Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 157 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..
Hver er þessi Sveinn Birkir og hvaðan er hann eiginlega?
Sveinn Birkir er strákur að austan. Ég flutti til Reykjavíkur til að fara í háskólanám fyrir um 20 árum og tók ástfóstri við Hlíðarnar og Val. Ég er eiginmaður og faðir með þrjá misstálpaða unglinga. Ég er menntaður heimspekingur og fór seinna í nám í blaðamennsku. Ég fór í tímabundið leyfi frá því námi til að fara að vinna sem ritstjóri Reykjavík Grapevine. Það eru meira en 10 ár síðan það var, svo líklega á ég ekki afturkvæmt í námið úr þessu.
Ef þið kafið aðeins undir yfirborðið, þá er ég frekar ljúfur og góðhjartaður drengur. Hrein sál. Ég hef mikinn áhuga á íþróttum, ekki síst körfubolta. Ég styð New York Knicks í NBA deildinni, sem er skammdegisþunglyndishvetjandi. Hér heima er ég stuðningsmaður Vals, og Hattar frá Egilsstöðum. Það eru ekki alltaf gjöful mið heldur.
Ég er líka áhugamaður um bjór. Og þá á ég frekar við svona fagurfræðilegan áhuga á ólíkum skólum bruggunnar, heldur en eigin neyslu. Auðvitað fer þetta best saman, samt.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Í dag starfa stjórna ég samskiptasviði Íslandsstofu. Það er fjölbreytt og skemmtilegt starf þar sem ég fæ að koma að alls konar verkefnum í almannatengslum, útgáfu, samfélagmiðlum, vefsíðugerð svo eitthvað sé nefnt. Aðallega er ég samt að vinna með alveg frábærum hópi af fólki (s/o, yo) svo það er alltaf gaman að mæta í vinnuna.
Í gegnum tíðina hef ég mest fengist við skrif, ritstjórn og útgáfuverkefni af einhverju tagi. Meðfram námi vann ég við smíðar, garðyrkju og steinsmíði og stundum sakna ég þess að vinna líkamlega vinnu. Það gengur samt oftast yfir um leið og það fer að rigna.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Við reynum að rúlla heimilishaldinu af stað svona upp úr sjö. Þá eru allir mættir í vinnu og skóla upp úr átta. Mér finnst gott að taka morgunmat á leiðinni í vinnuna því oft er ekki mikill tími til þess þegar verið er að passa að allir séu með nesti og námsgögn og í samlitum sokkum. (Mæli með kaffihúsi Nova í Síðumúla á morgnanna. Það er frábært að versla við Begga sem sér um það því hann er jákvæður og elskulegur og maður fer alltaf út í góðu skapi.)
Svo eru ca. átta tímar í vinnu. Yfirleitt er það nokkrir fundir, hellingur af tölvupóstum og öðrum samskiptum, og svo einhver vinna í kringum skrif eða framsetningu þeirra. Að því loknu þarf oftast annað hvort að sinna íþróttaiðkun barnanna eða versla og elda. Ég hef reyndar mjög gaman af því að elda, en síður að versla. Stundum reyni ég að kreista inn einhvers konar líkamsrækt, eða hitta eitthvað fólk.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Þessa dagana er ég mjög upptekinn af því að fylgjast með því hvort það fer að gjósa í Kötlu. Íslandsstofa er einn þeirra aðila sem koma að því að samræma og halda utan um miðlun upplýsinga um stöðu mála til erlendra fjölmiðla og annara aðila sem hafa einhverra hagsmuna að gæta. Ég er búinn að fara í gegnum þennan pakka þrisvar áður og var eiginlega að vona að ég þyrfti ekki að fara í þetta í bráð, því þetta yfirtekur allt annað.
Hvert er draumastarfið?
Mér hefur eiginlega aldrei leiðst í vinnunni og verið heppinn að fá að fást við margt skemmtilegt í gegnum tíðina. Ég hef yfirleitt fengist við að búa eitthvað til með einum eða öðrum hætti. Mér finnst að gaman. Það yrði að vera eitthvað skapandi. Þetta er ekkert rosalega sexí svar. Ég held að það gæti verið mjög gaman að vera kvikmyndaframleiðandi, það myndi henta mér ágætlega held ég. Það væri líka gaman að vera laghentur smiður, sko.
Eina skilyrðið er að það sé ekki vinna sem krefst þess að ég gangi í jakkafötum. Ég tók þá ákvörðun mjög snemma á lífsleiðinni að ég vildi ekki vinna í jakkafötum, og ég hef ekki kvikað frá þeirri ákvörðun síðan.
Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Sennilega var það viskíglas sem ég keypti á barnum á öldurhúsinu Orminum á Egilsstöðum veturinn 1997. Það varð til þess að ég kynntist konunni minni. Það er sennilega mín mesta gæfa að þessu viðtali undanskildu, og svo börnin sem fylgdu.
Ég hef líka verið heppinn að hafa haft marga frábæra kennara í gegnum tíðina og hafa eignast góða vini sem mér þykir vænt um. Gæfan felst í góðu fólki.
Lífsmottó?
Do it nice or do it twice. Mér leiðist að sjá fólk gera hluti með hangandi hendi.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég er með vinnuvélapróf, kranapróf og lyftarapróf. Eða var með. Sennilega er það allt útrunnið. Svo veit ég ekki hvort það getur talist sturluð staðreynd, en mér finnst betra að það komi fram að fyrir 20 árum gat ég troðið. Þeir tímar eru liðnir.
Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
500 milljónir er upphæð sem myndi gera mann kleift að lifa góðu lífi bara af vöxtunum. Kannski myndi ég gera það. Aðallega myndi ég samt reyna að búa svo um hlutina að ég þyrfti ekki skulda, því mér finnst það leiðinlegt. 500 milljónir myndu klára það.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Þessi er dálítið snúin, því ég ólst upp í Fellabæ sem 400 manna þorp utan við Egilsstaði. Þar var Jón Arngrímsson fremstur í flokki, og hann er nú ekkert mjög frægur. Næstur var svo bara Bragi á Setbergi sem var lunkinn á harmonikku. Ætli ég verði ekki að fá að snúa þessu frekar bara upp á Menntaskólann á Egilsstöðum – þar var ég samtíma mörgum misþekktum tónlistarmönnum, svo sem Magna, Jónasi Sig, Steina í Hjálmum, hinni goðsagnakenndu þungarokkshljómsveit Trassar, Gleðisveitin Döðlur og pönksveitin Niturbasar, þarna var líka Þröstur, seinna kenndur við Mínus og Birkir sem seinna trommaði fyrir m.a. Stjörnukisa og söng fyrir I Adapt. Megnið af hljómsveitinni Bloodgroup var þarna, sem og hljómsveitin Vax. Þetta var hress hópur þarna í ME.
Býr tæknipúki í þér?
Já – mikill. Ég skrifaði meðal annars tæknidálk í Morgunblaðið í tvö ár.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég er með Windows 10 á vinnuvélinni, en Mac OS Sierra á heimilisvélinni. Ég var mjög heittrúaður Apple maður, en vonbrigði mín með vöruþróun þeirra að undanförnu og stöðugar umbætur á Windows 10 hafa eiginlega gert mig að algjörum trúleysingja í þessum efnum. Besta tölvan/stýrikerfið er bara það sem hentar þér best að vinna á hverju sinni. Hvort fyrir sig hefur galla, það kemur fljótt í ljós ef maður vinnur mikið með bæði.
Hvernig síma ertu með í dag?
iPhone 7+
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Ég hata þennan síma. Sennilega verður þetta síðasti iPhone sími sem ég kaupi mér á ævinni. Ég keypti hann fyrir myndavélina, ekki síst tvöföldu linsuna. Ég tek talsvert af myndum á símann svo mér fannst það spennandi. Hún er góð, svo við skulum segja að hún sé helsti kosturinn.
Helstu gallar eru að hann er alltof stór. Óþægilega stór að mér finnst. Sexan sem ég átti á undan var fullkomin. Þetta hefði ég kannski getað sagt mér sjálfur, en þessi myndavél var bara í boði í þessum síma, svo ég varð að taka hann. Ég hélt ég myndi venjast því, en það er ekki að gerast.
Svo er það þessi hryllilega ákvörðun að sleppa jack-tenginu fyrir heyrnartól. Fyrirfram var ég ekki viss um hversu mikið þetta myndi bögga mig, en ég get sagt ykkur núna að þetta böggar mig óendanlega. Þetta er mannfjandsamleg ákvörðun sem dregur verulega úr bæði notagildi símans og ánægju minni af að nota hann.
Ég sé eftir því að hafa ekki keypt Pixelinn sem ég var að pæla í. Ekki kaupa ykkur svona síma krakkar, þið munuð sjá eftir því.
Í hvað notar þú símann mest?
Taka myndir, Twitter og tölvupóst sennilega. Svo vil ég nefna smáforritin Leggja og Strætó. Þó ég noti þau kannski ekki mest, þá hafa þau sennilega bætt lífsgæði mín meira en flest annað í símanum.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Það var Nokia 6110 sími. Sennilega var það besti sími sem ég hef átt. Árið var 1998 og ég var um það bil að fara að eignast mitt fyrsta barn. Farsímar voru ekki enn orðin almenningseign og það var stór ákvörðun að kaupa fyrsta símann fyrir fátækan námsmann sem var að stofna fjölskyldu. Ég réttlætti það með því að það yrði að vera hægt að ná í mig ef ég væri að heiman ef konan færi af stað. Raunverulega langaði mig samt bara til að spila Snake.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Minn draumasími væri með stækkanlegum skjá. Ég veit að ég sagðist hata stærðina á iPhone 7+, en stundum er samt þægilegt að geta notað hann bara til að horfa á Netflix eða Youtube. Skjárinn er næstum nógu stór til að það sé bara í góðu. Minni sími með stækkanlegum skjá væri því frábært viðbót.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Ég les mikið af tæknisíðum. The Verge, Ars Technica, Read Write, Wired, Lifehacker, The Next Web, Daring Fireball, 9to5 Mac og fleiri. Svo les ég næstum alltaf föstudagsviðtölin á Lappari. Þetta er allt í einhverju rotation hjá mér. Annars er ég að miklu leyti farinn að sækja þetta bara í gegnum einhver smáforrit eins og Google Play News, Digg og Flipboard.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Æ, svona sniðugheit að lokum verða oftast hálf hallærisleg.