Xiaomi, stærsti farsímaframleiðandi Kína, hefur gert samkomulag við Microsoft um aðkoma þess fyrrgreinda að einkaréttarvörðum hagsmunum Microsoft sem tengjast farsímamarkaðnum..
Fyrir þá sem ekki þekkja þá hefur Microsoft yfir að búa talsverðu magni af höfundaréttarvörðum hugverkum sem tengjast hugbúnaði sem gagngert snýr að Android-stýrikerfinu frá Google. Það þýðir í stuttu máli að ef einhver ætlar sér að framleiða og dreifa símtækjum með Android-stýrikerfinu þá verður að gera samkomulag við Microsoft. Kaldhæðnin í því öllu saman er að Microsoft fær þá greitt í hlutfalli við hvert framleitt símtæki og hefur því tekjur af því að fleiri og fleiri Android-tæki fari í sölu og dreifingu. Það hefur hinsvegar reynst erfitt að fá aðila t.d. frá Kína til þess að semja um þessi atriði enda standa fyrirtæki í Kína oftast nær í skjóli hjá kínverskum stjórnvöldum og því hefur það lítið upp á sig ef ‘smáfyrirtæki’ á borð við Microsoft ætlar að takast á við kínverska stjórnkerfið í leit að réttlátum greiðslum fyrir afnot af hugverkum sínum.
Samkomulagið felur í sér ekki einungis að Xiaomi geti dreift og selt símtæki sín og spjaldtölvur á vestrænum mörkuðum heldur snýr samkomulagið einnig að leyfisveitingum í tengslum við Windows og Office-hugbúnaðinn frá Microsoft. Hvort að þetta sé vísbending um að Xiaomi sé með einhverjum hætti að færa sig meira í áttina að fartölvumarkaðnum skal ósagt látið en ljóst er að þetta samkomulag er að opna dyrnar fyrir Xiaomi inn til Bandaríkjanna og Evrópu.
Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki undanfarna mánuði að Xiaomi sé að undir innrás sína til vesturheims og var sá orðrómur staðfestur þegar Xiaomi kynnti nýjasta flaggskipið sitt á Mobile World Congress í Barcelona núna í febrúar. Það að Xiaomi skildi nota viðburð innan Evrópu til að kynna nýjasta og öflugasta flaggskip sitt bendir til þess að fyrirtækið sé að leggja drög að sölu og dreifingu innan Evrópu og Bandaríkjanna. Samkomulagið við Microsoft staðfestir þetta enn frekar og verður því áhugavert að sjá hver næstu skref verða og hvort að einhverjar tilkynningar muni líta dagsins ljós á næstu vikum frá Xiaomi um samstarfs- og dreifingaraðila innan Evrópu og Bandaríkjanna.