Ég rakst á frétt í vikunni sem sagði frá áætlunum hjá tryggingafélaginu VÍS um að bjóða viðskiptavinum að vera með kubb í bílum sínum gegn því að fá ótilgreindan afslátt af tryggingaiðgjöldum. Þetta hringir viðvörunarbjöllum hjá mér sem og fleirum sem velta fyrir sér og vilja verja friðhelgi einstaklinga.
Umræða um friðhelgi einstaklinga og hversu mikið “stóri-bróðir” má fylgjast með er ekki ný af nálinni. Hún kemur oftar upp núna síðari ár en áður, líklega vegna þess hversu opin og víðtæk internetnotkun okkar er orðin og hversu miklar upplýsingar fyrirtæki eins og Facebook t.d. hafa um okkur.
Tryggingafélög hafa reyndar ekki sömu stöðu og t.d. Facebook því viðskiptavinum ber samkvæmt lögum að vera með lágmarkstryggingar á fasteignum og farartækjum, og eru því margar tryggingar ekki valkvæðar.
Samkvæmt fréttinni á Vísi þá er þetta kubbur sem mælir hraða (yfir hámarkshraða), hröðun/gefið inn snögglega, hemlun/nauðhemlun. Einnig verður fylgst með hraða í beygjum (ef ekur of hratt í beygju/hard cornering), símanotkun án handfrjáls búnaðar og skjánotkun ef bíll er á yfir 15 km hraða.
Þessi kubbur notar því að lágmarki gögn frá GPS, Gyro og síðan símtækinu sjálfu, s.s. hvort skjárinn sé notaður eða ekki.
Þetta finnst mér alltof víðtæk gögn sem VÍS ætlar sér að safna. Þetta er einkafyrirtæki sem getur þess vegna ákveðið að selja (deila) þessum gögnum með þriðja aðila…
Ef rétt er að þeir sem nota bílinn lítið eigi að njóta þess með afslætti, afhverju er ekki nóg að gefa upplýsingar um keyrða kílómetra á ári?
Er hægt að treysta því að fyrirtæki sem hefur fjárhagslegan ávinning af því að borga ekki út bætur, noti ekki gögn úr þessum ökurita ef til slys kemur?
Sjá umfjöllun HLG um þetta atriði.
Til þess að VÍS geti gefið þér aksturseinkunn þá þarftu að gefa þeim leyfi til að sjá hvert þú hefur keyrt, hversu hratt þú fórst, hvort þú bremsaðir of harkalega eða tókst of harkalega af stað, o.s.frv….. Treystum við VÍS fyrir þessum upplýsingum?
Væri betra að gögnin færu til þriðja aðila sem myndi bara senda VÍS fjölda KM og aksturseinkunn?
Ef ég er farþegi í eigin bíl og er tengdur við kubbinn, fá ég þá iðgjaldahækkun fyrir að hanga í símanum þar sem kubburinn heldur að ég sé að keyra?
Á notandinn gögnin sem er safnað eða á VÍS þau?
Verður notast við OBD portið á bílnum sem fylgir viss öryggisáhætta?
Vitanlega styð ég þá viðleitni tryggingafélags að lækka iðgjöld hjá þeim sem nota einkabílinn lítið ásamt því að stuðla að öruggari umferð og þar af leiðandi fækka slysum. En hver má fórnarkostnaður okkar vera?
Er ekki málið að byrja á því að hafa iðgjöldin sanngjarnari, láta þau taka mið af notkun bifreiðar ásamt aksturssögu viðkomandi ökumanns….
Það hafa margir erlendir miðlar velt samskonar pælingum fyrir sér. Hér má t.d. nefna umfjöllun USnews og umfjöllun NerdWallet,