Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 103 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Sunna Ben heiti ég, 26 ára fjöllistakona úr Vesturbænum.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég hef verið í ljósmyndateyminu hjá QuizUp síðan í Mars 2014, á kvöldin þeyti ég skífum og hef gert síðan 2012. Þess á milli reyni ég að framleiða og pranga út listaverkum, en ég er með mjög gagnlega háskólagráðu í myndlist.
Hvert er draumastarfið?
Úff það er svo margt! Skemmtilegast væri að komast á þann stað að geta unnið í myndlist allan daginn og getað lifað vel á því, en það er samt svo margt annað sem mig langar að prufa, til dæmis að vinna á auglýsingastofu og að flúra.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Flesta daga byrja ég á því að borða Superbar í einum bita, skutlast í ræktina, fer í vinnuna, skoða þar myndir af köttum í 8 klukkutíma (ok það væri mjög góður dagur, það eru meiri líkur á að það væru myndir af krikketspilurum eða umferðaskiltum), fer heim, legg mig, kaupi rakan sushibakka í Hagkaupum, Snapchatta ávaxtalistina í Hagkaupum, tísti um eitthvað mjög mikilvægt, horfi á bubbann á Snapchat, kveiki á regnskógarhljóðunum á Spotify og sef.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Það er rosalega mikið að gera í plötuþeytingum þessa dagana, sérstaklega yfir Airwaves, þá spila ég út um allar trissur og hlakka mikið til! Þess utan var ég að kaupa mér sjónvarp sem og reyni að sinna glápi samviskusamlega þegar ég hef tíma. Annars bara grínast á Twitter, reyna að framreiða hinn fullkomla Spotify playlista og skipuleggja heimsyfirráð.
Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?
Ég er meira og minna nettengd allar mínar vakandi stundir, ég vinn við tölvu á daginn og notast við tölvu þegar ég er að DJ-a, þess á milli er ég iðulega að gilla við símann minn.
Lífsmottó?
“You can do it put your ass in to it” – Ice Cube, 2000.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?
Ég fór á fyrsta fylleríið mitt ellefu ára heima hjá vinkonu, þegar mamma hennar kom inn földum við flöskurnar í hraði og hana grunaði ekkert, hinsvegar tókst mér að sparka í eina flöskuna í hamaganginum, það lak vín á gólfið, heimiliskötturinn komst í það og varð haltrandi fullur. Ég sárskammast mín enn, en kisi hlaut engan varanlegan skaða af.
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Mér væri ekki treystandi fyrir þessháttar fjárhæð, þessvegna tek ég ekki þátt í lottó.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Úff, ég ætla að nefna nokkur góð og vona að þau séu af stórhöfuðborgarsvæðinu, ég er mjög illa að mér í baksögum íslenskra tónlistamanna upp til hópa: Haukur Morthens, Kælan mikla, Gísli Pálmi, Cell7 oooog Ellý Villhjálms.
Hver er besti tónlistarmaður landsins?
Gísli Pálmi.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
iOS að eilífu!
Hvernig síma ertu með í dag?
Kampavínsgylltan iPhone 6, hann er veðbjóðslega sætur.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Hann er mjög fallegur, passar vel í hendi og hagar sér almennt vel. Selfie sjomla eins og ég myndi þola betri fram-myndavél en það er ekkert akút mál. Svo klárast batteríið reyndar svolítið hratt en það er sennilega mér og minni Snapchat áfergju að kenna.
Í hvað notar þú símann mest?
Twitter, Instagram, Snapchat, Spotify og vekjaraklukkuna.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Ég fékk glæsilegan Ericsson loftnets hnullung í jólagjöf þegar ég var ellefu ára og átti hann í smá stund, svo keypti ég mér stórglæsilegan Nokia 3310 fyrir barnapössunarpeninga stuttu síðar.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Ég er til í hvað sem er nema svona agnarsmátt skrípi sem maður treður í eyrað á sér.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Engum, sorrý!
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Free Gucci Mane.