Seint á síðasta ári kom í sölu Microsoft Lumia 950 og Lumia 950 XL sem er eins og nafnið segir til um stóri bróðir 950. Síminn var kynntur í október og kom í sölu í byrjun desember hér á Íslandi en við kynntum okkur símtækið fyrst hjá Opnum Kerfum í nóvember í fyrra.
Þessara símtækja hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu enda orðið nokkuð síðan síðasta Windows flaggskip kom á markaðinn.
Windows Phone kom á markaðinn fyrir um fimm árum síðan og Windows 10 Mobile er nýjasta tilraun tæknirisans til þess að heilla notendur. Það er töluvert um nýjungar í Windows 10 Mobile en stýrikerfið ber þó enn með sér ýmis vandamál tengdum forritum, en meira um það hér að néðan.
Hér má sjá afpökkunarmyndbandið okkar.
Hönnun og vélbúnaður
Ég verð að viðurkenna að ég hef alveg handleikið fallegri símtæki en þau sem bera Lumia nafnið og 950 gerir ekkert til að breyta þeirri reynslu minni. Ég er reyndar búinn að venja mig við að velja ekki símtæki einungis útfrá útliti, tók reyndar nokkur símtæki að læra það, og það hentar mér vel með þetta tæki því ég var ekki lengi að venjast því. Það sem mér finnst skemmtilegast við hönnunina er sú að það er hægt að skipta um bakhliðina og því kaupa sérhannaðar bakhliðar, eins og í gamla daga. #retro!
Hér má sjá dæmi um bakhliðar frá Mozo
Síminn virkar sterklegur í hendi og það sér ekki mikið á honum eftir rúman mánuð í notkun án hlífa og ég var ekkert að hlífa honum neitt sérstaklega, semsagt bara venjuleg notkun. Útlitið er töluvert breytt frá Lumia 1520 símtækinu, sem ég var með áður, en það eru skarpari brúnir núna á hliðunum sem mér finnst gera hann aðeins öruggari í lófa. Símtækið er nokkuð létt, en það gæti reyndar einmitt verið munurinn á stærðinni á 950 og 1520.
Framhlið 950 símtækisins er ótrúlega magnaður 5,2″ Clear Black skjár, keyrir á WQHD upplausn eða 1440 x 2560 pixlar sem gerir ca. 564 ppi (Pixel Per Inch). Það sem olli mér vonbrigðum var að þeir notuðu Gorilla Glass 3 rispuvörn á þessu símtæki í stað Gorilla Glass 4, sem þeir nota t.d. á Lumia 950 XL. Skjárinn rúnast ekki inn í hliðar eins og margir Lumia símar gera heldur nær hann útað köntum og smellur ofaní smá ramma sem bakhlið leggst að. Frágangur er vandaður og samskeyti milli mismunandi hluta er vel útfærð og vönduð, en mér þótti reyndar pínu leiðinlegt að sjá að hliðarnar á bakliðinni standa aðeins útfyrir ramma skjásins.
Bakhlið er hægt að fá í svörtu og hvítu og með látlausu Microsoft logo á þeim. Undir bakhlið er síðan sleðar fyrir SIM og microSD kort. Þá er myndavélalinsan, flashið og hátalari líka aftan á símtækinu.
Helstu stærðir (mm)
- Hæð: 145
- Breidd: 73.2
- Þykkt: 8.2
- Þyngd : 150 gr
Á framhlið eru þrír snertitakkar eins á öllum Windows Phone símum, bakka, heim og leit. Í stað þess að gera þá hluta af símtækinu eru þeir orðnir hluti af stýrikerfinu núna og hægt að sýna eða fela þá með því að strjúka upp skjáinn en þeir hverfa bara ef appið sem notað er styður það.
Á hægri hlið símans eru svo þrír hefðbundnir takkar, hækka/lækka takkinn, powertakkinn og myndavélatakkinn. Staðsetningin á þessum tökkum er líkt og á flestum símtækjum, nema LG, og fyrir þá sem eru vanir þá er þetta ekkert nýtt á nálinni. Takkarnir eru sterklegir og maður fær ekkert tilfinningu eins og að þeir geti skemmst auðveldlega.
Stutt kynningarmyndband frá Microsoft.
Lumia 950 keyrir á kubbasetti frá Qualcomm sem heitir MSM8994 Snapdragon 808, sem er ekki það nýjasta en virkar þokkalega. Símtækið notar tvo örgjörva, annarsvegar Cortex-A57 dual-core sem keyrir á 1.82GHz og hinsvegar á Cortex-A53 quad-core sem keyrir á 1.44 GHz. Þá er Adreno 418 skjástýring (GPU) og 3GB í vinnsluminni.
Þessi samsetning á vélbúnaði er að skila sér býsna vel í símanum. Ég varð ekki var við neitt hökt sem hægt var að tengja við vélbúnaðinn en ég varð þó var við dálitinn hita. Þetta hitamál var að mestu í byrjun þegar ég fékk hann fyrst og hann var að synca allar notendastillingar og gögn. Síðan hef ég orðið var við að hann hitnar verulega við einhverja leikjaspilun og ef þráðlausakortið þarf að vinna eitthvað að ráði. Síminn er skemmtilega sprækur og vel snöggur að framkvæma það sem maður biður hann um.
Lumia 950 kemur með 32GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi, ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Þetta pláss ætti að duga flestum en það er gott að vita af því að símtækið er með rauf fyrir microSD kort sem má vera allt að 200GB að stærð, en ég nota einmitt 64GB kort til að geyma flest allt efni á.
Þegar ég var búinn að setja upp helstu forrit, tölvupóst, leiki, og taka nokkar ljósmyndir þá var ég með um 22GB laus. Ég stillti símtækið til að taka afrit af öllum myndum og myndböndum beint á OneDrive þannig að það á að vera óhætt að eyða myndum af símtækinu ef plássið minnkar.
Tengimöguleikar
Microsoft Lumia 950 er með USB-C tengi, sem er nýjung í Lumia símtækjum. Reyndar er USB-C nýjung sem væntanlega mun halda áfram að ryðja sér rúms í nýjum tækjum en tengið er tilraun markaðarins til að vera þessi eina USB snúra sem mun leysa allar hinar (Type-A, B, Micro, Macro o.s.frv) af hólmi. Ef satt skal segja þá skil ég ekki afhverju einhver framleiðandi fer ekki þá leið að nota USB Type C héðan í frá.
Í stuttu máli má segja að helstu kostirnir USB-C staðalsins séu þrír
- Mögulegt að flytja meiri gögn (hraði).
- Mögulegt að flytja mun meiri spennu (hraðhleðsla).
- Það skiptir ekki máli hvernig hún snýr og leysir hún þannig gamallt og þekkt “USB vandamál”
Tengið er neðst á símtæki þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Fyrir miðju, efst á síma er síðan 3.5 mm heyrnartólstengi. Afþví að það skiptir ekki máli hvernig USB tengið snýr þá er einstaklega þægilegt að setja hann í samband þegar maður er að fara sofa og það má ekki kveikja ljósið því betri helmingurinn er sofandi.
Líkt og stóri bróðir sinn Lumia 950 XL þá er Lumia 950 með Bluetooth 4.1, NFC, og GPS ásamt flest öllu sem þú átt von á í svona fínum síma. Lumia 950 er með þráðlausu netkorti sem styður 802.11 a/b/g/n/ac og allar helstu dulkóðanir ásamt því að styðja 4G að fullu, eins og flest allir Lumia símar gera reyndar.
Rafhlaða og lyklaborð
Þar sem ég hef verið að nota Lumia 1520 í dágóðan tíma núna þá er ég farinn að gera miklar kröfur varðandi rafhlöðuendingu. Líkt og er oftast með þessi tæki þá er rafhlöðuending ekkert spennandi fyrstu dagana á meðan hann er að synca öll gögn og stillingar, og þessi sími engin undantekning á því. Það getur verið erfitt að fá góða tilfinningu fyrir þessari endingu fyrstu daga og vikur þar sem notkun er ekki alltaf eins dag frá degi en Lumia 950 fannst mér ekki standa undir mínum væntingum. Eftir nokkrar uppfærslur á Windows 10 og forritum þá skánaði þetta töluvert og loksins náði því sem ég er vanur.
Lumia 950 er með 3000 mAh rafhlöðu, sem er nokkuð gott miðað við stærð, og er gefin upp fyrir allt að:
- Tal yfir 2G: 23 klst
- Tal yfir 3G: 18 klst
- Biðtími: 288 klst
- Tónlistarafspilun: 67 tíma
Eins og venjulega þegar ég prófa tæki þá er ég ávallt tengdur við WiFi eða 4G og að samstilla 3 tölvupóstreikninga í gegnum Office365 og 2 gmail pósthólfum, fá þónokkuð af calendar reminders, ásamt því að taka mikið af myndum, lesa töluvert af bæði heimasíðum og nota Facebook slatta yfir daginn.
Hér má sjá nokkur ráð sem hjálpa þér að lengja rafhlöðuendinguna.
Lumia 950 er með innbyggðri þráðlausri hleðslu, einn af kostum við þessa hleðslutækni er að Microsoft byggir áfram (eins og Nokia gerði) á staðlaðri tækni. Ég vona að þetta sé eitthvað sem verði orðið normið á næstu árum. Lumia 950 er eins og aðrir Windows 10 Mobile símar með fullt Qwerty lyklaborð. Hægt er að hafa lyklaborðið, eins og stýrikerfið í heild sinni, á íslensku sem er kostur.
Ég hef nú prófað flest símtæki á íslensku líka og ég á alltaf örlítið bágt með hafa þau á íslensku, en það getur bara verið innra tækninördið í mér. Íslenskan í þessu kerfi er þónokkuð gott og í fljótu bragði þá sá ég ekkert sem stakk augað en það getur oft tekið dálítinn tíma að finna það þar sem verstu þýðingarnar eru oftast frekar djúpt á kerfinu.
Annað tengt lyklaborði og mús en það er nýjung sem kallast Continuum en þá er hægt að tengja símtækið við skjá, lyklaborð, mús, flakkara eða önnur USB tengd jaðartæki. Við munum fjalla sérstaklega um þetta á næstunni en í þessu myndbandi má sjá hvernig þetta virkar, ásamt því má skoða þetta myndband.
Hljóð og mynd
Skjárinn á Lumia 950 er alveg hreint ótrúlega skemmtilegur og má segja að þetta sé með betri skjám á snjallsíma sem ég hef séð. Ef ég ætti að bera saman þá myndi ég segja að skjárinn á Lumia 950 standi alveg á pari við Samsung Galaxy S6 og LG G4, sem mér finnst vera viðmið þegar kemur að gæðum.
Eins og áður hefur komið fram þá er þetta 5.2″ skjár með Corning Gorilla Glass3 og er upplausnin 1440 x 2560 punkta (WAHD eða Wide Quad HD). Þessi upplausn er semsagt fjórföld 720p upplausn og við höfum séð þetta áður í LG G3, LG G4, Samsung Galaxy S6 og S6 Edge, svo eitthvað sé nefnt.
Þessi stærð og upplausn gefur okkur því um 564 ppi (Pixel per inch) sem er með því betra á markaðnum í dag. Til samanburðar má geta að iPhone 6S nær ekki HD upplausn og er alveg hálfri tommu minni og er aðeins um 326ppi, en er þó talinn mjög skarpur.
Snertivirkni á skjánum er góð en líkt og með aðra Gorilla Glass síma þá kemur örlítill glampi af honum í sól eða mikilli birtu, en það var ekkert sem ég get sagt að angraði mig verulega. Ég prófaði að nota nokkra vettlinga, stylus, penna og annað álíka á skjánum en það var ekki að virka.
Nokia, og síðan nú Microsoft, hafa fengið verðskuldað lof fyrir myndavélar í símtækjum sem þeir hafa framleitt. Segja má að Nokia og nú Microsoft hafi verið leiðandi síðan þeir hófu samstarf sitt við Carl Zeiss árið 2005 en Lumia 950 er eins og margir aðrir Lumia símar með Carl-Zeiss linsu.
Eftir frábæra myndavél í Lumia 1020 og Lumia 1520 þá reiknaði ég fyrirfram með því að myndavélin í Lumia 950 væri frábær og hef ég ekki orðið fyrir vonbrigðum með hana. Get sagt með nokkurri sannfæringu að þetta sé næst besta myndavélin sem ég hef prófað enda auðvelt að færa fyrir því rök að einungis Lumia 1020 sem er með 41MP myndavél sé betri en vélin sem er á Lumia 950 .
Þó að þessi símtæki taki frábærar myndir í dagsbirtu þá á þetta sérstaklega við um aukin myndgæði og skarpari myndir í lélegri birtu. Þar sem við búum á Íslandi þá búum við mismikla birtu á vetrartíma og því getur verið gott að vera með myndavél sem getur tekið góðar myndir í lélegri birtuskilyrðum.
Myndavélin í Lumia 950 er 20MP sem tekur myndir í 4992 x 3744 pixla upplausn. Síminn er með frábærri 6-laga linsu sem tryggir að áhugaljósmyndarar ættu ekki að verða sviknir af myndum sem símtækið tekur. Carl Zeiss Tessar linsan er með 1/2.4“ sensor og er fljótandi (Optical image stabilization eða OIS) sem þýðir með mikilli einföldun að myndir verða mun stöðugri en annars. OIS gerir Lumia 950 kleift að hafa ljósopið (f/1.9) lengur opið þegar verið er að taka myndir, sem skilar sér í mun skýrari og skarpari myndum. Þetta sést best þegar birtuskilyrði eru slæm.
Ef notandi vill nota flash þá kemur Lumia 950 með þreföldu RGB LED flashi sem hægt er að nota í allt að 3m fjarlægð frá myndefni. RGB flash gerir það að verkum að símtækið getur greint umhverfið áður en mynd er tekin og síðan flash´að í þeim lit sem þarf til að lýsa upp myndefnið. Þessa lýsingu er reyndar hægt að vinna eftir að myndin er tekin sem er mjög magnað.
Myndavélaforritið sem fylgir með Lumia 950 heitir núna einfaldlega Camera og er sjálfgefna forritið í Windows 10 Mobile. Þetta er gott forrit sem gerir notendanum kleift að stilla með einföldu móti allar helstu stillingar beint áður en mynd er tekin. Fyrir utan venjulegar stillingar sem notendur geta reiknað með þá er einfalt að stilla handvirkt hluti eins og white balance stillingu og velja: Cloudy, Incandescent, Fluorescent, Daylight, Automatic. Einnig er hægt að stilla ljósnæmi á sjálfvirkt eða allan skalan frá ISO 50 og alla leið uppí ISO 3200.
Hægt er að taka myndbönd í upplausn sem skalar frá 1280 x 720p við 24 ramma og alla leið uppí 3840 x 2160p við 30 ramma sem er Ultra HD upplausn.
Hljóðupptaka í Lumia 950 er mjög góð en Microsoft nota áfram fjóra hljóðnema eins og var í sumum Nokia símtækjum. Þessir hljóðnemar styðja við hljóðupptökur og eru einnig til að bæta hefðbundin talgæði. Microsoft notar tvo stefnuvirka hljóðnema á bakhlið og tvo á framhlið sem hugbúnaður notar síðan til að loka út umhverfishljóð og tryggja hljómgæði úr þeirra átt sem notendi er að mynda en Microsoft kallar þessa tækni Rich Recording (eins og Nokia gerði). Símtalsgæðin eru einnig mjög góð en þessir fjórir hljóðnemar vinna saman að því að eyða vind- og umhverfishljóðum úr samtölum (Multimicrophone noise cancellation).
Hátalarinn í Lumia 950 skilar þokkalegum hljómi í símtölum en ég varð fyrir pínu vonbrigðum með afspilun á tónlist, en mér finnst Lumia 1520 síminn skila afspilun á tónlist betur. Hljómurinn er áberandi grannur og stór galli finnst mér að hátalari er í mono og snýr frá notenda þegar horft er á skjáinn. Það þarf ekki merkilegt til að skila hljóði frá tilkynningum og þess háttar notkun og hátalarinn er alveg vel til þess fallinn, en ekki mikið meira.
Lumia 950 er einnig með 5MP víðlinsu myndavél á framhlið sem tekur myndir í allt að 1920 × 1080 (f/2.4) og hentar þvi vel t.d. í sjálfur (selfies) eða myndsímtöl (t.d. Skype).
Margmiðlun og leikir
Margmiðlunarupplifun á Lumia 950 er nokkuð góð en það dregur hana pínu niður hversu einhæft hljóðið er sem kemur frá hátalara, en það má bjarga því einmitt með fínum heyrnatólum. Síminn ræður við að spila langflest myndbandasnið, fer létt með Youtube og aðra vefstrauma. Ég nota svo Spotify til að spila tónlist, alfarið í góðum heyrnatólum, og virkaði það alveg snurðulaust.
Netflix appið fyrir Windows er tiltölulega nýlega orðið virkt á Íslandi, eins og kemur fram hér, og verður að segjast að skjárinn bíður uppá skemmtilega upplifun á Netflix glápi og afslöppun.
Hugbúnaður og samvirkni
Microsoft Lumia 950 og 950 XL eru fyrstu símtækin sem koma með Windows 10 forhlöðnu á tækinu. Hægt hefur lengi verið að prófa Windows 10 í eldri tækjum með Insider build en þetta eru fyrstu official tækin með Windows 10.
Ég var örlítið byrjaður að prófa Windows 10 á Lumia 1520 símanum mínum og var það ágætis upplifun en það er samt eins og stýrikerfið sé á prófunarstigi (e. beta) þar sem nokkrir hlutir eru ekki að virka eðlilega. Ég lenti dálítið í því að síminn endurræsti eftir að ég reyndi að aflæsa honum. Það var líka leiðinlegt að sjá að það voru nokkur forrit sem voru í Windows Phone 8.1 sem ekki er búið að græja þannig að þau virki í Windows 10. Það er líka nokkrir hlutir varðandi stillingar, og hvar þær eru að finna eða hvað þær heita núna, sem eru að angra mig.
Það fylgir með góð hugbúnaðarsvíta sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.
Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, OneDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Síðustu mánuði hefur mér þótt þessi ritvinnsla í Office pakkanum frá Microsoft vera betri í iOS eða Android en núna má segja að hún sé á pari ef ekki betri á Windows símtækjum enda allt annað fáranlegt að mínu mati.
Innbyggt er gott leiðsöguforrit sem heitir einfaldlega Maps og er frá Microsoft en það notar einmitt kortagrunninn hjá HERE. HERE svítan verður ekki hægt að sækja eftir 29. mars á Windows Mobile 10 tækjum og þeir hafa tilkynnt að þeir sem eru með svítuna uppsetta á þess háttar símtækjum geti ekki notað hana eftir 30. júní 2016. Þetta eru leiðinlegar fréttir fyrir notendur sem eru ánægðir með HERE svítuna en á sama tíma setur pressu á Microsoft að hafa Maps appið gott. Þeir sem hafa notað Maps á Windows 10 tölvu sjá þó að þetta er sama forritið (Universal app) og stillingar og vistaðir punktar samstilla sig milli tölvu og símtækis.
Vafrinn í Windows 10 Mobile heitir Edge og er sami vafri og er á Windows 10 tölvum, enda enn eitt Universal appið. Því miður virðist sem Microsoft ekki hafa bætt sig mikið í vafragerð, það eru fáir kostir sem ég get talið sem Edge hefur framyfir aðra vafra. Mér þykir einmitt leiðigjarnt að Edge er ekki nægilega vel samhæfður með öðrum Microsoft lausnum og getur verið rafhlöðuæta.
Microsoft Store stendur því miður illa í forrita fjölda ef miðað er við hin stóru stýrikerfin en þau hafa þó það framyfir að þau eru búin að vera lifandi töluvert lengur. Við sem notum Windows síma og erum ánægð höldum alltaf í vonina að fleiri og fleiri sjái sér það fært að skrifa forritin sín líka fyrir Windows símana, en með tilkomu Windows 10 á að vera tiltölulega auðvelt að gera þau klár fyrir Windows 10 á tölvum líka. Þessi vöntun á forritum hefur réttilega verið gagnrýnd en fyrirtæki virðast ekki enn sjá að það sér hag í að bjóða uppá sínar þjónustur fyrir þessa notendur.
Windows 10 kemur með nýjung sem kallast einfaldlega Windows Hello en með þessu þá er innskráning í tölvur og símtæki sem hafa réttan vélbúnað mun einfaldari. Það er líklega einfaldast að útskýra Windows Hello með þessu uppsetningarmyndbandi frá Microsoft.
Niðurstaða
Ég var búinn að bíða óþreyjufullur eftir þessu símtæki frá Microsoft en það var orðið leiðinlega langt síðan að síðasta verulega flott tæki kom frá þeim, Lumia 1520, og hafa þeir líklegast verið að bíða eftir því að Windows 10 yrði tilbúið áður en þeir settu ný tæki á markað.
Heilt yfir er ég sáttur við símtækið sjálft og mér finnst það standa nokkuð á pari við flaggskip sem voru í umferð þegar það kom út (Galaxy S6 og LG G4). Vélbúnaðurinn er flottur og virkar vel en stýrikerfið á eftir að þróast örlítið meira áður en maður fullsáttur.
Myndavélin er frábær og það er ótrúlegt að þeir hafi náð þessu eftir að hafa sett standardinn hátt með Lumia 1020 og Lumia 1520. Flestar myndir sem ég tók voru bara hreint út sagt mjög góðar og ef eitthvað er hægt að setja útá þær þá er það líklegast myndasmiðnum sjálfum að kenna.
Það sem dró símtækið niður var útlitið og áferðin. Mér finnst að þeir hefðu getað gert miklu betur með litlu hlutina, þó mér líki vel við látleysið og að notandi geti breytt útliti símans án þess að kaupa hlífar eða eitthvað auka ytra byrði. En þetta eru nú mínar persónulegu skoðanir sem ekkert allir þurfa að vera sammála, hef nú alveg lent í því áður.
Microsoft Lumia 950 er mjög góður sími sem ég verð sáttari við með hverjum degi og ég trúi því að hann verði bara betri með tímanum.