Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 140 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum þar sem dásamlegt var að alast upp, tók stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri og sótti mér eiginmann þangað í leiðinni. Ég er 41 árs eiginkona golfara, móðir þriggja snillinga, lögfræðingur og hundaeigandi með alltof mikla réttlætiskennd.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég starfa sem lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og hef gert það síðan 1. janúar 2015, áður var ég lögmaður til 8 ára og þar á undan staðgengill sýslumanns í 5 ár. Síðustu árin hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í Vestmannaeyjum þar sem við höfum búið okkur gott heimili á æskuheimili móður minnar. Frá því ég byrjaði að vinna hefur stærstur hluti tíma míns farið í vinnuna og þar hef ég alltaf haft metnað fyrir því að gera vel. Ég reyni auðvitað að sinna börnunum mínum vel en þau eru að sjálfsögðu alltaf efst á blaði og líf mitt hverfist að mestu um þau.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Ég vakna kl. 7, fer í sturtu, vek börnin, við græjum okkur í sameiningu og svo fer ég í vinnuna. Í vinnunni kemur oftar en ekki eitthvað óvænt upp á sem þarf að bregðast við svo dagarnir geta verið afar mismunandi, skipulagið er stundum fljótt að fara út um gluggann. Eftir vinnu sinni ég börnum og heimili, kíki á foreldra mína eða vinkonu, græjum kvöldmat og uppáhalds er að ná að lesa í góðri bók.
Hvert er draumastarfið?
Ég hef alltaf unnið við sakamál síðan ég byrjaði að vinna eftir nám svo ætli það sé ekki það sem ég hef mestan áhuga á að starfa við. Þau störf sem ég hef sinnt hafa verið mín draumastörf á hverjum tíma. Varðandi framtíðina þá held ég að þið verðið að spyrja Siggu Kling 🙂
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Eftir erilsama þjóðhátíð stóð til að fara í sumarfrí og reyna að flikka upp á húsið, mála og eitthvað svona skemmtilegt. Við fjölskyldan höfum notið einróma veðurblíðu eins og allir landsmenn, skotist í útilegu og notið lífsins. Í júlí fór nokkur tími einnig í ótrúlega fjölmiðlaumfjöllun sem ég bjóst ekki við annað árið í röð.
Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Fólkið mitt. Eiginmaðurinn og börnin, ég er líka hrikalega heppin með foreldra og systur og eins á ég frábæra tengdafjölskyldu fyrir norðan. Ég tel mig líka eiga bestu vini sem hægt er að eignast 🙂
Lífsmottó?
Hver er sinnar gæfu smiður.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég er rosalega klár að spranga
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
- Júníus Meyvant
- Oddgeir Kristjánsson
- Ragga Gísla (hún er Eyjakona í okkar huga)
- Jarl Sigurgeirsson
- og dóttir mín Andrea Dögg Arnsteinsdóttir 🙂
Býr tæknipúki í þér?
Það held ég varla, að minnsta kosti er afar djúpt á honum þá. En það er alltaf gaman að fá nýjar græjur, hvort sem það er sími, hrærivél eða borvél.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Windows
Hvernig síma ertu með í dag?
Samsung Galaxy S7 edge (innskot Lappara – umfjöllun)
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Í símanum er frábær myndavél, skjárinn er að hárréttri stærð, síminn er þunnur og passar vel í rassvasa, rafhlaðan endist lengi og það tekur stuttan tíma að hlaða hann. Gallinn er að það er trix að screenshotta en það snýr kannski meira að mér en símanum 🙂
Í hvað notar þú símann mest?
Hringja, taka myndir, skoða og senda tölvupóst, fara á netið og skoða facebook. Hann er líka vekjaraklukkan mín og veðurspáin.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
NOKIA 5110
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Sími sem þarf aldrei að hlaða 🙂
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Uh… þessi er alltof auðveld, lappari.com auðvitað.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Lífið er núna, lifum því lifandi