Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 139 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Þangað til nýlega sagðist ég alltaf bara vera stelpa úr Hlíðinum. En svo var mér bent á að ég væri orðin allt of gömul. Svo núna er ég miðaldra bókavörður úr Hlíðunum sem er besta hverfið. Ekki síst eftir að Bus hostel barinn opnaði í Skógarhlíð. Við köllum hann Kaffi Aust. Ég er mikill aðdáandi bjórs og krúttlegra kattavídjóa. Uppáhaldsbjórinn minn er happy hour bjór og þegar ég verð stór ætla ég að verða scottish fold kettlingur
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég vinn við að klappa og strjúka bókum á bókasafni og koma þeim á aðra eins og ég get. Það er ótrúlega gott að vera alltaf í kringum bækur og bókelskandi fólk. Bækur og kaffi er það eina sem við þurfum til að eiga innihaldsríkt og gott líf.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Fyrsta hálftímann eftir að vekjarinn hringir er ég alltaf sannfærð um að ég sé stödd í víti. Ég heilsa kettinum afturábak á latnesku og hita mér kaffi með reyknum sem kemur út um eyrunum á mér. Svo labba ég í vinnunni og sættist við heiminn á meðan ég hlusta á góða tónlist.
Hvert er draumastarfið?
Ef ég þyrfti einhvern tímann að fá mér aðra vinnu væri ég spenntust í að vinna á bókakaffihúsi við við prufa pizzurnar og franskarnar þeirra. Það væri mjög næs.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Já, ég er að æfa mig að segja já við öllu sem mig langar að prófa en þori ekki. Það hefur bæði verið bæði skemmtilegt og gefandi. Hef kynnst nýjum vinum og upplifað nýja skrítna en flesta hluti.
Svo er ég vinna í því að powerpósa meira. Allar kúl stelpurnar eru að því.
Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Vaginaboys sendu mér kyssu emoji í dm á twitter. Ég skoða þau skilaboð svona 18 sinnum á dag og dæsi af sælu.
Lífsmottó?
Buxnaleysi gerir allt skemmtilegra
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég keypti mér einu sinni disk með söngkonunni Jewel og elskaði hann. Þess vegna er mjög óheppilegt hvað ég er sjálf dómhörð á tónlistasmekk annarra.
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Mig langar til að trúa því að mér bæri gæfa til að gefa þær til góðgerðamála. En kannski myndi ég bara eyða því öllu í að búa til rappplötur og gosbrunna sem væru eftirmynd af mér að shotgunna Slots bjóra, það blundar alltaf smá í mér þannig þörf.
Topp 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Af þeim sem ég reyni alltaf að fara á tónleika með eru Reykjavíkurdætur þær einu sem kenna sig bókstaflega við bæinn minn . En úr 105 eru margir frábærir tónlistarmenn. Ég segi öllum úr öðrum hverfum að DJ Flugvél og geimskip sé með sterk tengsl við hverfið, en hef ekki alveg 100% sannreynt hvort það sé rétt hjá mér. Svo finnst mér hún Donna búa til frábæra tónlist. Síðustu vikur hef ég svo verið að hlusta á strák sem býr í hverfinu sem heitir Páll Ivan frá Eiðum. Mér finnst lögin hans skemmtileg, enda fjalla sum þeirra um pizzur.
Býr tæknipúki í þér?
Ekki að því marki að ég bíði með öndina í hálsinum eftir árlegu vöruskránni frá Íhlutum, eins og sumir vinir mínir. En mér finnst rosalega gaman að skoða og pæla í græjum og hef gert dálítið að því kaupa mér alls konar sem ég reynist svo hafa mismikil not fyrir. Ég á til dæmis gott úrval af eldhúsgræjum en ég kann samt ekki einu sinni að sjóða kartöflur. Svo skoða ég hlaupaöpp og græjur af miklum móð. Það er sagt að það sé mikilvægt að hugsa um heilsuna og ég geri það alveg samviskusamlega. Það er bara þegar kemur að því að framkvæma eitthvað í hennar þágu sem ég klikka.
Uppáhalds appið þitt?
Couch to 5K runner er besta hlaupaappið fyrir antisportista eins og mig. Að hafa orðið sófi (couch) í nafninu lætur mig hafa það á tilfinninguna að þetta sé app sem skilji mig.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Eitt sem er alveg yfirdrifið nógu gott fyrir mig.
Hvernig síma ertu með í dag?
Mig langar í glænýjan iPhone en Samsung síminn minn er mjög fínn fyrir mig. Það tók mig smástund að venjast honum eftir að hafa verið með apple en það tókst á endanum með hjálp ungra vina og unglingaskyldmenna sem höfðu þolinmæði í að koma mér upp á lagið með þetta.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Helsti kostur: Það eru alltaf svo skemmtilegir vinir að senda mér alls konar skilaboð í hann.
Galli: rafhlaðan mætti alveg endast aðeins betur.
Í hvað notar þú símann mest?
- Hlusta á tónlist
- Hlusta á podköst
- Tékka á samfélagsmiðlum
- Sem vekjaraklukku
- Fyrir hlaupaöpp
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Það man ég ekki, en uppáhaldssíminn var einn sem takkarnir duttu af svo ég gat ekki sent sms þegar ég var drukkinn. Það forðaði mér frá alls konar axarsköftum.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Sími sem hjálpar mér að yfirvinna: tala-í-símann-fóbíuna mína og sími sem ég get hlustað á um nætur án þess að neinn annar verði þess var. Ég get nefnilega ekki sofið í þögn og þarf því alltaf að sofa með headfóna sem er smá glatað.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Það kemst nú engin með tærnar þar sem Lappari.com hefur hælana. En þar á eftir skoða ég reglulega RunnersWorld fyrir hlaupagræjurnar og öppin. Ímynda mér að ég muni alltaf nenna miklu oftar út að hlaupa með réttu græjurnar.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Ég fer stundum á Bar Ananas bara af því að barþjónarnir þar eru svo næs. Prófið það næst þegar þið eruð eitthvað deprímeruð. Þið svífið út efti 3-4 drykki.