Heim Föstudagsviðtalið Egill Rúnar Erlendsson

Egill Rúnar Erlendsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 148 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver er þessi Egill og hvaðan er kallinn?

Ég heiti fullu nafni Egill Rúnar Erlendsson, kem upprunalega úr Breiðholtinu en hef prófað að búa á hinum ýmsu stöðum í gegnum tíðina. Fjölskyldan flutti fyrr á árinu frá Kópavoginum yfir á Reykhóla. Stað sem ég verð að viðurkenna að ég vissi ekkert um eða þekkti til, en hefur er svo nafli alheimsins þegar betur er að gáð (tengingarnar við Reykhóla hjá vinum og vandamönnum eru orðnar ískyggilega margar). Það hefur verið ótrúlega gefandi og skemmtilegt að kynnast því að búa á landsbyggðinni, það er öllum hollt að fara út fyrir þægindarammann og fá einhverja nýja sýn á hlutina. Verst bara hvað netsambandið er hræðilegt.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn hjá fyrirtæki sem heitir Automattic, en fæstir vita líklega hvað það er. Automattic er tæknifyrirtæki með um 500 manns í vinnu, í 56 löndum en með engar skrifstofur, við vinnum þar sem við erum hverju sinni, höfum engan fastan vinnutíma, ótakmarkaðan frítökurétt og margt annað sem kann að þykja framandi í augum flestra. Þar er ég í þriggja manna teymi sem sér um allt er tengist auglýsingabirtingu. Við rekum þjónustu sem heitir WordPress.com, en í gegnum hana og aðra vefi erum við að birta yfir 2 milljarða auglýsinga á mánuði. Annars á ég erfitt með að lýsa því í stuttu máli hvað ég geri, snertifletirnir eru margir, verkefnin sömuleiðis, enginn dagur er í raun eins. Ég verð að viðurkenna að það skemmtilegasta við starfið er tækifærið til þess að ferðast og sjá heiminn, koma til staða sem ég hefði líklega aldrei annars komið til.

Hvað hef ég verið að bralla síðustu árin?
Síðan ég byrjaði á því að svara í síma hjá Margmiðlun ’95 hef ég fengið að kynnast flestum hliðum internetsins. Unnið fyrir internetþjónustu, poppara/listamenn/plötufyrirtæki, nokkra banka. Verið þjónustufulltrúi, vefstjóri, kerfisstjóri og forritari. Í stuttu máli verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna hjá mörgum af skemmtilegstu fyrirtækjum landsins og fengið að kynnast ótrúlegum fjölda af kláru og skemmtilegu fólki.

 

Talandi um WordPress, hver er flottasta íslenska WordPress síðan?

Ég skoða bara einn vef á netinu, þannig að þessari spurningu er sjálfsvarað: lappari.com. En það eru margir skemmtilegir vefir þarna úti, það skiptir mig minna máli að þeir séu í WordPress.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Lappari.com er kominn á skjáinn áður en ég vakna. Það eru annars fæstir dagar venjulegir, ég er ýmist heima á Reykhólum, í bænum eða einhverstaðar á ferðalagi erlendis. Yfir árið þá er ég líklega 2 vikur í mánuði í bænum, eina á Reykhólum og eina erlendis. Eins mikið og mig langar til þess að sitja heima á Reykhólum og vinna, þá er netsambandið sem er í boði þar svo slappt að ég hef oft endað á því að keyra í bæinn til þess eins að geta klárað verkefnin mín (Líður eins og gömlum karli að öskra á himininn í hvert sinn sem þetta málefni ber á góma). Þessi blessuðu fjarskiptafyrirtæki mættu hysja upp um sig buxurnar, klára að koma málum í lag á landsbyggðinni áður en borgin er uppfærð í 1gbita samband (Elska samt nýja 1gbita ljósleiðarann sem ég er með í bænum, ekki taka hann af mér).

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Í vinnunni erum við að skipuleggja næstu þrjú árin í vinnunni, setja okkur markmið og fara yfir stöðuna almennt. Annað sem ég hef verið að gera er að þýða og yfirfara þýðingu á WordPress fyrir næstu útgáfu sem verður í desember. Heima við eru það líklega jólin sem eiga alla okkar athygli, uppáhaldstími fjölskyldunnar enda erum við forhert jólabörn öll sem eitt.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég væri til í að vera geimfari í smá stund. Langar til þess að fljóta um í geimnum og sjá jörðina úr fjarska, bara til þess eins að upplifa “the overview effect

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Er hægt að hafa það betra en þetta viðtal? Kemst auðvitað ekki hjá því að minnast á konuna og börnin, hvar væri maður án þeirra? Starfið sem ég er í kemst líka ansi hátt á listann yfir það besta sem hefur gerst.

 

Lífsmottó?

Humar eða frægð.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Það sést nú að ég er ekki úr Bárðardal!

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ef ég á að vera hreinskilinn, þá myndi ég líklega nýta þá peninga til þess að reyna að búa börnunum mínum til áhyggjulausa framtíð (hvernig sem það er svo gert með 500 milljónum).

 

Býr tæknipúki í þér?

Ég er algjör tæknipúki, tel sjálfum mér trú um að ég hafi náð að halda honum í skefjum síðustu árin en konan mín segir líklega aðra sögu. Ég hef alltaf verið algjör tæknipúki, í stuttu máli snúruelskandi takkaóður fiktari. Mér leiðist reyndar fátt meira en að ræða tæknimál, en veit fátt skemmtilegra en að fikta, leysa snúruflækjur, tengja, brjóta og laga tæki/tól. Hef alltaf átt auðveldara með að eiga við tölvur en fólk.

 

Ertu búinn að panta þér nýju Macbook Pro vélina?

Nei, ég hef ekki fengið mig til þess að senda inn pöntun ennþá. Það hljómar kjánalega en er í eins manns þöglum mótmælum gegn Epli.is og Apple. Verðlagningin sem er í gangi hérna heima er geggjuð og augljóst dæmi um áhrif fákeppni á litla manninn (mig :).

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Hef aðallega notað Mac OS X síðustu árin, pæli annars takmarkað í því svo lengi sem það virkar og er til friðs.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Mölbrotinn iPhone 6+. Daginn sem að iPhone 7 kom út tókst mér að missa símann þrisvar í gólfið (tilviljun?), hann er alveg kortér í kertafleytingu. Eins mikið og mig langar til að elska vörurnar frá Apple, þá hefur það ástarsamband dvínað hratt síðan Steve Jobs var og hét. Það er erfitt fyrir einstakling eins og mig að halda í sér þegar kemur að tækjakaupum, en ég er að því núna.

 

Hefurðu prófað Windows Phone?

Já, ég geri það aldrei aftur. Algjör djöflasýra. Hvað er að fólki sem kýs sjálfviljugt að nota þetta?

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostirnir eru að þetta er frábært vinnutæki en á móti alveg glataður sími. Líður eins og ég sé með skurðarbretti við eyrað þegar ég tala í hann.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég nota helst Slack, Google Hangouts (erum reyndar að skipta yfir í Zoom), Facebook, Twitter og vafrann.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Símarnir hafa verið svo margir í gegnum tíðina, en líklega Nokia 6110. Sá sími entist von úr viti, sakna hans mikið!

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Sakna daganna þegar maður þurfti að hlaða símann á 14 daga fresti. Væri til í þann tíma aftur, bið ekki um meira 🙂

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Þær blikna allar í samanburði við lappari.com, en bara til þess að leyfa einhverjum að vera með, þá hef ég upp á síðkastið helst verið að skoða smallnetbuilder.com og tek reglulega snúning á The Verge og Tech Chrunch.

Ég er annars svo heppinn að fá stóran hluta af tæknifréttum í gegnum vini og vinnufélaga, þeir eru að standa sig í þeim efnum.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk fyrir lappari.com, þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira