Heim Föstudagsviðtalið Stefán Máni

Stefán Máni

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 146 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver er þessi Stefán Máni og hvaðan er maðurinn?

Steve Moon. Hann er núverandi rithöfundur, fyrrverandi verkamaður, fæddur í Reykjavík, alinn upp í Ólafsvík, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfesturm dáinn og grafinn – upprisinn og eilífur.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er rithöfundur, handritshöfundur og stundakennari. Síðustu 20 árin hef ég gefið út 18 skáldsögur en skrifað eitthvað fleiri. Ég hef samt mest verið í sundi.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna klukkan 7 til 8, bursta tennurnar og geri svo armbeygjur á fingurgómunum – sönn saga. Hafragrautur, fletta Fréttablaðinu, svo sterkt kaffi og lesa smá. Sest síðan við tölvuna og skrifa á meðan orkan/athyglin endist. Svo er það út að hlaupa (mánudagar og föstudagar), sund (til að synda – miðvikudagar og sunnudagar) eða leikfimi (þriðjudagar og fimmtudagar). Hádegismatur og svo kannski fundir eða einhver erindi, hitta einhvern, skrifa meira. Ég spila á gítar á hverjum degi og fer yfirleitt í sund daglega, til að hanga í pottinum ef ég syndi ekki. Skrifa meira, inn á milli. Kvöldmatur, lesa, horfa á fréttir og svo sjónvarpið eða hanga með vinum, fara í bíó kannski. Enda oftast einn í sófanum að horfa á Friends … Auk þessa alls á ég tvö börn sem ég eyði miklum tíma með.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Nýbúinn að gefa út spennusöguna Svartagaldur – Flottasta bók ever, þarf að ræða það eitthvað? Er alltaf með mörg járn í eldinum en tala ekki um hluti fyrr en þeir eru að verða að veruleika – talk is cheap.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er vélakall. Er góður að stjórna vélum, viðhalda þeim og gera við. Ætlaði að verða forritari eða vélbúnaðar-eitthvað en það varð nú ekkert úr því. Draumurinn er að stjórna Alheimsvélinni, að vera Guð.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Að hafa fæðst. Í alvöru. Það eru trilljón silljón billjón sinnum meiri líkur á að fæðast ekki en að fæðast. Hafið þið pælt í þessu? Hversu merkileg tilvist ykkar er? Hversu lífið er magnað? Leyndardómsfullt? Tilgangslaust? Dýrmætt? Pælið í því. Í alvöru …

 

Lífsmottó?

Halda andlitinu sama hvað. Halda kúlinu.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er mun meira næs en ég lít út fyrir að vera. Er í rauninni væminn og viðkvæmur eldri borgari. Eins konar blanda af Woody Allen og Elton John.

En þú fokkar í mér, þá slít af þér útlimina – make no mistake.

 

Enginn Spes

Stefán Máni á Twitter

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Kaupa nokkur hús. Nokkra bíla. Nokkra gítara. Halda partý. Hvað er mikið eftir?

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ólafsvík? Úff. Hljómsveitirnar Klakabandið og Nota Bene – þekkja þær ekki allir? Endless Dark að hluta.

 

Býr tæknipúki í þér?

Ónei … Eða sko, það er djúpt á honum. Ég forritaði sem unglingur og smíðaði rafmagnsbíla með drifi á öllum. En er löngu orðinn úreltur. Veit ekkert um tölvur í dag, en talsvert um bíla, og rafmagnsgítara og magnara og þannig. Ég er í raun 17. aldar maður. Ég skil bara kylfur og hnífa. Og bækur … Og gítara.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Stýrikerfi? Er með Makka. Örugglega með næstnýjasta stýrikerfið (vonandi).

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Helvítis LG fávita!

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostir: Ódýr. Gallar: HÆGFARA DJÖFULSINS AUMINGI!!

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Messenger
  2. Twitter
  3. Messenger
  4. Gmail
  5. Instagram

Ég samskiptakóngur. Er að tala við fólk gegnum Messenger allan daginn – alls konar fólk.

 

Hverjir eru fimm skemmilegustu vinir þínir á Twitter?

Þetta er erfitt. Árni Torfa. Anna Gaua (samt evil tík). Þossi. María Guðjohnsen (drottning alheimsins!). Og … Dagur Hjartarson. Það eru margir um hituna. Svo er fullt af fólki sem er gáfað, sniðugt, er að glíma við vandamál og/eða fólk sem mér þykir bara vænt um. Ég er að skilja ansi marga út undan hérna!

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia Meðalmennska.com 5-eitthvað-bla

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Ódýr og ógeðslega öflugur, bilar aldrei, endist að eilífu og með gott batterí. Með Android stýrikerfi, takk.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

You lost me at tækni-something … Les helst um bíla og eðlisfræði, geimvísindi og svona stóra og merkilega hluti, innan heims og utan.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ekki gleyma að lesa, þú þarna símasjúki samfélagsmiðlahórandi athyglissjúki bjáni!* Nema þú viljir í alvörunni vera bjáni …**

*á við um mig líka **þetta líka

Án stæla og gríns: Lestur barna er á undanhaldi, skilningur þeirra á texta er ekki nógu góður. Þetta er HRÆÐILEG þróun! Þetta mun minnka möguleika BARNANNA OKKAR á menntun, þroska og almennri lífsfyllingu.

En af hverju lesa börnin minna? Er það kannski vegna þess að við, foreldrar þeirra og FYRIRMYNDIR lesum ekki heldur? Af hverjum lesum við ekki? Að lesa er hollt, heilinn okkar þarf á því að halda – og sálin, ef við erum með þannig. Að lesa er að kúpla sig út, að eiga gæðastund með okkur sjálfum – að læra, upplifa, ímynda okkur og hafa gaman.

Samfélagsmiðlar, tölvuleikir og allt áreiti er bara umbúðir, hismi – sögur og fróðleikur er KJARNINN í mannlegri tilveru, þar finnum við gleði, slökun og tilgang.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira