Lára Björg Björnsdóttir
Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 183 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Byrjum á léttum jólatónum í boði Láru
Hver er þessi Lára Björg og hvaðan er konan?
Ég er lífhrædd, svartsýn og örvhent.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Síðustu árin hef ég starfað við ráðgjöf og blaðamennsku. Fyrir utan almennan þrældóm á heimilinu auðvitað.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Ég vakna hálfsjö, kíki á símann og lít ekki af honum þangað til 18 klst síðar þegar ég sofna. Inn á milli þamba ég kaffi og skrifa tölvupósta og ryksuga. Reyni að hreyfa mig ekki neitt mér til heilsubóta.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Ég tók við nýju starfi fyrir nokkrum dögum og er að reyna að klúðra því ekki. Síðan eru að koma jól. Svo þetta er svona bara dáldið eins og þetta er.
Hvernig eru draumajólin hjá þér?
Bon Jovi mætir í stofuna og syngur “Vindur, dansaðu vinur”.
Hvert er draumastarfið?
Fyrir utan starfið sem ég sinni og líst vel á þá hef ég alltaf viljað vera ljósmóðir eða manneskjan sem býr til bragðtegundir yfir kartöfluflögur.
Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Hárið varð liðað eftir fæðingu barnanna minna. Algjörlega absúrd dæmi.
Lífsmottó?
Þetta getur alltaf versnað.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég var svo góð í fótbolta þegar ég var lítil að ég var látin æfa með 2. flokki hjá Fylki þegar ég var 11 ára.
Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Gefa fólki sem á ekki neitt allt sem það gæti óskað sér. Síðan mundi ég reyna að kaupa mér nokkra vini fyrir afganginn.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Ég á engan heimabæ nema kannski Árbæ þar sem ég bjó frá 8 til 18 ára aldurs. Ég segi því bara Maus. Enda mjög miklir meistarar þar allir með tölu.
Býr tæknipúki í þér?
Nei.
Apple eða Windows?
Bæði.
Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?
Mac tölva heima en pc í vinnu.
Hvernig síma ertu með í dag?
iPhone.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Ég veit að hann mun einhvern tímann deyja því ekkert í þessum heimi er eilíft eða öruggt, það er ákveðinn galli. En ég hef samt misst hann daglega frá því ég keypti hann og hann tórir svo það er ákveðinn kostur.
Í hvað notar þú símann mest?
Að skamma fólk.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Notaður Nokia sími. Sjúklega flottur.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Sími sem kostar ekkert.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Engum.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Faðmið næsta skyndibitastað því við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér.