Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 129 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.
Hver ert þú og hvaðan ertu?
Karl Sigurðsson, aðallega úr Reykjavík.
Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?
Um þessar mundir starfa ég sem tölvunarfræðingur og er tónlistarmaður í hjáverkum. Stundum starfa ég meira sem tónlistarmaður og er þá gjarnan tölvunarfræðingur í hjáverkum. Svo á ég það til að lesa inn á auglýsingar, sinna prófarkalestri, smíða vefsíður og gera eitt og annað sem dettur inn.
Síðustu árin hef ég aðallega verið í ofangreindu bralli, fyrir utan 2010-2014 þegar ég varð óvart borgarfulltrúi í Reykjavík að aðalstarfi.
Hvert er draumastarfið?
Mig hefur alltaf dreymt um að vera lífskúnstner. Held að það hljóti að vera skemmtilegt.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Ég vakna oftast með fæturna á dóttur minni í andlitinu og sofna með bók eða síma á andlitinu. Það sem gerist þar á milli er afar mismunandi milli daga.
Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?
Þessa dagana er ég á fullu í hugbúnaðarprófunum fyrir fyrirtækið Novomatic Lottery Solutions sem er að klára innleiðingu á risastóru verkefni á Spáni. Mitt teymi sér um uppsetningar- og uppfærsluhugbúnaðinn fyrir kerfin verða sett upp á á þriðja þúsund lottóvéla víðs vegar um Katalóníu og það þarf að passa vel upp á að þetta gangi allt smurt áður en vélarnar verða fluttar út um allt héraðið, í misöflugar nettengingar.
Ef þú lítur til baka, hverju af þínum lögum ertu stoltastur af?
Ég er frekar seinþroska lagahöfundur og fyrstu lögin sem ég samdi sjálfur duttu inn á þarsíðustu plötuna okkar, Mamma þarf að djamma. Annars er ég líka nokkuð stoltur af því að hafa tekið smá frekjukast þegar Bragi og Gummi mættu með lagið Pabbi þarf að vinna í nótt. Þar heimtaði ég að bætt yrði við brú til að tengja tvö vers en án hennar hefði verið farið beint í viðlagið eftir eitt vers. Sem hefði náttúrlega verið fáránlegt, svona eftir á að hyggja.
Lífsmottó?
Neinei, það er óþarfi.
Það er sko mottóið.
Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?
Ég er mjög veikur fyrir hvers konar rökfræðiþrautum og tapaði mér til dæmis einu sinni í fyrirbæri sem kallast “Greater than” Killer Sudoku. Mæli með því fyrir þá sem finnst venjulegt Sudoku of auðvelt. Sjúklega ávanabindandi.
Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?
Spurningin er sennilega frekar hvað 500 milljóna Lottóvinningur mundi gera við mig.
Topp 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?
Megas er alveg nógu stór til að fylla heilan topp 5 lista hjá mér.
Býr tæknipúki í þér?
Já, en hann er frekar aftarlega á merinni og í raun frekar púkó. Mér finnst sjúklega gaman að leika mér í dóti sem ég hef ekki prófað áður, en það dót er kannski stundum orðið 2-3ja ára gamalt.
Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?
Windows 10 heima en í vinnunni er ég með Windows 7, sem mér skilst að sé af einhverjum öryggisástæðum. Svo er ég með Fedora og Ubuntu á alls konar sýndarvélum og lottóvélum, sem er töff.
Hvernig síma ertu með í dag?
iPhone 5s. Ég fékk hann frekar nýlega, stuttu áður en sexan kom út og ég var að verða vitlaus á Fjarkanum. Reikna ekki með að skipta upp í sexuna, heldur bíða eftir sjöunni og vera þá orðinn alveg vitlaus á núverandi síma. Samt er líklegra að ég kaupi á endanum 6c eða eitthvað þannig, korteri áður en sjöan mætir.
Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?
Eins og flestar Apple vörur er hann æði en hann er alveg við það að verða of hægur fyrir nýjustu smáforrita- og stýrikerfisuppfærslurnar.
Í hvað notar þú símann mest?
- Skipulag (tölvupóstur og dagatal)
- Samskiptamiðlar (Facebook, Twitter og Snapchat)
- Spjall (Google Hangout og Messenger)
- Fréttir af fótbolta (aðallega Liverpool)
- Leikir (Skrafl-leikir og þess háttar)
Sjúklega spennandi listi. Sé það núna að ég hefði átt að setja leikina efst.
Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?
Nokia 5110. Ég mun aldrei gleyma honum. Snökt.
Hvernig er draumasími framtíðarinnar?
Hann þarf umfram allt að hafa góðan persónuleika. Og náttúrlega vandaða kímnigáfu.
Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?
Ég var að byrja að fylgjast með Lappara rétt í þessu. Er það eitthvað?
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Ég sé sjálfan mig í nýju ljósi eftir að hafa svarað þessum spurningum. Ekki endilega betra, en nýju. Takk fyrir það.