Undirritaður las áhugaverðan pistil á netmiðli… sem smellhittir málefni, sem er mér hugleikið, beint í óæðri endann. Þarna á ég við smellibrellur og auglýsingakvata hjá netmiðlum.
Hér má sjá skjáskot af pistli Stefáns Mána sem birtist á visir.is
Ekki misskilja mig, ég veit að auglýsingar eru skiljanlegar og líklega nauðsynlegur partur af rekstri fréttamiðla. Stefán Máni bendir hinsvegar réttilega á að þær eru tvíeggjað sverð. Miðlar þurfa að keyra upp heimsóknir á greinar til að fjölga heimsóknum og þannig auka líkur sínar á frekari auglýsingatekjum.
Fréttaveitur gera þetta til dæmis með því að auka flæði efnis á vefinn sinn. Við hér á Lappari.com sjáum þetta vel. Ef við birtum lítið af efni þá minnka heimsóknir og vice versa. Aukið flæði efnis og svokallaðar smellibrellur eru mikið notaðar, en þá eru fyrirsagnir notaðar til þess að fjölga heimsóknum. Þessari fyrirsagnir eru oft mjög sterklega orðaðar, neikvæðar eða einfaldlega hreinlega rangar þegar uppi er staðið.
Ég trúi því að sterkar eða neikvæðar fyrirsagnir dragi sannarlega að fleiri gesti og virki mögulega sem hvati fyrir netmiðla að skrifa neikvæðar fréttir.
Vítahringur sem skapar neikvæðari umræðu og þannig neikvæðara samfélag!
Ég freistaðist til þess að gera þetta í síðustu viku en það er eina skiptið sem ég hef meðvitað reynt að draga umferð að vefnum með fyrirsögn sem var sterk/misvísandi. Viðbrögðin voru augljós (mikil umferð) en að sama skapi var ég gagnrýndur fyrir þetta á samfélagsmiðlum. Ég fagna þessari gagnrýni í dag og ætla að taka hana til mín sem vonandi leiðir af sér vandaðri vinnubrögð okkar á Lappari.com
Hvað getum við lesendur gert?
Stefán Máni hvetur okkur til þess að taka skjáskot og deila þeim frekar en tenglum í fréttina. Þetta er góður punktur sem myndi mögulega fækka heimsóknum á fréttir sem eru skrifaðar til þess eins að gleðja auglýsendur. Ég er algerlega sammála því að netmiðlar séu markvisst að beita þessum fyrirsögnum til að grípa athygli fólks og hreinlega plata lesendur inn á vefinn sinn. Tengill getur verið alveg jafn blekkjandi og fyrirsögnin, enda smellir notandinn á hann til þess að skoða fréttina.
Þetta telst allt sem umferð en það eru þó ekki allir auglýsendur sem eru að rýna í tölurnar yfir smelli á auglýsingar (PPC). Markmiðið er því ekki endilega smellur, það getur líka verið birting (PPM) en þar er greitt fyrir visst margar birtingar. Þarna birtir miðillinn vissa auglýsingu og þegar ákveðið margir lesendur hafa opnað greinina þar sem auglýsingin er, þá fá þeir greitt.
Stóra málið er því eins og Stefán bendir á, að magn innihaldslausra frétta, misvísandi tengla og/eða fyrirsagna eru til þess eins að fóðra teljara netmiðla. Þessar tölur eru síðan notaðar til að selja auglýsingar og þannig heldur þessi vítahringur áfram.
Notaðu góða auglýsingavörn
Talandi um auglýsingar þá nota ég auglýsingavarnir (Ad blocker) og hef gert í mörg ár. Þessar varnir loka á auglýsingar en koma samt ekki í veg fyrir að fóðra umferðartölur netmiðlana. Auglýsingavarnir eru viðbætur í vafranum þínum sem loka sem sagt fyrir að auglýsingar sjáist á vefnum sem skoðaður er. Þetta er góð leið fyrir notendur til þess að losna við áreiti en skapa á sama tíma vissa áhættu fyrir miðlana sjálfa. Sjá grein The Guardian um málið.
Hér fyrir neðan eru nokkur skjáskot af forsíðum netmiðla, með og án auglýsingavarnar. Þessir þrír miðlar voru valdir af handahófi enda á þetta við um þá flesta, ef ekki alla.
Hér má sjá mbl.is með og án auglýsingavarnar
Hér má sjá Nútímann með og án auglýsingavarnar
Hér má sjá kaffid.is sem er nýr miðill, með og án auglýsingavörn
Notar þú auglýsingavörn í dag?
Athugasemdakerfi netmiðla.
Stefán Máni kemur einnig inn á athugasemdakerfi netmiðla og hver sé eiginlegur tilgangur þeirra á fréttamiðlum. Þetta er áhugaverður vinkill en eins og Stefán segir: “Staðreyndin er sú að það er háværasta, frekasta, sjálfumglaðasta, þröngsýnasta og verst innrætta fólkið sem hefur ríkustu tjáningarþörfina og hefur sig mest í frammi.”
Ég hefði kannski ekki orðað þetta svona en er samt sammála því að lokun athugasemdakerfis, er ekki árás á tjáningarfrelsið og ætti að skoða alvarlega.
Á að loka athugasemdakerfum netmiðla?
Frá ritstjórn
Þó að við séum ánægð með áframhaldandi vöxt í heimsóknum á Lappari.com þá erum við pínulitill miðill á flesta, ef ekki alla mælikvarða. Við ætlum engu að síður að vanda okkur betur hér eftir þegar kemur að fyrirsögnum og tenglum sem við deilum. #smellibrellur
Lappari.com er stundum með styrktaraðila og þá bara einn í einu og hafa þeir ekki aðgang að eða borga fyrir vissa tölfræði. Það er enginn rekstur bakvið þennan vef. Allt er unnið í sjálfboðastarfi og eini kostnaðurinn er lénakaup og vélbúnaður til að hýsa á vefinn okkar. Þessi kostnaður er fjármagnaður með styrk sem er reyndar fjarri því að duga fyrir kostnaði og kaupum á búnaði. Mismunur er fjármagnaður af ritstjórn (með brosi á vör).