Furðulegt að hugsa til þess en það eru ekkert voðalega mörg ár síðan eina samskiptaleiðin til að eiga snögg (instant) samskipti við aðra einstaklinga án þess að hitta þá í persónu, var með því að hringja, senda tölvupóst eða mögulega senda þeim SMS samskipti. Þetta voru einfaldir tímar en vandamálið mitt þá var að það var stundum örlítið yfirþyrmandi að fá 50-150 email frá viðskiptavinum, vinum, fjölskyldu og síðan vitanlega frá söluaðilum (SPAM) á hverjum degi..
Síðan hægt og sígandi hafa persónuleg samskipti verið að færast af tölvupóstinum og yfir á ýmsa miðla, eins og til dæmis: MSN messenger, ICQ, IRC, Skype, Facebook, Facebook messenger, Twitter, Whatsapp, Snapchat, Instagram, Telegram, Facetime, Google Hangouts, Google Talk, Linkedin og síðan SMS.
Þetta er ekki vitanlega ekki tæmandi upptalning en svona það sem ég man eftir í fljótu bragði.
Þessi þróunn virðist hafa gerst af sjálfu sér, vinir mínir, samstarfsfélagar og fjölskylda virðast hafa valið sér sinn miðil sem þeim líkar vel síðan er það mitt er að vera tilbúinn á hinum endanum, með þessi forrit sett upp til að tala við þau öll. Síðan er önnur breyting sem ég hef einnig séð síðustu 1-2 árin er að einfaldar verkbeiðnir eru farnar að berast frá vinnufélögum í gegnum Facebook, Skype og jafnvel Snapchat.
TIL: var beðinn um að stofna netfang fyrir nýjan starfsmann í gegnum Snapchat.
Ég er ekki hér til að gera upp á milli þessara forrita, þau eru öll frábær á sinn hátt en vandamálið eru stanslausar tilkynningar frá öllum þessum forritum. Mér berast tilkynningar frá þeim öllum, alveg sama hvort sem þetta eru skilaboð frá ástvinum eða vinabeiðni frá Debby í Texas. Viðbótar flækja er að þessi forrit eru ekki til á öllum kerfum eða virka misvel, Facetime er t.d. eyðieyja fyrir Apple notendur, Google Hangout er eyðieyja fyrir Android notendur en til á iOS meðan Skype virkar allsstaðar en er ekkert sérstaklega gott forrit.
Það ber þó að hafa í huga að það er almennt ekki hagur app framleiðenda að vinna með öðrum framleiðendum á þessum spjallforritum, þeir eru allir í samkeppni um sömu notendurna. Niðurstaðan er sú að þú ert með fullt tæki af allskonar forritum sem vinna ekkert sérstaklega vel saman, Til viðbótar er að stýrikerfið í tölvunni þinni farið að hegða sér á svipaðan hátt, alveg sama hvort það sé Windows, MacOS eða jafnvel Gnome. Þessi stýrikerfi er öll kominn með sínar útgáfur að tilkynningamiðstöð og eru stanslaust að miðla hinum ýmsum upplýsingum að þér frá hinum ýmsu forritum.
Það er svo sem ekki allt slæmt því Office 365 er komið með fídus sem kallast clutter til að sía póst, Gmail gerir sambærilegt fyrir sína notendur og meira að segja Outlook appið fyrir snjalltæki gerir þetta ágætlega með Focused og Other flipum á inbox. Þetta gerði frábæra hluti fyrir tölvupóstinn hjá mér og eru þessar síur merkilega klárar að sía póstinn rétt, ekki fullkomnar en merkilega góðar.
Það verður að játast að undirritaður var nokkuð pirraður þegar vinna við þennan pistill hófst því öll þessi forrit eru frábær á sinn hátt en allar þessar tilkynningar taka of mikinn tíma að sía í gegnum. Þar sem ég gæti verið að fá verkbeiðnir, fyrirspurninir eða tilboð fyrir hin ýmsu fyrirtæki, þá verð ég að fylgjast nokkuð vel með. Ég er samt kominn með mikið óþol fyrir þessari stöðu, tilkynningar eiga að vera tímasparandi, þær eiga að láta notenda vita af viðburðum/samræðum sem eiga sér stað núna og skipta viðkomandi máli.
Vitanlega geta notendur farið í gegnum öll þessi forrit og tilkynninga stillingar og sérstillt upplýsingar sem berast að sér. Gallinn er að hætta er að þessar sérstillingar hverfi við næstu uppfærslu eða útskipti á símtæki/tölvu/spjaldtölvu og líka verður að muna að það kunna ekki allir að gera þetta og þetta er fjandi tímafrekt.
Tuða minna….. hvernig getum við leyst þetta?
Þetta tilkynningaflóð frá öllum þessum öppum í símum, spjaldtölvum og nú tölvum, er næsta stóra málið sem ég vill að verði leyst, til að gera þessi tæki notendavænni og í raun og veru tímasparandi fyrir notendur. Ég verð að segja að snjalltæki sem höndlar nýja Facebook færslu í “Bifhjól til sölu” með sama hætti og nýja stöðufærslu frá konunni minni…. er bara alls ekkert snjallt í mínum huga. Vitanlega ætti Facebook að gera þetta betur en þeirra hagur er að pikka í þig reglulega með tilkynningu til að fá þig til að kíkja inn á Facebook og sama gildir um flest þessara forrita.
Þetta vandamál mitt er það næsta sem ég vill sjá þessi tæki leysa, almennilega tilkynningamiðstöð þar sem stýrikerfin sjálf hugsa aðeins fyrir okkur og sía frá tilkynningar sem skipta ekki máli. Ég held að þetta sé óumflýjanlegt þar sem öll þessi forrit leggja jafn mikla áherslu á allar tilkynningar, hverjar sem þær eru. Þetta er samt ekki einfalt verkefni því sumir nota sín snjalltæki í vinnu meðan aðrir gera það ekki, notendur blanda stýrikerfum saman eða flakka á milli þeirra.
Hvernig sem þetta gerist þá er kominn tími á að snjalltækin verði í raun og veru það snjöll að þau fari að spara okkur vinnuna og tímann sem fer í að merkja við allar þessar tilkynningar frá öllum þessum forritum. Hvort sem þetta verður lagað fyrir mig eða hvort ég skipti yfir í símboða og bréfdúfur verður síðan bara að koma í ljós.