Heim UmfjöllunUmfjöllun Snjallsímar Samsung Galaxy S7 edge

Samsung Galaxy S7 edge

eftir Jón Ólafsson

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að nýlega kom nýtt Galaxy flagskip í sölu frá Samsung. Það eru mjög margar tegundir af Galaxy símtækjum til en S2…. uppí núna S7 hafa ávallt verið flagskipin. Eins og með S6 þá kemur Galaxy S7 í tveimur útgáfum, venjulegur S7 og síðan S7 edge sem við fjöllum um hér.

Síðustu mánuði hef ég að mestu notað Windows og Apple símtæki sem mitt aðaltæki og síðan flakkað á milli Android tækja sem ég hef verið að prófa, verður áhugavert að sjá hvernig mér mun líka við Android símtæki sem aðaltæki í einhvern tíma.

 

Hér má sjá afpökkun á Samsung Galaxy S7 edge

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Fyrsta upplifun er að Samsung hafi ekki hannað þetta símtæki frá grunni, frekar að þeim hafi tekið það sem fyrirtækið gerði í Galaxy S6 og lagað það sem laga þurfti og byggt á því sem gott var. Þetta er alls ekki neikvætt. Frekar jákvætt ef eitthvað er því Galaxy S6 var og er frábært símtæki sem hefur lifað ágætlega í harðri samkeppni annara framleiðanda.

 

Galaxy_S7_2

 

Það er tvennt sem heillaði mig strax við Galaxy S7 edge en fyrir það fyrsta er það vélbúnaðurinn, Galaxy S7 edge er gríðarlega öflugt símtæki og með öllu því helsta sem ber að vænta í flagskipi frá Samsung. Hitt kom mér nokkuð á óvart og það er útlit og hönnun á símtækinu sjálfu en það er greinilegt að hér er um að ræða vel smíðað tæki og útpælda hönnun. Línur sem skerast mætast á þann hátt að nær ómögulegt ætti að vera fyrir ryk, hár og annað eins að komast innundir skjáinn. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart þar sem símtækið er vatnsvarið.

Ég hafði heyrt viðvaranir varðandi bakið á símanum, það var sagt rispugjarnt og jafnvel brothætt en þetta er ekki mín reynsla enda er það varið með Gorilla Glass 4. Það veitti mér öryggis- og premium tilfinningu í þá áttina að þó maður reki sig aðeins utan í þá kemur síminn ekki brotinn uppúr vasanum. Ég mundi þó örugglega fá mér einhverja hlíf yfir tækið sjálfur.

Ég var nokkuð hrifinn af Galaxy S6 en núna hefur Galaxy S7 edge heillað mig uppúr skónum…  gullfallegt tæki og falleg hönnun.

Galaxy_S7_9

 

Síminn er merkilega nettur í hendi og vasa þó að hann sé alls ekki lítill enda 5,5″ að stærð, hann virkar samt mun nettari en t.d. Lumia 1520/950XL og iPhone 6S Plus sem ég hef verið mest með undanfarið.

Eins og fyrr segir er hann vel búinn vélbúnaðarlega, hann laggar ekkert í neinum aðgerðum í stýrikerfinu eða þeim forritum og leikjum sem ég prófaði, þetta er ekki alveg sjálfgefið með Android síma. Samsung Galaxy S7 edge er með er með 4GB vinnsluminni og keyrir á Exynos 8 kubbasettinu sem er það nýjasta og besta sem völ er á í dag. Örgjörvinn er ekki af verri endanum en hann heitir Exynos 8 (octa 8890 – 2.15GHz + 1.6GHz) og getur símtækið keyrt á einum og uppí 8 kjörnum eftir því hversu álagið er mikið.

 

Helstu stærðir

  • Hæð 142.4 mm
  • Þykkt 7.9 mm
  • Breidd 69.6 mm
  • Þyngd 152 gr

Til að taka útlitið saman þá er Samsung Galaxy S7 edge eitt fallegasta símtækið sem ég hef prófað lengi, frágangur er vandaður, það fer vel í hendi og virkar sterklegt.

 

Tengimöguleikar

Síminn er eins að önnur flagskip hlaðinn ýmiskonar aukabúnaði og leiðum til þess að tengjast öðrum hlutum. Þar má nefna bluetooth 4.2, NFC , hröðunarmælir (e.accelerometer), snúðvísir (e.gyroscope) og GPS svo að eitthvað sé nefnt. Galaxy S7 edge styður ýmsa þráðlausa staðla eins og t.d. 802.11 a/b/g/n/ac og styður vitanlega 4G.

 

Galaxy_S7_5

 

Síminn er með hefðbundnu microUSB tengi neðst á símanum ásamt því að þar er einnig 3.5mm tengi fyrir heyrnartól en ég sjálfur hefði kosið að hafa það efst á tækinu.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Samsung Galaxy S7 edge er með hraðhleðslu sem þýðir að það er hægt að fullhlaða símtækið á aðeins 100 mínúntum, endingin kom mér nokkuð á óvart samanborið við aðra Android síma. En fyrsti 1-2 dagana var hún bara þokkaleg en eftir það þá náði ég léttilega að klára fullann vinnudag og vel það. Eins og venjulega þegar ég prófa síma þá var ég ekki að huga að neinum sérstökum rafhlöðusparnaði þegar kemur að notkun. Ég setti upp öll venjuleg forrit sem mér datt í hug eins og Facebook, Twitter, Skype, Instagram, Snapchat, ýmsa leiki, þrjá EAS tölvupóst reikninga en við frekar mikla notkun í þessum prófunum endist rafhlaðan út daginn eins og fyrr segir og var yfirleitt á milli 20-40 % eftir 14 tíma notkun.

Fæstir Android símar sem ég hef notað hingað til hafa búið yfir annarri eins rafhlöðuendingu, að minnsta kosti ekki meðan ég hafði þá í minni umsjá.

 

Galaxy_S7_6

 

Samsung nota 3600mAh rafhlöðu sem er því miður ekki útskiptanleg enda síminn vatnsheldur (1.5 m í 30 mín) með IP68 vottun en hér gefur að líta uppgefinn endingartíma rafhlöðunna.

  • Tal yfir 3G: Allt að 27 tímar
  • Tónlistar afspilun: Allt að 74 tímar
  • Myndbandsafspilun: Allt að 18 tímar

Samsung Galaxy S7 edge styður þráðlausa hleðslu

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn í þessum síma er náttúrlega ekkert annað en magnaður en hann er bjartur, skýr og snertivirkni er ótrúlega góð, reyndar mögulega of góð á köflum. Skjárinn er 5,5″ Super Amoled með Gorilla Glass 4 rispuvörn og styður QHD 1440 x 2560 upplausn við 534 pixla á tommu (534 ppi) sem er frábært á alla mælikvarða. Allar myndir, letur eða kvikmyndir eru kristaltærir á þessum skjá, klárlega einn sá besti á markaðnum í dag. Smá vandræðalegt en ég hef ekkert neikvætt að segja um skjáinn og það gerist ekki oft.

Galaxy S7 edge er með ágætis hátalara og hugbúnað til að stýra þeim sem gerir það að verkum að hljómurinn úr símtækinu er góður, eins og venjulega mundi ég samt alltaf velja mér heyrnartól en þeir sinna starfi sínu með sóma.

 

Ég kveið aðeins fyrir því að prófa myndavélina því allt fram að henni hafði komið mér skemmtilega á óvart, það hlaut að vera eitthvað sem olli mér vonbrigðum?

Það varð ekki raunin, myndavélin í símanum er að flestu leiti mjög góð, hvort heldur sem er ljósmyndataka eða myndbandsupptakan. Helst ber að nefna hversu ótrúlega snögg og þægileg myndavélin er í vinnslu, mjög fljótlegt að kveikja á vélinni og byrja að mynda en þetta er lykilatriði þegar ná þarf góðri tækifærismynd. Það er ekki sérstakur myndavélatakki sem er vissulega vonbrigði en það er hægt að tvísmella á heimatakka (neðst á framhlið) til að ræsa myndavélina sem vandist mjög vel.

Fram myndavélin (fyrir Selfie) er nú 5MP (f/1.7) með auto HDR og er mjög góð í öll myndsímtöl og sjálfmyndir, á tíðum fannst mér hún á pari við aðalvélarnar við viss birtuskilyrði.

Galaxy_S7_11

 

Aðal vélin er 12 MP (f/1.7 // 1.4 µm pixel size) með 1/2.6″ sensor og tekur hún mjög skarpar myndir við góð birtuskilyrði ásamt því að vera furðugóð þegar birtan minnkar. Myndavélin er hlaðin auka krúsidúllum eins og 4K upptöku og Motion (Live) picture svo eitthvað sé nefnt.

Mér þótti vélin samt stundum lenda í vandræðum með að focusa þegar aðdráttur er notaður og í myndbandsupptökum. Helst var það í lengri upptökum þar sem mikið var um að vera en þá færði síminn focus af viðfangsefninu yfir á eitthvað annað sem var í jaðrinum sem endaði oftar enn ekki í hálfónýtri upptöku. Litir voru annars afbragðsgóðir og við góð birtuskilyrði var mjög gaman að skoða dýptina á litunum sem myndavélin náði að beisla.

 

Galaxy_S7_10

 

Myndavélin er með LED flash og býður uppá ýmsar mismunandi stillingar eins og t.d. geo-tagging, hægt að taka upp 4K video og taka 9MP myndir á sama tíma, touch focus, andlits/bros detection, Auto HDR, panorama o.s.frv. Einfalt er að fara inn í frekari stillingar og leika sér með ISO stillingar, næturstillingar, manual HDR stillingu sem getur gefið myndum meiri dýpt og reyndar oft á tíðum eilítið ýktan blæ, sem er hugsanlega það sem menn eltast við með HDR myndatökum.

Myndbandsupptakan í vélinni er góð og uppá upptöku í eftirfarandi upplausn

  • 4K (3840 x 2160) við 30 fps
  • 1080p HD (1920 x 1080) við 60 fps
  • 720p HD (1280 x 720) við 240 fps

Myndbandsupptaka er hraðvirk og einföld í notkun en hægt er að leika sér með HDR og dual-video upptökur.

 

Í samanburði við iPhone 6s Plus þá finnst mér myndavélin í Galaxy S7 edge mun betri, hún er fljótari að starta sér upp, fljótari að focusa og tekur skarpari myndir og þá sér í lagi ef birtuskilyrði minnka.

 

 

 

Margmiðlun og leikir

Tónlistarspilarinn sem kemur með símanum er auðveldur í notkun og þægilegt að skruna í gegnum hann. Þar er hægt að stilla, breyta og bæta hljóðið sem gæti hentað fyrir þá sem vilja. Myndbandsafspilun í símanum er mjög þægileg og spilar síminn flest þau form af myndböndum sem finnast á stafrænu formi í dag. Eins og með aðra Android síma þá er ekkert mál að sækja sér önnur og mögulega betri forrit til að leysa media afspilun ef þurfa þykir.

 

Galaxy_S7_3

 

Galaxy S7 edge tækið sem við prófuðum er með 32GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni en til viðbótar er hann með rauf fyrir Micro-SD kort sem styður allt að 200GB minniskort sem er ekkert slor… Það er líklega nauðsynlegt að kaupa minniskort strax ef nota á símann við myndatökur, sérstaklega ef nota á 1080p eða 4K upptökur sem taka mikið geymslupláss

 

Hugbúnaður og samvirkni

Samsung Galaxy S7 edge kemur með Android 6.0 sem er nýjasta útgáfan af stýrikerfinu, að venju hafa Samsung sett sitt eigið viðmót yfir stock Android kerfið og heitir viðmótið Touchwiz. Helsta umkvörtunarefni mitt á Samsung símtæki hingað til hefur snúið að hugbúnaðarhlutanum og því miður er það óbreytt.

Það eru misjafnar skoðanir á TouchWiz og líklega eru margir þarna úti sem elska það og látum við notendum eftir að meta það en að okkar mati gerir það kerfið sannarlega fallegra og oft á tíðum notendavænna. Þessar krúsídúllur eru á stundum á kostnað framleiðni þar sem þessir flottu og krúttlegu fídusar eru oft á tíðum að þvælast fyrir venjulegu vafri um símann og oft leiðir kerfið notendur lengri leið að þeim stillingum sem breyta á.

Galaxy_S7_8

 

TouchWiz hefur samt lagast í gegnum árin og þroskast en fyrir mína parta þá líkar mér mun betur við stock Android viðmótið eins og Google hannar það. Góðu fréttirnar eru þó að það er hægt að setja upp Google Now Launcher eða leika sér aðeins í þema stillingum og þannig hægt að færa viðmótið í áttinu að stock, eins langt og það nær.

TouchWiz virkar samt einhvern veginn betur samofið við Android en það hefur verið hingað til, það er samt smávegis overlap á milli Samsung og Google forrita og því þurfa notendur að velja á milli tveggja forrita frá sitthvorum aðila til að framkvæma einfalda hluti. Samsung hefur samt gefið út að fyrirtækið sé að vinna með Google í þessum málum með það að leiðarljósi að einfalda upplifun notenda og mögulega lagast þetta því með uppfærslu seinna meir.

 

Android er með öllum helstu möguleikum sem snjallsímanotendur geta vænst og hefur þroskast ansi vel síðustu árin, kerfið er orðið mun stöðugra og hraðvirkara en það var. Ef notendur vantar einhver forrit til viðbótar við grunnvirkni sem er innbyggð þá eru allar líkur á að það finnist í Google Play Store, sem er forritamarkaður Google en hann er pakkaður af forritum og þjónustum sem er hægt að sækja ókeypis eða kaupa.

 

Galaxy_S7_1

 

Í þann stutta tíma sem ég hef haft Samsung Galaxy S7 edge til afnota þá hefur hann fyrst og fremst verið notaður sem vinnutæki. Það eru öll helstu Microsoft forrit eins og Office pakkinn og OneDrive löngu komin á Android og virka vel þar. Ég notaði Outlook appið til að samstilla þrjú EAS netföng, Gmail auk þess sem ég setti upp Simnet póstinn minn á hann. Öll vinna í póstumhverfi er mjög einföld og þægileg og á pari við það besta sem ég hef prófað.

 

Niðurstaða

Samsung Galaxy S7 edge er frábær Android sími með endingargóða rafhlöðu, hann er gullfallegur og fer vel í hendi. Símtækið er sterkbyggt að finna og býr yfir öllum þeim helstu kostum sem maður getur reiknað með í fullorðins Android snjallsíma, skoðaðu þennan alvarlega ef þú ert í símaleit enda mjög öflugt tæki hér á ferð.

Galaxy S7 edge er með frábærum skjá en hann einn af stóru kostunum við þetta símtæki, myndavélin kom mér einnig skemmtilega á óvart en Samsung hafa einbeitt sér að því að gera grunnkosti myndvélarinnar góða, frekar en að troða inn óþarfa krúsidúllum sem þvælast bara fyrir notendum.

Android hefur þroskast mikið síðustu árin og er í dag mun betra kerfi en það var bara fyrir tveimur árum síðan, en veikleiki þessa símtækis er sannarlega TouchWiz viðmót Samsung. Þetta er vitanlega bara mín skoðun og þarf hún ekki að endurspegla skoðun þjóðarinnar.

Samsung Galaxy S7 edge er líklega fallegasti Android síminn sem ég hef prófað og jafnvel…. án efa einn langbesti Android síminn sem ég hef prófað hingað til..

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira