Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 100 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Þó að okkur hér á Lappari.com þyki jafnvænt um öll viðtölin okkar sem birts hafa, þá er viðtalið í dag svolítið sérstakt. Viðtal dagsins er númer 100 í röðinni en þykir okkurer ótrúlegt að hugsa til þess hversu vel okkur hefur gengið að halda þessu við. Þessi liður byrjaði fyrir rælni hjá okkur í fréttalausri viku en hefur síðan haldið sér nær undantekningalaust allan þennan tíma.
Viðtalið í dag er við ungann og frambærilegan herramann sem farið hefur mikinn á Twitter síðan hann byrjaði þar, ef þú ert á Twitter þá er @sentilmennid einn af þeim sem þú verður að fylgjast með…
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Haukur Dór Bragason, fæddur og uppalinn Skagamaður sem fluttist á mölina eftir framhaldsskólanám.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég starfa við hitt og þetta, mest við kennslu. Ég hef kennt náttúrufræði, íslensku, ritgerðasmíði og textagerð nemendum frá 13 til 50 ára aldurs (allt frá unglingastigi grunnskóla upp í undirbúningsnám fyrir háskóla). Síðan hef ég tekið að mér talsverðan prófarkalestur, alls kyns texta- og hugmyndasmíði – já, og gift hátt í 50 pör.
Hvert er draumastarfið?
Þegar stórt er spurt. Ég veit það ekki, ég er ekki búinn að finna það. Sá sem getur boðið mér það starf má endilega hafa samband. Ég fer ekki fram á mikið (þetta er lygi), bara nógu góð laun til að ég geti einbeitt mér eingöngu að því starfi, sveigjanlegan vinnutíma, góð frí og að geta nýtt hæfileika mína við texta- og hugmyndavinnu og samskipti við fólk. Og að sjálfsögðu hryllilega skemmtilega samstarfsfélaga sem er gefandi að eiga samskipti við.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Hann hefst á því að ég vakna við vekjaraklukku og hugsa: „Af hverju fór ég ekki fyrr að sofa í gær? Ég ætla að gera það í kvöld.“ Ég geri það að sjálfsögðu aldrei. Ég skil ekki A, og eiginlega ekki B heldur. Ég fann upp C-týpuna en get samt lifað í heimi A-mannsins þegar ég neyðist til þess. Ég tek mér síðan yfirleitt góðan tíma í að setja saman dress dagsins, en herrafatatíska er mikið áhugamál hjá mér. Fer svo dressed to kill til vinnu og næ góðum tíma með konunni minni og dóttur eftir það. Um kvöldið er mjög líklegt að ég kíki í tölvuleik, horfi á þátt með konunni eða nái að plata eitthvað fólk með mér í borðspil. Síðan hangi ég of lengi á Twitter og fer seint að sofa.
Lífsmottó?
Ég reyni eftir fremsta megni að fara eftir þessu: „Komdu fram við alla eins og herramenn, ekki endilega af því að þeir eru það, heldur því þú ert það.“ Það gengur yfirleitt vel en getur í sumum tilfellum reynst erfitt og þá á ég til að detta í mottó frá Nucky Thompson: „I treat people as gentlemen until they prove otherwise.“
Sturluð staðreynd um þig sem enginn veit?
Ef það væri til sturluð staðreynd um mig sem enginn vissi væri afar líklegt að ég vildi halda því einmitt þannig!
Ég get hins vegar boðið upp á nokkrar staðreyndir og a.m.k. ein þeirra ætti að koma hressilega á óvart sama hvernig fólk þekkir mig, enda passa þær ekkert sérlega vel saman:
Ég er þungarokkari, ég hlusta aðallega á mjög harða tónlist sem enginn hefur heyrt um.
Ég vann tvo Íslandsmeistaratitla í unglingaflokkum í golfi.
Ég er goði hjá Ásatrúarfélaginu og með vígsluréttindi frá innanríkisráðuneytinu.
Ég er Eurovision-nörd og fyrir mér er Eurovision þriggja mánaða tímabil á hverju ári.
Ég vann sem landvörður í Jökulsárgljúfrum og bjó annars vegar í Ási við brún Ásbyrgis (fór í vinnuna með því að klifra reipi niður hamrana) og hins vegar í rafmagnslausum skála í Vesturdal.
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Þetta verður svo típískt svar að ég fæ smá óbragð í munninn… Ég myndi ferðast, kaupa hús, betri bíl, tíu sérsaumuð jakkaföt, leggja eitthvað til hliðar og styrkja góðgerðarmál með stórri summu.
Hver er besti tónlistarmaður landsins?
Eiríkur Hauksson, og þó mér fyndist í hjarta mínu að það væri einhver annar en Eiríkur Hauksson þá myndi ég samt segja Eiríkur Hauksson. Svalasti sonur Íslands.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég er með Windows 10 og kann mjög vel við viðmótið og breytingarnar. Ég kunni aldrei vel við Windows 8 þannig að þetta er svolítið það sem ég hef verið að bíða eftir.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er Androidmegin í lífinu og er með rúmlega ársgamlan LG G3.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Stór og góður skjár, fínn hraði og fín myndavél miðað við símamyndavél. Helsti gallinn við hann er að vekjaraklukkan í honum á til með að finna til með mér og hringja á bilinu 2 til 13 mínútum seinna en ég stillti hana á. Þetta er ekki lygi – og ég er ekki týpan sem snúsa óafvitandi (þetta gengur heldur ekki upp í 5 mínútna snústímann). Þetta er bara einhver stórfurðulegur galli.
Í hvað notar þú símann mest?
- Tölvupóstur (Google Inbox)
- Skipulag (Google Calendar, Google Keep)
- Snapchat
- Heimabanki
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Það var Nokia 5110 sem ég gríp í þegar nýja draslið er bilað…
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Hann þarfnast í fyrsta lagi ekki málma sem eru grafnir upp af börnum sem „vinna“ með byssuhlaup í bakinu né samsetningar í ómannúðlegum aðstæðum. Hann er ekki úreltur innan árs og rafhlaðan í honum endist miklu, miklu lengur – bæði hver hleðsla og líftími hennar. Þetta er svona það helsta sem ég vil sjá. Já, og vekjaraklukku sem hringir á þeim tíma sem ég stilli hana á.
Hér koma nokkrar spurningar frá Twittersamfélaginu, en Haukur er mjög virkur á Twitter og geta áhugasamir followað @Sentilmennid.
1) Er denim on denim ennþá bannað?
Svarið er nei ef þú svarar annarri hvorri af þessum spurningum játandi:
a) Er tíundi áratugurinn?
b) Ertu David Hasselhoff?
Ef ekki, þá er svarið já.
2) Slaufa eða bindi?
Bindi, ég er lítið fyrir slaufur. Á nokkrar en þær bind ég sjálfur. Ég myndi aldrei ganga með forhnýtta slaufu. Það er bara eins og að ganga með smellu- eða teygjubindi, sem sagt bara fyrir börn. Bindið ykkar eigin slaufur, kæru hipsterar.
3) Ef bindi, hvaða hnútur?
Maður þarf að kunna marga hnúta því hnútur þarf að passa við skyrtukragann og fílinginn í dressinu. Hnútur er heldur ekkert bara hnútur því bindi eru misefnismikil og misbreið og hnútarnir eftir því. Það er því nauðsynlegt að kunna a.m.k. þrjár stærðir af hnútum og skilja hvaða stærð kraginn kallar á.
4) Leður eða lakkskór?
Er þetta trick question? Lakkskór eru úr leðri. En svarið er að sjálfsögðu hvort tveggja!
5) Toppurinn að vera í teinóttu?
Á þeim tíma sem lagið var samið: Já.
Í dag: Nei.
6) Eru támjóir skór málið fyrir veturinn?
Ef þú vinnur úti þá er það ekki málið. Fæstir gera það nú heldur skjótast rétt á milli húsa eða út í bíl. Þá er ekkert mál að vera í flottum skóm. Svo er hægt að kaupa sérstakar skóhlífar sem verja skóna gegn rigningu og snjó.
7) Loðin bringa eða bak?
Ekki loðið bak, takk.
8) Gleraugu eða linsur?
Stundum gleraugu og stundum linsur. Maður á að varast að vera alltaf eins.
9) Tví- eða þríhnepptir jakkar?
Þríhnepptir jakkar eru hallærislegir nema um sé að ræða utanyfir-/útijakka. Blazerar og jakkafatajakkar eiga að vera tvíhnepptir.
10) Verða ekki allir að eiga netaboli?
Jú, en mega bara aldrei segja neinum frá því.
11) Timberland eða Doktor Martins?
Fyrir unglinginn þinn? Doctor Martens.
Fyrir þig? Grow up!
12) Alskegg, þriggjadaga eða rakað?
Stundum alskegg, stundum þriggja daga, stundum rakað. Það er stórhættulegt að festast í lúkki. Maður verður að breyta til, pæla í sér og koma á óvart.
13) 66°N eða Cintamani?
Það hefur kannski eitthvað breyst síðan ég var í björgunarsveit, leiðsögumennsku og landvörslu en þá var 66°N mun meiri klassi en Cintamani.
Munið samt gullnu regluna: Flíspeysur eru einungis leyfðar í óbyggðum.