir músatakkar bæði fyrir néðan og ofan músaflötinn. Eins og fyrr segir er rauði músatakkinn á sínum stað á milli G-H-B takka á lyklaborðinu.

ThinkPad P50 vélin sem ég fékk er með Samsung 960 PRO 512GB SSD M.2 NVMe gagnadisk og kom hann mjög vel út í mínum prófunum. Vélin er með 1 x 16GB DDR4 vinnsluminni og það sem meira er, það eru þrjár lausar raufar og því ekki mikið mál að stækka hana í 64GB.

Vélin er með Intel Core i7-6820HQ örgjörva sem keyrir á 2,7GHz (3,6GHZ með Turbo Boost) ásamt því að vera með 8MB Cache. Þetta er sem sagt HQ línan en ekki venjulegi Intel i7 U örgjörvinn sem er oftast notaður í fartölvur og er mun aflminni. Það verður seint sagt að þessi örgjörvi sé einhver letingi og í daglegri notkun spólar vélin sig í gegnum öll verkefni sem ég lagði fyrir hana. Ólíkt ThinkPad X1C þá er P50 ótrúlega dugleg í þyngri vinnslu, hvort sem það er myndvinnsla eða að keyra virtual vélar sem reyndar var það fyrsta sem ég prófaði.

Ég prófaði strax að setja upp Windows XP, Server 2012 og Ubuntu vél í Hyper-V og á sama tíma var vélin þokkalega nothæf þrátt fyrir að vera að keyra á rafhlöðunni. #PowerHouse

Með þessum örgjörva, hraðvirkum disk og 16GB af vinnsluminni þá er vélin aðeins örfáar sekúndur að ræsa sig upp á skjáborð og er hún létt og skemmtileg í vinnslu. Öll forrit sem ég prófaði virkuðu hnökralaust og var almenn upplifun á stýrikerfinu og notkun mjög jákvæð og góð.

Lenovo ThinkPad P50 er með ágætis myndavél fyrir ofan skjáinn sem dugar vel í myndsamtöl. Myndavélin er 720p og sinnir sínu hlutverki ágætlega, veitir ágætis mynd í myndsamtölum við góð birtuskilyrði en strögglar við lélega birtu eins og oft með þessar vélar.

Tengimöguleikar

Lenovo ThinkPad P50 er hönnuð sem vinnuvél og er sem slík vel búin tengjum:

  • 4-1 Kortalesari (MMC, SD, SDHC og SDXC)
  • 1 x Thunderbolt 3
  • 4 x USB3 (eitt með power-hleðslu)
  • 1 x USB Type-C
  • Mini DisplayPort
  • HDMI (full stærð)
  • 3.5mm hljóðtengi
  • Native RJ45 fyrir netsnúrur
  • microSIM fyrir 4G tengingu sé það keypt með
  • Tengi fyrir doccu á botni

Vélin er með Bluetooth 4.1 ásamt þráðlausu netkorti (Intel Dual-Band AC-8260 2×2) sem styður heilt stafróf af stöðlum eða ac/b/g/n ásamt því að hægt er að kaupa aukalega innbyggt 4G kort.

Rafhlaða, lyklaborð og mús

Fyrirfram reiknaði ég ekki með góðri rafhlöðuendingu á ThinkPad P50 vélinni, hún er einfaldlega ekki hönnuð til að taka með á kaffihúsið og eyða þar löngum tíma án þess að vera í sambandi. Vélin er með 6-cellu rafhlöðu og gefin upp með allt að 9.7 klst rafhlöðuendingu. Mest hef ég pínt hana í 8 klst eða fullan vinnudag, mögulega kæmi ég henni í tæplega 10 klst með meiri sparnaði en þessi ending kom mér mikið á óvart.

Lenovo ThinkPad P50 er með baklýstu lyklaborði sem mér líkar frábærlega við en það er hægt að velja tvær misbjartar stillingar eða slökkva alveg á baklýsingu. Ég hef lengi notað ThinkPad sem aðalvél í vinnu og lyklaborðin á þessum vélum henta mér mjög vel og má segja að þetta séu langbestu lyklaborð sem ég hef prófað á fartölvum hingað til.

Hljóð og mynd

Skjárinn er eins og fyrr segir með 15.6″″ IPS LED skjá sem styður 1920 x 1080 punkta upplausn FHD. Allur texti og myndir komu vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði mjög vel. Hann er með ágætlega vítt áhorfshorn (160 gráður) þannig að notendur þurfa ekki endilega að sitja beint fyrir framan hann til þess að gæði myndarinnar haldi sér. Skjárinn er nokkuð skarpur og ágætlega bjartur og hentar því vel í vinnu en er annars frekar líflaus.

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir fyrir ofan lyklaborðinu og gefa þeir þolanlegan hljóm hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Almennt finnst mér hátalarar í fartölvum lélegir vegna stærðar þeirra og duga helst í tilkynningar en þessir eru ágætir.

Margmiðlun

Þar sem Lenovo ThinkPad P50 gríðarlega öflug vinnustöð þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með mjög öflugan örgjörva, feikinóg af vinnsluminni og hraðvirkan SSD disk, hún er því vel fær um að lesa og spila allt margmiðlunarefni með stæl.

Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum ásamt því að hún réð mjög vel við þá einföldu myndvinnslu sem ég sinni.

Hugbúnaður og samvirkni.

Vélin kemur með Windows 10 Pro og með sáralítið af forritum umfram það uppsett, sem er alltaf gott. Með Office 365 áskrift þá er vélin klár í flest öll verkefni hvort sem það er í vinnunni, heima fyrir eða í skólanum.

Ég setti þetta venjulega upp eins og Office 365 pakkann, Chrome, Adobe, Tweeten, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust, þetta er spræk og skemmtileg vél í alla staði. Eins og venjulega þá skrái ég mig inn með Microsoft notandanum mínum og við það breytast allar stillingar á þann veg sem ég vil hafa þær, enda notandinn hýstur í skýinu hjá Microsoft og samstillir hann sig við aðrar Windows tölvur sem ég nota.

Það fylgir almennt lítið af auka hugbúnaði með ThinkPad vélum enda miðaðar að fyrirtækjum, annað er fljótlegt að fjarlægja.

Uppfærslur

Eftir mánaða notkun á skrifstofunni þá ákvað ég að þessi vél yrði mín aðal vinnuvél og því langaði mig að stækka hana samvegis. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að stækka venjulegar fartölvur en ThinkPad P línan eru svo sem engar venjulegar fartölvur.

Ég vildi setja eins mikið vinnsluminni og vélin tæki en það er hægt að setja 2x 16GB undir lyklaborðið og 2x 16GB undir loka á botni. Síðan vildi ég bæta við öðrum M2 disk og keyra stýrikerfið á RAID 0 uppsetningu ásamt því að bæta við SSD disk undir gögn.

Ég byrjað á því að kaupa festingar/sleða frá Lenovo fyrir þessa auka diska en ég keypti þessa íhluti beint af Lenovo.

  • ThinkPad Mobile Workstation Storage Kit
  • ThinkPad P50 M.2 SATA SSD Tray
  • ThinkPad M.2 SSD Tray

Þarna var ég kominn með allt sem þarf til að koma diskunum fyrir en til viðbótar keypti ég líka Workstation doccu fyrir vélina til að hafa á skrifborðinu.

Síðan keypti ég 64GB sett (4 x 16 GB – 2400MHz) af Vengeance Performance vinnsluminnum frá Corsair og Samsung 960 PRO M.2 512GB disk til að nota á móti þeim sem var í vélinni í RAID 0. Síðan bætti ég við auka Samsung 250GB EVO 860 SSD disk til að hafa undir gögn.

Niðurstaða

Þar sem þetta er fyrsta alvöru vinnustöðin sem ég prófa þá er erfitt að bera hana saman við aðrar vélar sem við höfum prófað áður. Þetta er einfaldlega allt annað kvikindi.

Niðurstaðan er samt nokkuð einföld, mér líkaði það vel við vélina að ég hætti fljótlega að nota ThinkPad X1 Carbon vélina mína á skrifstofunni en ég hef notað X1 Carbon nær eingöngu í vinnu síðustu árin. Það sem kom mér líka á óvart var að ég valdi P50 vélina umfram X1 Carbon vélina í vinnuferðum þrátt fyrir að hún sé mun þyngri….  ég þarf að hugsa þetta aðeins

Það er vitanlega ekki hægt að mæla með að lesendur hlaupi úti búð og kaupi nákvæmlega þessa vél þar sem að hún er hætt í sölu. Ég vill frekar benda lesendum á að ef þig vantar öfluga vinnustöð en vilt ekki vera bundinn við hefðbundinn turn, þá eru þessar ThinkPad P vélar gríðarlega skemmtilegur valkostur. Þær færa mér afköst á við öflugan turn en á sama tíma gera mér kleyft að taka vélina með mér heim eða á fundi ef ég þarf þess.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira