Á Mobile World Congress 2018 kynnti HMD nýjustu viðbæturnar og uppfærslurnar í Nokia snjallsímalínunni sinni. Vakti athygli að ekki einungis eru að koma uppfærslur á Nokia-símana sem komu út á síðasta ári (2018-árgerðin) heldur voru kynntir einnig nokkrir nýir símar. Einn af þeim símum sem vakti hvað mesta athygli var Nokia 7 plus. Margir vildu meina að þetta væri útspil Nokia fyrir hinn vinsæla ‚mid-range‘-markað. Stóra spurningin er hvort að Nokia 7 plus geti fylgt eftir öflugri endurkomu Nokia á snjallsímamarkaðinn sem hófst formlega í fyrra.
Nokia 7 plus
Nokia 7 plus fær þessa skemmtilegu ‚plus‘-endingu vegna þess að í fyrra kynnti HMD til sögunnar síma sem var einungis hugsaður fyrir Asíu-markað sem ber heitið Nokia 7. Ef til vill væri hægt að horfa á þessa ‚plus‘-merkingu með öðrum hætti því þetta er fyrsti Nokia-síminn sem er með skjá í hlutföllunum 18:9. Þegar kassinn af Nokia 7 plus er opnaður þá blasir við mann einstaklega glæsilegt tæki. Þrátt fyrir að skjárinn sé 6 tommur að stærð þá fer Nokia 7 plus vel í hendi. Með í kassanum er USB-C-snúra sem nýtist fyrir tölvutengingar og fyrir USB-hleðsluna sem fylgir einnig með. Stereo-heyrnartól fylgja einnig með sem og einfaldur pinni til þess að losa um SIM og minniskortaraufina á símanum.
Hleðslan er í gegnum USB-C-tengi á botninum á símanum þar sem hljóðneminn fyrir símtöl sem og stereo-hátalarinn er staðsettur. Að ofanverðu er 3,5mm hátalartengi og svo er fingrafaralesari aftan á símanum í staðinn fyrir á valmyndartakkanum á fyrri símum. Svo má nefna það að Nokia 7 plus er ekki með neina fasta takka að framanverðu heldur birtast þessir virknitakkar eins og valmyndartakkin, bakktakkinn og forritatakkinn neðst á skjánum.
Nokia 7 plus er með 6 tommu skjá sem gerir hann svipað stóran og Nokia 6.1 sem var kynntur á sama tíma og Nokia 7 plus. Geymsluminnið í símanum er 64GB og er síðan hægt að bæta við það allt að 256GB minniskorti. Vinnsluminnið er 4GB.
Nokia 7 plus keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 6.1 og Nokia 8 Sirocco á Android 8.0, betur þekkt sem Oreo-útgáfan af Android. Nokia 7 plus ræður vel við þessa nýjustu Android-uppfærslu og er í raun magnað að sjá hversu vel síminn ræður við þessa nýjustu Adnroid-útgáfu.
Hönnun og vélbúnaður
Það þarf ekki að fjölyrða mikið um hönnun og útlit Nokia 7 plus. Í einu orði sagt þá lítur Nokia 7 plus glæsilega út. Áfram fær maður hálfgert nostalgíu-kast við að handleika þessa nýju Nokia-síma þar sem þeir eru í takt við það sem áður þekktist þegar Nokia var upp á sitt besta á símamarkaðnum.. Síminn er smíðaður úr heilli álskeil eins kemur rennislétt yfirborðið einstaklega vel og ekki mikið um að rispur komi fram á símanum í venjulegri notkun.
Eins og með fyrri Nokia-síma frá HMD þá er Nokia 7 plus með þrjá takka á hliðinni; tveir takkar sem þjóna þeim tilgangi að annaðhvort hækka eða lækka hljóðstyrk símans og svo er þar fyrir neðan á hægri hliðinni fjölnotatakki sem nýtist við að kveikja eða slökkva á símanum, aflæsa skjálæsingu eða með því að tvíýta og ræsa þar með myndavélina.
Eitt af því sem hefur verið uppfært í 2018-línunni af Nokia-snjallsímum er að fingrafaraskanninn hefur verið færður á bakhlið símans. Er þetta í takt við ákveðna þróun á markaðnum og verður áhugavert að sjá hvernig notendur aðlaga sig að þessari breytingu. Nokia 7 plus er með fingrafaraskanna sem er staðsettur rétt fyrir neðan myndavélalinsuna á símanum. Þetta er án efa kærkomið fyrir þá sem eru farnir að stóla á þetta sem sína auðkenningu inn í sitt símtæki og í prófunum hefur þessi skanni virkað hnökralaust og án vandræða. Hægt er að nota fingrafaraskannann til þess að opna símtækið þegar það er læst eða til þess að auðkenna sig t.d. inn í Play Store til þess að staðfesta kaup á forriti eða niðurhal og er það að færast í aukana að mörg smáforrit sem bjóða upp á innskráningu sé farin að nota fingrafaraskannann til þess auðkenna fólk inn í forritið.
Nokia 7 plus er ekki með sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti. Myndavél er mjög snögg í gang og hægt að smella strax af myndum á augabragði.
Nokia 7 plus kemur mjög vel út vel út úr viðmiðunarprófum AnTuTu og er niðurstaðan í takt við síma sem er að keppa á hinum vinsæla miðjumarkaði. Nokia 7 plus fær 141584 í einkunn sem skilar símanum inn á topp 20-listann
Ef samanburðurinn er tekinn saman við Nokia-símana sem komu út í fyrra þá sést hvað Nokia 7 plus er að skora hátt þar:
Helstu eiginleikar:
- Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE.
- Skjár; 6 tommur, IPS LCD, 16M litir, 1080 x 2160 díla upplausn (403 PPD), Corning Gorilla Glass 3
- Örgjörvi; Qualcomm SDM660 Snapdragon 660, 2,2 GHZ áttkjarna Kryo 260 og 1,8 GHz með Adreno 512-skjástýringu
- Minni; 4GB vinnsluminni, 64GB geymsluminni ásamt microSD-kortarauf sem styður allt að 256GB
- Myndavél; Dual 12 MP og 13 MP Carl Zeiss, DUAL LED-flass með autofocus og 2x optískur aðdráttur. Selfie-myndavél; 16MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 2K og 1080P@30FPS
- Aðrir þættir; Bluetooth 5.0, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
- Stærðir; 158,4 x 75,6 x 8 mm. Þyngd; 183 gr.
Tengimöguleikar
2018-línan af Nokia-símum er öll komin með USB-C-tengi. Það nýtist fyrir hraðhleðslutækið sem fylgir með Nokia 7 plus en samkvæmt fullyrðingum HMD þá er hægt að ná 50% hleðslu á símanum á innan við 30 mínútum. Tengið nýtist líka fyrir gagnatengingu við tölvu og er hægt að nýta sér þá símann sem geymslueiningu eða til að flytja gögn af símanum yfir á tölvu. Nokia 8 styður Bluetooth 5.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 7 plus hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geta þá tengst við símann í gegnum Wifi.
Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 7 plus góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökkrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.
Hinsvegar þá er Nokia 7 plus, líkt og Nokia 8, ekki með FM-útvarpi. Samkvæmt svörum frá HMD þá var tekin ákvörðun um það að símir á miðbilinu og í efri kantinum (mid and high-range) myndu ekki vera með hefðbundinni FM-virkni. Mun þetta vera vaxandi hegðun hjá símaframleiðendum á heimsvísu og mun þarna spila inn í að einhverju leyti að stærri símafélögin hafa verið að óska eftir því að þessi virkni sé ekki til staðar. Án þess að kafa of djúpt í þær fullyrðingar nú þá er það vissulega vonbrigði að þessi virkni, sem er til staðar í Nokia 6.1, skuli ekki vera til staðar í Nokia 7 plus. Engar fyrirætlanir eru á borðinu með að opna þessa virkni líkt og þekkist hjá öðrum framleiðendum sem hafa verið í svipaðri aðstöðu en þangað til þá þarf að notast við streymiforrit líkt og TuneIn Radio til þess að hlusta á íslenskar útvarpsstöðvar eða þá að nálgast þau forrit sem eru í boði frá hverri útvarpsstöð fyrir sig.
Rafhlaða og lyklaborð
Rafhlaðan er 3800 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 25% til 30% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu.
Líkt og með 2017-árgerðirnar af Nokia-símunum þá væri hægt með takmarkaðri notkun sem myndi einskorðast við hefðbundna símvirkni eins og símtöl og SMS-skeytasendingar þá ætti ekki að vera neitt mál að ná rafhlöðuendingunni upp í tvo daga og ánægjulegt að sjá símtæki sem maður er ekki lentur í rafhlöðuveseni með rétt áður en kvöldfréttirnar byrja.
Nokia 7 plus er með íslenska útgáfu af Android-stýrikerfinu og kemur hún sjálfvalin í símanum. Google hefur verið að gera góða hluti með íslensku þýðinguna á Android-stýrikerfinu og segja má að hún sé svo gott sem komin á par við það sem þekktist áður í Symbian-stýrikerfinu sem og S40-stýrikerfinu sem Nokia notaði á sínum eldri símum á sínum tíma.
Hljóð og mynd
Skjárinn er 6 tommur að stærð en þrátt fyrir að vera með svona stóran skjá þá fer síminn ótrúlega vel. Upplausnin er 1080 x 2160 dílar sem er að skila sér í 2K-upplausn. Síminn hentar einstaklega vel fyrir áhorf, hvort sem það eru staðbundin myndskeið eða streymi af netinu. Skjáhlutföllin eru 18:9 sem gerir Nokia 7 plus einstaklega þægilegan í notkun þegar verið er að nota síminn í lóðréttri stöðu líkt og í Snapchat eða öðrum forritum sem nýta frammyndavélina.
Hátalarinn er staðsettur neðst til hægri á símanum og er bara nokkuð góður hljómur úr símanum. Síminn er einnig með 3,5mm jack-tengi fyrir heyrnartól.
Myndavél
Nokia 7 plus státar af 12 og 13 megapixla myndflögum með tvískiptri linsu og líkt með með flest alla fyrri Nokia-síma þá er myndavélin í heimsklassa og skilar af sér skýrum og góðum myndum. Myndavélin er samsett úr tveimur aðskildum linsum, annarsvegar ein linsa sem sér um að fangar Nokia hefur haft það orðspor af sér, allt frá því að fyrstu snjallsímarnir fóru í fjöldaframleiðslu, að bjóða upp á öfluga myndavélavirkni, óháð öðrum íhlutum eða gæðum hvers síma fyrir sig, í hvaða verðflokki sem er. Einnig er hægt að ræsa myndavélina annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.
Það tekur myndavélin einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndaefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndaefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira.
Það sem er líka frábært við myndavélin í Nokia 7 plus er að það er hægt að deila myndupptöku beint á netið úr myndavélinni, annaðhvort inn á Facebook eða á YouTube.
Nokia 7 plus er með Carl Zeiss-linsu líkt og Nokia 8 var með og er ánægjulegt að sjá að ódýrari símar í Nokia-línunni eru komnir með linsu frá Carl Zeiss. Einnig er Nokia 7 plus með OZO Audio-stuðning en það er hljóðvirkni sem Nokia kynnti til sögunar í Nokia 8 og er hljóðupptakan í símanum hreint með eindæmum.Það sem er þó áhugaverðast við þessa nýju Nokia-línu er að Nokia Camera Pro-myndavélaforritið er sjálfvalda myndavélaforritið í símanum. Þeir sem kannast við Camera Pro-forritið úr Lumia-símunum ættu því að taka því fagnandi því með þessu forriti er opnað á fjölmargar handvirkar stillingar þegar teknar eru myndir. Einfalt er að breyta stillingunum og sjá hvernig myndin kemur út í rauntíma á skjánum áður en smellt er af.
Margmiðlun og leikir
Nokia 7 plus kemur furðulega á óvart þegar það kemur að margmiðlunar- og leikjavirkni og gefur hann Nokia 8, sem fer að verða ársgamall sími, ekkert eftir þegar það kemur að slíkri vinnslu.
Þeir leikir sem prófaðir voru í Nokia 7 plus virkuð vel og komu mynd- og hljóðgæði mjög vel út.
Líkt og með aðra Android-síma þá er auðvitað alltaf gott að slökkva á þeim forritum sem eru í gangi hverju sinni.
Hugbúnaður og samvirkni
Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 7 plus keyrir á ‚stock‘-útgáfu af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 7 plus keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma.
Í þessum prófunum var Nokia 7 plus uppsettur með Microsoft Outlook-hugbúnaðinum varðandi samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða. Einnig voru hefðbundin samfélagsmiðlaforrit í gangi eins og Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat. Engin vandamál komu upp við notkun þessara forrita í Nokia 7 plus.
Hægt er að tengja Nokia 7 plus við tölvu með USB C-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.
Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 7 plus er engin undantekning þar og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 7 plus sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.
Android One
Nokia 7 plus, líkt og hinir nýju símarnir í Nokia-línunni keyra á því sem Google kallar í daglegu tali Android One. Þetta er heiti á ‚stock-útgáfunni‘ af Android-stýrikerfinu en eins og áður hefur komið fram þá er þetta hrein og „ómenguð“ útgáfa af Android-stýrikerfinu án neinna sérstakra viðbóta við valmyndina. Hinsvegar er ef til vill það stærsta og merkilegasta við Android One er að þeir símar sem eru með Android One-viðurkenningu frá Google eru símar sem tryggja ákveðinn fjölda af uppfærslum á stýrikerfinu sem og öryggisuppfærslum í framhaldinu. Í tilviki Nokia-símanna þá þýðir þetta að símarnir eru með 24 mánaða tryggingu á stýrikerfisuppfærslum og 36 mánaða tryggingu á öryggisuppfærslum. Fram til þessa þá hefur HMD sent frá sér öryggisuppfærslu á 30 daga fresti og hefur það gengið eftir með fyrri síma.
Niðurstaða
Það vekur gríðarlega gleði hjá undirrituðum að sjá nýju línuna af Nokia-símum koma í umferð. Ljóst er að HMD hefur verið að gera góða hluti með Nokia-snjallsímalínunni sem kom í sölu á síðasta ári og þetta árið fáum við áfram að njóta þess að hafa Nokia-síma aftur í umferð hérlendis.
Nokia 7 plus er ef til vill púslið sem vantaði í heildarmyndina því fram til þessa voru Nokia 3, 5 og 6 nokkuð þétt saman í vöruframboðinu en síðan kom hástökkvarinn Nokia 8 sem skákaði flestum af betri flaggskipstækjunum á markaðnum. Eitthvað vantaði þarna til að brúa bilið í tækjframboðinu og hefur því verið svarað með Nokia 7 plus.
Nokia 7 plus er öflugur sími sem skilar sínu og er ekkert að velkjast í vafa með hvaða tilgangi hann þjónar. Þetta er gott tæki fyrir þá sem eru að leita að hæfilegu jafnvægi milli símvirkni og verðs og ekki skemmir að síminn lítur svakalega vel út og fer vel í vasa eða veski.
Fyrir þessa umsögn var Nokia 7 plus í almennri notkun við mismunandi vorhitastig frá 24. apríl til til 3. maí þannig að umsögnin er byggð á venjulegri notkun við íslenskar aðstæður.
Auðvitað hefði verið frábært að hafa innbyggt FM-útvarp en það er víst ekki allt fengið í þessum heimi en á heildina litið þá er ýmislegt sem Nokia 7 plus kemur með í Nokia-línuna eins og optískur aðdráttur í myndavélinni og 18:9 skjáhlutföll.
Þegar á heildina er litið þá er Nokia 7 plus öflugur málsvari miðjumarkaðarins þegar það kemur að snjallsímum og ef til vill er hægt að fullyrða að Nokia 7 plus sé besti síminn á þessu verðbili hérlendis í dag.
1 athugasemd
this was really useful thank you for sharing it