Ég var að fara yfir og taka til í draft möppunni hér á Lappari.com og fann þar þessa 6 mánaða gömlu umfjöllun sem einfaldlega gleymdist, ég kenni álagi í vinnu um þetta og vitanlega helvítis ríkisstjórninni…. en það er annað mál.
Við hér á Lappari.com höfum prófað flest allar týpur af Surface vélunum frá Microsoft og vorum eðlilega spenntir þegar Surface Pro 4 var kynnt á síðasta ári. Eins og nafnið ber með sér þá er þetta fjórða útgáfan af Surface Pro vélinni en í stuttu máli þá eru þessar vélar bara venjulegar PC vélar en í spjaldtölvu skel, semsagt öflugar vinnustöðvar sem eru ultra portable.
Við fengum vélina um miðjan Desember og vorum með hana í tvo mánuði og komst því góð reynsla á hana en hér má sjá afpökkunarmyndbandið.
Við höfum einnig fjallað um Surface vélar sem eru með Windows RT stýrikerfi sem er Mobile útgáfa af Windows og keyrir bara forrit sem eru fáanleg úr Windows Store sem er forritamarkaður Microsoft.
Surface Pro 4 lítur sannarlega vel út á pappírum en hvernig er hún í venjulegri notkun?
Hönnun og vélbúnaður.
Strax í upphafi varð ég hugfangin af hönnun Surface vélanna en Surface Pro 4 er keimlík fyrri Surface Pro vélum í útliti og það er gott, vélin er samt þynnri og léttari en fyrri útgáfur. Mér finnst enn ótrúlegt að hægt sé að koma svona öflugri vél fyrir í svona lítilli skel. Vélin er eins og áður í álskel og er sterkleg viðkomu, það er greinilegt að allur frágangur er vandaður og góður.
Surface Pro 4 er með útdraganlegum, stillanlegum fæti á bakhlið (Kickstand) en með honum er næsta víst að notendur geta stillt vélinni í stöðu sem hentar þeim.
Surface Pro 4 vélarnar koma allar með Windows 10 Pro og eru fáanlegar í þessum vélbúnaðar útgáfum
- m3 @ 2.2 GHZ örgjafa með 128GB SSD og 4GB í vinnsluminni
- i5 @ 3.0 GHZ örgjafa með 128GB SSD og 4GB í vinnsluminni
- i5 @ 3.0 GHZ örgjafa með 256GB SSD og 8GB í vinnsluminni
- i7 @ 3.4 GHZ örgjafa með 256GB SSD og 8GB í vinnsluminni
- i7 @ 3.4 GHZ örgjafa með 256GB SSD og 16GB í vinnsluminni
- Einnig er hægt að sérvelja íhluti í draumavélina sína með allt að 1 TB SSD disk
Helstu stærðir
- Hæð: 201.42 mm
- Breidd: 292.10 mm
- þykkt: 8.45 mm
- þyngd: m3 er 766 gr en i5 og i7 eru 786 gr
Vélin sem Lappari.com fékk frá Microsoft er með 256GB harðdisk, 8GB DDR4 vinnsluminni og Intel i5 örgjörva (2.4 – 3 GHz 6300U – Skylake). Með þessum vélbúnaði er vélin mjög spræk og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Vélin ræsir upp í heimaskjá á örfáum sekúndum (e.cold boot) og slekkur á sér á 3-4 sekúndum.
Tengimöguleikar
Surface Pro 4 er með hefðbundnu USB 3 porti og því hægt að tengja hana við öll venjulega USB jaðartæki. Einfalt er að bæta við USB-hub (eða doccu) ef eitt tengi er ekki nóg. Surface Pro 4 er einnig með microSD rauf sem styður allt að 200GB minniskort sem er ódýr og einföld leið til að auka við geymsluplássið.
Á vélinni er einnig hefðbundið Mini DisplayPort tengi þannig að einfalt er að tengja vélina við auka skjá, sjónvarp eða skjávarpa með stafrænum gæðum. Við fengum Surface Tengikví (Docking station) með vélinni og við hana vorum við með 2x 27″ skjái, hátalara, lyklaborð og mús.
Vélin er með Bluetooth 4 ásamt þráðlausu netkort sem styður 802.11ac (styður einnig a/b/g/n) og vélin er einnig með 3.5mm tengi fyrir heyrnartól. Fyrir utan þetta þá styður Surface Pro 4 Miracast ágætlega en þetta er þráðlaus staðall sem varpar 1080p mynd og 5.1 hljóð frá tæki og í sjónvörp, skjávarpa eða skjái sem styðja staðalinn. Þetta prófuðum við á nokkur sjónvörp, alveg frá 40″ og uppí 55″ með prýðis árangri. Þess má geta að Miracast vörpun frá vélum sem nota mjög háa upplausn getur stundum verið dálítið döpur stundum en þetta er staðall sem er sífellt að batna.
Hér er myndband frá Microsoft sem rennir lauslega yfir kosti Surface Pro 4.
Rafhlaða og lyklaborð
Samkvæmt Microsoft þá má reikna með allt að 9 klst rafhlöðuendingu við video afspilum á i5 útgáfunni af Surface Pro 4. Microsoft hefur lagað rafhlöðuendingu aðeins með hverju módeli og ég næ með stæl um 8 tímum að meðaltali útúr rafhlöðunni miðað við hefðbundinn vinnudag án þess að hugsa mikið að rafhlöðusparnaði. Það er USB hleðsluport á Surface Pro hleðslutækinu sem er frábær kostur því þannig er hægt að hlaða símann þar frekar en í USB portinu á tölvunni sjálfri.
Eins og fyrr segir þá fengum við Surface doccuna með vélinni en þetta er nauðsynlegur aukahlutur ef nota á vélina á skrifstofu.
Doccan virkar með Surface Book, Surface Pro 3 & 4 og er með þessum tengjum
- 2 x mini DisplayPort
- 1 x GB LAN tengi
- 4 x USB 3.0 port
- 1 x 3.5 mm hljóðtengi
- SurfaceConnect kapall sem fer í Surface
- Aflgjafi
Surface Pro 4 er með Windows 10 Pro og eins og venja er þá er ekkert mál að hafa lyklaborðið á Íslensku og ef stýrikerfið er stillt á Íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumála pakka frá Windows update og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á Íslensku. Surface Pro 4 er einnig með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina eða ef smellt er á auðan reit með fingrunum. Ef skjályklaborð er notað þá eru allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Surface Pro 4 er 12,3″ PixelSense skjár sem styður 10 snertipunkta og er með 2736 x 1824 pixla upplausn við 267 PPI (pixel per inch) sem er góð uppfærsla frá Surface Pro 3 sem er með 12″ skjá og 2160 x 1440 upplausn. Þessi skjár er í einu orði sagt frábær enda er tækið lítið annað en bara skel utan um hann.
Skjárinn er með mjög nákvæma snertiskynjun og lenti ég sjaldan í því að smella á eitthvað vitlaust, án efa einn sá besti snertiskjár sem ég hef unnið á. Það fylgir penni með vélinni sem er skemmtilegt að nota til að skrifa eða teikna beint á skjáinn í t.d. Edge, OneNote eða Fresh Paint en hægt er að snúa honum við til að stroka út eins og um blýant væri að ræða. Ég átti ekki von á því en ég notaði pennan merkilega mikið í vinnu og við leik.
Skjárinn er rispuvarinn (Scratch-resistant) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri. Skjárinn í fyrri Surface vélum var góður en þessi skjár á Surface Pro 4 er einfaldlega frábær, allur texti og myndir komu mjög vel út. Skjárinn er bjartur og fallegur og sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.
Hátalarar eru tveir og eru staðsettir efst á báðum hliðum Surface sem gefur henni ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru einnig hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda sem er nokkuð ólíkt mörgum spjaldtölvum sem ég hef prófað. Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega, Surface Pro 4 er einnig með 2 hljóðnemum.
Surface Pro 4 er með tvær myndavélar, aðalvélin er 8MP en sjálfumyndavélin er 5MP. Báðar sinna sínu hlutverki ágætlega og ráða við 1080p upptökur en sem áður myndi ég aldrei ráðleggja notendum að nota spjaldtölvu við myndatökur…. það er rangt á svo mörgum level´um
Margmiðlun
Eins og fyrr segir þá kemur Surface Pro 4 með Windows 10 Pro og því ættu notendur ekki að lenda í vandræðum með að nota vélina. Þetta er bara venjuleg PC tölva og því er einfalt að spila allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða af flökkurum. Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum.
Smá viðbót um Surface í vinnuumhverfi
Eins og þegar ég prófaði Surface Pro (v1 og V2) þá var það fyrsta sem ég gerði að skrá vélina inn á Domain og keyra scriptu sem tengdi vélina við netdrifin fyrirtækisins og virkaði það allt fumlaust. Eins og á fartölvu gat ég með einföldu móti tengst VPN (Cisco client og/eða innbyggt VPN) og þannig netdrifum og netþjónum yfir þráðlaust net eins og ég væri staddur á venjulegri PC tölvu.
Með þetta eins og margt í þessari umfjöllun… það þarf í raun og veru ekkert að segja meira þar sem allt sem þú getur á venjulegri PC tölvu getur þú á Surface Pro 4.
Fyrir nokkru síðan skipti ég út 3,4Kg fartölvu fyrir Lenovo X1 Carbon sem er fislétt Ultrabook vél. Ég fann samt mun á Carbon vélinni og Surface Pro 4 í bakpokanum, stóð mig að því við og við að athuga hvort ég væri ekki örugglega með vélina með mér. Vélin létti líka mikið á skrifborðinu þar sem hún er miklu nettari en fartölvan mín.
WINDOWS HELLO
Surface Pro 4 eins og margar nýrri vélar styðja Windows Hello sem er nýtt innskráningarferli í Windows 10. Það er iris skanni (augnskanni) við hliðina á sjálfu myndavélinni sem les augu notenda og innskráir notenda í stýrikerfið. Það sem mér þótti merkilegt við þetta ferli er að vélin var yfirleitt alltaf mjög snögg að innskrá mig, ef kveikt var á skjánum þá var ég varla sestur í stólinn áður en innskráning var búinn og vélin kominn á skjáborðið.
Hér má sjá kynningarmyndband frá Microsoft um Windows Hello
Forritarar eru farnir að nýta sér kosti Windows Hello en hægt er að nota það til að innskrá sig í ýmis kerfi og/eða forrit sem notuð eru við vinnu. Þær vélar sem eru ekki með iris skanna geta notað fingrafaralesara til að innskrá notendur.
Hugbúnaður og samvirkni.
Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store. Þegar úrvalið á þessum markaði er skoðað og sú staðreynd að öll venjuleg x86 forrit virkar á Surface Pro 4 vélunum þá blikna önnur stýrikerfi í samanburði. Notendur hafa aðgang að markaðnum og þessum tugum milljóna forrita sem til eru nú þegar fyrir Windows stýrikerfið.
Þar sem ég hugsa Surface Pro 4 sem arftaki fartölvunar í þessum prófunum okkar þá setti ég upp sömu forrit og ég nota þar eins og Office 2016 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og eins vel eða betur en það gerir á fartölvunni.
Ég skrái mig alltaf inn í öll Windows 10 kerfi sem ég nota með Microsoft notendanum mínum, hvort sem það er fartölvan, borðtölvan, Surface RT/Pro eða Windows símtæki. Það sem þetta gerir er að tækin mín samstilla sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) og þannig samræmast stillingar og gögn á mili tækja..
Tilraunarinnar vegna þá prófaði er ég að horfa á nokkra fótboltaleiki með flash, Síma appinu og Ace Stream yfir internetið með Surface Pro 4 og gekk það alltaf hnökralaust fyrir sig.
Niðurstaða
Við fengum að hafa Surface Pro 4 í rúmlega 2 mánuði og því komst töluverð reynsla á vélina, í mjög stuttu máli þá erum við mjög skotnir í Surface Pro 4 enda úber sexy tæki sem er vel búið vélbúnaði. Vélin er sterkbyggð, öflug, falleg, stílhrein og flott hybrid vél sem veitir öðrum framleiðendum aðhald og sýnir þeim hvað hægt er að gera sexy vél með góðum hugbúnaði, vélbúnaði og glæsilegri hönnuðum.
Það var sannarlega erfitt að skila þessari vél til Microsoft en skemmtilegt að segja að því að annar höfundur þessara umfjöllunar endaði á kaupa sér eintak, það segir nokkuð margt um vélina.
Vélin er mjög einföld í notkun enda kunna flestir að nota venjulegar PC en helsti kostur Surface Pro 4 er sá að þetta er bara venjuleg PC tölva sem er í spjaldtölvuskel. Vélin hentar því sérstaklega vel fyrir þá sem eru mikið á flakki eða langar í létta en öfluga vél. Microsoft hafa bætt vélina talsvert með hverri uppfærslunni en skjárinn, rafhlaðan og allur helsti vélbúnaður er með besta móti.
Surface Pro 4 er mjög vænlegur kostur fyrir fyrirtæki vegna þess að það þarf ekkert að huga að breytingum á innri kerfum, allt virkar eins og áður. Kosturinn er að fyrirtæki eru þá með mjög meðfærilega tölvu sem einfalt er að tengja við staðarnet og internet með þráðlausuneti eða með 3/4G. Microsoft hafa verið duglegir að vinna í hugbúnaðarþróun og uppfærslum á Surface vélunum og verða þær bara betri og léttari í keyrslu við hverja uppfærslu.
Það var ekki létt að gefa þessari vél einkunn enda eru hún svo til ein í sínum ultra-portable flokki, spjaldtölva sem getur sannarlega leyst af flestar far- eða borðtölvur.