Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 142 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver ert þú og hvaðan er maðurinn?
Ég heiti Sigurjón Guðjónsson, fæddur á Akranesi en uppalinn í Hrútafirði í Vestur-Húnavatnssýslu, nákvæmlega 200 metrum norðan við gamla Staðarskála. Flutti um fermingu í Breiðholtið og bjó þar í tæp 10 ár, eða til ársins 2006 þegar ég ákvað að flytja til New York. Þar er ég í dag!
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Fyrir utan nokkur ár sem fóru í að dæla bensíni í Staðarskála, bræða ál í Straumsvík og bera út póst í Garðabæ, þá hef ég nánast allan minn “atvinnuferill” verið ljósmyndari. Byrjaði rétt eftir framhaldsskóla að vinna fyrir blöð og tímarit á Íslandi, en eftir að ég flutti til New York hef ég unnið mest við arkitektúr ljósmyndun. Í byrjun árs 2016 var ég þó ráðinn í fullt starf sem ljósmyndari fyrir samgöngudeild New York borgar (New York City Department of Transportation) og þar er ég núna að svara þessum spurningum..
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Ég vakna klukkan 6:30, ekki alveg klár á því hvaða dagur er. Tek lest eða hjól í vinnuna og er mættur þangað um 8:30. Vinnudagurinn getur sveiflast í allar áttir, stundum sit ég fyrir framan tölvuna allan daginn á meðan aðra daga er ég í körfubíl í 25 metra hæð yfir Times Square. Fer allt eftir veðri og vindum. Ég er mættur heim um kl 18 til að elda fyrir fjölskylduna. Kvöldið endar svo á því að ég renni í gegnum öll myndböndin sem póstuð voru á Youtube þann daginn.
Hvert er draumastarfið?
Draumastarfið er í raun að þurfa ekki að vinna, en fyrst maður er ekki svo heppinn þá geri ég bara þá kröfu að starfið sé fjölbreytt og að maður sé ekki að gera það sama á hverjum degi. Ég verð mjög fljótt leiður á hlutunum og þess vegna hefur ljósmyndun hentað mér vel, því þar eru nánast aldrei tveir dagar eins. Ef ég þyrfti þó að velja eitt starf, ætli einkaljósmyndari forseta Bandaríkjanna væri þá ekki svolítið skemmtilegt.
Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?
Það verður á morgun þegar ég verð kominn með 1000 nýja followers á Twitter út af þessu viðtali!
—> https://twitter.com/sigurjon <—
Lífsmottó?
Vera alltaf í miðjunni, nema í flugi.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Veit ekki hversu sturlað þetta er, en hér koma nokkrar staðreyndir:
- Ég var margfaldur Íslandsmeistari unglinga í frjálsum íþróttum, oftast í hástökki.
- Ég hef aldrei horft á Eurovision
- Ég hef ekki lesið skáldsögu síðan ég las fyrstu 30 blaðsíðurnar í Falsaranum á fyrsta árinu mínu í fjölbraut.
- Ég var með ágætlega vinsælt blogg hér á árum áður og startaði til dæmis hugtakinu “punktablogg” (sirka fimm einstaklingar munu þekkja þessa tilvísun)
- Talandi um trend, ég var sá fyrsti sem kom auga á #keilan í hinni frægu mynd af íslenska landsliðinu í knattspyrnu fyrir EM.
- Mér finnst allt sci-fi efni afskaplega leiðinlegt
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Ég myndi kaupa Hjörleifshöfða.
Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Held að ég gæti varla fundið 5 fræga einstaklinga sem hafa komið frá Hrútafirði, hvað þá tónlistarmenn. Eiríkur Ingi Jóhannsson, hetja hafsins (aka “Hjóla Eiki”) er úr Hrútafirði, sama má segja um Þorvald Skúlason listmálara. Júlíus Róbertsson, sem spilar og semur lög með Ásgeiri Trausta (sem Miðfirðingur), er skólafélagi úr Reykjaskóla og sama má segja um Helgu Margréti Þorsteinsdóttur, Íslandsmethafa í sjöþraut kvenna. Heyrðu, svo á Sigrún Elísabet Arnardóttir og Albert Jónsson heima í Hrútafirði en þau voru nýlega í umræðunni fyrir að eiga saman 10 börn.
Býr tæknipúki í þér?
Ég viðurkenni fúslega að ég er haldinn semi-alvarlegri græjufíkn. Mér þykir afskaplega gaman að pæla í myndavélum, tölvum, símum og nánast öllu sem gengur fyrir rafmagni. Ég hef líka mikinn áhuga á öllum krókum og kimum internetsins, þá sérstaklega vefsíðuhönnun og fikta aðeins við þá iðju í frístundum.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Ég er að keyra Mac OS X El Capitan (10.11), bæði heima og í vinnunni. Ég er með smá áráttu varðandi að uppfæra alltaf allt í nýjustu útgáfu, hvort það er á tölvunni eða í símanum. Þrátt fyrir það ætla ég aðeins að bíða með að uppfæra í Sierra (10.12). Til að öðlast smá velvild hér á Lappari.com vil ég taka fram að ég er með VMware í vinnutölvunni sem keyrir Windows 7. Ég opna það öðru hverju svona rétt til þess að halda djöflinum á lífi.
Hvernig síma ertu með í dag?
Ég er með tveggja vikna gamlan iPhone 7 Plus
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Mér þykir hönnunin á símanum falleg, stýrikerfið er einfalt og þægilegt í notkun og gerir allt sem ég þarf að gera. Myndavélin er orðin ansi hreint góð þó svo hún sé langt frá því að standast þær (óeðlilegu) kröfur sem ég geri til myndavéla. Ég er mjög sáttur við þá staðreynd að iPhone sé núna vatnsþétt tæki, fólk gerir sér stundum ekki alveg grein fyrir hversu mikill kostur það er.
Veit ekki með galla. Veit að það er vinsælt að agnúast út í Apple fyrir að fjarlægja jack tengið en ég er yfirleitt mjög fljótur að aðlagast tæknibreytingum þannig að það böggar mig lítið. Þó svo ég sé sáttur við rafhlöðuna í símanum, væri ég alveg til í að vera með síma sem myndi duga í nokkra daga á einni hleðslu.
Í hvað notar þú símann mest?
- Samfélagsmiðlar (Instagram, Twitter, Facebook, Snapchat)
- Tölvupóstur (Gmail/Outlook)
- Vafra (Safari)
- Myndavél + myndvinnsluforrit (Photoshop, Lightroom, VSCO)
- Smáskilaboð (iMessages, Hangouts)
- …
- …
- …
- …
- …
- Hringja
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Ég man eftir öllum þeim símum sem ég hef átt. Hér kemur sá listi:
- Ericsson T18s (1999)
- Ericsson R600
- Sony Ericsson T630
- Sony Ericsson K750 (2006)
- Nokia N95
- iPhone 3Gs (2009)
- Samsung Galaxy Nexus
- iPhone 5
- iPhone 6s Plus
- iPhone 7 Plus
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Hann er nokkurn veginn eins og hann er í dag, nema með öllum helstu eiginleikum DSLR myndavélar og rafhlöðu sem hleður sig þráðlaust, og þá meina ég ekki “þráðlaus hleðsla” eins og við þekkjum hana í dag, held meira eins og Wifi merki. Maður kemur heim og símann byrjar bara að hlaða sig, án þess að þú verðir var við neitt.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Lappari.com, þarf auðvitað ekki að taka það fram er það? Kíki ég reglulega á Engadget, TechCrunch og The Verge fyrir svona almennt spjall. DPReview fyrir myndavéladót og MacRumors fyrir Apple nördið í mér. Svo hef ég gaman að að því að kíkja á Kickstarter og skoða hvaða tæknitengd verkefni eru að ná fótspyrnu þar.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Takk?