Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 176 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver er þessi Sunnfríður og hvaðan er konan?
Sunnfríður er Sunna Sveinsdóttir, fædd í desember 1982.
Ég er nú oftast nú bara kölluð Sunna eða Sunna Sveins af vinum og vandamönnum, en Sunnfríður er gælunafn sem pabbi hefur kallað mig frá því ég man eftir mér og ég og aðrir nota meira í gríni.
Uppalin í Hafnarfirði, en hef búið bæði í Kópavogi og Grafarvogi á fullorðinsárum, ásamt einu ári sem Au Pair í Danmörku fyrir mörgum árum. Hef þó verið heima í hlýjum faðmi 220 síðastliðin þrjú ár og vil helst hvergi annarsstaðar búa.. allavega hérlendis.
Sjálfskipaður Diktuaðdáandi númer 1, kórlúði og íslenskuperri með meiru sem veit þó aldrei almennilega hvar á að setja kommu. Hef líka nokkuð gaman af að vera með óspektir á alnetinu, þá sér í lagi á Twitter.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég vinn við að svara hjá Já 1818 (áður 118) og er búin að vera þar í tæp 7 ár. Var á tímabili með andlitsmálun sem aukastarf, en vegna þess hversu mikið ég vinn á kvöldin og um helgar, komst ég svo sjaldan þegar fólk var að reyna að bóka mig og hætti því að auglýsa.
Síðan hef ég verið í ýmsum kórum frá unga aldri og síðastliðin tvö ár hef ég verið í kór sem heitir Flensborgarkórinn og er að mestu leyti fyrrverandi meðlimir úr Kór Flensborgarskólans, sem ég var meðlimur í á sínum tíma. Við fórum til Póllands í fyrra að keppa, erum á leið til Eistlands á næsta ári og verðum með geggjaða tónleika með Lúðrasveit Hafnarfjarðar núna 25.nóvember þar sem m.a. verða sungin/spiluð þónokkur lög úr kvikmyndum.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Fyrir utan einhverjar breytur á milli pósta, þá eru þetta föstu punktarnir:
- Vakna.
- Drekk tvo kaffibolla með kókosolíu og mjólk.
- Fer í vinnuna.
- Tala við nokkur hundruð manns í síma.
- Fer heim.
- Sofna út frá Netflix.
Skemmtileg saga úr vinnunni?
Hvar á ég að byrja?!
Ég hef lent í ýmsu en kannski ekki mikið sem ég get sagt frá. Stundum veit fólk ekkert almennilega hvað það er að biðja um.
Það var t.d. einu sinni eldri kona sem hringdi og bað mig um að tengja sig við einhverja af búðunum sem seldu svona filmu til að setja á sjónvarpið svo það kæmi litur á það.
Nú er ég enginn sérfræðingur, en þóttist nokkuð viss um að þetta væri ekki til, svo ég fór að spyrja hana hvort það hefði verið litur á sjónvarpinu áður (bjóst ekki við að hún væri með svarthvítt sjónvarp. En hvað veit maður?) og hvort hún hafi ekki bara rekist í takkann á fjarstýringunni. Þá varð sú gamla bara foj og skipaði mér að tengja sig bara við búðina sem seldi svona!
Það endaði með að ég gaf henni samband við sjónvarpsviðgerðarmann.
Svo var einhver í síðasta mánuði sem hringdi og vildi vita hvort hún hefði borgað fyrir matinn sem hún hafði keypt á veitingastað. Hélt að ég gæti séð það með símanúmerinu sem hún var að hringja úr. Þar sem ég er ekki alsjáandi auga ákvað ég að reyna að tengja hana við staðinn og spurði því hvar hún hefði verið að borða.
“Bara hérna heima hjá vinkonu minni… Sérðu það ekki?”
Hvert er draumastarfið?
Ég er að stefna á að læra kvikmyndaförðun og langar líka mikið til að læra grafíska hönnun.
Lífsmottó?
Don’t give up what you want most, for what you want now.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég hef prófarkalesið tilnefningar Grímuverðlaunanna síðastliðin 3 ár.
Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Kaupa íbúð í 220. Sumarbústað í Grímsnesinu eða á Flúðum og íbúð á Flórída. Fara í skólann sem ég er að safna fyrir og ferðast síðan til framandi landa fyrir leigutekjurnar af húsnæðinu á meðan ég bý ekki í því. Kaupa mér fjólubláa Volkswagen bjöllu. Taka upp sólóplötu, borga upp skuldir nánustu ættingja og halda gott partý fyrir alla vini mína og stórfjölskyldu.
Bland í poka fyrir rest. Mikið sterkt. Ekkert hlaup og ekkert salt.
Býr tæknipúki í þér?
Já ég er frekar tæknisinnuð svona miðað við marga í kringum mig.
Pabbi er mikill græjukall og ég held ég hafi erft þetta frá honum.
Hvernig tölvu notar þú heima?
Fartölvan mín er spjald með Windows 10 sem ég get fest við lyklaborð. Hún er af tegundinni Cube i7 og ég pantaði hana frá Kína. Þegar ég keypti hana í fyrra var ég að leita að tölvu sem ég gæti teiknað á og þessi var sögð sambærileg Microsoft Surface 3. Nú hef ég ekki samanburðinn, en hún virkar allavega mjög vel fyrir það sem ég nota hana í og þeir fáu ókostir sem ég hef rekist á vega upp á móti því að hún kostaði 1/6 af upphæðinni sem ég hefði þurft að leggja út fyrir hinni.
Hvernig síma ertu með í dag?
Samsung Galaxy S7. Hann er ágætur, nema íslenska orðabókin sem fylgir Samsung lyklaborðinu er algjört drasl. Frá því ég fékk mér minn fyrsta Android síma árið 2011 sótti ég alltaf Scandinavian Keyboard og íslenska orðabók sem viðhengi. Væri enn að nota það ef að tjáknin væru uppfærð, en allavega síðast þegar ég gáði voru þetta ennþá tvípunktar og svigar.
Í hvað notar þú símann mest?
- Snapchat
- Facebook Messenger
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fyrsti síminn sem ég fékk var gamall Ericsson klumpur sem pabbi bjó til. Hann var að vinna hjá tryggingafélagi og fékk að kaupa nokkra ónýta síma fyrir slikk og dundaði sér á kvöldin við að raða þeim saman í einn sem virkaði. Held að fyrsti sími flestra í fjölskyldunni hafi komið þannig til.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
“Þetta er lítið lag um fiðrildi og flugur og frækorn…”
MÚHAHA núna eruð þið með þetta lag á heilanum!