Heim ÝmislegtAndroid Nokia 6 umfjöllun

Nokia 6

Nokia 6 er þriðji og síðasti síminn sem kynntur var undir merkjum Nokia núna fyrr á árinu þegar hann var kynntur ásamt Nokia 3 og Nokia 5 til leiks. Markaði þetta upphafið að endurkoma Nokia á símarkaðinn og því er það við hæfi að þessi þriggja lotu umfjöllunarferð endi á þessum síma.

Fram til þessa þá hafa Nokia 3 og Nokia 5 vakið verðskuldaða athygli bæði hérlendis sem og annarsstaðar víða um heim. Hinsvegar þá hefur verið talsverð eftirspurn og bið eftir Nokia 6 því miðað við eiginleikalýsinguna á þeim síma þá er hér á ferðinni gríðarlega öflugur sími sem á samkvæmt lýsingum ekki að gefa neitt eftir í samanburði við önnur sambærileg Android-símtæki.

Stóra spurningin er þá þessi; stendur Nokia 6 undir þeirri pressu sem lögð hefur verið á hann?

Nokia 6

Það er enginn vafi á því að þegar Nokia 6 er settur í gang að hér er á ferðinni tryllitæki. Kristaltær FullHD-skjárinn er að skila því sem leitað er eftir með slíkri upplausn og öll vinnsla er áberandi betri þökk sé aukningu í vinnsluminni sem er komið upp í 3GB í Nokia 6.

Nokia 6 er með 5,5 tommu skjá sem gerir hann að stærsta símanum í Nokia-línunni um þessar mundir. Þrátt fyrir að vera 0,3 tommum stærri þá munar einungis 9 gr. á Nokia 6 og Nokia 5 sem telst ágætt miðað stærri og öflugri skjá. Að auki er Nokia 6 með stærra geymsluminni en í boði eru 32GB ásamt því að hægt er að stækka það alveg upp í 256GB með minniskorti. Til samanburðar þá eru Nokia 3 og Nokia 5 ‚aðeins‘ með 16GB í boði auk minniskortsins.

Nokia 6 keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 3 og Nokia 5, á Android 7.1.1, betur þekkt sem Nougat-útgáfan af Android. Upplifunin á Android-stýrikerfinu er virkilega góð í Nokia 6 og greinilegt að Snapdragon-örgjörvinn sem kemur í Nokia 6 sem og hið aukna vinnsluminni er að vinna vinnuna sína.

Hönnun og vélbúnaður

Það er er ekki ofsögum sagt að Nokia 6 lítur einstaklega vel út. Ef notendur eru hrifnir af álskelinni sem er utan um Nokia 5 þá ætti Nokia 6 að gjörsamlega heilla þá upp úr skónum. Leyfir undirritaður hér með að fullyrða að af þeim Nokia-símum sem hafa nú þegar komið í sölu þá ber Nokia 6 af þegar það kemur að útliti. Það fer ekkert á milli mála að Nokia 6 var hannaður með gæði og notagildi í huga. Fagur álskelin utan um símann fer vel í hönd og þrátt fyrir hið hefðbundna ‚snjallsímaútlit‘ sem margir hverjir eru orðnir þreyttir á að þá kemur Nokia 6 vel út.

Nokia 6 með þrjá takka á hliðinni; tveir takkar sem þjóna þeim tilgangi að annaðhvort hækka eða lækka hljóðstyrk símans og svo er þar fyrir neðan á hægri hliðinni fjölnotatakki sem nýtist við að kveikja eða slökkva á símanum, aflæsa skjálæsingu eða með því að tvíýta og ræsa þar með myndavélina.

Nokia 6 er síðan með fingrafaraskanna sem er innbyggður í miðjutakkann neðst á símanum. Þetta er án efa kærkomið fyrir þá sem eru farnir að stóla á þetta sem sína auðkenningu inn í sitt símtæki og í prófunum hefur þessi skanni virkað hnökralaust og án vandræða. Hægt er að nota fingrafaraskannann til þess að opna símtækið þegar það er læst eða til þess að auðkenna sig t.d. inn í Play Store til þess að staðfesta kaup á forriti eða niðurhal.

Líkt og með systikini sín í nýju Nokia-línunni þá er Nokia 6 ekki með sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti. Myndavél er mjög snögg í gang og hægt að smella strax af myndum á augabragði.

Nokia 6 er síðan með minniskortarauf fyrir allt að 256GB sem er kærkomin búbót við þau 32GB sem koma innbyggð í símanum.

Nokia 6 kemur afar vel út úr viðmiðunarprófum AnTuTu og er niðurstaðan þar að leikjavinnsla sé í meðallagi og að almenn vinnsla sé í takt við síma sem eru í hærri kantinum sem ráða vel við stór forrit og sem og vinnslu margra forrita í einu.

Helstu eiginleikar:

  • Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE. 4G á 700/800/850/900/1800/2100/2300 og 2600 MHz
  • Skjár; 5,5 tommur, IPS LCD, 16M litir, 1080 x 1920 díla upplausn (403 PPD)
  • Örgjörvi; Qualcomm MSM8937 Snapdragon 430, 1,4 GHZ áttakjarna Cortex-A53 með Adreno 505-skjástýringu
  • Minni; 3GB vinnsluminni, 32GB geymsluminni ásamt microSD-kortarauf sem styður allt að 256GB
  • Myndavél; 16 MP, DUAL LED-flass með autofocus. Selfie-myndavél; 8MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 1080P@30FPS.
  • Aðrir þættir; FM-útvarp, Bluetooth 4.0, NFC, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
  • Stærðir; 154 x 75,8 x 7,9 mm. Þyngd; 169 gr.

Tengimöguleikar

Það er microUSB-tengi fyrir gagnatengingu og hleðslu á Nokia 6 og ætti því að vera hentug búbót fyrir þá sem eiga eldri microUSB-hleðslutæki að geta nýtt þau áfram. Einnig styður Nokia 6 Bluetooth 4.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 6 hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geta þá tengst við símann í gegnum Wifi.

Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 6 góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökkrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.

Einnig er ánægjulegt að sjá innbyggt FM-útvarp og FM-virkni þannig að hægt er að hlusta á hefðbundnar FM-útsendingar víða vegar um land. FM-útvarpsvirkni var eitt af því helsta sem Nokia státaði af á sínum tíma og voru margir notendur sem nýttu sér þá virkni og gleður því eflaust marga að sjá slíkt aftur í Nokia-síma.

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan er 3000 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 50% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu. Það vekur athygli hvað rafhlöðuendingin er góð í Nokia 6 og virðist þessi ending vera án hliðstæðu á markaðnum í dag. Þó ber að hafa í huga að mismunandi notkun á hverjum degi hefur auðvitað áhrif á endinguna en af þeim símum sem prófaðir hafa verið í Nokia-línunni upp á síðkastið þá er Nokia 6 með langsamlega bestu endinguna.

Í ræsingu þá kemur sjálfvalið að hafa stýrikerfið á íslensku. Google hefur verið að betrumbæta íslensku þýðinguna á Android-stýrikerfinu og segja má að hún sé svo gott sem komin á par við það sem þekktist áður í Symbian-stýrikerfinu sem og S40-stýrikerfinu sem Nokia notaði á sínum eldri símum á sínum tíma.

Hljóð og mynd

Nokia 6 kemur með öflugan og góðan FullHD-skjá sem styður 1080 x 1920-díla upplausn. Í samaburði við Nokia 5 og Nokia 3 þá leikur enginn vafi á því hversu góð upplausn er í þessum skjá og nýtur hann sín vel í almennri leikjanotkun eða í hverju því öðru sem maður er að gera í símanum dags daglega. Streymivinnslu líkt og hjá Netflix, YouTube og afspilun á myndskeiðum í Facebook-smáforritinu kemur mjög vel út og er ekki laust við að maður sé talsvert feginn að hafa 5,5 tommu skjá þegar verið er að horfa á myndefni. Hið aukna vinnsluminni símans nýtur vel í þessari vinnslu og er það kærkomið þegar mikið reynir á vinnslu símans.

Hljóð er skýrt og gott en það eru tveir hátalarar á Nokia 6 sem er staðsettir á botninum hægra megin við hleðslutengið.

Myndavél

Nokia hefur haft það orðspor af sér, allt frá því að fyrstu snjallsímarnir fóru í fjöldaframleiðslu, að bjóða upp á öfluga myndavélavirkni, óháð öðrum íhlutum eða gæðum hvers síma fyrir sig, í hvaða verðflokki sem er. Nokia 6 er með 16 megapixla myndavél og ræður vel við þá upplausn enda eru myndirnar koma úr símanum kristaltærar. Einnig er hægt að ræsa myndavélina annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.

Það tekur myndavélin einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndaefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndaefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira. Myndavélaforritið í Nokia 6 kemur frá Nokia og er þetta því eina forritið sem er sérhannað af Nokia inn í Android-stýrikerfið sem kemur í Nokia-símanum, annars er allt annað í símanum byggt á því sem Google leggur til í Android-stýrikerfið í grunninn.

Hér fyrir neðan er mynd tekin með Nokia 6. Ekki er búið að eiga við myndina með neinum hætti. Þetta er skráin beint úr símanum.

Margmiðlun og leikir

Það er virkilega gaman að nýta sér margmiðlunarvirkni Nokia 6 enda er hinn 5,5 tommu FullHD-skjár sannarlega á heimavelli í þeim efnum. Það er mun betri vinnsla á öllu sem kallast streymi þegar það kemur að Nokia 6 og er t.a.m. mun auðveldara að keyra þyngri og vélbúnaðarfrekari leiki í Nokia 6.

Eins þá er mun auðveldara að skipta á milli virkra forrita í Nokia 6 og því er það ekki eins mikið tiltökumál að passa sig á hversu mörg forrit eru opin í símanum hverju sinni enda er síminn með 3G vinnsluminni og ræður vel við þá vinnslu.

Hugbúnaður og samvirkni

Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 6 keyrir á ‚stock‘-útgáfu af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 6 keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma.

Í þessum prófunum var Nokia 6 uppsettur með Microsoft Outlook-hugbúnaðinum varðandi samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða. Að auki var mikil Skype og Whatsapp-virkni í símanum á meðan prófanir stóðu yfir og gekk það allt vel fyrir sig án vandræða.

Hægt er að tengja Nokia 6 við tölvu með microUSB-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.

Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 6 er engin undantekning þar og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 6 sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.

Niðurstaða

Undirritaður hefur verið að bíða eftir því að fá Nokia 6 í hendurnar síðan hann var formlega kynntur á Mobile World Congress 2017 í febrúar enda var það mat hans sem og margra að þetta yrði sá sími sem myndi henta vel fyrir daglega notkun sem og kröfuharða margmiðlunarnotkun.

Það var því ekkert lítil pressa sem var lögð á þennan ágæta síma en hann stóð fyllilega undir þeirri pressu og gott betur.

Nokia 6 er að mati undirritaðs einn besti sími sem hann hefur prófað undanfarin ár og er hönnunin m.a. sú flottasta sem sést hefur í langan tíma.

Skjárinn er sérstaklega flottur og kemur FullHD-upplausnin einstaklega vel út í þessari skjástærð. Þrátt fyrir að síminn sé með 5,5 tommu skjá þá fer hann samt vel í hendi og í raun ótrúlegt að hann sé næstum jafnþungur og Nokia 5 þrátt fyrir að vera lítið stærri.

Rafhlöðuendingin kom einnig talsvert á óvart og ánægjulegt að sjá snjallsíma í dag sem er ekki kominn í rafhlöðuþurrð rétt eftir drekkutíma.

Sem fyrr þá er líka einn stærsti kosturinn við Nokia 6 á hvaða verði síminn er en hann er litlu dýrari en Nokia 5 og er vel hægt að mæla með því að áhugasamir beri vandlega saman kosti þess að fá sér Nokia 6 því það er hreinlega svo margt sem er að vinna með þessum síma, hvort sem það er í samanburði við aðra Nokia-síma eða aðra síma á markðanum í dag.

Það er því með góðri samvisku sem hægt er að mæla með Nokia 6 fyrir hvern þann sem er að leita sér að öflugum og endingargóðum síma. Það er einnig nokkuð ljóst að Nokia 6 fer ef til vill langt með að festa sig í sessi hina klassísku símtækja sem Nokia hefur sent frá sér í gegnum tíðina.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira