Fyrir rétt um ári kynnti fyrirtækið Eve-Tech nýja vél sem heitir einfaldlega Eve V og vakti þessi vél strax mikinn áhuga hjá mér fyrir margar sakir. Ein þeirra er sú að vélin er hönnuð af notendum, undirritaður ásamt mörgum öðrum höfum fengið að taka þátt í þessari þróun Eve Tech alveg frá upphafi. Fyrirtækið kom með tillögur eða spurningar sem við síðan fengum að kjósa um. Sem dæmi þá var kosið um hönnun á vélinni, fjölda porta, val á örgjörva og stærð á rafhlöðu svo eitthvað sé nefnt.
Eve Tech fjármögnuðu þetta verkefni á Indiegogo. Þar söfnuðust $1.415.622 en fyrirtækið stefndi að $75.000 í upphafi. Það hefur verið áhugavert að fá að taka þátt í að þróa þennan “Surface-Killer” og síðan enn áhugaverðara að fá núna, ári seinna, að prófa vélina.
Það var skýrt tekið fram að ekki mætti birta myndir eða umfjöllun um vélina fyrr en í dag. Ég hef samt verið með vélina núna í 2 vikur og hefur verið erfitt að þegja yfir henni þennan tíma.
Hér má sjá kynningarmyndband frá Eve Tech
Hönnuðir Eve V hafa sagt í gríni að vélin sé hönnuð til höfuðs Surface vélunum frá Microsoft. Þetta eru háleit markmið en eru þau svo fráleit?
Microsoft eru með Surface vélum sínum ekki endilega í samkeppni við framleiðendur, heldur fyrst og fremst að opna augu þeirra og sýna þeim hvað hægt er að gera með smá ímyndunarafli. Það hafa komið á markað nokkrar “Surface-Killer” vélar á síðustu misserum og samkeppnin á þessum markaði virðist vera að herðast sem er gott fyrir okkur sem neytendur.
Helstu kostir.
Stýrikerfi | Windows 10 Home, einfalt að uppfæra í PRO af notendum. |
Örgjörvi | 7 GEN Intel i5-7Y54 sem keyrir á 1.2 – 3.2 GHz |
Skjákort | Intel HD 615 |
Skjár | 12.3″ IGZO LCD með 2880×1920 upplausn. |
Stærðir í MM | 295.9 x 205.3 x 8.9 |
Þyngd | vélin er 925g og 410g lyklaborð |
Geymslurými | 256 GB PCIe SSD |
Vinnsluminni | 8GB af LPDDR3 minni |
Rafhlaða | 48 Wh |
Myndavélar | 5MP aðalvél og 2MP fyrir myndsímtöl (sjálfur) |
Annað | Bluetooth 4.2 – WiFi AC – 2×2 MU-MIMO – Miracast |
Tengi | 3.5mm tengi fyrir heyrnartól – 2x USB3 – 1x USB-C – 1x Thunderbolt 3 USB-C – 1x Rauf fyrir mSDXC kort |
Windows Hello | Fingrafar |
Verðið á Eve V samanborðið við vélbúnað er það sem kom mér mest á óvart en vélin sem ég er með kostar $1199 með sköttum og með henni fylgir penni til að skrifa/teikna beint á skjáinn. Þetta verð er mjög áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að svipað búin Microsoft Surface vél kostar $1558 með lyklaborði og penna.
Hönnun og vélbúnaður.
Það er ekkert leyndarmál, ég hef alla tíð verið hugfangin af hönnun Surface vélanna en Eve V er keimlík þeim í útliti og notagildi… og það er mjög gott.
Vélin er öll í heilli álskel og er því sterkleg viðkomu, allur frágangur er vandaður og góður. Vélin hefur fengið að finna fyrir því hjá mér, búinn að sveigja og beygja hana eins og ég hef þorað, sest ofaná hana (viljandi sko) og enn sér ekki á henni.
Mig langar að segja að Eve V sé jafn vönduð og Surface vélarnar en þá væri ég að teygja lopann aðeins um of. Vélin er engu að síður mjög vönduð að sjá og hún er með útdraganlegum, stillanlegum fæti á bakhlið (Kickstand) eins og Surface en með honum er næsta víst að notendur geta stillt vélinni í stöðu sem hentar þeim.
Eve V vélarnar koma allar með Windows 10 eins og fyrr segir og eru fáanlegar í þessum vélbúnaðar útgáfum
- m3-7Y30 @ 2.6 GHZ örgjafa með 128GB SSD og 8GB í vinnsluminni – 799 USD/EURO
- i5-7Y54 @ 3.2 GHZ örgjafa með 256GB SSD og 8GB í vinnsluminni – 1199 USD/EURO
- i5-7Y54 @ 3.2 GHZ örgjafa með 512GB SSD og 16GB í vinnsluminni – 1499 USD/ 1549 EURO
- i7-7Y75 @ 3.6 GHZ örgjafa með 512GB SSD og 16GB í vinnsluminni – 1599 USD/ 1649 EURO
- i7-7Y75 @ 3.6 GHZ örgjafa með 1TB SSD og 16GB í vinnsluminni – 1999 USD/ 1999 EURO
Vélin sem Lappari.com fékk frá Eve-Tech er með 256GB harðdisk, 8GB vinnsluminni og Intel i5 örgjörva. Með þessum vélbúnaði er vélin mjög spræk og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Vélin ræsir upp í heimaskjá á örfáum sekúndum (e.cold boot) og slekkur á sér á 3-4 sekúndum.
Tengimöguleikar
Eve V er með tveimur hefðbundnum USB3 portum og því hægt að tengja hana við öll venjulega USB jaðartæki. Einfalt er að bæta við USB-hub (eða dokku) ef tvö tengi duga ekki. Eve V er einnig með microSD rauf sem er ódýr og einföld leið til að auka við geymsluplássið.
Eve V kemur með Intel Core Y örgjörva þar sem fyrirtækið (og við) vildum frekar lengri rafhlöðuendingu. Það má seint flokka HD 615 skjástýringuna sem kemur á þessum Y örgjörvu sem leikjaskjákort en það má svo sem segja með flest innbyggðu skjákortin á markaðnum. Kosturinn við Eve V er að hún kemur með Thunderbolt 3 porti þannig að það er lítið mál að tengja utanáliggjandi skjástýringu (eGPU) við vélina en ódýr kort eins og AMD RX550 eða jafnvel Nvidia 1060 bjóða notendum uppá mun betri leikjaafköst samanborið við HD 615.
Vélin er með Bluetooth 4.2 ásamt þráðlausu netkorti sem styður 802.11ac (2×2 MU-MIMO) og vélin er einnig með 3.5mm tengi fyrir heyrnartól. Fyrir utan þetta þá styður Eve V Miracast ágætlega en það er þráðlaus staðall sem varpar 1080p mynd og 5.1 hljóð frá tæki og í sjónvörp, skjávarpa eða skjái sem styðja staðalinn. Þetta prófuðum við á nokkur sjónvörp með prýðis árangri. Þess má geta að Miracast vörpun frá vélum sem nota mjög háa upplausn getur stundum verið dálítið döpur en þessi staðall hefur sífellt verið að batna undanfarin misseri.
Rafhlaða og lyklaborð
Samkvæmt Eve þá má reikna með allt að 16 klst rafhlöðuendingu við video afspilum á i5 útgáfunni. Notendur gátu á hönnunarstigi kosið milli þess að vera með minni rafhlöðuendingu eða að bæta við 1 MM við þykktina með stærri rafhlöðu til að laga rafhlöðuendinguna og sem betur fer var það gert. Með minni háttar sparnaði næ ég 12 tímum að meðaltali út úr rafhlöðunni miðað við hefðbundinn vinnudag.
Eve V kemur með lausu lyklaborði sem festist við vélina með segli en hann er sterkur og festist lyklaborðið vel við vélina. Lyklaborðið er ágætt og ekki mikið mál að skrifa lengri texta eins og þessa umfjöllun á það. Það er með innbyggðri rafhlöðu og þannig hægt að nota það þráðlaust með bluetooth. Lyklaborðið er með 7 mismunandi baklýsingum.
Það er snertimús á lyklaborðinu, hún er með gorilla glass yfirborði og því sterk eftir því. Snertivirkni á músinni var ágæt en mætti fínstilla betur og skilst mér að það verði gert með hugbúnaðaruppfærslu fljótlega.
Eve V er með Windows 10 Home og er þvi er ekkert mál að hafa lyklaborðið á íslensku og ef stýrikerfið er stillt á íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumálapakka frá Windows update og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á íslensku. Eve V er einnig með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina eða ef smellt er á auðan reit með fingrunum. Ef skjályklaborð er notað þá eru allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Eve V er framleiddur af Sharp, hann er 12.3″ IGZO LCD með 2880×1920 upplausn og styður 10 snertipunkta. Þessi skjár er í einu orði sagt frábær enda er tækið lítið annað en bara skel utan um hann. Eve Tech tekur það sérstaklega fram að hver og einn skjár sé sérstaklega stilltur þannig að hann uppfylli fyllilega sRGB staðla og hér má sjá samanburð frá Eve á skjánum á þessari vél samanborið við Surface 4, Surface 5 og Macbook Pro 2017.
Skjárinn er með mjög nákvæma snertiskynjun og lenti ég sjaldan í því að smella á eitthvað vitlaust, án efa einn sá besti snertiskjár sem ég hef unnið á. Það fylgir penni með vélinni sem er skemmtilegt að nota til að skrifa eða teikna beint á skjáinn í t.d. Edge, OneNote eða Fresh Paint en hægt er að snúa honum við til að stroka út eins og um blýant væri að ræða. Ég átti ekki von á því en ég notaði pennann merkilega mikið í vinnu og við leik.
Skjárinn er rispuvarinn (Scratch-resistant) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri. Skjárinn í Surface vélum er góður en mér finnst skjárinn á Eve V jafnvel betri, hann er einfaldlega frábær, allur texti og myndir komu mjög vel út. Skjárinn er bjartur og fallegur, sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.
Hátalarar eru fjórir og eru staðsettir efst á Eve V, þeir gefa henni ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notanda sem er nokkuð ólíkt mörgum spjaldtölvum sem ég hef prófað. Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega, Eve V er einnig með 2 hljóðnemum.
Eve V er með tvær myndavélar, aðalvélin er 5MP en sjálfumyndavélin er 2MP. Báðar sinna sínu hlutverki ágætlega og ráða við 1080p upptökur en sem áður myndi ég aldrei ráðleggja notendum að nota spjaldtölvu við myndatökur (það er eiginlega bannað)
Margmiðlun
Eins og fyrr segir þá kemur Eve V með Windows 10 Home og því ættu notendur ekki að lenda í neinum vandræðum með að nota vélina í venjulega vinnu. Þetta er bara venjuleg PC tölva og því er einfalt að spila allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða af flökkurum. Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum.
Smá viðbót um Eve V í vinnuumhverfi
Ég uppfærði Windows 10 úr Home í Pro (kostar $99.99) því ég vildi prófa Eve V í vinnuumhverfi eins og Surface vélarnar. Eftir uppfærsluna var það fyrsta sem ég gerði að skrá vélina inn á Domain og keyra scriptu sem tengdi vélina við netdrif fyrirtækisins og virkaði það allt fumlaust. Eins og á fartölvu gat ég með einföldu móti tengst VPN (Cisco client og/eða innbyggt VPN) og þannig netdrifum og netþjónum yfir þráðlaust net eins og ég væri staddur á venjulegri PC tölvu.
Með þetta eins og margt í þessari umfjöllun… það þarf í raun og veru ekkert að segja meira þar sem allt sem þú getur á venjulegri PC tölvu getur þú á Eve V.
WINDOWS HELLO
Eve V, eins og margar nýrri vélar styðja Windows Hello sem er nýtt innskráningarferli í Windows 10. Það er fingrafaraskanni innbyggður í power takka, efst á hægri hlið sem les fingrafar og innskráir notenda inn í stýrikerfið. Innskráning var mjög áræðanleg og fljót, vélin var yfirleitt alltaf mjög snögg að innskrá mig.
Forritarar eru farnir að nýta sér kosti Windows Hello en hægt er að nota það til að innskrá sig í ýmis kerfi og/eða forrit sem notuð eru við vinnu.
Hugbúnaður og samvirkni.
Einn besti kostur við Eve V er að það er ekkert af aukahugbúnaði með vélinni, ekkert auka sölu/popup/spam leiðindi sem þvælist fyrir notendum. Þrátt fyrir þetta fylgir með Windows 10 öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store. Þegar úrvalið á þessum markaði er skoðað og sú staðreynd að öll venjuleg x86 forrit virkar á Eve V vélinni þá blikna önnur stýrikerfi í samanburði. Notendur hafa aðgang að markaðnum og þessum tugum milljóna forrita sem til eru nú þegar fyrir Windows stýrikerfið.
Þar sem ég hugsa Eve V sem arftaka fartölvunar í þessum prófunum okkar þá setti ég upp sömu forrit og ég nota þar eins og Office 2016 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og eins vel og það gerir á fartölvunni.
Ég skrái mig alltaf inn í öll Windows 10 kerfi sem ég nota með Microsoft notendanum mínum, hvort sem það er fartölvan, borðtölvan, eða önnur Windows símtæki. Það sem þetta gerir er að tækin mín samstilla sig við notandann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) og þannig samstillast stillingar og gögn á mili tækja..
Tilraunarinnar vegna þá prófaði er ég að horfa á nokkra fótboltaleiki með flash, Síma appinu og Ace Stream yfir internetið með Eve V og gekk það alltaf hnökralaust fyrir sig.
Niðurstaða
Við fengum Eve V töluvert áður en hún var kynnt og kom í sölu en þeir sem hafa áhuga á þessari vél geta pantað hana þegar hún kemur opinberlega í sölu 4 desember. Það var mjög spennandi og á sama tíma erfitt fá þessa vél svona snemma þar sem það mátti ekki deila neinu um vélina fyrr enn í dag. Það er núna komin töluverð reynsla á vélina og í mjög stuttu máli þá er ég mjög skotinn í henni. Vélin er sterkbyggð, öflug, falleg og flott hybrid vél en ég vil meina að Surface sé enn fallegri vél en Eve V en á móti kemur að þessi er með öflugri vélbúnað og kostar töluvert mikið minna.
Eins og með Surface vélarnar þá er helsti kostur Eve V sá að þetta er bara venjuleg PC tölva sem er í spjaldtölvuskel. Vélin hentar því sérstaklega vel fyrir þá sem eru mikið á flakki eða langar í létta en öfluga vél.
Eve V er líka vænlegur kostur fyrir fyrirtæki vegna þess að það þarf ekkert að huga að breytingum á innri kerfum, allt virkar eins og áður. Kosturinn er að fyrirtæki eru þá með mjög meðfærilega tölvu sem einfalt er að tengja við staðarnet og internet með þráðlausu neti eða með 3/4G.
Það var svo sem ekki létt að gefa þessari vél einkunn enda eru hún svo til ein með Surface vélunum í sínum ultra-portable flokki, en saman borið við Surface þá er hún ódýrari, með betri vélbúnað og svipað vel smíðuð vél.
Ég mæli því með að þið skoðið þessa vél betur því þetta er spjaldtölva sem getur sannarlega leyst af hólmi flestar far- eða borðtölvur.