Nokia 8 sló rækilega í gegn á síðasta ári þegar hann var formlega kynntur sem flaggskip Nokia á snjallsímamarkaðnum. Sá sími hafði alla burði í að skáka þeim bestu á markaðnum og kom m.a. Nokia 8 vel út í samanburði við önnur flaggskip eins og frá Apple og Samsung, meðal annars í umsögn okkar hér á Lappari.com. Það var því búið að setja talsvert hátt viðmið þegar það kom að því að HMD kynnti loks til sögunnar Nokia 8 Sirocco, bæði hvað varðar endingu og virkni en ekki síður fyrir hönnun enda voru margir gamalgrónir Nokia-aðdáaendur sem söknuðu þess að sjá framúrstefnulega hönnun á símtækjum sem Nokia var þekkt fyrir á árum áður. Margir hafa einnig velt því fyrir sér hvort að Nokia 8 Sirocco eigi einhvern möguleika í núverandi samkeppni á markaðnum og nær hann að skáka Nokia 8 frá því á síðasta ári?
Nokia 8 Sirocco
Eitt af aðalsmerkjum Nokia á meðan frægðarsól fyrirtækisins reis sem hæst var að sama hvernig virkni símans var eða hvaða stýrikerfi síminn bauð upp á, þá var alltaf hægt að stóla á að Nokia myndi skila af sér hönnun og útliti á símunum sínum sem fáir ef einhverjir gætu skákað. Sumir vilja ganga svo langt og halda því fram að síðasti sanni Nokia-síminn sem kom út hafi verið Nokia N9 en það mun hafa verið síðasti snjallsíminn sem kom frá Nokia þar sem bæði hugbúnaður og vélbúnaður var alfarið á vegum innanhúsvinnu Nokia. Hvað svo sem fólki finnst um símtæki Nokia á Lumia-tímabilinu að þá leyndi sér ekki í hönnun þeirra sú ótrúlega hönnunarhefð sem undirstrikaði sérstöðu Nokia á símamarkaðnum sem og hreint út sagt magnað samkeppnisforskot fyrirtækisins. Það var því eins og ferskur andblær í bland við algert nostalgíukast þegar undirritaður tók Nokia 8 Sirocco upp úr kassanum í fyrsta sinn og handlék hann. Óhætt er að fullyrða að hér er á ferðinni Nokia-símtæki sem slær út jafnvel glæsilegustu og flottustu símtæki í hönnunarsögu Nokia til þessa. Öll áferð símans ber þess merki að um flaggskipstæki er að ræða og tilfinningin sem maður upplifir við að handleika símann minnir um margt á 8000-línuna sem Nokia bauð upp á fyrr á þessari öld sem í daglegu tali er oft nefnd ‘premium’-símtæki. Þetta voru símtæki þar sem ekkert var til sparað þegar það kom að efnisvali og vakti það sérstök hughrif að nota slík tæki.
Nokia 8 Sirocco er smíðaður úr léttum ryðfríum stálramma, sem er síðan lokað saman með Gorilla Glass 5 þannig að allur síminn er hjúpaður í gleri. Þessi eiginleiki gerir það að verkum að síminn er alveg varinn fyrir utanaðkomandi áreiti eins og regni og ryki. Síminn er því með svokallaða IP67-vottun sem er vottunarstaðall á vegum Evrópusambandsins.
Um IP-vottun
IP-staðallinn stendur fyrir Ingress Protection og hefur verið notaður til fjölda ára til þess að veita vottun á hversu vel varin hin ýmsu tæki og búnaður eru. Við venjulega IP-vottun er verið að kanna tvo hluti, annarsvegar hversu vel rykvörn tækið býður upp á og svo hversu öfluga rakavörnin er. Fyrri talan í vottuninni er á skalanum 1 til 6 sem þýðir að ef tæki er með 6 í vottun þá er það hæsta mögulega einkunn fyrir rykþéttingu. Seinni talan er á skalanum 0-8 þar sem 8 stendur fyrir tæki sem er gersamlega varið fyrir nokkurskonar raka og vatni. Einnig er þriðja talan í boði á IP-staðlinum sem snýr að því hversu höggvarin tækin eru en sjaldnast fara slíkar prófanir fram enda getur það verið óútreiknanlegt hvað gerist þegar tæki dettur úr einhveri hæð og því hafa símaframleiðendur ekki sérstaklega farið í slíkar vottanir.
Nokia 8 Sirocco er með IP-einkunnina 67 sem þýðir hæsta einkunn hvað varðar rykvörn og hvað varðar rakavörnina þá þýðir 7 í einkunn þar að síminn þolir að fara á kaf í vatn frá 15 cm upp í 1 metra. Langvarandi bleyti mun þá hafa einhver áhrif, sérstaklega ef síminn fer alveg á kaf enda er þessi vörn fyrst og fremst hugsuð sem vörn gegn rigningu og raka almennt.
Nokia 8 Sirocco er með 5.5 tommu P-OLED-skjá sem er með því skýrara og glæsilegasta sem undirritaður hefur séð síma fram til þess. Til viðbótar þá er skjárinn kúptur á báðum hliðum þannig að skjárinn flæðir alveg út með hliðunum.
Hleðslan er í gegnum USB-C-tengi á botninum á símanum þar sem hljóðneminn fyrir símtöl sem og stereo-hátalarinn er staðsettur. Fingrafaralesarinn er aftan á símanum í staðinn fyrir á valmyndartakkanum á fyrri símum. Svo má nefna það að Nokia 8 Sirocco er ekki með neina fasta takka að framanverðu heldur birtast þessir virknitakkar eins og valmyndartakkin, bakktakkinn og forritatakkinn neðst á skjánum.
Geymsluminnið í símanum er 128GB en sökum IP-varnarinnar í símanum þá er ekki boðið upp á minniskortarauf þannig að geymsluminnið er fast í 128GBi. Vinnsluminnið er 6GB.
Nokia 8 Sirocco keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 7 og Nokia 6.1 á Android 8.0, betur þekkt sem Oreo-útgáfan af Android. Nokia 8 Sirocco ræður vel við þessa nýjustu Android-uppfærslu enda ekki við öðru að búast fá síma sem er jafn vel búinn vélbúnaðarlega séð og þessi sími.
Hönnun og vélbúnaður
Eins og áður hefur komið fram þá gefur hönnunin á Nokia 8 Sirocco ekkert eftir og í raun verið að setja nýtt viðmið þegar það kemur að snjallsímalínu Nokia því þessi sími er í líkingu við neitt sem hefur komið fram til þessa frá HMD, sem framleiðir snjallsíma undir merkjum Nokia þessa dagana.
Eins og með fyrri Nokia-síma frá HMD þá er Nokia 8 Sirocco með þrjá takka á hliðinni; tveir takkar sem þjóna þeim tilgangi að annaðhvort hækka eða lækka hljóðstyrk símans og svo er þar fyrir neðan á hægri hliðinni fjölnotatakki sem nýtist við að kveikja eða slökkva á símanum, aflæsa skjálæsingu eða með því að tvíýta og ræsa þar með myndavélina.
Eitt af því sem hefur verið uppfært í 2018-línunni af Nokia-snjallsímum er að fingrafaraskanninn hefur verið færður á bakhlið símans. Er þetta í takt við ákveðna þróun á markaðnum og verður áhugavert að sjá hvernig notendur aðlaga sig að þessari breytingu. Nokia 8 Sirocco er með fingrafaraskanna sem er staðsettur rétt fyrir neðan myndavélalinsuna á símanum. Þetta er án efa kærkomið fyrir þá sem eru farnir að stóla á þetta sem sína auðkenningu inn í sitt símtæki og í prófunum hefur þessi skanni virkað hnökralaust og án vandræða. Hægt er að nota fingrafaraskannann til þess að opna símtækið þegar það er læst eða til þess að auðkenna sig t.d. inn í Play Store til þess að staðfesta kaup á forriti eða niðurhal og er það að færast í aukana að mörg smáforrit sem bjóða upp á innskráningu sé farin að nota fingrafaraskannann til þess
Nokia 8 Sirocco er ekki með sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti. Myndavél er mjög snögg í gang og hægt að smella strax af myndum á augabragði.
Nokia 8 Sirocco kom virkilega vel út úr viðmiðunarprófum AnTuTu og er niðurstaðan í takt við flaggskipstæki sem keppir á þeim harða markaði. Nokia 8 Sirocco fær 208631 stig sem er talsverð bæting frá Nokia 8 sem kom út í fyrra.
Ef samanburðurinn er tekinn saman við Nokia-símana sem komu út í fyrra þá sést hvað Nokia 8 Sirocco er að skora hátt þar:
Nokia 6.1 | Nokia 7 | Nokia 8 | Nokia 8 Sirocco |
44626 | 47307 | 175091 | 208631 |
Helstu eiginleikar:
- Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE.
- Skjár; 5,5 tommur, P-OLED, 16M litir, 1440 x 2560 díla upplausn (534 PPD), 16:9, Corning Gorilla Glass 5
- Örgjörvi; Qualcomm MSM8998 Snapdragon 835, 2,2 GHZ áttkjarna Kryo með Adreno 540-skjástýringu
- Minni; 6GB vinnsluminni, 128GB, engin minniskortarauf
- Myndavél; Dual 12 MP + 13 MP Carl Zeiss með 2x optískum aðdrætti, DUAL LED-flass með autofocus. Selfie-myndavél; 5MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 4K og 1080P@30FPS
- Aðrir þættir; Bluetooth 5.0, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
- Stærðir; 140,9 x 73 x 7,5 mm. Þyngd; 177 gr.
Tengimöguleikar
2018-línan af Nokia-símum er öll komin með USB-C-tengi. Það nýtist fyrir hraðhleðslutækið sem fylgir með Nokia 8 Sirocco en samkvæmt fullyrðingum HMD þá er hægt að ná 50% hleðslu á símanum á innan við 30 mínútum. Tengið nýtist líka fyrir gagnatengingu við tölvu og er hægt að nýta sér þá símann sem geymslueiningu eða til að flytja gögn af símanum yfir á tölvu. Nokia 8 Sirocco styður Bluetooth 5.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 8 Sirocco hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geta þá tengst við símann í gegnum Wifi.
Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 8 Sirocco góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökkrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.
Nokia 8 Sirocco er hinsvegar ekki með innbyggðu FM-útvarpi líkt og Nokia 7 Plus og er það í samræmi við yfirlýsta stefnu HMD að vera ekki með innbyggt FM-útvarp í dýrari símtækjum frá sér. Þar að auki þá er Nokia 8 Sirocco fyrsti snjallsíminn frá HMD sem er ekki með hefðbundnu heyrnartólatengi þannig að FM-virkni í gegnum heyrnartólið, sem hefur verið notað sem FM-loftnet, er ekki einu sinni framkvæmanleg. Ef til vill sameinast í þessu tveir helstu gallar Nokia 8 Sirocco því ekki liggur fyrir nein skýr útskýring á því af hverju FM-útvarp er ekki innbyggt í símann en svo vísar HMD í IP-staðalinn varðandi það að vera ekki með heyrnatólatengið og segja að til þess að verja símann alveg þá er ekki hægt að hafa slíkt tengi á símanum.
Rafhlaða og lyklaborð
Rafhlaðan er 3260 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 20 til 30% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu.
Líkt og með 2017-árgerðirnar af Nokia-símunum þá væri hægt með takmarkaðri notkun sem myndi einskorðast við hefðbundna símvirkni eins og símtöl og SMS-skeytasendingar þá ætti ekki að vera neitt mál að ná rafhlöðuendingunni upp í tvo daga og ánægjulegt að sjá símtæki sem maður er ekki lentur í rafhlöðuveseni með rétt áður en kvöldfréttirnar byrja.
Nokia 8 Sirocco er með íslenska útgáfu af Android-stýrikerfinu og kemur hún sjálfvalin í símanum. Google hefur verið að gera góða hluti með íslensku þýðinguna á Android-stýrikerfinu og segja má að hún sé svo gott sem komin á par við það sem þekktist áður í Symbian-stýrikerfinu sem og S40-stýrikerfinu sem Nokia notaði á sínum eldri símum á sínum tíma.
Eitt af því virkilega ánægjulega sem Nokia 8 Sirocco býður upp á er þráðlaus hleðsla. Skemst er að minnast þess þegar Nokia kynnti til sögunnar þráðlausa hleðslu í Nokia Lumia 920 árið 2012 og markaði það upphafið að því að hægt væri að hlaða símtæki þráðlaust. Nokia 8 Sirocco styður Qi-hleðslustaðalinn, sem er sá sami og var í Lumia-línunni þannig að eldri þráðlaus hleðslutæki eiga að virka með þessum síma.
Hljóð og mynd
Skjárinn er 5,5 tommur að stærð en þrátt fyrir að vera með svona stóran skjá þá fer síminn ótrúlega vel. Upplausnin er 1440 x 2560 dílar sem fer nokkuð nálægt því að skila af sér 2K-upplausn. Síminn hentar einstaklega vel fyrir áhorf, hvort sem það eru staðbundin myndskeið eða streymi af netinu. Skjáhlutföllin eru 16:9 sem gerir Nokia 8 Sirocco einstaklega þægilegan í notkun hvort sem það er í hefðbundinni notkun, í leikjaafspilun eða til að horfa á myndskeið.
Það sem hinsvegar vekur athygli með skjáinn á Nokia 8 Sirocco er tvennt og það er að þetta er í fyrsta sinn sem Nokia-sími er með kúptan skjá á hliðunum, líkt og þekkst hefur í Galaxy-línunni frá Samsung. Hitt atriðið, sem er nátengt þessum kúptu skjáhliðum, er að þetta er fyrsti síminn frá Nokia sem er að nýta P-OLED-skjátæknina frá LG. P-OLED er í grunninn ekkert mikið frábrugðið AMOLED-skjátækninni frá Samsung en báðir þessir staðlar gera það að verkum að hægt er að sveigja OLED-skjáinn og ná þessum kúpta stíl á hliðinni. Niðurstaðan er að þetta gefur skemmtilegan blæ á símann en maður veltir því fyrir sér hvert sé hagnýta notagildið á bakvið þetta.
Hátalarinn er staðsettur neðst til hægri á símanum og eru hljómgæðin þónokkuð góð. Hinsvegar er ekkert 3,5mm jack-tengi fyrir heyrnartól á þessum síma og mun þetta vera í fyrsta skipti sem að Nokia-sími er án nokkurs konar tengis fyrir heyrnartól. Vandlátir heyrnartólunnendur þurfa þó ekki að örvænta því að millistykki fyrir jack í USB-C fylgir með símanum.
Myndavél
Nokia 8 Sirocco státar af myndavél með tvískiptri linsu sem er annarsvegar að skila 12 megapixlum og svo 13 megapixlum. Líkt og í Nokia 8 þá eru þessar tvær linsur að ná mynd sem er síðan sameinuð í eina þannig að skýrleikinn og dýptin í hverri mynd er meiri. Það er magnað að nota myndavélin í Nokia 8 Sirocco og þar spilar skjárinn stórt hlutverk. Skýrleikinn á P-OLED-skjánum er hreint út sagt ótrúlegur og ekki spillir að hafa Nokia Pro Camera-appið með sem veitir notandanum sannkallaða verkfærakistu af valmöguleikum þegar kemur að því að sníða myndatökuna að myndefninu. Hægt er að ræsa myndavélina annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.
Það tekur myndavélina einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndaefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndaefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira.
Nokia 8 Sirocco er með Carl Zeiss-linsu líkt og Nokia 8 var með og er einkar ánægjulegt að sjá þetta samstarf milli Nokia og Carl Zeiss halda áfram .
Margmiðlun og leikir
Nokia 8 Sirocco er öflugt margmiðlunartæki og því kom það alls ekki á óvart hversu vel öll margmiðlunar og leikjavirkni virkaði vel í símanum. Einnig er áhugavert að sjá muninn á þessari virkni í samanburði við Nokia 8 því sá sími kom mjög vel út út úr öllum margmiðlunarprófum en hér sést greinilega hvað uppfærður örgjörvi og meira vinnsluminni getur skilað miklu þegar það kemur að þessar virkni.
Hugbúnaður og samvirkni
Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 8 Sirocco keyrir á ‚stock‘-útgáfu af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 8 Sirocco keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma.
Í þessum prófunum var Nokia 8 Sirocco uppsettur með Microsoft Outlook-smáforritinu með virkri samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða. Einnig voru hefðbundin samfélagsmiðlaforrit í gangi eins og Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat. Engin vandamál komu upp við notkun þessara forrita í Nokia 8 Sirocco.
Hægt er að tengja Nokia 8 Sirocco við tölvu með USB C-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.
Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 8 Sirocco er engin undantekning þar og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 8 Sirocco sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.
Android One
Nokia 8 Sirocco, líkt og hinir nýju símarnir í Nokia-línunni keyra á því sem Google kallar í daglegu tali Android One. Þetta er heiti á ‚stock-útgáfunni‘ af Android-stýrikerfinu en eins og áður hefur komið fram þá er þetta hrein og „ómenguð“ útgáfa af Android-stýrikerfinu án neinna sérstakra viðbóta við valmyndina. Hinsvegar er ef til vill það stærsta og merkilegasta við Android One er að þeir símar sem eru með Android One-viðurkenningu frá Google eru símar sem tryggja ákveðinn fjölda af uppfærslum á stýrikerfinu sem og öryggisuppfærslum í framhaldinu. Í tilviki Nokia-símanna þá þýðir þetta að símarnir eru með 24 mánaða tryggingu á stýrikerfisuppfærslum og 36 mánaða tryggingu á öryggisuppfærslum. Fram til þessa þá hefur HMD sent frá sér öryggisuppfærslu á 30 daga fresti og hefur það gengið eftir með fyrri síma.
Niðurstaða
Það er ekki auðvelt að taka að sér það verkefni að feta í fótspor framleiðslusögu Nokia þegar það kemur að hönnun og þróun símtækja. Hinsvegar þá fer það ekkert á milli mála að Nokia 8 Sirocco skorar hátt í samanburði við fyrri stórkanónur Nokia og jafnvel mætti halda því fram að Nokia 8 Sirocco sé veglegasta og glæsilegasta Nokia-símtækið fram til þessa.
Glansáferð símans sem og þægileg þyngd hans færi mann til að halda að maður sé frekar að halda á eðalsteini fremur en símtæki. Það eina sem nær að toppa þetta stórkostlega útlit á Nokia 8 Sirocco er það sem hvílir undir „húddinu“.
Myndavélin í Nokia 8 Sirocco er með því besta sem hefur komið í seinni ár frá Nokia og mætti færa rök fyrir því að þetta sé besti myndavélasíminn frá Nokia síðan Nokia Lumia 1020 var upp á sitt besta fyrir tæpum 5 ár síðan. Við það bætist að Android-stýrikerfið virkar einstaklega lipurt og þægilegt í þessum síma og lítið um að maður væri að upplifa hikst eða hökt í vinnslu símans.
Það sem eru hinsvegar slæmu fréttinar við Nokia 8 Sirocco er að búið er að fjarlægja heyrnatólatengið. Rökin fyrir því eru þau að til þess að ná IP67-staðlinum þá hafi þurft að fjarlæegja þetta tengi til að verja innviði símans. Hinsvegar þá veltir maður því fyrir sér af hverju símar á borð við Galaxy-símarnir frá Samsung geta verið með sama IP-staðal en samt með hefðbundið heyrnatólatengi. Ef við tökum hinsvegar eitthvað jákvætt út úr hinu neikvæða þá er Nokia 8 Sirocco fyrir vikið þynnsti snjallsími Nokia fyrr og síðar sökum þess að heyrnatólatengið er ekki til staðar.
Ef til vill er þetta það atriði sem er að valda því að Nokia 8 Sirocco er ekki að fá fullt hús stiga hjá okkur á Lappari.com því síminn er sannarlega að hitta í öll réttu boxin hvað varðar alla aðra vinnslu í símanum.
Fyrir þessa umsögn var Nokia 8 Sirocco í almennri notkun við mismunandi vorhitastig og almennt ömurlega rigningu frá 20. maí til til 20. júní þannig að umsögnin er byggð á venjulegri notkun við íslenskar aðstæður.
Nokia 8 Sirocco er hinn fullkomni “aukahlutur” sem hentar vel fyrir almenna notkun, fyrir þá sem eru í ræktinni, úti sem inni eða eru að trylla lýðinn á djamminu um helgar. Hverjar sem aðstæðurnar eru þá hentar Nokia 8 Sirocco fyrir verkið og setur ný viðmið þegar það kemur að flaggskipstækjum á snjallsímamarkaðnum.
Það er erfitt að gera Nokia 8 Sirocco almennilega skil í svona handrituðum texta. Undirritaður mælir því með því að fólk geri sér ferð í einhverja af betri símaverslunum landsins og fái að handleika símann því þetta er sannarlega slíkur viðburður að sjón er sögu ríkari.