Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 175 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver er þessi Arnar Freyr og hvaðan er maðurinn?
Ég er bara smábæjarstrákur með stóra drauma að reyna að fóta mig á götum Reykjavíkur. Djók, en samt ekki. Þetta er frekar spot on lýsing á mér. Ég er gangandi klisja sjáðu til. Ég er semsagt frá Sauðárkróki, 29 ára og á leið á útgáfutónleika Daða Freys á Húrra sem byrjuðu fyrir 10 mínútum.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er allur í rappinu, það er hálfgerður fjölskyldubissness. Pabbi minn var rappari, afi minn var rappari og koll af kolli. Ég hef brallað ýmislegt síðastliðin ár, gefið út nokkrar plötur, lært að elska og njóta og svo kláraði ég viðskiptafræði í HÍ þótt ég viti ekki alveg hversu vel það skilgreinir mig. Mögulega bara mjög vel. Fyrst og fremst hef ég samt fullorðnast. Það hefur verið mjög áhugavert verkefni, er spenntur fyrir framhaldinu.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Oft er líf tónlistarmannsins að mestu laust við rútínu sem getur leikið góða menn mjög grátt á skömmum tíma. Mitt akkeri er morgunrútínan. Góður dagur byrjar snemma – helst ekki mikið seinna en 8 – með kaffi og einherjum morgunmat sem er í tísku þann daginn. Svo skrifa ég aðeins, bara eitthvað, svo lengi sem ég skrifa. Svo fer ég vonandi í ræktina. Restina af deginum þarf ég oft að vera frumlegur. Þegar maður er svona sjálfstæður veltur framtaksemin öll á manni sjálfum. Það er enginn að skipa manni að gera neitt, enginn yfirmaður annar en maður sjálfur sem getur rekið mann. Þetta er það erfiðasta en jafnframt það skemmtilegasta – allt þetta þráláta frelsi. Ég og Helgi erum báðir í Úlfur Úlfur og líf okkar beggja eru á sporbaug um hljómsveitina en við erum báðir duglegir að finna okkur önnur verkefni til að sinna fjarri hvorum öðrum. Venjulegur dagar eru oftast mjög óvenjulegir.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Við höfum verið að fylgja plötunni (HEFNIÐ OKKAR) eftir, við tókum lítinn íslandstúr og í framhaldi af því evróputúr í 3 vikur. Airwaves nálgast og svo förum við fyrir hönd Íslands á Eurosonic í janúar. Við erum byrjaðir að semja tónlist að nýju eftir dágóða pásu frá stúdíóinu og svo flyt ég til Bandaríkjanna í nóvember, verð ráfandi um götur LA fram að jólum. Salka, unnusta mín og sætasta besta snilld í heimi er að fara að taka þátt í uppsetningu á leikriti þar og ég fæ að fljóta með. Meðfram þessu öllu reyni ég svo að krassa sem mest. Nóg að gera en ekki svo mikið að ég vakni sveittur.
Hvert er draumastarfið?
Að vera listamaður sem allir dýrka og kaupa listina manns, þó án þess að verða svo vinsæll að það snúist upp í andhverfu sína. Bara akkúrat á línunni þar sem maður:
- er gjörsamlega hömlulaus í allri sköpun
- fær nóg borgað til að geta slakað á og ferðast þegar mann langar
- er kúl
Haruki Murakami er t.d. sirka að lifa þennan draum. Hann er á góðum stað.
Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Þegar ég spurði Sölku hvort hún vildi verða eiginkona mín og hún sagði já. Real talk. Við vorum á í plebbalegri pakkaferð á spáni að bíða eftir mat á stað sem heitir Gaia (fattaru, alveg eins og lagið með Amabadama). Svo keyptum við hringi á 5 evur af skransala á ströndinni og spiluðum minigolf. Ég vann.
Lífsmottó?
Ég á ekkert offisjal mottó en ef ég ætti eitt slíkt væri það einhver samsuða úr „YOLO“ og „fuck the haters“ nema auðvitað orðað af meiri fágun. Það væri samt inntakið.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég lúkka mjög vel í kjólum, en það væri gamaldags að kalla það sturlað. Köllum það áhugaverða staðreynd, já, eða bara sexy staðreynd.
Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Fyrst var ég alveg „ok þetta er endalaust magn peninga, ég geri bara allt“ en svo fattaði ég að svo er ekki. Ég myndi byrja á því að ganga skynsamlegu/leiðinlegu leiðina; hóa í traustan peningamann og ráðfæra mig við hann um hvernig ég ætti að fjárfesta svo ég geti lifað á hagnaði og vöxtum út ævina ásamt fjölskyldunni minni. Um næstu skref ætla ég ekki að tala því ég þarf að passa upp á ímyndina mína.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Minn maður Helgi Sæmundur, en hann er líka besti tónlistarmaður á Íslandi
Pabbi Helga og Robbi bakari
Sverrir Bergmann
Fúsi ben
Kristján Gíslason
Býr tæknipúki í þér?
Já það er púki í mér en hann er greindarskertur
Apple eða Windows?
Ég reyndi að henda í brandara um epli að brjóta rúðu í glugga en það gekk ekki. Of skammur tími til stefnu. 25 mínútur síðan tónleikarnir byrjuðu (reyndar síðan hurðin opnaði og það er ekki séns að hann sé byrjaður EN SAMT!)
Mér er alveg sama. Bæði stýrikerfi hafa reynst mér prýðilega.
Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?
Macbook air og hún er mjög þægileg fyrir allt það sem ég geri í henni: keyra Chrome og TextEdit án þess að ég slökkvi á henni mánuðunum saman.
Hvernig síma ertu með í dag?
Samsung Galaxy Note 8
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Kostir: Allir þessir hlutir sem símar í dag eiga að gera, þúveist: Taka myndir, keyra öpp, innihalda gervigreind sem skilur og lærir á mann, skiluru? Hann gerir það betur en nokkur sími hefur gert fram að þessu. Ég á í innihaldsríkari samtölum við símann minn en margt fólk. Og hann kemur með penna! Og síðan það sem fór mest í taugarnar á mér við rununa af iPhone sem ég hef fleygt fram að þessu: Hann höndlar íslenskt veðurfar, drepur ekki bara á sér ef hitinn fer undir frostmark. Hvernig ætti ég annars að taka video af þessum sweet moves sem ég er alltaf að gera á snjóbrettinu mínu??
Gallar: Hann er ekki fær um að elska mig.
Í hvað notar þú símann mest?
Að ibba gogg, spila tölvuleiki, taka myndir og vekja mig. Ég er basic, en ég er kröfuhörð basic bitch.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Ég er nokkuð viss um að ég hafi keypt Nokia 3310 fyrir fermingarpeninginn minn – en þegar hann gaf upp öndina rokkaði ég guðfaðir allra farsíma, 5110 í nokkur ár.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Augljóslega er það lítil flaga sem er grædd inn í heilann á manni og les hugsanir peppar mann og elskar mann og elur upp börnin manns. Augljóslega.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Kannski io9, en það er meira scifi en tæknidót. Tækni í dag er samt algjört scifi. Ég kann ekkert en ég er mjög meðvitaður um tilvist hennar og fylgist spenntur með. Elon Musk da gawd og allt það. Annars followa ég bara nokkrar góðar týpur og blogg á twitter sem sjá mér fyrir öllu því sem ég þarf að vita um næsta geggjaða síma og næsta sjúklega raunverulega sexbot á markaðnum.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Undir öllum kringumstæðum myndi ég segja helling en ég er einfaldlega orðinn of seinn bæjó!