Heim Föstudagsviðtalið Róbert Jóhannsson

Róbert Jóhannsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 173 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver er þessi Róbert og hvaðan er maðurinn?

Róbert er 36 ára fjögurra barna faðir í Breiðholtinu. Ég er uppalinn á Djúpavogi og átti stórskemmtilegan fyrri helming ævinnar þar. Er einn af þeim sem talar um forréttindin að hafa fengið að alast upp úti á landi.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn sem fréttamaður á fréttastofu RÚV, er með næturvaktirnar aðra hverja viku. Á daginn er ég svo knattspyrnuþjálfari tveggja kvennaflokka hjá ÍR. Þannig hafa rúmlega tvö síðustu ár verið hjá mér.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Venjulegur dagur er annasamur. Ef við hefjum daginn á þeim tíma sem flestir hefja hann, á morgnana, þá er hann ca svona: Vek börnin og konuna. Hjálpa börnunum af stað í daginn, morgunmatur og svona. Dætur mínar tvær labba sjálfar í skólann og ég rölti með litla guttann á leikskólann. Þá fer ég og legg mig þar til um klukkan 13 þegar ég skelli í mig morgunmat. Þjálfa frá 14:30 til 16:30, sæki strákinn í leikskólann, aðstoða við heimalærdóm, elda kvöldmat og kem öllum í háttinn. Legg mig aðeins um kvöldið, vakna fyrir vinnuna, mættur þangað 23:30 og undirbý miðnæturfréttir í útvarpi. Svo er vinna til 7 og þá tekur rútínan aftur við

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Í stað hefðbundinna haustlægða brast á með þingkosningum! Það var heldur betur áhugaverð fréttavakt. Svo er flokkaskiptum nýlokið í fótboltanum og þar eru stelpurnar að kynnast nýjum liðsfélögum og venjast breyttum aðstæðum. Undirbúningur fyrir sumarið hafinn.

 

Hefur þú lesið bókina „Að breyta fjalli“.. ef þú hefur lesið hana, hvort þú munir afhverju hún var umdeild?

Ein af fjölmörgum sem ég á eftir að lesa. Get ekki beðið eftir að verða aðeins eldri og hafa tíma til að lesa bækur! Les helst þegar ég fer í utanlandsflug, sem gerist nú ekki ýkja oft. En ég man því miður ekki af hverju bókin er umdeild.
(Spurning frá Elmari Torfasyni)

 

Hvert er draumastarfið?

Það má eiginlega segja að ég sinni þeim nú þegar. Fréttamaðurinn gamall draumur og svo veit ég fátt skemmtilegra en fótbolta, frábært að fá að vinna við hann líka. Annars var draumurinn alltaf að verða atvinnumaður í fótbolta, líklega full seint úr þessu.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Fæðing barnanna. Ekki spurning. Þar á eftir að kynnast konunni, og svo að hafa afrekað að klára háskólapróf.

 

Lífsmottó?

Bara að vera slaggur, njódda og livva. Er það ekki annars?

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Yfir óþarflega spennandi leikjum handboltalandsliðs okkar, strákanna okkar, nota ég eina, og aðeins eina, slökunar-/afvegunarleiðingaraðferð. Þá hækka ég aðeins í sjónvarpinu, bregð mér inn í eldhús og beinustu leið í uppvask. Erum með uppþvottavél reyndar, ef hún fyllist þvæ ég það sem er eftir, og eftir leik er eldhúsið yfirleitt eins og nýkomið úr kassanum. Úrslitin ráða því svo hvort þetta var reiði- eða gleðiuppvask.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Byrja á því að kaupa hús utan um fjölskylduna. Trampólín og heitan pott í garðinn. Asíuferðalag með fjölskylduna, Suður- og Suðaustur-Asía. Kaupa hús á Spáni til að nota í sumarleyfum. Einhver hluti færi svo til góðgerðarmála.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ummi í Sólstrandargæjunum … Halli trúbador, hljómsveitin Niturbasarnir … að meðtöldum meðlimum Niturbasanna eru þetta fleiri en 5.

 

Býr tæknipúki í þér?

Í stuttu máli: Já. Mig langar í allt. Ég „þarf“ fleiri tæki á heimilið. Margt sem ég hef séð sem ég þarf að kaupa, en á eftir að gera. 500 milljón kallinn kæmi sér vel þarna.

 

Apple eða Windows?

Windows, að miklu leyti til Android samt.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Er með Lenovo tölvu heima. Minnir að við vinnum með Dell tölvur hjá RÚV.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Á ég að þora að segja það hér? Vonaði pínulítið að hann væri að gefa sig um daginn þegar ég átti í erfiðleikum með að hlaða hann. En hann virkar vel og ég keypti hann þegar hann var enn nokkuð nýlegur, þá var bara G4 kominn. Er semsagt með LG G3.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Myndavélin er frábær. Hraðinn er fínn, allavega hef ég vanist honum. Rafhlöðuending er mikill galli.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Skoða Twitter. Hringja í dætur mínar og athuga hvar þær eru. Untappd, bjórapp sem er alveg frábært, svolítið hægvirkt samt. Facebook líka. PL appið fyrir fantasy. Casta yfir í sjónvarpið. Hitt og þetta bara.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Man bara eftir fyrsta símanum sem ég notaði. Fékk lánaðan fyrsta gemsann sem mamma keypti þegar ég var í MK 1999, Ericsson A1018. Var með hann að láni ef ske kynni að barnsmóðir mín skyldi þurfa að hringja og láta mig vita að hún þyrfti að fara niður á fæðingardeild. Kom aldrei til þess þar sem það gerðist um helgi.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Erum við ekki svolítið með þá í höndunum í dag. Ég get fylgst með nánast öllu í símanum. Kannski verður draumurinn bara að losna við allt úr símanum og fá bara síma aftur, ekki smátölvu með hringimöguleika.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Fylgist sáralítið með tæknisíðum. Fylgist samt með helstu nýjungum í gegnum fjölmiðla.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Færi Elmari bara bestu þakkir! Og: @ruberamo á Twitter.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira