Hin árlega Google I/O-ráðstefna er formlega hafin.
Eins og við var að búast þá var Google ekkert að spara sleggjurnar þetta árið en I/O-ráðstefnan hefur fest sig í sessi sem helsti vettvangur Google til þess að kynna nýjungar á neytendamarkaðnum.
Forstjóri Google, Sundar Pichai, stóð í forsvari fyrir fyrirtækið og við tók 2 tíma kynning á því helsta sem Google ætlar að leggja áherslu á næstu misserin.
Google Lens
Hér er um að ræða nýtt smáforrit sem hjálpar notendum að greina hluti í umhverfinu. Google Lens mun verða hluti af Google Assistant og með þessu smáforriti verður t.d. hægt að greina hvað er í nærumhverfinu eins og hvaða veitingastaðir eru við götuna sem þú ert að taka mynd af, hvaða tegund þetta blóm er sem við hliðina á þér o.s.frv. Hugmynd Google er sú að þú sért í náinni framtíð ekki einungis að leita á netinu með því að slá inn texta heldur einnig með því að leita með hlutum í umhverfinu.
Ný gervigreind fyrir skýþjónustu Google
Google hefur nú sleppt taumunum á gervigreind sem hefur verið í vinnslu innandyra hjá Google fram til þessa en þessi gervigreind mun aðstoða viðskiptavini Google sem eru að nýta sér skýþjónustu fyrirtækisins og þá sérstaklega fyrir fyrirtæki sem eru að stóla á gagnaöryggi og aðra vinnslu í skýinu. Tilgangurinn með þessari viðbót er að gera skýþjónustuna hraðvirkari og áreiðanlegri.
Google Assistant fyrir iPhone
Smáforritið Google Assistant hefur fram til þessa einungis verið í boði fyrir Android-notendur en nú geta iPhone-notendur tekið gleði sína á ný því Google hefur gefið út útgáfu af Google Assistant sem hentar fyrir iPhone-síma. Eins og áður hefur verið nefnt þá mun Google Lens vinna með Google Assistant þannig að t.d. mun leit með myndavél verða órjúfanlegur hluti af þeirri notendaupplifun sem verður í Google Assistant.
Google Home-uppfærsla
Í fyrra kynnti Google snjallhátalara sem nefnist Google Home. Var sú viðbót hugsuð sem samkeppni við Amazon Echo-hátalarann og segja má að uppfærslan á Google Home haldi í þá stefnu að keppa við Amazon á þeim vettvangi. Líkt og með Amazon Echo þá verður hægt að hringja raddsímtöl með Google Home í Bandaríkjunum og Kanada. Telja margir að hérna sé hin gamla góða landlína að koma aftur sterk inn en undir nýjum formerkjum þar sem allt talsamband er framkvæmt í gegnum nettengingu. Einnig mun Google Home bjóða upp á forvirkar tilkynningar þannig að ef umferðaraðstæður eru slæmar þá mun Google Home minna fyrr á fund sem er bókaður í dagatalinu o.s.frv.
Google Photos-uppfærsla
Google lét hafa eftir sér að yfir 500 milljón notendur séu að nýta sér Google Photos og því ættu nýjar uppfærslur á þessari þjónustu að vera kærkomin viðbót. Sem fyrr þá er gervigreind farin að ráða miklu í þjónustuframboði Google og mun hin nýja gervigreind í Google Photos t.d. hjálpa til við að velja ‘réttu’ myndirnar sem eru settar sjálfvirkt í geymslu. Einnig verður hægt að útbúa sérstök albúm sem eru aðgengileg á Netinu og jafnframt hægt að panta framkallaða útgáfu af þeim og fá sent heim til sín.
Android O
Þó svo að Google hafi ekki staðfest það að þá telja flestir að O-ið í nýjustu Android-útgáfunni standi fyrir Oreo-kexkökuna. Android O var kynnt formlega á Google I/O 2017 og má segja að það sé ekki mikið um stórkostlegar breytingar á Android-stýrikerfinu með þessari útgáfu og var heldur ekki staðfest hvenær þessi útgáfa verður aðgengileg. Hinsvegar vakti önnur Android-uppfærsla enn meiri athygli.
Android Go
Go-útgáfan af Android-stýrikerfinu er hugsuð fyrir notendur sem búa á landsvæðum sem eru ekki með háhraðatengingar fyrir fjarskiptaþjónustu og mun Android Go henta vel fyrir símtæki sem eru með 1GB eða minna í vinnsluminni. Þetta er snjall leikur hjá Google enda staðfesti fyrirtækið að það eru t.d. fleiri Android-notendur á Indlandi heldur en í Bandaríkjunum og því mun þessi útgáfa af Android vera kærkomin fyrir markaði sem flestir notendur eru með minna vélbúnaðarfrek símtæki heldur en í vesturheimi. Sem dæmi þá mun verða YouTube Go-smáforrit hluti af Android Go sem gerir notendum kleyft að hlaða niður myndskeiðum og geyma á símanum til áhorfs síðar.
Google VR og sýndarveruleiki
Minna fór fyrir kynningum á sýndarveruleika og Google-tengdum lausnum á þeim vettvangi nú heldur en fyrri ár. Þó ber að nefna að Google mun vinna með HTC og Lenovo í að þróa sýndarveruleikagleraugu fyrir Daydream-umhverfið sem Google hefur verið að þróa á undanförnum árum. Einnig má nefna Project Tango sem er sýndarveruleikaþjónusta Google sem umhverfir nærumhverfið þitt í sýndarveruleika þannig að hlutir í kringum þig sýna frekari upplýsingar, líkt og Google Lens en þó með mun sterkari áhrifum. Google nefnir þessa lausn Visual Positioning System, VPS, enda er hugmyndin að notendur geti staðsett sig út frá nærumhverfinu fremur en hinni eiginlegu GPS-staðsetningu. Sem dæmi þá nefndi Google það að ef viðkomandi er með sýndarveruleikagleraugu og labbar inn í verslun að þá mun Google geta vísað viðkomandi að vöruhillunni þar sem viðkomandi vara er staðsett. Hentug lausn fyrir innhverfa viðskiptavini sem þora ekki að biðja um aðstoð.
Mike Murphy hjá tæknivefnum Quartz telur Google Lens standa upp úr af því sem Google hefur nú þegar kynnt. Þó ber að hafa í huga, að hans sögn, að Google Lens er ekki nýtt fyrirbrigði og margir hafa reynt að bjóða upp á samskonar lausn en enginn hefur enn náð að negla þetta almennilega.
Fyrir þá sem vilja fá þetta beint í æð þá er hér 10 mínútna samantekt á opnunarinnslagi Google I/O 2017: