Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Nvidia Shield TV Pro 4K – 16 GB

Nvidia Shield TV Pro 4K – 16 GB

eftir Jón Ólafsson

Þessi umfjöllun á þessu tiltekna tæki, kemur eftir töluverðar pælingar hjá mér varðandi snjallsjónvörp og hvað ég vil fá út úr þeim. Forsagan er sú að ég er með 2015 árgerð af Sony snjallsjónvarpi sem keyrir á Android TV stýrikerfi. Ég hef alltaf verið mjög ánægður með myndina úr tækinu og er það enn í dag en snjallhlutinn er ekki alveg jafn snjall og hann var í upphafi.

Sjónvarpið virkar vel, myndgæðin eru frábær en snjallhlutinn er orðin úr sér genginn og frekar hægvirkur með öllum forritum í gangi. Snjallöppin sem ég hef verið að nota síðustu árin eru helst Youtube, Netflix, Sjónvarp Símans appið, Stöð 2 appið, IPTV, Plex og ViaPlay, svo eitthvað sé nefnt.

Flest þessara forrita virka ágætlega beint á Sony tækinu, en eins og fyrr segir þá er tækið orðið hægvirkt og öppin hrynja stundum, líklega út af minnisleysi. Þessu til viðbótar er tækið er enn að keyra Android TV 7 en það hefur ekki fengið uppfærslur frá Sony í mörg ár. Nýjasta útgáfan af Android TV er útgáfa 9.

Á ég að sætta mig við þennan hægagang, kaupa mér nýtt sjónvarp eða skoða öflugt TV box sem keyrir á nýjustu útgáfunni af Android TV?

Þetta leiðir mig (loksins) að þessari umfjöllun en ég hafði sambandi við Elko sem lánuðu mér Nvidia Shield TV Pro í smá prófanir. Ég segi smá en hef nú notað Nvidia Shield í rétt um mánuð og því líklega orðið löngu tímabært að setja nokkur orð á blað um upplifun mína og reynslu.

Hvað er þetta?

Nvidia Shield er á pappírum öflugur margmiðlunarspilari sem streymir allskonar efni svo sem kvikmyndir og þætti í allt að 4K gæðum (HDR).
Þrátt fyrir að lítið hafi reynt á það hjá mér þá er einnig hægt að spila leiki á Nvidia Shield Pro og meira að segja seldur stýripinni til að nota með spilaranum.
Bæði er hægt að sækja leiki í Google Playstore eða með því að setja upp GeForce Now og þannig fá aðgengi að PC leikjum.

Þetta kemur í pakkanum

  • Nvidia Shield TV Pro 16 GB
  • Nvidia Shield fjarstýring
  • Spennubreytir

Helstu upplýsingar

  • 16GB geymslurými, stækkanlegt með utanáliggjandi gagnageymslu
  • NVIDIA Tegra X1 örgjörvi með NVIDIA GPU og 3GB RAM
  • WiFi 5 802.11ac 2×2 MIMO sem styður bæði 2.4GHz og 5GHz WiFi
  • LAN – 1GB
  • Bluetooth 5.0 + LE
  • HDMI 2.0b með HDCP 2.2 og CEC stuðningi
  • Stýrikerfi: Android 9.0 (Pie)
  • Innbyggt Chromecast (4K)
  • 2x USB-A 3.0 tengi

Uppsetning

Ég tengdi Nvidia Shield við HDMI tengi á sjónvarpinu (ARC) og síðan tengdi ég það með LAN snúru við netið hjá mér, tengdi straum og ræsti það upp. Uppsetning er að mestu next, next, next en aðalatriðið er að tengja tækið við Google notanda eins og er með önnur Android tæki. Í heildina með uppfærslum tók uppsetning kannski 5 mínútur eða svo en þá tók við uppsetning á snjallöppum sem ég ætlaði að nota og taldi upp hér að ofan. Það tók kannski 5 mínútur í viðbót.

Ég loggaði mig inn á þessi forrit, prófaði afspilun, endurræsti síðan græjuna og staðfesti þá að allt virkaði sem skyldi.

Fjarstýringin venst mjög vel, takkar upplýstir sem er gott þegar það er bíómyndakvöld og ljósin slökkt. Hún er með hljóðnema og því hægt að nota til að gefa raddskipanir ásamt því að hægt er að finna fjarstýringuna ef hún týnist, mæli með að virkja þetta strax.

Google Assistant virkar vel með þessari raddstýringu en hægt er að breyta stillingum eða leita að t.d. þáttaröðum á Netflix með röddinni. Tækið er víst einnig samhæft Alexa þó ég hafi ekki prófað það, svo það ætti að vera hægt er að nota Alexu til að stjórna sjónvarpinu eða öðrum snjalltækjum á heimilinu.

Dagleg notkun

Í mjög stuttu máli hefur allt virkað hnökralaust, núna er ég að nota nýjustu útgáfuna af Android TV og öll öppin mín virka mjög hratt og eru stabíl. Það er kannski stærsti munurinn og kosturinn, öppin mín eru ekki lengur að lokast í tíma og ótíma ásamt því að viðmótið er miklu mun sneggra að það var áður.

Hljómgæðin úr Nvidia Shield Pro eru einfaldlega frábær enda styður græjan bæði DTS og Dolby Atmos og hljómaði því mjög vel í heimabíóinu hjá mér.

Örgjörvi og skjákortið í Nvidia Shield eru mjög öflugt og ráða léttilega við að spila efni í 4K UHD upplausn í allt að 60 römmum á sekúndu. Þegar Nvidia Shield er tengt í 4K tæki sem styður HDR þá er ótrúlegt hversu skörp og litadjúp myndin er, jafnvel ef horft er á myndbönd í minni gæðum þá getur Nvidia Shield skalað myndgæðin upp í 4K (fyrir þá sem það vilja).

Niðurstaða

Það má kannski hljóma sem tilbúið vandamál en ég var orðinn ansi pirraður á hversu seint viðmótið var orðið á sjónvarpinu mínu, að tækið hafi ekki fengið uppfærslur frá Sony ásamt því að öppin mín voru að hrynja við og við. Ég allavega náði ekki að sannfæra konuna um að ég yrði að uppfæra sjónvarpstækið 🙂

Nvidia Shield leysti vandamálið fyrir mér, kominn í nýjustu útgáfu af Android TV, miklu skemmtilegra umhverfi og allt bara virkar.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira