Ég var eins og oft áður, að vafra eitthvað um Facebook í gærkvöldi þegar ég rakst á færslu á Nytjatorgi Norðurlands sem mér þótti áhugaverð. Í stuttu máli þá var einstaklingur að auglýsa app fyrir iOS tæki sem að hans sögn á að leysa vandamálið við að finna réttu gjöfina fyrir vini þína og fjölskyldu. Þetta er hljómar eins og frábært framtak og líklega hannað með okkur neytendur að leiðarljósi… eða hvað?
Mér þótti allavega þessi færsla frá viðkomandi áhugaverð af nokkrum ástæðum:
- Það kann að hljóma framandi en það er ekki allt satt og rétt sem við lesum á internetinu.
- Þessi færsla er frá eiganda Eldhaf.is sem er verslun, staðsett á Glerártorgi Akureyri.
- Samkvæmt Appstore þá er útgefandi appsins einmitt fyrirtækið Eldhaf
- Appið er ókeypis og ekki með beinum auglýsingum, hvorki frá Eldhaf né öðrum.
Fyrir það fyrsta þá er ekki til neitt í þessum heimi sem heitir ókeypis, það er alltaf einhver sem á endanum er að borga/græða/tapa á hlut sem boðin er ókeypis til notkunar. #TANSTAAFL
Þó ég hafi ekkert fyrir mér í því þá hef ég enga trú á því að verslun eins og Eldhaf sé að fjárfesta í þróunn á appi til þess eins að gefa það og græða ekkert á því, fyrirtæki eru einfaldlega ekki rekin þannig.
Ég setti því appið upp, tengdi það við Facebook eins og lög gera ráð fyrir og appið opnaðist á flipa sem heitir Popular en þar inni voru tveir listar, Recommendation og síðan Top 10. Eins og ég skildi appið þá átti ég að vafra þar um og bæta við vörum á óskalistann minn. Reyndar á líka að vera hægt að nota vafra í appinu og finna vörur sem eru ekki í appinu og bæta þeim á óskalistann en ég fékk alltaf villu þegar ég gerði það (Request failed. bad request).
Ég skoðaði því þessa lista sem eru í appinu og viti menn, af þeim 10 vörum sem röðuð sér á Topp 10 listann hjá mér, þá eru 8 þeirra seldar í Eldhafi.
Ég prófaði að vafra á eldhaf.is í tölvunni og þar má sjá að það er kominn “Add to YouWish” takki við allar vörur og þegar ég smellti á hann þá opnaðist lítill Facebook gluggi sem síðan hvarf… veit ekkert hvað hann var að gera.
Þetta fékk mig allavega til að skoða YouWish appið betur og velta fyrir mér hvert tekjumódelið sé á bakvið ókeypis öpp eins og þetta. Það eru vitanlega margar leiðir til að græða á ókeypis öppum en hér eru nokkur dæmi:
- Bjóða upp á létta (freemium) og fulla (Pro eða Full) útgáfu, létta útgáfan er með flottum kostum og virkar fyrir marga en ef þú þarft meira (sem er algengt) þá þarftu að kaupa hina útgáfuna.
- Mörg öpp eru ókeypis en hægt er að kaupa aukahluti eða viðbætur (In-App Purchases) þegar inn í appið er komið. Gott dæmi um þetta er aukaborð eða auka krónur (coins) í leik sem gerir spilara kleyft að kaupa viðbætur eða auka virkni.
- Ókeypis forrit eru oft með auglýsingaborða, þetta þekkja flestir snjalltækja notendur en oftast er hægt að losna við þessa borga gegn vægu gjaldi.
- Síðan er CPI sem stendur fyrir Cost Per Install en í þessari leið þá býðst notendum að sækja og nota appið/leikinn án endurgjalds. Síðan t.d. þegar næsta borð er að hlaðast þá kemur upp gluggi sem býður notenda að sækja forrit frá þriðja aðila. Ef notandinn gerir það þá fær forritarinn greitt, hann fær sem sagt borgað frá þriðja aðila ef notandinn setur upp forritið frá þessum þriðja aðila.
- Stuðningsgreiðslur eða sponsorship. Hér er almenna reglan að forritarinn selur þriðja aðila hugmynd að forrit sem kaupandi tekur við og þróar eða fær viðkomandi forritara til að klára fyrir sig. Hin leiðin er að forritari gerir ókeypis forrit með flottri virkni sem hann markaðssetur og safnar notendum, virkum notendum að appinu. Síðan fer forritarinn út í fyrirtækin og selur þeim aðgang að sínum notendahópi, annað hvort með auglýsingum i appinu eða með því að hagræða því á annan hátt.
- Einnig er hægt að nota svokallaða affiliate tengingu en þannig gæti þróunnaraðili fengið fyrirfram ákveðna prósentu af hverri seldri vöru sem versluð er í gegnum viðkomandi app.
Þessi upptalning er smá langloka en beintengd þessu máli því það mælir margt með því að búa til sniðugt app, bjóða það ókeypis til notenda, safna mörgum notendum og selja síðan appið eða aðgang að notendahópnum. Veit ekki með ykkur en þetta hljómar svolítið kunnulega #PlainVanilla
Til að hafa það á hreinu þá finnst mér ekkert að því að bjóða uppá ókeypis forrit og ætla síðan að græða á því þegar notendakjarninn stækkar, það gera þetta mjög margir forritarar með góðum árangri. Auglýsingar í ókeypis forritum pirra mig heldur ekki því einhvern veginn verður forritarinn að fá umbunað fyrir vinnuna sína, annað hvort með áframhaldandi auglýsingu eða með greiðslu frá mér fyrir að láta hann fjarlægja hana.
Ég varð hinsvegar pirraður á að skoða listana í YouWish appinu því appið leiddi mig að vörum sem ég hef lítinn áhuga á sem oftar en ekki voru annað hvort seldar á Eldhaf.is eða Amazon.com. Þeir sem þekkja mig vita betur en að reyna að selja mér lampa, hnattlíkan, iPhone, iPad, AppleTV eða Macbook. 🙂
Lappari hafði sem sagt grunsemdir um að gögnin í appinu séu ekki endilegar rétt eða allavega ekki byggð á neinu raunverulegu mér tengdu að öðru leiti en að ég er karlmaður. Með tengingu við Facebook átti ég von á að appið yrði nægilega snjallt til að benda mér á vörur sem ég annað hvort skoða reglulega eða allavega tala um á Facebook en svo var ekki. Ég vildi því vita hvaðan þessi Top 10 og Recommendation listinn væri tekinn því ég fékk félaga minn sem er Apple meginn í lífinu til þess að setja appið upp hjá sér og hann fékk nákvæmlega sömu lista og ég.
Ég leitaði því til YouWish á Facebook en þeir svöruðu mér strax um hæl og segja má að þeir hafi staðfest grun minn um að það væri ekkert að marka þessa lista. Framleiðendur YouWish staðfesta í þessu samtali að
- Mögulega geti fyrirtæki keypt sig inn á Top 10 listann
- Mögulega geti fyrirtæki keypt sig inn á Recommended listann
- Þeir eru að safna notendur til að eiga séns á fjárfestum og ætla erlendis með appið
- Flokkun í appi eftir tengingu við Facebook virðist bara sækja og flokka eftir kyni í dag. Seinna verður líklega hægt að flokka þetta nánar.
Þetta segir mér að listarnir í appinu eru séu að mestu gagnslausir, jafnvel má segja að appið sé þá orðið gagnslaust í heild sinni. Til hvers ætti notandi að setja upp app til að búa til gjafalista, vitandi að það sé mögulega eitthvað fyrirtæki búið að kaupa sér stæði á vinsældarlistanum sem að reikna má með að neytendur styðjist við…. ef borgað er vel, geta þau kannski keypt sér sæti á listanum sem vinir mínir sjá þegar þeir ætla að velja handa mér gjöf út frá óskalistanum mínum?
Appið YouWish sem á að bjarga neytendum frá því að “..eyða peningum í einhverja gjöf sem er svo kannski aldrei notuð..”, virðist ætla að leysa þetta með því að láta neytendur kaupa bara vörur frá þeim fyrirtækjum sem borga þróunnaraðilum mest.
Vinir og fjölskylda, ég mun birta jólagjafalistann minn á Facebook fljótlega…. þú þarft samt ekki að nota app til að sjá hann, ég mun pinna hann efst á síðuna mína.
Heimild: 5 Ways Free Apps Make Money og How Do Free Apps Make Money?