Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 144 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver er þessi Svala og hvaðan er hún?
Svala er mis loðin kona, fædd og uppalin í 101 Reykjavík.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Ég starfa sem grafískur hönnuður á auglýsingastofunni Jónsson&Le´macks. Heima hjá mér starfa ég sem amatör sálfræðingur, kennari, hjúkrunarfræðingur, kokkur og stjórnmálamaður.
Síðustu ár hef ég verið að læra, vinna, geta og fæða börn, ferðast, æfa í Mjölni, stofna og byggja upp Macland með ástmanni mínum. Ég gat líka börnin með téðum ástmanni.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Ég og ástmaður minn (hér eftir kallaður Hörður) vorum að kaupa okkur lítið einbýlishús í smáíbúðahverfinu. Þar erum við öll kvöld að rífa innréttingar og veggi. Ég er líka að skrifa B.A. ritgerðina mína í grafískri hönnun svo ég sef bara einhverntíman seinna.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
- Sofa yfir mig
- Vekja börnin og henda í þau mat
- Skutla börnum í skólann
- Mæta í vinnuna
- Kúka (ég kúka altaf kl.10 á morgnana)
- Drekka of mikið kaffi og reykja of margar sígarettur
- Sækja börnin
- Skutla á fimleikaæfingu
- Versla
- Sækja á fimleikaæfingu
- Heim að elda og baða börn
- Hlusta á börnin æfa píanó
- Hlusta á heimalestur hjá börnum
- Svæfa börn
- Fara upp í hús að rífa eitthvað eða vinna í ritgerð
- Reykja of margar sígarettur
- Spila Two Dots á símanum
- Sofna
Hvert er draumastarfið?
Þetta er ekki einföld spurning að svara. Það er svo margt sem mig langar að læra og gera. Eitthvað starf sem gerði mér kleift að ferðast um heiminn og dvelja í ólíkum menningarheimum í einhvern tíma. Mig langar svo að sjá allt og kynnast öllu.
Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Stjörnuspá Siggu Kling
Lífsmottó?
Lífsmottóið mitt er í raun áramótaheitið sem ég set mér öll áramót: Minna vont – Meira gott.
Þetta áramótaheit hvetur mig til þess að vera í virkri sjálfsskoðun og endursskoðun á lífshamingjunni. Bein afleiðing af slíkri skoðun eru brjóstahaldaralausar helgar. Ég fer aldei í brjóstahaldara um helgar og það er besta ákvörðun lífs míns.
Trump eða Hillary?
Hillary, það er löngu kominn tími á harðkjarna konu í þetta embætti. Svo er Trump líka siðblindur viðbjóður.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég er með útstætt rófubein.
Eitthvað leyndarmál um Hörð sem þig langar deila með okkur?
Hörður borar í nefið í svefni.
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Borga mínar skuldir og svo skuldir fólksins míns.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Ég á enga all time favorites en þeir sem ég hlusta á núna eru:
- Logi Pedro
- Unnsteinn
- Aron Can
- Friðrik Dór
- GKR
Býr tæknipúki í þér?
Alls ekki, ég skemmi öll raftæki sem ég kem nálægt. Eða þýðir það kannski að það býr í alvörunni tæknipúki í mér?
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég hef ekki hugmynd um það.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er með iPhone 6s. Ég bý með mesta Apple nörd Íslands og það þýðir að ég fæ alltaf “gamla” símann hans þegar hann uppfærir.
Kostir við símann eru:
- Góð myndavél
- Góður skjár
- Mátulega stór
- Meira gagnapláss en ég mun nokkurntíman þurfa
- Hraður
Gallar við símann eru:
– Hann er sími. Ég þoli ekki að tala í síma og svara þess vegan eiginlega aldrei.
– Missed call. Ég þoli ég ekki að fólk sem hringir veit að ég sé að það hringdi en svo hringi ég ekki til baka og þá veit fólk að ég er að hundsa það.
Í hvað notar þú símann mest?
- Snapchat
- Myndavél
- Vasaljós
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Fyrsti síminn var hinn klassíski Nokia 5110
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Hann er ekki sími.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Ég fylgist ekki með neinum tæknisíðum. Hörður segir mér frá öllu merkilegu (líka því sem er ekki merkilegt, hann talar rosa mikið).
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Hörður bað mig um að koma því á framfæri að hann er mjög góður maður.